Prinsíp (eða prinsipp) um opinberan rekstur

Absúrdleikhúsið, sem nú er á fjölunum í ráðhúsinu hefur, einsog absúrdleikrit eiga að gera, leitt margt í ljós um leikaraskap í pólitík, slagorðaspuna í allar áttir, óeinlægni, yfirklór. Óneitanlega mikið drama. Ekki skal farið mikið útí þá sálma hér, nóg er nú samt. Mig langar samt aðeins að skoða prinsíppið um “áhættufjármagn” og opinberan rekstur. Þennan ginnheilaga slógan, sem þeir fundu þarna, dvergarnir sjö í fyrrverandi borgarstjórn. 

Í fyrsta lagi er svolítið óljóst hver áhættan er í þessu tilviki. Þegar 2 milljarðar, sem voru raunar afrakstur af fyrri áhættuhegðun, verða 10 M, hversu mikil er þá áhættan fyrir borgarbúa að tapa 8 M kr. forgjöf í fyrirtæki, sem einir bestu fjármálamenn okkar setja traust sitt á? Já, en bíddu við, það er prinsíppið sem gildir. Sem í raun er vel unnt að ræða. En það er bara nokkuð seint til komið og ber svip eftiráskýringa. Það var þó fjandakornið Guðlaugur Þór, sem stofnaði REI einsog oft hefur verið bent á. Eftiráskýringar dverganna eru fjarska máttlausar.

Hinu er ekki að neita að starfshættirnir allir í kringum þessar fléttur við sameiningu Gullfoss og Geysis,  og þá ekki sízt hugmyndirnar um kaupréttarsamningana, voru svo sannarlega til þess fallnir að reiðast yfir. Vissulega var verið að “valta yfir” borgarstjórn einsog sexmenningarnir orðuðu það. Mér finnst furðulítið talað um það mikla óðagot, sem ríkti þegar sameiningunni var nánast troðið niðurum kokið á borgarstjórn í svo miklu hasti, að brotnar voru margar reglur. Hvaða prinsíp sem menn aðhyllast eru flestir sammála um að allt pukrið og allur skorturinn á nægum upplýsingum um rekstrarmál fyrirtækja, sem er í eigu borgaranna, er ekki þolandi. Fyrsta prinsíppið á að vera að þar sé allt í lagi til að tryggja hag borgaranna.

  Víkjum þá sögunni til Landsvirkjunar. Þar hefur nú stóra prinsíppið ekki verið ofarlega á blaði. Og því síður upplýsingagjöfin til eigenda. Þar eru spunamenn önnum kafnir við að halda helstu upplýsingum leyndum. Hvað vitum við hvort við séum  að niðurgreiða útsöluna á orkunni þeirra eða ekki? Allt svo mikið leyndó. 

Við vitum bara að útlendingar eru í biðröðum til að koma hingað að kaupa raforku, rétt einsog þeir væru á biðlista yfir hnéaðgerð. Jafnvel Norðmenn vildu flytja verksmiðjur til Íslands til að kaupa íslenzka orku. Í upphafi Kárahnjúkavirkjunar var ekki annað að sjá, en að  arðsemisútreikningar Landsvirkjunar hafi byggzt á því að allt land og nýting þess um víðáttur þessarar náttúruperlu kostaði ekki neitt. Þegar menn fóru að reikna útfrá líklegu orkuverði komust nokkrir góðir fræðimenn að þeirri niðurstöðu, að virkjunin stæði ekki undir kostnaði. Eg minnist enn, að þváverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, var innt eftir þessu í sjónvarpsviðtali og gaf fjarska lítið útá það. Hvernig eiga mennirnir að geta reiknað þetta, þar sem enginn vissi um orkuverðið? Það merkilega var, að örfáum vikum fyrr hafði hið háa Alþingi samþykkt allan þennan gjörning. Hvernig áttu Alþingismenn að hafa getað reiknað þetta? Hvað voru þeir að samþykkja?

Nú, löngu seinna, virðist Landsvirkjun vera að uppgötva, að landareignir allt kringum virkjunina séu einhvers virði. Og fer að prútta um landið af hörku og yfirgangi. Getur ekki greitt neinar alvöruupphæðir vegna þess, að aldrei hafi verið gert ráð fyrir þeim í upphafi. Allt gæti þetta því bitnað á arðseminni. Til viðbótar má nefna hina miklu töf, sem orðið hefur á afhendingu raforkunnar til álversins í Reyðarfirði. Er ætlast til að við trúum því, að það kosti ekkert? Landsvirkjun þegir þunnu hljóði og nýtur stöðu sinnar sem ríki í ríkinu, fer dólgslega og kemst upp með það.

Hvaða prinsípp hafa verið á ferðinni þarna? Allavega ekki þau, að ríkið eigi ekki að standa í "áhættusömum rekstri". Segja má, að þetta dæmi styðji samt allrækilega  einmitt það. Hvað ætli þetta hafi kostað okkur?

Bakhliðin af því er hinsvegar sú, að um er að ræða svo stóran þátt í tilvist okkar og náttúrugæðum, að aldrei skyldi selja þau oligörkum vinveittum ráðamönnum, fyrir slykk, einsog tíðkast hefur, sem geta síðan í krafti síns auðvalds ráðið okkar kjörum. Það verður að teljast nokkuð skynsamlegt að neyta liðsinnis um viðskiptin manna og kvenna, sem kunna til verka í viðskiptum meira en pólitíkusar, en halda engu að síður samfélagslegum ítökum og gæta hagsmuna borgaranna skv. fyrirfram ákveðnum skiptareglum. Og umfram allt er það nauðsynleg forsenda, að þess sé stranglega gætt, að ekki sé stundað baktjaldamakk einsog nú hefur verið raunin, og að fulltrúar okkar hafi bakgrunn í leikreglum, sem slíkt tryggja og haldi árvekni sinni. Annars þarf að skipta þeim út.

Þetta er í mínum augum höfuðprinsíppið.

 


Orkurík barátta.

 Ekki verður annað sagt en að sá stjórnmálamaður, sem með naumindum hosaðist inní borgarstjórn í síðustu kosningum, hafi gert sér góðan mat úr þeim óeðlilega miklu völdum, sem féllu honum með fátæklegt kjósendaumboð í skaut vegna gallaðs flokkslýðræðis og kosningafyrirkomulags. Svo virðist sem menn muni ekki gjörla þegar hann strax í upphafi kjörtímabilsins bjó til safarík embætti fyrir-,  ja hverja aðra en ákveðna vini og kosningabandamenn. Muniði? Hann hætti að vísu við þá, en núverandi hamagangur  með tilheyrandi  innherjabraski ætti ekki að koma á óvart. Það eru ævaforn sannindi að valdið spillir. Það tekur að vísu mismunandi tíma hjá fólki. Sumir virðast næmari en aðrir og sumir sækjast í völd til að dífa strax hendinni í hina sætu hunangsskál valdsins. Strax verða hendurnar kámugar og eftir það vill allt, sem lýtur að eigin hagsæld, klístra við þær. Sætleiki valdsins. 

      Allt er þetta ORmál hið kyndugasta. Fyrrum forstjóri Orkustofnunar, hann Alfreð, lá undir sífelldum skömmum fyrir framkvæmdagleði sína í þróun þess fyrirtækis. Sjálfstæðismenn keyptu það ekki, að þetta væri hagkvæmni, þegar til lengri tíma væri litið. Fór þar fremst í flokki sá sjálfstæðismaður, sem seinna varð sjálfur forstjóri OR. Ekki bar þá á neinum tilburðum í þá átt að láta af hendi vörulagerinn, heldur miklu frekar í aukna framkvæmdagleði með því að stuðla að stofnun nýs fyrirtækis, REI,  Nú er sá orðinn ráðherra. Það kom svo á daginn, þegar utanaðkomandi mat lá fyrir, hvílík gullkista þarna væri komin. Menn urðu agndofa. Tveir milljarðar höfðu vaxið uppí tugi milljarða. Þetta var svo pínlegt, að það eina, sem unnt var að gera var að reka Alfreð úr því djobbi, sem hann var síðast kominn í. Og nú er allur ágóðinn orðinn stórhættulegt áhættufé. Ekkert nema áhætta að láta hagnað liggja um kyrrt í sjóðum, sem allir vilja svo eiga hlutdeild í á sérstökum kjörum allt uppí hálfrar milljarða hlut Bjarna Ármannssonar.

       Talað er um grundvallarprinsíp og samheldni sjálfstæðismanna í hvívetna og það gleymt, að það voru tveir fulltrúar borgarinnar í stjórn REI, Björn Ingi og Vilhjálmur Þ., sem unnu að sameiningu þess við Geysir Energy og öllu því pukri, baktjaldamakki, gróðasukki og bráðaflýti, sem fylgdi því. Borgarstjórinn var klagaður fyrir flokksforystunni af kollegum sínum í borgarstjórn. Allt útaf einstakri samheldni. Þeir beygðu hann til hlíðni og gleymsku um fyrri verk sín í málinu, allir svo samheldnir, og vilja nú selja strax. Á hvaða verði? Eins gott að þeir komust ekki til að selja fyrr, þegar verðið var lægra. Saga einkavæðingar hér á landi er saga vinavæðingar, samfélagsleg verðmæti seld fyrir slikk. Hvaða hagsmuni er verið að verja? spyrja báðir aðilar. Hvaða hunangsklístruðu hendur eru hér að verki?      Síðasta vika hefur verið dramatísk og náð hámarki í dag. Mikið leikrit einsog pólitík er svo oft. Glúrið handrit um kaldhæðni stjórnmálanna. Það finnst mér í raun vera mórall sögunnar. Það er nokkuð leikrænt að rifja upp, hvernig síðasta borgarstjórn var mynduð. Ólafur kollegi minn Magnússon átti stefnumót við Vilhjálm Þ. til að stofna til borgarstjórnarmeirihluta. Sá síðarnefndi lét bíða eftir sér og var allt í einu búinn að semja við annan aðila. Ólafur sat eftir með súrt ennið. Nú lét hinsvegar Björn Ingi bíða eftir sér. Og VÞV situr með súra ennið. Flott flétta. Aðspurður um það nú, hvort hann hefði eitthvað verið að leita fyrir sér um stjórnarmyndun sagði VÞV: “Við vinnum ekki þannig” Enn flottara. Ég hef sérstaklega gaman af svona trikkum burtséð frá hinu pólitíska innihaldi. Minnist  þess, þegar fyrir síðustu borgarsjórnarkosningar einn frambjóðandi sjálfstæðismanna, gott ef það var ekki Gísli Marteinn, lýsti hinni miklu samheldni þeirra og óhvikulum stuðningi við oddvita sinn, VÞV. Það væri annað en R-listinn, þar sem væri glundroði og forrystuleysi, jafnvel rýtingar uppi í víðum ermum. Var þá greinilega búinn að gleyma því, þegar Ingu Jónu var bolað úr leiðtogastöðu sinni í flokknum í leiftursókn. Hún sagðist ætla að berjast til síðasta blóðdropa. Daginn eftir kvaðst hún víkja til að stofna ekki til átaka innan flokksins. Hverjar voru hótanirnar um “átök”. Fyrr hafði Árni Sigfússon lent í svipuðu. Þetta gerir pólitíska samheldni, hugsjónir og prinsíp svo áhugaverð.    

 

  

Bush og velferð fjármagnsins.

Enn hefur Bush forseti bjargað þjóð sinni frá yfirvofandi hörmungum, í þetta sinn með því að afstýra þeirri hræðilegu ógn að þurfa að innleiða sjúkratryggingar fyrir börn. Hvar væru BNA á vegi stödd ef ekki nyti við þessa dáðadrengs? Tryggingafélögin? Heimurinn?

Hagur auðugustu fyrirtækja mundi stórversna. Þegar Clintonstjórnin gerði fyrir margt löngu tilraun til að stunda þá ósvinnu að koma á almennu heilsutryggingakerfi, kom í ljós, að stjórnunarkostnaður við þær opinberu tryggingar, sem þó voru fyrir hendi, aðallega fyrir aldraða og uppgjafahermenn, var um 1-2% en við einkatryggingafélög um 12-20%. Slíkur mismunur milli velferðarþjónustustofnana annars vegar og gróðastofnana hins vegar er miklu oftar staðreynd en haldið er á lofti.

Flokksmenn Bush gátu á sinni tíð guðsélof skotið þessa villutrú í kaf og verndað tryggingarfélögin fyrir utanaðkomandi vá. Þau voru samt enn eitthvað súr og tóku ekki gleði sína fyrr en Bush hafði lækkað skattana þeirra til muna.

BNA er velferðarríki einsog allir vita. Velferð einkafjármagnsins, Því hefur einnig tekizt að halda mörgum tugmilljónum manns utanvið íþyngjandi sjúkratryggingar og byrðar ríkisins við slíkt. Sjá Michael Moore. Vert er þá að gleyma ekki hugsjónaheimi Bush í víðara skilningi. Hann kom m.a. fram í ræðu, sem Bush flutti í tilefni heimsóknar Elísabetar 2. til Bandaríkjanna sl. vor. Þar minntist hann hrærður þeirrar stanzlausu vegferðar, sem Bretar hafa gengið allt frá “Magna Carter” fram á þennan dag útum heim allan til að útbreiða frelsi. lýðræði og félagslegan jöfnuð. Hann hefði veitt þessu athygli alveg frá því Elísabet 2. hafði síðast komið í heimsókn árið 1779.

 Frelsi, lýðræði og sjálfstæði af þessu tagi sýnist augljóslega vera hans baráttumál. Alltaf árvakur. Aldrei haldin ræða nema lýðræði, frelsi og sjálfstæði beri á góma. Það fór ekki framhjá honum fyrir nokkru, að Rússar væru að auka fjárframlög sín til hernaðaruppbyggingar og lýsti yfir miklum áhyggjum vegna þess. Botnaði ekkert í þessu.  Til hvers? Hver væri óvinurinn?

Öðru máli gegndi auðvitað með Bandaríkin, sem kostaði meira til hergagnaframleiðslu en öll önnur ríki jarðarinnar samanlagt. Slíkt er auðvitað ekki hergagnaframleiðsla heldur framlög til landvarna. Einnig það að umkringja Rússland með hernaðarmannvirkjum rétt við landamæri þeirra. Þannig ræður maður betur, hver sé óvinurinn Hverjar séu hinar illu þjóðir. Og hverjir vinir, t.d. friðelskandi harðstjórnarríki einsog Saudi-Arabía, Pakistan, kannski Búrma, landræningjar einsog Ísrael, og svo eftir því sem vindarnir blása, jafnvel Afganistan, Írak og Íran. Auk þess að skapa fjölda manns atvinnu  (og fyrirtækjum nokkrum sentum í vasann). Ríkisstyrktur stóriðnaður svo um munar. 

 Skilja menn þetta ekki? Skilja menn ekki, að frelsi, lýðræði og sjálfstæði verður hvorki ákomið né þau varin nema með miklu valdi, ógnunum og hugsjónaríkri kraftbeytingu? Hernaðarlegum yfirburðum. Hin ævagömlu, hefðbundnu sannindi. Höldum árþúsandagömlum hefðum.  Það eru aðeins litlar sálir, sem vilja varpa vafa á þessar hugsjónir og frjálshyggjuna almennt, svokallað frjálslynt fólk, með samsæriskenningar, í raun auðvitað guðlausir kommúnistar, sem halda því t.d. fram, að BNA og Ísland hafi ráðist inní Írak af einhverjum hvötum öðrum en frelsisástinni, s.s. vegna olíunnar. Einhver Blix. Eða einhver Greenspan, sem var lengi grænn einsog dollarinn en nú greinilega orðinn vinstrigrænn, jafnvel grænfriðungur, en slíkir menn eru, einsog allir vita, bráð hætta amerískum hagsmunum. 

Bush er semsagt okkar maður með gömul og góð gildi. Einsog gömlu nýlenduveldin. Bíða heimsins ekki válegir tímar, þegar hann hættir á næsta ári?  Eða hvað?


Bloggið: opnun sjálfsins?

Eftir að ég herti upp hugann og fór agnarpons að rýna aftur í bloggið eftur nokkurt hlé hef ég töluvert verið að bollaleggja um eðli þess og dýpstu rök.

Fyrri hluta ársins (þýðir: fyrir kosningar) svall manni sjálfum sem og mörgum öðrum mikill móður á tímum ofríkisstjórnarinnar, sem þá sat, svo að þörfin var mikil til að afhlaða. Skrifaði ég þá eitthvað um landsins gagn og nauðsynjar, og það af miklu viti einsog lög gera ráð fyrir.

Mörgum varð það mikill léttir, þegar ný ríkisstjórn komst á. Nýjar vonir vöknuðu um að ekki ætti lengur að vaða yfir þjóðina með rembu og offorsi heldur fara skár eftir reglum og alvöruhugarfari lýðræðis. Svo að það varð hálfvindlaust hjá mér. Um leið fór ég smám saman að gera mér ljóst, að blogg er í raun ekki f.o.f. vasasafn af e.k. blaðagreinum, heldur miklu heldur persónuleg dagbókarkorn og viðbrögð við dagsins skrafi og uppákomum, stundum palladómar og einkunnagjafir um atburði dagsins. Samskipti. Og oft býsna samviskusöm vöktun.

Þar ligg ég svolítið í því. Er ekki dagbókartýpa. Finnst hversdagur vesalings míns yfirleitt ekki svo merkilegur, að þaraf mætti segja einhverjar sögur í veröld óumræðilegs fjölbreytileika, upplýsinga og nýrrar þekkingar. En líklega er blogginu hvort sem er ekki ætlað að vera vettvangur alls þess. Allir eiga sinn hversdag. Upplifa ýmislegt og bregðast við með huga og hönd. En yfirleitt er það samkvæmt hlutarins eðli einmitt – hversdagslegt. Einhver hefur slegið garðblettinn, Dídí litla týndi skó í húsdýragarðinum, Birta eignaðist kettlinga, einhver fékk góða humarsúpu á Römblunni í Barcelona.

 Í starfi mínu sem heimilislæknir hef ég oft kynnst úrdráttum úr hversdagsleika fólks og þá yfirleitt þeim hluta, þar sem mest á reynir. Þar finnast alvörufrásagnarefni, sem kalla fram vitsmuni, fórnir, miklar tilfinningar og einatt hetjudáðir, sem ekki eru á torg bornar, en væru þó yfirleitt mun meira frásagnarefni en margt af því, sem allt morar af í margmiðlum samtímans.

Mig vantar greinilega sjálfhverfu til að taka mikið eftir mínum eigin hversdagsleika, hvað þá að segja frá honum ( slæ raunar verulegan varnagla við mottóum dagsins: “elskaðu sjálfan þig” og “lifðu í núinu”. Yfirborðslegt). Nokkrar tilraunir til dagbókarhalds hafa á ýmsum tímun runnið útí sandinn á örfáum dögum. Í upphafi hugðist ég skrá atburði ævi minnar í vasabók í skeytastíl. Uppskeran urðu nokkar athugasemdir um Kóreustríðið eða Antony Eden. Ég man ekki nema örfá ártöl í lífi mínu, sem allir aðrir atburðir taka óljóst mið af; stúdentspróf, embættispróf, upphaf starfsferils.

Mig rekur í rauninni alveg í rogastans, þegar vindur sér að mér þéttvaxinn hárlítill maður, sem er að hræra í berinu sínu í kokteilboði og fer að minnast þeirra góðu tíma, þegar við hittumst forðum á Shipholflugvelli árið þettaogþetta, báðir á leið á sinn áfangastað, og ég splæsti á hann bloddímarí sællar minningar. Bylmingshögg á bak. Sæll, gamli. Þá kemur minn litli vísir af leikara að nokkru haldi.

 Það hefur raunar einmitt verið verulegt átak fyrir mig að raupa svona mikið um sjálfan mig, einsog ég er einmitt að gera núna. Þessi sjálfhverfuskortur er áreiðanlega vondur skapgerðargalli. Að vísu hefur mikil sjálfhverfa ekki alltaf orðið til heilla. Má þar minnast Narzissusar og Adonis. En fyrr má nú rota en dauðrota í mínu tilfelli.

Mér var hugsað um allt þetta í búningsherbergi í NordicSpa (já, reyndar, átak kyrrsetumanns til sprikkls), þar sem fullkomlega vaxinn náungi var að hugsa til heimferðar. Tattúin í réttum hlutföllum á réttum stöðum, slöngufléttur. Hver einasti vöðvi kom vel og afmarkaður í ljós, án þess að vera ýktur, - einstakt tækifæri fyrir roskinn lækni, sem búinn er að gleyma anatómíunni. Ekki fitutætla. Hann var nýmættur við spegilinn sinn eftir sturtuna. Lítil skjóða á  spegilborðinu. Það sem sú skjóða gat innihaldið!

Fyrst aukahárnæring, sem var klöppuð í hárið, strokið og greitt.

Hársprei

Síðan rakfroða á kjálka. Rakað blíðlega, hakan teigð og fýld neðrivör.

Rakspíri

Rakbalsam

Svitakrem undir armkrika.

Andlitskrem.

Annað krem kringum augun.

Ilmvatn.

Tannkrem ásamt bursta.

Varasalvi.

Fótakrem.

Viðskilnaðurinn við spegilinn minnti á kveðjustund elskenda á járnbrautarpalli. Svo gekk hann útí lífið, ítarlega undirbúinn, sjálföryggið uppmálað (eða hvað?) og sæll einsog sá sem var að skrá og raða frímerkjasafninu sínu fyrir uppboð.

Ég sat eftir þrumulostinn. Slitgigtin hló við fót. Naflakviðslitið þandi sig. Hundraðogtíu prósent lúði. Kúkur í polli.

Ólafur, - nú verður þú að verða þér úti um ögn af sjálfhverfu. Fjandakornið.Fór því að hugsa um bloggið.Tjá sig. Taka þátt. Þótt það verði væntalega meira í stíl  sjálfskipaðs álitsgjafa,- það spyr mann jú enginn, fjandakornið, helduren skýrsla um dagsins hversdagsleika og einkunnagjafir.

Pyttir Moggans

Nú á Mogginn verulega bágt. Greinilega við djúpstæða tilfinningatogstreitu að stríða. Á hann að vera stjórnarsinni eða í stjórnarandstöðu? Það er svo erfitt að horfa uppá eftirlætisblóraböggulinn, Ingibjörgu Sólrúnu, vera farna að kyssa Geir. Komin í ráðastól. Það sem forðast skyldi.

Því er Mogginn, eftir að hann missti grímuna alfarið, líka búinn að glata uppstilltri yfirvegun og orðinn að hálfgerðum tuðara. Farinn að hafa áhyggjur af því, hvort Björgvin G. Sigurðsson hafi rétta menntun til að verða viðskiptamálaráðherra! Komdu með annan betri. Hingað til hefur einhver sérþekking, eða skortur þará, við veitingu ráðherraembætta ekki vafist fyrir Mogganum eða öðrum. Hvað með dýralækni sem fjármálaráðherra?

Þetta minnir á söguna um diplómataboðið í Sviss, þar sem íslenskum ráðamanni ku hafa  svelgst á súpunni af hlátri við að heyra, að sessunautur hans var sjávarútvegsráðherra. Og sessunauturinn sagði: “Hvað er svona fyndið við það? Eruð þið ekki með fjármálaráðherra?” og fór að hlægja ekki minna.

Mogginn gat ekki heldur stillt sig um að nefna “pyttina”, sem Samfylkingin vær stödd í og fagnar því, að Geir lét ekki draga sig þangað oní.

 Fyrstu viðbrögð mín við margumtöluðum stjórnarsáttmála voru jákvæð. Einhverskonar léttir. Það kveður við annan tón. Vilji til sátta og jafnvel “samræðu”( annar þyrnir í holdi Moggans). Samfylkingunni tókst að setja sinn svip á stjórnmálastefnuna og leggja áherslu á félagslega velferð og aukið jafnrétti á borði. Og tekst vonandi að standa við það.

En þegar betur er að gáð eru pyttir Moggans raunverulega þarna. Bara spurning hver er þar oní og hvern hefði þurft að draga uppúr. Mogginn nefnir einmitt suma þeirra. Íraksstríðið. Um það var aumlegur texti. Stjórninni þykir svo leiðinlegt, að þeir skuli vera að drepa hver annan þarna suðurfrá.

Hvað með Súdan? Er það þá ekki alveg eins leiðinlegt? Og kvótinn skal greinilega blífa, og þarmeð verður ekki blakað við lénsherrunum í LÍÚ úti í Florida, eða svefn þeirra og afkomenda þeirra truflaður. Það virðist ekki skaka við neinum, að afleiðingar kvótakerfisins og þenslustefnu í fjármálum koma svo greinilega saman í einum punkti á Flatyeri um þessar mundir.

Hvað með frekari einkavinavæðingu auðlindanna? Ekki er að sjá , að sporna eigi við ríkjandi stefnu að afhenda klúbbi vina-, flokks- og vandamanna verðmæti þjóðarinnar.

Landsvirkjun? Fallvötn og fljót.

Möguleg olíuverðmæti.

Fjarskiptarásir.

O.s.frv. Hvað um stjórnarskrárákvæði um sameiginlegt eignarhald allra landsmanna á auðlindunum? Hvað um þær virkjanir, sem þegar hafa verið á teikniborðum? Jafnvel er allt þetta mýrartal varðandi Þjórsárver uggvekjandi og bara,.........ja, köttur útí mýri, úti ævintýri. Þetta eru allt hin stóru pólitísku mál nútíðarinnar.

Sagt er, að við eigum ekki að hugsa um fortíðina heldur horfa til framtíðar. Framtíð, sem ekki tekur mið af nútíðinni,er einmitt köttur útí mýri..

Samfylkingin stendur að minni hyggju fyrir enn meiri vanda en Mogginn. Hún á að eiga tveggja kosta val. Annað hvort lætur hún sverfa til stáls útaf þessum meginmálum í stjórnarsamstarfinu, einsog hún var eflaust kosin til að gera af þorra stuðningsmanna, og  tekst vonandi að sigla þar milli skers og báru. Ella kann hún að standa frammi fyrir þeim möguleika að slitni úr stjórnasamstarfinu og að jafnvel verði efnt til kosninga, þar sem þessi höfuðmál verði sett á oddinn.

Hinn kosturinn er að láta Sjálfstæðismenn fara sínu fram ofan í þessum pytti. Þá munu örlög Samfylkingarinnar verða þau sömu og Framsóknarflokksins. Og hann hafa notað tækifærið til að eflast á ný.  


Hugmynd að nafni

Hvernig væri nafnið Geirjaxl. Það þýðir vísdómstönn.

Geir er enginn Hamlet

Talandi um skilaboð. Þegar þau eru fengin eftir kosningarnar er töluvert hrapalegt að sjá, hvernig sumir setja kíkinn á blinda augað til að sjá þau ekki.

Helstu skilaboð kosninganna nú voru augljóslega, að Framsóknarflokknum var hafnað. Vilji fólksins. Þá láta þeir hálfblindu það sem vind um eyru þjóta. Mogginn kastaði grímunni og fannst ekkert eðlilegra en að frammarnir yrðu áfram í ríkisstjórn, nánast allir þingmenn þeirra með tölu. Þjóðin sé væntanlega svo vitlaus, að ekki þurfi endilega að fara eftir óþægilegum vilja hennar. Og frammararnir sjálfir öskuvondir yfir því að vera sviptir þeim völdum, sem þeir virðast telja sín um aldur og ævi. Skilaboðin frá þessum aðilum: Fökkjú lýðræði.

Nú hafa mál hinsvegar þróast þannig, að ég fékk eftir allt saman leikritið, sem ég var farinn að örvænta um í síðasta pistli. Og þá er þetta bara hið flóknasta mál. Var Geir Haarde að spinna þennan vef allan tímann? Var hans realpólitík með öðrum hætti en Moggans eða var hann líka með lýðræðisleg skilaboð í myndinni? Að vera eða vera ekki. 

Geir er þó greinilega meira afgerandi en Hamlet. Mogginn er hinsvegar enn duglegur að narta í Ingibjörgu Sólrúnu og strá efasemdum. Og í forsetann, að sjálfsögðu. Einsog Björn Bjarnason. Þessi þráhyggja hefur verið sálfræðilegt umhugsunarefni.  Mogginn ekki lítið svekktur yfir því, að það gerðist, sem hann og margir aðrir íhaldsmenn vildu forðast í lengstu lög, að IS fengi pólitískan framgang.

Og reiði frammaranna er líka afhjúpandi. Ég á erfitt með að trúa, að þeir hafi talið sig betur í stakk búna að endurnýja hugmyndafræði sína og koma henni á framfæri í ævarandi fangi íhaldsins með nánast alla sína þingmenn í ríkisstjórn, helduren  að móta hana og tjá frjálslega í ærlegri stjórnarandsöðu.

Það hangir væntanlega meira á spýtunni: kjötkatlar. Og aðferðarfræðin nú, sem veldur svo gremju þeirra, ætti ekki að koma svona á þá bera og bláa, ef minnst er plottsins eftir síðustu borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Maður getur nú bara sagt: þeim ferst. Nú eiga þeir ný tækifæri, sem þá vantar nauðsynlega. Nýja hugsun með nýjum mönnum á borð við Bjarna Harðarson. Lúsahreinsun. Takið aftur gleði ykkar, frammarar. Og mark á lýðræðinu.

Mogginn telur sjálfstæðismenn í töluverðri hættu við að binda trúss sitt við Samfylkinguna. Það er líklega rétt. En ég tel hana ekki taka minni áhættu. Báðir flokkarnir eru að taka djarfar ákvarðanir og standa frammifyrir vandasömu starfi í væntanlegri sambúð. Þegar Fylkingin hefur rænt frammarana miðjunni gætu vinstrisinnar innan hennar hneigst til að  halla sér að VG (aftur).

Svipað má segja um sjálfstæðismenn í hina áttina.  Það er athyglivert hvað allir virðast vera samtaka um að bregða engum kíki á Frjálslynda. Í því virðist sannarlega góður jarðvegur fyrir samsæriskenningar. Á þeim hafa dunið dylgjurnar um rasisma með lýðskrumsklisjum, sem allir hafa tekið þátt í, án þess að hafa fyrir því að skilgreina á nokkurn hátt í hverju þessi rasismi á að felast.

 Dæmigerð voru ummæli fyrrverandi heilbrigðismálaráðherra um að hún vissi ekki til að berklatilfellum á Íslandi hefði fjölgað þrátt fyrir aukningu innflytjenda. Eru það rök gegn markvissari heilbrigðiseftirliti eða með því að óhætt sé að láta allt danka, þótt vitað sé að veruleg berklavá sé fyrir hendi í Austur Evrópu? Er staðföst andstaða þeirra gegn kvótakerfinu eitthvað óþægileg og ekki lengur einnar messu virði?


Lesblinda á skilaboð?

Nú er töluvert talað um boðskap. Lýðræðið. Þjóðin hefur talað. Í síðasta pistli pældi ég soldið í því að ef stjórnin myndi lafa myndum við eiga von á alvöruþrungnu leikriti með lýðræðislegum blæ þangað til stjórnarflokkarnir féllust aftur í faðma eftir skamman aðskilnað.

Nú er ég ákaflega sleginn og vonsvikinn. Svo virðist sem eigi að svíkja mig, einlægan áhugamann um leiklist og góðar uppfærslur, um þessa sýningu. Geir var ekkert að tvínóna við það  kosninganóttina að gefa í skyn að ekkert væri að því að halda áfram í stjórn með flokksbrotinu, sem eitt sinn hét Framsókn. Hann talaði einmitt líka um umboð. Þjóðin hefði gefið eitt slíkt, þegar hún jók fylgi flokks hans um þrjú prósent og einn þingmann fyrir hvert þeirra. Lýðræðið, sko. Gott og vel. Það er skylda að bregðast við slíkum skilaboðum. En svo virtist allt í einu allt annað vera uppi á tengunum, þegar huga átti að þeim lýðræðislegu skilaboðum, sem fólust í því að klippa Framsókn í sundur. Halda mætti, að hann liti á þann flokk einsog ánamaðk, sem lifir í báða enda þótt klipptur sé í sundur.Og sjálfir eru þeir farnir að éta ofan í sig allar yfirlýsingarnar um að fara ekki í stjórn með fylgi af því tagi, sem fram kom.

Strax á kosninganóttina var kominn þessi Ragnars Reykássblær á liðið. Enda ekki líklegt að það færi allt í einu nú að fá skrúbblur yfir að sitja að völdum án tilsvarandi lýðræðislegs fylgis.

Samt skal spurt: Hvar er nú boðskapur lýðræðis? Hvaða boðskapur er það til stjórnar, að veita henni ekki meirihluta körfylgis? Hvaða boðskapur er það, að  á annan tug prósenta strokar út ráðherra? Geir sagði strax, að það hefði ekki nokkur áhrif á stöðu viðkomandi. Verða menn þá bara ráðherrar aftur? DÓMSMÁLARÁÐHERRAR?

Annað: Mörgum er umhugað um að gera árangur Fylkingarinnar sem minnstan og horfa þá framhjá árangri, sem náðist á síðustu 6 vikum, frá því hún var með 20% fylgi skv. skoðanakönnunum og jöfn VG. Eftir það féllu VG verulega, illu heilli, en eru samt taldir sigurvegarar kosninganna. Fylkingin fór í hina áttina og náði þó þessum árangri þrátt fyrir eineltið sem Ingibjörg Sólrún hafði mátt þola. En vert er þá að huga að Íhaldinu. Um svipað leyti voru þeir vel yfir 40%. Það fylgi kom strax og greinilega fram þegar Davíð Oddsson dró sig í hlé . Kosningaúrslitin nú með miklu minna fylgi eru þannig ekkert sérstaklega til að hrópa húrra fyrir hjá Geir.

En svona er þetta nú. Stjórnin lafir á nöglunum einum. Geir á leik. Hafi hann einhvern alvöruáhuga á því að hlera boðskap lýðræðis er honum ekki stætt á því að halda áfram með gömlu stjórnina.


Eftirmálar kosninganna

Ekki er unnt að segja annað en að kosningarnar í dag, sem eru þær þýðingarmestu um langt árabil, séu spennandi. Lafir stjórnin eða ekki. Hvað er eiginlega "stjórnin" í dag. Frammararnir hafa gefið í skyn, að þeir muni ekki taka þátt í nýrri stjórn, ef þeir fá ekki nema 10nda hvert atkvæði.

Þetta er nú flokkurinn, sem hefur haft ómælanleg áhrif á íslenskt samfélag og valdakerfi langt umfram fylgi kjósenda og komið sér og sínum fyrir við kjötkatlana. Teygjudýrið, sem hefur verið dæmi um stóra vankanta flokkalýðræðisins okkar. Hvort sem stjórnin lafir eða ekki, er sjálfsagt að teknu tilliti til þessa lýðræðis, að Sjálfstæðisflokkurinn fái stjórnarmyndunarumboð skv. kosningaspám. Við eigum eftir að sjá langan tíma, sem tekinn verður við þessa iðju. Ef hann vill ná samstöðu við einhverja núverandi stjórnarandstöðuflokka er um mikið að semja og laga sig að.

Það sem vekur ugg minn mest er, hvaða alvara verði að baki þessara umræðna. Það lítur ekki illa út að fara að leika lýðræðisleikrit, sefjunarleikþætti í nokkrum þáttum fyrir þjóðina, en hyggjast ekki ná árangri til að geta síðan bent á frammaranna sem hina einu lausn. Og þeir láta þá svo lítið að verða við bón sjálfstæðismanna um að slást aftur í hópinn með sín 10% fyrir svona 4-6 ráðherraembætti. Þetta höfum við nú sannarlega séð með sjónarspilinu eftir borgarstjórnakosningarnar í fyrra, þegar sá borgarfulltrúi, sem rétt hosaðist inn í borgarstjórn á örfáum atkvæðum, var gerður einn valdamesti embættismaður borgarinnar og tók þegar til við að búa til vellaunuð embætti fyrir vini sína. Ekki voru þá áhyggjur af lýðræðislegu réttlæti og almennri hugsun að baki þess, hvorki hjá frammörum eða íhaldinu.

Er furða þótt manni sé um og ó. Vandinn verður litlu minni ef stjórnin fellur, þótt þeir hinir sömu geti þá ekki myndað meirihlutastjórn, ef svo skyldi kalla með einn mann yfir. Kaffibandalagið hefur þá vissulega fleiri þræði í hendi sér. En meirihluti þeirra yrði auðvitað jafnnaumur og því erfitt að halda saman slíku apparati, þegar skoðanamismunur dreifist á fleiri flokka. Sjallarnir verða töff. Þeir munu halda stíft við einkavinavæðingu og sölu ríkisfyrirtækja einsog Landsvirkjun, vantrú á opinberri almannaþjónustu (nema utanríkisþjónusunni), oftrú á frumstæðum stóriðjulausnum, malbiksvæðingu landsins ( þjóðveg yfir Kjöl?), einkaeignarréttum á gæðum landsins, sem við höfum hingað til talið sem sameiginlega auðlynd, lénsskipulagi kvótakerfis í sjávarútvegsmálum, verndun efnafólks gegn þátttöku í almannaheill osfrv. Við verðum að geta treyst kaffibandalagsflokkunum til að halda vissri samstöðu, jafnvel þótt aðeins einn eða tveir fari í stjórnina. Kringumstæður fyrir sáttfúsari og lýðræðislegri stjórnarháttum eru nú hagstæðari en fyrr.

Vöndum okkur!


"Við höfum aldrei hafta það eins gott og núna"

Pistill þessi um höfuðmál kosninganna hefur beðið í nokkra daga hjá Mogganum en ekki ná birtingu. Ljóst er að hann breytir ekki heimsögunni úr þessu. Mig langaði bara til að þessar hugsanir lægju ekki í þagnargildi um alla framtíð  og læt þær því flakka nú á ellefuþrítugustu stundu:

Enn hefur í kosningabaráttunni tekist að leiða hug kjósenda frá því. sem mestu varðar  í næstu framtíð í þjóðmálum. Stjórnmálamenn, ekki síst stjórnarliðar, halda á lofti hefðbundunum málefnaflokkum, og því miður virðast blaðamenn ekki hafa hugmyndarflug til að fara út fyrir þann ramma. Og undir tekur almennt andvaraleysi mettrar þjóðar gangnvart þróun samfélagsins og  lýðræðislegum stjórnarháttum, gagnart þjóðfélagslegri samkennd  eða hvort heldur eigi að stefna að samkeppni eða samvinnu.  Það sem undanfarið hefur verið talið til “framfara”, er afturhvarf inní frumskóginn, þar sem óskert yfirráð falla þeim sterkasta í skaut, burt frá þeirri framþróun menningarinnar að draga úr þessari frumstæðu lífssýn og huga að samfélagi, sem byggist á réttlæti og samkennd. Sagt er: “Við höfum aldrei haft það eins gott og núna”. Kjósum bara íhaldið. Brauð og leikir. Íbúar flestra annarra vestrænna ríkja hafa líka “aldrei haft það eins gott og núna”.  Án þess að þurfa að vinna nema um 60% þeirra vinnustunda, sem við þurfum.  Efst á blaði reynast Norðurlönd með sitt rótgróna velferðarkerfi og áhrif jafnaðarstefnu. Þar kemur alþjóðavæðingin við sögu og ekki síst aðild okkar að EES. En alþjóðavæðingin felur í sér vissa tegund arðráns og nýrrar nýlendustefnu og myndar vaxandi ójöfnuð í heiminum. Tvö prósent mannkyns eiga yfir helming allra eigna heims. Hvað getur slíkt leitt af sér þegar til lengdar lætur? Hverjir fara að stjórna heiminum, stjórnmálamenn eða auðjöfrar? Mörgum finnst, að það séu þeir síðarnefndu, og óneitanlega virðist það eiga við hér á landi. Þeir ríku fá undanþágu frá almennum leikreglum samfélagsins, hvort sem er á heimaslóð, t.d. heilu bæjarskipulagi breytt skv. eigin þörfum, eða utanað, sjá álrisa, sem við erum að verða háð í vaxandi mæli. Það er yfirlýst stefna sjálfstæðismanna, að séreignarétturinn sé höfuðinntak stefnu þeirra. Sameign sé til óþurftar, þess sé betur gætt sem er í einkaeign. “Betur gætt” útfrá sjónarhóli hvers? Dæmi: Flutningafélög hafa reiknað út, að arðsemi af strandsiglingum sé minni en af vöruflutningum á landi. Það er hagur hluthafa að þeim sé hætt og flota tröllaukinna flutningabíla sé att útá veigalitla þjóðvegi og þeir eyðilagðir á skömmum tíma. Það krefst auðvitað endurbóta. Hverjir skyldu  svo borga nauðsynlegar endurbætur til að  hluthafarnir geti haldið arði sínum óskertum? Við, auðvitað. Hluthafavernd á kostnað þjóðarinnar.  Þessi trúarbrögð eignaréttarins, hvað sem á dynur, eru að færa þjóðfélag okkar aftur til lénsskipulags þar sem greifar fá hlunnindi úr höndum valdsmanna til að ráðskast með örlög undirdána að vild. Þegar völd eru þannig færð undir eignarétt gefur augaleið, að minna er hirt um lýðræði og jafnvel lög. Valdamenn veita embætti að eigin geðþótta, svipta fólki embættum, leggja niður stofnanir, sem eru ekki þeim að skapi. Yppta aðeins öxlum þótt ljóst sé, að þeir brjóti jafnvel lög með slíku. Þetta höfum við séð. Pupullinn fer gjarnan í taugarnar á þeim með tafsömu skvaldri um veigaminni málefni einsog það, að taka þátt í innrás í fjarlæg ríki. Opinber lýðræðisleg tjáning er barin niður í þessu réttarríki að ósk erlends þjóðhöfðingja (sjá Falun Gong). Það getur orðið fyrirtækjum býsna skeinuhætt að standa sig vel í markaðsleiknum, sem tekinn hefur verið upp hér, ef það skerðir hlut vinavæddra bakhjarlamanna stjórnvalda. Þrálátt stríð gegn öryrkjum og ellilífeyrisþegum hefur verið óskiljanlegt og sennilegast átt sálfræðilegar rætur langt frá allri þjóðfélagslegri pólitík, ekki síst þar sem það kostaði ríkissjóð beinlínis glataðarskatttekjur að viðhalda fátæktargildrunni.  Úrbætur um nokkra þúsundkalla til eða frá eru skammarleg skynhelgi af hálfu fólks, sem rétti upp hönd fyrir nokkru til að tryggja sér lífeyrisréttindi langt umfram okkur öll og enn fyrr til að hækka við sig laun svo um munaði. En mergurinn málsins er í mínum huga, að væntanlegar kosningar snúast ekki síst um innviði velferðasamfélags okkar og alvörulýðræði og hvort eigi frekar að meta, auðgildi eða manngildi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband