Færsluflokkur: Dægurmál

Gleðibankastigið.

Nú er búið að tryggja okkur hefðbundið sæti í Evróvisionkeppninni. Er það ekki nr.16?     

Í fyrra tókst okkur að horfa langt framhjá því lagi, sem að minni hyggju hefði þokað okkur verulega upp listann. Slíkt verður að vísu auðvitað aldrei sannreynt. Þar á ég við ísmeygilegt og sérstakt lag sem Dísella Lárusdóttir söng afburðavel með fiðlu- og tangóundirspili. Öðruvísi. Keimur sem hefði setið eftir í fólki.

Í stað þess var valið fyrirferðarmikið, ”sniðugt”og ágengt lag með Silvíu Nótt, sem skyldi ögra og vekja athygli. Satt best að segja var það þó mun hugnanlegra en lagið, sem valið var í þetta sinn. Nú erum við komin á Gleðibankastigið. Eru ekki allir í stuði?

Það vakti undrun mína þegar dómnefndin hafði sérstakt orð á því við fyrsta flutning lagsins, því til sérstaks hróss, að “hér væri komið ekta júrovisionlag”. Vá. Þarna var það komið. Þrusufjör og miklar umbúðir, hamingjan og fjörið uppmálað á ungt og fallegt fólk, syngjandi og dansandi berleggjað, gömlu hljómarnir, gömlu danssporin, gamli góði stíllinn. Fullkomið Evrólíf.  

Er þetta það frumlegasta sem við höfum að bjóða uppá? Svarið er nei, örfá lög í undankeppninni voru  mun eftirtektarverðari en sigurlagið, m.a. næsta lag (Hóhóhó, we say hayhayhay), sem var fyrir minn smekk meira grípandi, taktsterkara og hljómstríðara, þótt ég ætli ekki að fara nánar útí þá sálma. Grunur minn er sá að þessi sýning gleymist fljótt í keppninni í Serbíu, hún drjúpi hratt oní og blandist súpu “ekta júróvisionlaga” sem mallað hefur um áraraðir í sínu kryddi fjörs og stuðs og allir hafa fengið nóg af. Mönnum kunni jafnvel að finnast þetta bylmingur í tómri tunnu. Því miður.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband