Eftirlaunahagfræði

Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt lög um, að Davíð Oddsson gæti komist á eftirlaun strax eða þegar vel hentaði og notið þeirra þótt hann jafnframt gerðist þokkalega launaður seðlabankastjóri.

Að vísu var það ekki orðað alveg svona, þótt þetta væri megininnihaldið. Það er öllum ljóst. Lögin voru látin ná til mun stærri hóps alþingismanna, ráðherra og annars fólks í embættum. Þetta er einmitt sönn pólitík: að lokka fram þægilegar niðurstöður með smábellibrögðum.

Þingheimur virtist allur sem einn telja það slæmt hlutskipti að þurfa að dúsa með ein eftirlaun uppúr miðjum aldri. Samþykkti einróma rétt einsog forðum daga, þegar þingmenn tóku sér með handauppréttingu launahækkun sem fóru hátt uppí mánaðarlaun ellilífeyrisþega hjá Tryggingastofnun. .

Er þetta sneggsta og átakaminnsta kjarabarátta, sem um getur. Nú er ég síst á móti því að umrætt fólk beri þokkalega úr býtum fyrir störf sín og finnst það ekki oflaunað. Mér finnst það hinsvegar aðfinnsluvert að búa til sér til handa afbrigði frá ríkjandi reglum og háttum í þjóðfélaginu, hreykja sér uppyfir okkur hin og huga ekki lengur að því að halda einn sið. Og umfram allt að standa svo í heilögu stríði gegn öðrum eftirlauna- og ellilífeyrisþegum, einsog ríkisstjórnin hefur gert, og finnast, að þeir geti bara étið það sem úti frís. Neita að láta þá halda sínum hlut með því að hækka ekki skattleysismörk, svo þeir verða að fara að greiða afgjöld til ríkisins af hlutfallslega óbreyttum launum.

Einn ákafasti talsmaður sjálfstæðisflokksins, sem virðist hugsa í tölum en ekki mannlegum örlögum, telur það m.a.s. bera vott um verulega bætt kjör hjá þeim, sem lægst hafa launin, að þeir skuli hafa fengið að greiða skatta. Í alvöru! (Sá sami fór einnig viðurkenningarorðum um efnahagsstjórn Pinocets, sem rændi og lét pína þúsundir landa sinna í Chile. Svona geta nú stjórnmála- og félagsleg gildi raðast upp hjá sumum).

Og enn þumbast Sjálfstæðisflokkurinn við að jafna skattleysismörkin. Sagt er að það kosti ríkissjóð svo mikið, að það sé ekki gjörlegt. En þýðir það þá ekki, að hinn sami sjóður okkar hefur dregið til sín stórauknar skattatekjur einmitt á því að láta skattleysismörkin ekki fylgja launaþróun í landinu og státar af góðri stöðu?  Þess er aðeins vænst, að þessu verði skilað.Ég hef oft hugsað um seiglu ríkisstjórnarinnar í stríði hennar við öryrkja og ellilífeyrisþega til varðveislu fátæktargildrunnar að því marki, að hún hafnaði mögulegri tekjuaukningu í ríkissjóð.

Þeim var gert ókleift að leggja til vinnu í samfélaginu þar sem þeir hefðu ekkert uppúr krafsinu vegna skerðingar trygginga sinna.. Í raun felur þessi stefna fyrst og fremst í sér, að eldri borgarar skuli búa við miklu lægri laun en aðrir  fyrir sömu vinnu. Því unnu þeir auðvitað ekki. Héldu sínum tryggingabótum. Ekki græddi ríkið á því. Það hefði hins vegar hreppt 36% vinnulauna þess í skatttekjur, ef það hefði fengið hvatningu til að vinna. Ekki getur það bara hafa verið aulaskapur að skilja ekki þessa augljósu staðreynd, fjandakornið. Nú er einmitt verið að benda á þetta sem einhverja stórmerkilega uppgötvun.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú af einstöku örlæti fallist á að leyfa öryrkjum að afla sér 25.000 kr. á mánuði án þess að skerða tryggingarbætur, en hirða síðan skatttekjurnar af sömu upphæð. Hvílík stórmennska! Hann sýnir enn meiri rausnarskap með því að heimila frekari atvinnuþátttöku fyrir eldri en sjötíu ára. Ekki fyrir þá, sem líklegastir eru heilsufarslega til að geta aukið lífsafkomu sína, þegar ellilífeyrir tekur við, strax eftir 67 ára aldur. Þeir verða bara að þreyja Þorrann og Góuna í nokkur ár, eða þangað til það verður þeim miklu erfiðara eftir 70 ára aldurinn.

Ég læt annað umfjöllunarefni, ofskattlagninguna á arð lífeyrissjóðstekna, liggja á milli hluta í bili.Ég leyfi mér að halda því fram, að obbinn af þeim hálaunuðu talnatrúarmönnum og  -konum, sem barist hafa um hæl og hnakka gegn kjaraleiðréttingu aldraðra og öryrkja,myndi aldrei geta dregið fram lífið af þeim tekjum, sem það telur nógu góðar fyrir þá. Umtal um bætur um nokkra þúsundkalla til eða frá er lítilmótlegt og yfirlætisfullt . Sérstaklega þegar til sömu tíðar er státað af sérstakri góssentíð fyrir ríki og þjóð og réttar upp hendur á Alþingi fyrir eigin kjarabótum um hundruðþúsunda.

Margt fólk virðist hreinlega ekki skilja um hvað málið snýst, þegar verið er að tala um félagslega velferð.  


Jónína og Ómar

Þá er maður búinn að hlusta á Jónínu Bjartmarz í heilum Kastljósþætti grípa látlaust framí fyrir spyrlinum til að segja honum, að það sé dónaskapur að grípa framí. Þetta var feiknagóð frammistaða í þeirri íþrótt margra stjórnmálamanna að forðast merg málsins og kæfa í orðhengilshætti, ekkisvörum og hreinum yfirgangi. Minnti býsna sterkt á Björn Inga í fyrra, þegar hann hafði búið til feitt embætti handa vini sínum og stóð fyrir svörum . Sama taktík, veltast fram í byrstum hávaða og hleypa ekki hinum að þegar útskýra þarf ósæmilega hegðun. Líklegt að þetta sé stríðsleikjaaðferð spunnin af almannatengslafyrirtæki Frammaranna. Fyrst og fremst mátti þó enn og aftur sjá þann leikhúsbrag, þennan opineygða þykjustuleik, sem ríkir í íslenskri stjórnmálaumræðu. Jónína framsendi þær spurningar, sem spyrillinn gat laumað inní viðtalið, til formanns Allsherjarnefndar Alþingis varðandi  sérstöðu þá, sem réði því, að tengdadóttir hennar fékk undanþágu frá meginreglum um ríkisborgararétt í samanburði við aðra slíka umsækjemdur, þrátt fyrir höfnun Útlendingaeftirlitsins. Hann væri í raun þegar búinn svara þessu og endanlega upplýsa sannleikann  með því að staðhæfa, að ekkert hafi verið óeðlilegt við afgreiðslu málsins. Og hananú! Málið upplýst af því að hann sagði ekki:” Jú reyndar var afgreiðsla nefndar minnar röng, lásí, byggð á vitlausum forsendum og pólitískri greiðasemi”. Í landi einstaks ættfræðiáhuga og landlægrar hnýsni um persónutengsl á enginn í þessari merku nefnd að hafa haft glóru um tengsl ráðherrans við umsækjandann! Hvernig væri þá vinnubrögðum um mat á hverri umsókn háttað, ef satt væri? Því miður er okkur ætlað að kyngja urmulnum öllum af svona þykjustuleik sí og æ. Þetta var þeim mun eftirtektarverðara í gær vegna þess, að við vorum þá einmitt að ljúka við að sjá viðtal við Ómar Ragnarsson. Andstæðurnar voru sláandi. Hér fór fram einstaklingur með alvöruhugsjónir og eldmóð, sem ekki stjórnast endilega af löngun í völd  eða þrásetu við kjötkatlana. Við vitum jafnvel, að hann hefur fært persónulegar fórnir fyrir hugsjónir sínar í  samfélagi, þarsem stjórnmál eru ekki eins saklaus og opineygð einsog látið er í veðri vaka. Ómar hefur allra manna mest gert landið okkar að meðvituðu djásni í augum okkar með auðgi á margvíslegustu sviðum, sem marga óraði ekki fyrir og síst stjórnarfólki.. Hann hefur til að  bera sjálfstæði, dirfsku og umfram allt sköpunargáfu og hugmyndaauðgi, sem rekur suma í rogastans. Margir hlaupa þá í gömlu hugmyndavígin sín til að losna undan svo gustmikilli nýhugsun. Þess varð m.a. vart hjá spyrlum þáttarins. Sem er alvanalegt. Þegar nýhugsuðir á borð við Ómar mæta til leiks þykjast ýmsir þess umkomnir að tala niður til þeirra. Mér er minnisstæðast, Þegar Ingvi Hrafn hellti sér yfir Vilmund heitinn Gylfason forðum daga með skætingslegum ótugtarskap en breyttist svo í flaðrandi voffa í næsta þætti á eftir, en þá hét viðmælandinn Davíð Oddson. Ekki ætti að vanmeta þekkingu Ómars á mönnum og málefnum eftir marga áratugi í fjölmiðlastarfi. Né samfelldar hugmyndir hans um náttúruvernd og efnahagsmál, en þau síðarnefndu ættu nú raunar að gleðja frjálshyggjufólk.Nú virðist á tímum peysufataboða og grillveisla með pylsuboðum og draugasögum og allsherjar skrumi þýðingarmeira að hafa góða auglýsingastofu helduren góða stefnuskrá.

 


Ráðhús við Lækjartorg

Mikið var fórnað höndum þegar bruninn við Lækjartorg átti sér stað. Gríðarmerkileg gömul hús fyrir bí. Þá datt mér í hug, að heldur væri seint í rassinn gripið, ef núna ætti allt í einu að tjá þessum gömlu húsum virðingu og fella tár eftir að þau hafa fengið að drabbast niður í sorgleg hrófatildur undanfarna áratugi. Í þessu "hjarta borgarinnar". Þetta var einhvern veginn heldur aumkunarvert. Þá datt mér í hug, hvort ekki megi standa við þessa virðingu með því að reisa þarna almennilegt ráðhús fyrir Reykjavík. Vissulega hef ég pata af því, að til er ráðhús. Því var skáskotið í tjarnarhorn, stærðar braggalaga hús með súlum, og voru þá ekki miklar áhyggjur af því, að leiðinlegt væri að "skemma gömlu borgarmyndina". Alvöru ráðhús eru venjulega í hjarta viðkomandi borgar. Það er leit að ráðhúsum í Evrópu, sem ekki standa með reisn við vítt torg með iðandi mannlífi. Ráðhústorg. Glæsihús sem eru hluti af bæjarlífinu. Lækjartorg ásamt með fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum þar, tónleika- og ráðstefnuhöll, getur nú orðið slíkur vettvangur. Með stæl. Lækjargata 2 mætti jafnvel  vera með. Með því mætti  bæta fyrir þau skelfilegu mistök að bora ráðhúsi í afskekkt tjarnarhorn, þar sem það stendur í gömlu byggðinni einsog hvalreki í fjarðarbotni, dautt og yfirgefið. Hér er komið nýtt tækifæri, ný "ögrun". Maður verður bara að vona að kaupandi fáist að því gamla. Banki, tryggingarfélag.  Mér bara datt þetta svona í hug. 

Göng og aftur göng

Var erlendis nokkra hríð. Þegar heim var komið ók ég á eigin kagga heimáleið. Þá var komin splunkuný akrein í bæinn. Ég fór í röðina hægra megin. Allt í rólegheitum einsog vera ber. Á 90. Allir. Hin brautin auð einsog gefur að skilja. Nema einn og einn bíll sem geystist framúr með stæl. Þá fór ég að velta því fyrir mér til hvers hin akreinin  væri eiginlega. Valkostirnir eru að aka einsog lög leyfa og komast eins fljótt heim eða að gefa í og brjóta umferðarlög. Mér fannst þetta að óbreyttum umferðarlögum hálfhjákátlegt. Sá aðeins þann eina ávinning af þessari tvöföldun, ef vera kynni einhver slysavernd með henni. En þá má velta því fyrir sér hvort ekki séu til aðrar leiðir en þær að tæta upp land og teppaleggja það. 2+1 aðferðin í stað 2x2. Öryggissjónarmið vega auðvitað þungt. Gott og vel. Þá fór ég að hugsa um Hvalfjarðargöng. Ég get ekki með nokkru móti séð þá brýnu nauðsyn á að grafa önnur slík göng einsog rætt hefur verið. Ekki komast menn fljótar gegnum þau en á hinum leyfðu 70. Menn aka yfirleitt á hámarkshraða, kurteislega sagt. Og gengur bara ágætlega. ..nú allir í röð, tralala. Mér finnst þetta bara vera glórulaus athafnasemi skv. þeirri þráhyggju sem nú ríkir um að byggja, grafa, bora, hvað sem það kostar og hefja um það samsöng án þess að útskýra hversvegna. Ef einhver vill forgangsraða er hann á móti framförum einsog þeir sem vilja ekki vera methafar í verðbólgu. Og umfram allt að lofa og lofa með jólasveinaskeggið  á andlitinu, sbr. síðustu færslu mína. Mér finnst enn aðalverkefni vegamála að tengja saman staði sem víðast og þá gjarnan með göngum, og  ekki síður að bæta öryggið þeirra vega, sem fyrir eru, td. að lappa uppá allar einbreiðu brýrnar, blindhæðirnar og skafrenningsgildrur.  Ekki að tvítengja strendur Hvalfjarðar í vinsældakeppni. Nú virðist þurfa stjórnmálalegan kjark til að sporna við óhófi af þessu tagi og við þeim klisjum, að aðgát í framkvæmdasemi sé púkaleg.  Við þurfum ekki tvöföld göng til að halda verðbólguverðlaununum. Þetta er svona til almennrar umhugsunar.

Skeggræða um flokkapólitík.

 Nú er runnin upp sú tíð, þegar ýmsir stjórnmálamenn breytast í einhvers konar jólasveina, sem koma af fjöllum með stóran poka á bakinu og gefa í skóinn á báða bóga. Verur með gerfiskegg, sem síðar er tekið niður og geymt í fjögur ár til næstu kosninga. Þangað til þýðir ekki að banka uppá með óskalista, benda á þarfir eða réttlætismál.

Sum okkar láta stundum blekkjast af þessu leikriti, þótt við vitum vel að skeggið er ekki ekta. Þá gleymum við um hríð þráteflinu, sem stundað hefur verið háð gegn verst settu hópum samfélags okkar,  gleymum hæstu vöxtum og verðlagi álfunnar og mestri verðbólgu, stríðunum sem okkur hefur verið gert að heyja gegn náttúrunni og Írökum, samkeppnisnauðri fáokun og pilskapítalisma, ósvífinni vinavæðingu og brengluðu lýðræði. Komandi kosningar eru að mínu mati þýðingarmeiri en oftast fyrr. Það er kominn tími til að segja skilið við kaldrana- og hráslagsleikann, sem fylgt hafa  trúarbrögðunum um  hagvöxt, einkahagnað, sérhyggju. Losa okkur undan þeim hugsanahætti að það eitt sé gott fyrir þjóðina, sem er gott fyrir hluthafa..

Við höfum enn orðið vitni af því að vald spillir. Aukist hefur miðstýring og tilfinningaleysi gagnvart þeirri vitrænu,opnu samræðu, sem lýðræðinu er ætlað að verja. Margir Alþingismenn lifa í þeim skilningi að þjóðin hafi kosið þá persónulega til forystu, þegar staða þeirra er í raun fyrst og fremst til komin vegna þess að þeir eru hluti af stjórnmálaflokki og vegna hrossakaupa flokka án þess að fylgi kjósenda standi endilega þar að baki. Fara stórum, skipta um flokka, “eiga sig sjálf” , skipa sér í lykilstöður samfélagsins án persónulegs umboðs og búa þær jafnvel til.

Flokksræði það, sem við köllum lýðræði, er að ýmsu leyti stórt vandamál að minni hyggju. Til þess að bæta það þarf auðvitað miklu meira til en að losa sig við eina stjórn; djarfa og frumlega hugsun og níðsterka réttlætiskennd, sem ekki verður hrist fram úr erminni í hvelli. En það er hægt, ef viljinn er fyrir hendi. Í mörgum löndum ríkir viðleitni til að bæta lýðræðið, og hér hefur verið bent á leiðir til að gera kosningar markvissari  (sjá t.d. bókina Lýðræði með raðvali og sjóðvali eftir Björn L. Stefánsson, 2003).   

Eftir of langan valdatíma hefur nú þótt minni og minni ástæða til að spyrja kóng eða prest um mikilvæg mál. Framkvæmdavaldið hirðir lítið um löggjafarvaldið. Þjóðin veldur ráðamönnum pirringi. Æ ofaní æ eru stjórnarherrar staðnir að því að fara ekki að lögum og kæra sig kollótta. Hrapalleg mistök einsog þau að allri þjóðinni skuli att útí styrjöld á fundi tveggja manna eru afrakstur stórbokkaskaps langrar valdasetu. Þeir verða nánast hissa yfir æsingi í þjóðfélaginu útaf svona nauðsynlegu lítilræði.

Opinber afskiptasemi og valdbeiting hafa aukist.Viðfangsefni dagsins er ekki  að losna við ríkisstjórn heldur ofríkisstjórn. 

Nú hefur einn minnsti flokkur landsins, Framsóknarflokkurinn, fundað, sett upp skeggið og heitið mörgu. Þetta teygjudýr íslenskra stjórnmála er talandi tákn um óviðurkvæmni flokkræðisins. Það hefur teygt sig til  allra átta eftir því sem hentað hefur hverju sinni og fengið framgang langt umfram það sem þjóðin hefur kosið. Nú er gripið til ráða, sem helst minna á ákveðna sjónvarpsauglýsingu á þvottaefni: kona er rifin úr grárri blússu, sem dýft er að hálfu oní þvottalög og tekin uppúr aftur. Er þá sá helmingur orðinn skjannhvítur á ævintýralegan hátt, en hinn jafngrár eftir sem áður. Galdrasýning. Skal nú á sama hátt hvítþvo heilan flokk af  þátttöku í landstjórninni um tvö undanfarin kjörtímabil. Teygja sig  í aðrar áttir og treysta gleymsku okkar. Vera borubrött og inna uppá sjálfstæðismenn að efna kosningaloforð um að stjórnarskrárbinda eignarrétt þjóðarinnar á auðæfum sjávarins. Hjóla í þá.

En sjálfstæðismenn tóku í hornin á geitinni og snéru hana niður með stæl. Þeim var færður sá möguleiki að festa í sessi eignarhald félaga þeirra í LÍÚ á fiskinum í sjónum. Vandlega er þess gætt að semja texta, sem er loðnari en lófarnir á auðmanni, og undirstrika, að ekkert muni breytast í málefnum fiska, aldrei nokkurn tíma.

Sagt er að vísu, að lög  kveði á um, að auðævi sjávar skuli vera eign þjóðarinnar. En lögum má breyta . Ein setning út, og sægreifum eru tryggð sín votu lén um aldur og ævi. Þvottahrina framsóknarmanna hefur þannig snúist uppí afdrifaríka sneypuför. Svona er að lofa uppí teygjanlegar ermar.  


Tannvernd og -verð.

Nýlega höfum við séð í fjölmiðlum,að tannlæknar stunda gjarnan atferlismeðferð. Óbeðið, en ekki án þess að rukka. Eftir að skólatannlækningar voru aflagðar og færðar í fang hinna heilögu, frálsu markaðsafla hefur tannheilsa íslenskra barna orðið langlökust á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Hefur jafnvel verið haldið fram, að varla sé til heil tönn, hvað þá brú, í ungum krökkum hér á landi og ástæða að hyggja að því að fara að gefa tennur í fermingargjöf einsog í denn. Ljóst er, að mörgum vex kostnaðurinn við barnatanngæslu í augum nú til dags, jafnvel þótt ekki eigi að vera til fátækt fólk á Íslandi. Ofannefnd fjölmiðlafrásögn segir frá því að auglýstur kostnaður hjá ákveðnum barnatannlækni við að kíkja í munn í tannræktarskyni nemi 6500 kr. Á meðan skoðunin átti sér stað, talaði tannlæknirinn ( að eigin sögn ) um að það væri nauðsynlegt að bursta tennurnar reglulega. Það er aðskilin meðferð, sem heitir heilsuverndarráðgjöf ( Baktus) og kostar 3500 kr. Síðan er reynt að fara ljúlfega að barninu, kannski tekinn fram bangsi og skoðað uppí hann, til að kveða niður ótta hjá barninu ( sem var ekki til staðar skv. frásögn móðurinnar) . Það heitir "atferlisfræðileg meðferð" (Karíus) og kostar einnig 3500 kr. Svo að reiknigurinn fyrir að kíkja inní þennan opna barnsmunn hljóðaði uppá 13500 kr. Ég ætla ekki að fara að gera þetta sérstaka undarlega viðvik að frekara umtalsefni hér nema í almennu samhengi við verðlagningu yfirleitt. Það færist sífellt í vöxt að falsa hið eiginlega verð vöru og þjónustu. Svo sem ekki nýtt af nálinni. Í mínum huga inniheldur álagning bæði kostnað við verkið og arðsemiskröfu þjónustuveitandans. Maður kaupir fjóra potta af mjólk á uppsettu verði og á ekki von á því að greiða 150kall í viðbót fyrir að fá að fleyta þeim á afgreiðslurenninginn við kassann og borga.. Þó hafa t.d. bankarnir stundað þetta í áratugi. Maður þarf að borga 450 kr. fyrir að fá að borga ( t.d.af skuldabréfi).  Ég hef fram að þessu td litið svo á, að þegar ég sendi bréf í póst sé ég að greiða fyrir flutning hans um mismunandi langan vega á samsvarandi verði. Ó ekkí: Um daginn lenti sending frá mér í hendurnar á fyrirtæki sem heitir UPS. Og ég sagði "úps" stundarhátt þegar ég fékk reikninginn:

"Hraðsending-Bréf/Umslag" kr. 3620 (Ath. ekkert skilgreint nánar, t.d. hvert sendingin fór. Slíkt gæti gefið of miklar upplýsingar um almenna verðlagningu)

"Eldsneytisgjald án vsk." kr. 470. ELDSNEYTISGJALD! Ég sendi fyrirspurn. Svar: ""Eldsneytisgjald" er gjald, sem allir flutningsmiðlar taka sem viðkemur eldsneytisgjaldi flugvéla".

Svona er nú skvaldrað til að  dylja eiginlega verðlagningu. Í kjölfar þessa spurði ég hvort ég mætti vænta þess að greiða til viðbótar sérstakt "gjald sem öll símafyrirtæki taka sem viðkemur símaþjónustu" eða sem "öll þjónustufyrirtæki taka sem viðkemur ræstingu á skrifstofu".

Það alvarlega í þessu er blekkingarþátturinn. Um hann eru auðvitað mýmörg önnur dæmi. Með öllum ráðum er reynt að rugla kúnnann í ríminu og þá ekki síður  neytenda-, verðlags- og  samkeppniseftirlit og væntanlega að skekkja verðlagsvísitölur. Vel mætti fara nánara ofaní saumana á þessu. Ég leyfi mér samt ennþá að treysta því að fá ekki næst viðbótarreikning hjá bloggvini mínum,  Rögga rakara, fyrir atferlismeðferð, kr. 3500 oná sitt sanngjarna auglýsta verð fyrir klippinguna ( sem ég ætla ekkert að kjafta frá )  Eru þó rakarar yfirleitt rómaðir sálfræðingar. Ekki þarfyrir að hann hefði kannski þörf fyrir slíkt af minni hendi ef mið er tekið af bloggi hans undanfarið. En það verður reikningslaust.


Pólitísk orðræða

Eflaust knýja margar mismunandi ástæður fólk til að fara í pólitík;

Hugsjónir, löngun til að láta gott af sér leiða, veita ákveðinni hugmyndafræði brautargengi, setja nafn sitt á spjöld sögunnar, athyglisþörf o.s.frv.

Eitt er þó, sem áreiðanlega er þar ofarlega á blaði en oft látið liggja í þagnargildi einsog feimnismál: völd. Vitaskuld má til sanns vegar færa, að völd séu nauðsynleg forsenda þess að gera hugmyndir sínar að veruleika. En það lokkar líka margan manninn að geta ráðskast með hagi annarra og segja þeim fyrir verkum, ráðskast um efnahag þeirra, hvað má og hvað má ekki, tylla sér stalli ofar, stofna til skuldar annarra við sig, hlaða undir sig og sína o.s.frv. Og ber þá að nefna síðast en ekki síst valdið til að skilgreina, ráða málefnum líðandi stundar í valdi stöðu sinnar gagnvart fjölmiðlum, innihaldi, áherslum og merkingu. Þetta er mikið vald og vanmetið. Oft er það notað kerfisbundið til að afmarka umræðu dagsins, spinna umtalsvefinn eftir hentugleika, slæva gagnrýni og nýja hugsun.

Mér er hugsað til hótelgestsins sem hringdi niður í afgreiðslu til að spyrja hvort unnt væri að fá morgunverð í rúmið. Að sjálfsögðu var boðið uppá slíka þjónustu. En voru þá einhver tímamörk?. Jú, reyndar, hann yrði að koma með rúmið sitt niður í matsal frá kl. 7-10. "Hvað meinarðu?" hrópaði maðurinn.

"Við veitum að sjálfsögðu aðstoð við þetta".

"Hverskonar andskotans sörvis er þetta?" hélt gesturinn áfram að hrópa.

"Svona,svona, stillið yður, herra minn. Ég var að segja að við veittum alla aðstoð. Eigum við ekki að ræða um þetta málefnalega". 

Með þessu valdi geta stjórnmálamenn haldið umræðunni í ákveðnum kössum, hún verður gjarnan hugmyndasnauð og vanaleg. Áhrif þeirra á fjölmiðla er umtalsverð, þeir geta nánast ráðið, hver hefur við þá viðtöl. Þetta er því varhugaverðara sem raunveruleg skoðanakúgun virðist hafa ríkt hér að því marki að fólk hefur ekki þorað að láta uppi gagnrýni af ótta við að það geti goldið hennar í starfi eða frama. Þegar þetta er skrifað var einmitt í fréttum, að presturinn að Stóra-Núpi benti opinberlega á kröm búenda við Þjórsá, sem breyta á verulega, væri töluverð, en þeir þyrðu ekki að láta þær skoðanir uppi.

Þetta mátti ekki. Hann "samþykkti" að vera ekkert að skipta sér að þessu.

Tengd þessari kassahugsun eru ekkisvörin. Einsog sá í afgreiðslunni áðan svaraði ekki spurningu gestins beint. 

"Ertu þá fylgjandi vændi?" ".....ég og flokksbræður mínir leggjum höfuðáherslu á jafnrétti kynjanna og nauðsyn jafnrar þátttöku allra í atvinnulífi þjóðarinnar".

Því miður gerist nánast undantekningarlaust, að spyrillinn segir ekki: " En ég var að spyrja um það hvort..........".  Eða bara einsog gesturinn hér að ofan: "Hvað meinarðu?".

Þarna er meinið. Blaða- og fréttamenn virðast telja það hluta af tilætluðu hlutleysi sínu að "fara ekki nánar útí það". Þeir hafa stundum verið kallaðir fjórða valdið. Það ber brýna og vaxandi nauðsyn til þess, að þeir beiti því betur. Annars möllum við áfram í makindalegum hugmyndadoða og gruggi klisja og orðaleppa, sem fleygt er um án merkingar að gömlum sið.

Tökum nokkur dæmi af handahófi:

"Einstaklingar sem geta verið þjóðfélaginu hættulegir". Þetta er klassískur frasi og hentugur, ekki síst í fasistaríkjum.Við munum mörg eftir MacCarthy gamla í BNA. Hann kallaði þá reyndar kommúnista og ofsótti af frægu miskunnarleysi. Hjá okkur var njósnað um fólk, það jafnvel rænt atvinnu sinni, langt framyfir kalda stríðið; Aldrei fannst hættan. En það getur óneitanlega hafa verið hentugt að haf slíkan aðgang að þeim, sem eru að gegn manni í stjórnmálabaráttunni.

Tengt þessu, ekki síst á alþjóðavettvangi, er "hryðjuverkamaður". Það er hægt að gera margt og víða með þá skilgreiningu. Eftir því var franska andspyrnuhreyfingin í stríðinu hryðjuverkasamtök. Eða Aríel Sharon.

"Halda völdum". Sumir hugsa um það eitt, t.d. R-listinn forðum. Hið versta mál. Einsog stjórnmál snúist um eitthvað annað. Hvað með stjórnarflokkana nú?

"Stjórnarandstaðan er alltaf á móti öllu". Það væri nú meiri stjórnarandstaðan, sem ekki setti sig á móti. Enda er í núríkjandi völtunarpólitík stjórnarliðsins auðvitað alltaf á móti öllum hugmyndum stjórnarandstöðunnar.

"Borgarnesræðan". Þar var settur fram nýr valkostur við ofangreindri valtarapólitík. Meiri lýðræðisleg samræða og samráð. Sjálfstæðismenn tóku andköf og hófu að spinna skipulagt klisjueinelti. Það er leit að fólki, sem hefur hugmynd um megininnihald þessarar ræðu þótt sífellt sé verið að tyggja á henni í skipulögðum áróðri.

"Lýðræðislega kosinn". Þetta segja gjarnan þeir, sem hnoðast hafa á þing í krafti flokka, sem hvað minnst þjóðarfylgi hafa á bakvið sig, og eru að hugsa um að skipta um flokk.

"Samsæriskenning". Alltaf, þegar augljóst plott er í gangi, er settur upp geislabaugur og málið talið afgreitt með þessu orði. Einsog stjórnmál séu ekki f.o.f. samhæfðar aðgerðir, oftar en hitt ofnar í spunasmiðjum flokkanna.

"Rasismi". Gott er að þyrla upp þessu hugtaki til að berja sér á brjóst. Ég hef um áratuga skeið haft með höndum læknisskoðun á þeim, sem hyggjast fara til Kanada í nám, starf eða til langdvalar. Skrifræðið og smásmuguhátturinn, sem tengjast þessum ferli, eru tröllaukin. Kanada er virtasta þjóð veraldar skv. nýrri könnun SÞ. Þeir myndu brosa yfir tilburðum okkar við að koma skipulag á núverandi óreiðu innflytjenda. Það er ekki rasismi að vita, að berklar séu nokkuð algengir í Rússlandi.

"Öfund". Hugarfar þeirra, sem setja sig upp á móti valda- og auðsöfnun þjóðarelítunnar á kostnað félagslegrar velferðar og réttlætis. Þessvegna að sama skapi þeirra, sem undu illa vistarböndum forðum, eða leiguliða landeigenda áður fyrri.

"Framfarir". Eitthvað sem þeir vilja ekki, sem ekki vilja  einblína á stóriðju og tilheyrandi landsspjöll og efnahagsblístur sem einu úrræði athafnalífsins. Virkjun mannauðs og sköpunarmáttar, menntunar, félagslegra áherslna eru ekki framfarir. Það heitir að

"bíta fjallagrös".

"Þjóðarframleiðsla" getur þýtt hvað sem er. Hún er mikil. En ekki mikil á hverja vinnustund. Það vill gleymast.

"Hagvöxtur". Markmið tilverunnar. Það eina, sem gerir þjóðir hamingjusamar.

"Pólitísk ákvörðun". Málefni er reifað af sérfræðingum á sviði lögfræði, hagfræði, siðfræði, vísindum. Álit fengið. Pólitísk ákvörðun er óháð öllu þessu.

Hér eru nefndar örfáar klisjur, sem koma upp í hugann á augnablikinu. Menn velti þessu fyrir sér. Líklega eru ófáir ósammála mér um margt. Fínt. Þá er ég bara enn einn klisjarinn. Aðalatriðið er að því verði ekki svarað með öðrum klisjum heldur að upp komi nýjar hugsanir.


Að "kjósa frá sér" álver

Ég hef átt erfitt með að skilja, hvernig á því stendur, að stofnað skuli vera sérstakt hugsmunafélag um að vernda störf sín í álverinu í Straumsvík, ef svo kynni að fara, að það verði kannski ekki stækkað. Ef ég á poka af kleinum þá sé ég ekki ástæðu til að óttast hungursneyð þótt annar poki bætist við. Ég held mínum. En eitthvað er það sem gerir þetta fólk svona óttaslegið. Er þá auðvitað nærtækast að telja ástæðuna vera hótanir álversmanna um að þeir hreinlega ætli að hypja sig með allt sitt hafurtask ef Hafnfirðingar fara ekki að vilja þeirra. Það væri þá dapurleg staðreynd ef svo er komið, að við Íslendingar séum orðnir svo niðulútir gagnvart alþjóðastórfyrirtækjum, að þau séu farin að setja okkur slíka afarkosti. Hinsvegar kemur þetta ekki á óvart. Þeir, sem hafa leyft sér að fá ekki glýju í augun yfir gylliboðum frá slíkum stórveldum, hafa einmitt fyrir löngu bent á þessa hættu, sem smámsaman getur nartað í fullveldi okkar og sjálfsforráð, ef ekki er staðið á verði. Nú er svo komið hnattvæðingunni, að 2% af jarðarbúum eiga helming allra eigna í heiminum á móti okkur hinum, 98% mannkynsins. Ég held ekki að það vefjist fyrir mörgum, að vald þessara risavöxnu fyrirtækja sé að verða, og sé raunar þegar orðið, öflugra heldur en máttur stjórnvalda í ýmsum þjóðríkjum, jafnvel ekki bara þeirra allra smæstu. Margt bendir til þess, m.a. Hafnarfjarðarkosningin, að þetta kunni að verða þróunin á Ísland. Það á raunar sérstaklega við hér, þar sem stjórnvöld stefna að því að gera þjóðina að heldur frumstæðu framleiðsluríki hráefnis á borð við þróunarríki og legga fjölda eggja, sem aðrar þróaðri þjóðir hafa vísað frá sér, í einu og sömu körfuna. Ég held, að flestir séu sammála um, að hjá þjóðum, sem búa yfir sérstökum auðlindum og treysta makindalega fyrst og fremst á einhverja slíka, verði athafnalíf og efnahagslíf fábreyttara, sljórra og ekki síst snauðara fjárhagslega. En hér hefur allt verið sett í botn til að fylgja fram slíkri smættarstefnu. Auðlind okkar, vatnsorkan, er tekin traustataki í þessu helsta markmiði. Efnahagslífið látið standa á blístri, m.a. til að skapa ákveðinn fjölda verksmiðjustarfa, og krónan þar með sett á flug, einsog fyrirsjáanlegt var, með þeim afleiðingum að mörg fyrirtæki, einkum á sviði hátækni og tölvuhugbúnaðar, lögðu upp laupana eða fluttu út. Það væri afar fróðlegt að fá samantekt á því, hve okkur hefur horfið margt fagfólk á þessum sviðum, sem virkjunarsinnar töldu reyndar að væri að bíta fjallagrös, í staðinn fyrir þau störf, sem skapast á verksmiðjugólfi álveranna. Á sviði hátækni hafa komið fram stórmerkilegar hugmyndir, sem þarfnast mikillar orku, sem við erum búnir að lofa öðrum. Við erum að missa af lestinni.

Víkjum aftur að Alcan. Trúir fólk því að þeir pakki saman ef þeim verður ekki heimilað að spýja tugþúsundum tonna af eiturefnum yfir Hafnarfjörð til viðbótar því sem fyrir er? Er fólk búið að gleyma því, að skv. yfirlýsingu fyrrverandi iðnaðarráðherra bíða menn í röðum eftir að fá að reisa hér álver og til þess orku á spottprís? Var það ekki einmitt forstjóri Alcans ( ég man ekki fullkomlega fyrirtækið) sem lýsti því yfir, að hér væri langódýrustu orkuna að fá. Trúa menn því, að hann sé eins mikill idíót og forsvarsmenn Landsvirkjunar reyndu að gera hann? Trúa menn því að núverandi álver sé óarðbært?

Þeim rökum hefur verið haldið á lofti í stóriðjuumræðunni, að framlag Íslands með því að selja vatnsorkuna á verði, sem ekki má láta uppi en beðið er í biðröðum eftir, sé fólgið í því, að á heimsvísu séum við að fækka álverum, sem nota jarðefni og menga mun meira. Því að dragi úr heildarmengun  . Mér hefur sjálfum fundist þau rök vera gild í sjálfu sér, þótt í mínum huga hafi þau ekki nægt til að réttlæta þær fórnir annarra auðlinda okkar, einsog óspilltasta náttúrusvæði Evrópu, sem með því fara forgörðum. Nú skýrði hinsvegar nafni minn Hannibalsson fyrir nokkru í blaðagrein frá því, að þau orkuver, sem lögð verða niður við flutning hingað, noti einnig vatnsorku. Ég varð sattaðsegja alveg grallaralaus. Enginn hefur orðið til að mótmæla þessu. Hafa þá allar þessar réttlætingar verið byggðar á blekkingum? Lygi? Spyr sá sem ekki veit. En sé þetta tilfellið er auðvitað enn ljósara, að hingað sækjast fyrirtækin f.o.f. eftir vatnsorku á verði, sem aðrar þjóðir eru ekki tilbúnar til að bjóða.

Ég held að mig misminni ekki, að álverið í Straumsvík ætti að komast í eigu þjóðarinnar eftir ákveðinn tíma, og að það eigi einnig við um nýrri álsamninga. Gott væri að fá þetta rifjað upp. Hvað ef við ættum einn góðan veðurdag eitt stykki álver? Arðurinn rynni óskiptur til okkar(teóretískt; auðvitað yrðu þá í raun búnir til kvótar handa vinum og vandamönnum til eignar). Ekkert smáræði. Eða hvað? Þá ber að hyggja að því, að ekki er nóg að búa til ál. Það þarf að selja það, hafa aðgang og helst að eiga sölukerfi, markaðskerfi, flutningakerfi osfrv. Og í hvers höndum skyldi svo allt það vera mitt í allri hnattvæðingunni? Hvað með tvöprósentin? Líklega er ekkert hald í þessum ákvæðum nema ef vera kynni að okkur vanti frekara vöruskemmurými. Og þarna kemur enn fram, hvaða hreðjatök svona alþjóðafyrirtæki hafa á litlum hráefnisframleiðendum einsog okkur. Það er svolítið skrítið, að þeir eru ekki ófáir, sem vilja forðast Efnahagsbandalagið til þess að framselja ekki viss þjóðréttarleg ákvæði, en að það skuli þá gjarnan vera sama fólkið, sem hefur engan bifur á því að framselja sjálfstæði til fjölþjóðlegra stórfyrirtækja. 

Einn af sorglegri atburðum síðari ára var í mínum huga að sjá Reyðfirðinga fagna nánast í þjóðhátíðarstemningu framkvæmdum við Kárahnjúka, veifandi fánum álfyrirtækis. Ég vona, að Hafnfirðingar standist hótanir og stórbokkaskap og stigi ekki samskonar dans.


Fyrsta bloggfærsla

Svo er sagt mér, að maður sé ekki maður með mönnum nema taka þátt í blogginu. Þessu hefur m.a. hann Röggi vinur minn og hárskurðarmeistari haldið fram, en hann er greinilega iðinn við kolann sjálfur, fer m.a. geyst gegn þeim Baugsmönnum. Bloggið sé tækifærið til að hella úr skálum reiði sinnar niðurbældri og afhlaða; einnig að kíkja á hugsinar annarra og skoðanir. Hið besta mál. Væntanlega nokkuð lýðræðislegt. Hér má sjá að margir nota tækifærið til tjá sig, sumir virðast m.a.s. hafa töluverða sýniþörf og aðrir gægjuþörf og er það gott og blessað. Vel mætti því kalla þetta fyrirbæri gjugg í blogg. Ég hef því ákveðið að taka þátt og segja heiminum svolítið til, svona þegar stund gefst frá amstri dagsins og þess gætt að það er líklegt til að veita ekki margar stundir til að gjugga í blogg.

Þá er næsta skrefið að kasta sér útí djúpu laugina og skrifa jómfrúarpistilinn.

færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband