Færsluflokkur: Sjónvarp

Gerðu betur, RÚV.

MR er minn gamli skóli. Því er það venjulega gleðiefni þegar hann ber sigur úr býtum í spurningakeppni framhaldsskólanema í RÚV. Í þetta sinn er sú gleði samt í daufasta lagi. Er gaman að vinna keppni sem varla er mark takandi á? Hér er að takast á ungt fólk sem er brýnt til að halda allar reglur sem þuldar eru yfir því af þungum strangleika í hverri keppni. Þar getur munað sekúndubrotum. Þetta sama fólk venst því í skólanum sínum að þreyja þrautir í prófum þar sem getur munað einni spurningu rangt svaraðri hvort maður fellur á prófi eða ekki. Og væntanlega er því innrætt á öllum tímum að halda réttar reglur í starfi og leik og lífinu öllu.Og þá gerist það að Ríkissjónvarpið brýtur gróft sínar reglur og þannig á einu liðinu sem  féll úr keppni fyrir bragðið. Þetta var, einsog flestir vita, lið Kvennaskólans í Reykjavík. Það vissi betur svar við einni spurningu helduren sjálfur prófdómarinn, sem dæmdi af því réttfengið stig fyrir framan alþjóð og lét sig hafa það að ræna liðið um leið sigri í þeirri viðureign. Hin einfaldasta allra reglna,  stig fyrir rétt svar, var brotin. Svona er í skóla nefnt svindl. Í mínum huga er þetta ekkert smámál. Ríkisútvarpið beitir valdi sínu til að misvirða grundvallarreglur. Og ypptir svo bara öxlum..Þetta var ekki fótboltaleikur þar sem dómara verður á í messunni varðandi atburði sem gerast á sekúndubroti. Þetta voru mistök af því tagi sem auðvelt var að leiðrétta, málsatvik klár og leiðrétting auðveld, bara ef stjórnendur hefðu haft manndóm í sér til að taka afleiðingum mistaka sinn og viðurkenna þau..  Þetta var yfirgangsöm rangsleitni . Við erum því miður öll óþarflega værukær og látum vaða yfir okkur aftur og aftur. Og nú er aðeins hægt að segja:Gerðu betur, RUV. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband