Að "kjósa frá sér" álver

Ég hef átt erfitt með að skilja, hvernig á því stendur, að stofnað skuli vera sérstakt hugsmunafélag um að vernda störf sín í álverinu í Straumsvík, ef svo kynni að fara, að það verði kannski ekki stækkað. Ef ég á poka af kleinum þá sé ég ekki ástæðu til að óttast hungursneyð þótt annar poki bætist við. Ég held mínum. En eitthvað er það sem gerir þetta fólk svona óttaslegið. Er þá auðvitað nærtækast að telja ástæðuna vera hótanir álversmanna um að þeir hreinlega ætli að hypja sig með allt sitt hafurtask ef Hafnfirðingar fara ekki að vilja þeirra. Það væri þá dapurleg staðreynd ef svo er komið, að við Íslendingar séum orðnir svo niðulútir gagnvart alþjóðastórfyrirtækjum, að þau séu farin að setja okkur slíka afarkosti. Hinsvegar kemur þetta ekki á óvart. Þeir, sem hafa leyft sér að fá ekki glýju í augun yfir gylliboðum frá slíkum stórveldum, hafa einmitt fyrir löngu bent á þessa hættu, sem smámsaman getur nartað í fullveldi okkar og sjálfsforráð, ef ekki er staðið á verði. Nú er svo komið hnattvæðingunni, að 2% af jarðarbúum eiga helming allra eigna í heiminum á móti okkur hinum, 98% mannkynsins. Ég held ekki að það vefjist fyrir mörgum, að vald þessara risavöxnu fyrirtækja sé að verða, og sé raunar þegar orðið, öflugra heldur en máttur stjórnvalda í ýmsum þjóðríkjum, jafnvel ekki bara þeirra allra smæstu. Margt bendir til þess, m.a. Hafnarfjarðarkosningin, að þetta kunni að verða þróunin á Ísland. Það á raunar sérstaklega við hér, þar sem stjórnvöld stefna að því að gera þjóðina að heldur frumstæðu framleiðsluríki hráefnis á borð við þróunarríki og legga fjölda eggja, sem aðrar þróaðri þjóðir hafa vísað frá sér, í einu og sömu körfuna. Ég held, að flestir séu sammála um, að hjá þjóðum, sem búa yfir sérstökum auðlindum og treysta makindalega fyrst og fremst á einhverja slíka, verði athafnalíf og efnahagslíf fábreyttara, sljórra og ekki síst snauðara fjárhagslega. En hér hefur allt verið sett í botn til að fylgja fram slíkri smættarstefnu. Auðlind okkar, vatnsorkan, er tekin traustataki í þessu helsta markmiði. Efnahagslífið látið standa á blístri, m.a. til að skapa ákveðinn fjölda verksmiðjustarfa, og krónan þar með sett á flug, einsog fyrirsjáanlegt var, með þeim afleiðingum að mörg fyrirtæki, einkum á sviði hátækni og tölvuhugbúnaðar, lögðu upp laupana eða fluttu út. Það væri afar fróðlegt að fá samantekt á því, hve okkur hefur horfið margt fagfólk á þessum sviðum, sem virkjunarsinnar töldu reyndar að væri að bíta fjallagrös, í staðinn fyrir þau störf, sem skapast á verksmiðjugólfi álveranna. Á sviði hátækni hafa komið fram stórmerkilegar hugmyndir, sem þarfnast mikillar orku, sem við erum búnir að lofa öðrum. Við erum að missa af lestinni.

Víkjum aftur að Alcan. Trúir fólk því að þeir pakki saman ef þeim verður ekki heimilað að spýja tugþúsundum tonna af eiturefnum yfir Hafnarfjörð til viðbótar því sem fyrir er? Er fólk búið að gleyma því, að skv. yfirlýsingu fyrrverandi iðnaðarráðherra bíða menn í röðum eftir að fá að reisa hér álver og til þess orku á spottprís? Var það ekki einmitt forstjóri Alcans ( ég man ekki fullkomlega fyrirtækið) sem lýsti því yfir, að hér væri langódýrustu orkuna að fá. Trúa menn því, að hann sé eins mikill idíót og forsvarsmenn Landsvirkjunar reyndu að gera hann? Trúa menn því að núverandi álver sé óarðbært?

Þeim rökum hefur verið haldið á lofti í stóriðjuumræðunni, að framlag Íslands með því að selja vatnsorkuna á verði, sem ekki má láta uppi en beðið er í biðröðum eftir, sé fólgið í því, að á heimsvísu séum við að fækka álverum, sem nota jarðefni og menga mun meira. Því að dragi úr heildarmengun  . Mér hefur sjálfum fundist þau rök vera gild í sjálfu sér, þótt í mínum huga hafi þau ekki nægt til að réttlæta þær fórnir annarra auðlinda okkar, einsog óspilltasta náttúrusvæði Evrópu, sem með því fara forgörðum. Nú skýrði hinsvegar nafni minn Hannibalsson fyrir nokkru í blaðagrein frá því, að þau orkuver, sem lögð verða niður við flutning hingað, noti einnig vatnsorku. Ég varð sattaðsegja alveg grallaralaus. Enginn hefur orðið til að mótmæla þessu. Hafa þá allar þessar réttlætingar verið byggðar á blekkingum? Lygi? Spyr sá sem ekki veit. En sé þetta tilfellið er auðvitað enn ljósara, að hingað sækjast fyrirtækin f.o.f. eftir vatnsorku á verði, sem aðrar þjóðir eru ekki tilbúnar til að bjóða.

Ég held að mig misminni ekki, að álverið í Straumsvík ætti að komast í eigu þjóðarinnar eftir ákveðinn tíma, og að það eigi einnig við um nýrri álsamninga. Gott væri að fá þetta rifjað upp. Hvað ef við ættum einn góðan veðurdag eitt stykki álver? Arðurinn rynni óskiptur til okkar(teóretískt; auðvitað yrðu þá í raun búnir til kvótar handa vinum og vandamönnum til eignar). Ekkert smáræði. Eða hvað? Þá ber að hyggja að því, að ekki er nóg að búa til ál. Það þarf að selja það, hafa aðgang og helst að eiga sölukerfi, markaðskerfi, flutningakerfi osfrv. Og í hvers höndum skyldi svo allt það vera mitt í allri hnattvæðingunni? Hvað með tvöprósentin? Líklega er ekkert hald í þessum ákvæðum nema ef vera kynni að okkur vanti frekara vöruskemmurými. Og þarna kemur enn fram, hvaða hreðjatök svona alþjóðafyrirtæki hafa á litlum hráefnisframleiðendum einsog okkur. Það er svolítið skrítið, að þeir eru ekki ófáir, sem vilja forðast Efnahagsbandalagið til þess að framselja ekki viss þjóðréttarleg ákvæði, en að það skuli þá gjarnan vera sama fólkið, sem hefur engan bifur á því að framselja sjálfstæði til fjölþjóðlegra stórfyrirtækja. 

Einn af sorglegri atburðum síðari ára var í mínum huga að sjá Reyðfirðinga fagna nánast í þjóðhátíðarstemningu framkvæmdum við Kárahnjúka, veifandi fánum álfyrirtækis. Ég vona, að Hafnfirðingar standist hótanir og stórbokkaskap og stigi ekki samskonar dans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband