Davíð og Adam.

 

Eitthvað var ég að ráfa um á breiðbandinu þegar ég rakst á samræðu fjögurra manna, sem allir kepptust um það að vera sammála. Mín fyrstu viðbrögð voru, að þetta hlyti að vera  Omega-stöðin, þar sem aldrei er brugðið útaf hinni einu og sönnu  trú. Þó sá ég fljótt af skelfilegu veggfóðri sem umlukti fjórmenningana, og heyrði af ræðu þeirra, að þarna voru saman komnir rétttrúarmenn í stjórnmálum, sem höfðu svipaða lífsýn og Omega-menn. Svarthvítt sýn. Einsog Bush jr. sagði, að þeir, sem samþykktu ekki gjörðir Bandaríkjamanna í einu og öllu, væru óvinir þeirra. Hjá fjórmenningunum ( Ingvi Hrafn, Árni Mathiessen, Hallur Hallson og Jón Kristinn Snæhólm) ríkti sú sýn, að þeir, sem væru ekki fylgjendur Flokksins, væru kommúnistar. Á því plani var umræðan og hin mikla samstaða fjórmenninganna. Þeir áttu í engum vangaveltum um það, að á tíma stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins sl. 18 ár hefur flest farið úrskeiðis fyrir okkur. Kvótakerfið og sérstaklega lénsherraskipulag þess er að sigla sjávarútveginn í kaf af þeim, sem taldir höfðu verið bezt til þess fallnir að gæta auðlindarinnar skv. kennisetningum nýfrjálshyggjunnar. Sömu örlög hlutu viðtakendur bankaeinkavinavæðingarinnar, einsog við finnum svo harkalega fyrir um þessar mundir. Kárahnjúkavirkjunin er óðum að verða að allsherjar klandri. Strax í byrjun gerðu margir sér grein fyrir að hún myndi varla bera sig. Það eina, sem við myndum bera úr býtum væru skattar af tekjum álfyrirtækjanna. Mestur hlutinn færi strax úr landi. Þetta er ekki nefnt, þegar verið er að telja upp útflutningstekjur okkar nú. Rafmagnsverð er tengt heimsverði á áli. Það hefur nú lækkað um helming, og spár segja að álnotkun muni fara minnkandi í heiminum.

Nú er svo komið að bjargræði okkar skuli liggja í hugmyndaauðgi og hugviti gáfaðrar og vel menntaðrar þjóðar í líki sprotafyrirtækja af ýmsu tagi. En þetta er einmitt valkosturinn, sem andmælendur stóriðjuframkvæmda vildu leggja áherzlu á strax í upphafi í stað hugmyndafátæktar og staðnaðrar einsleitni í atvinnuvegum. Við erum sem sagt búin að fara einn heljar krók, kostnaðarsaman, mengandi og landeyðandi og erum komin aftur á upphafsreit og varla það. Það var, og er, kallað "að vilja ekki framfarir".

Ekki skal þagað um það að eitthvað vafðist fyrir hópnum að hve miklu leiti græðgi hefði átt þátt í falli frjálshyggjunnar. Ekki var unnt að útiloka að hún hefði kannski komið við sögu í þessu öllu, bara pínupons, en ekki meira en svo, að hún verði auðveldlega upprætt á næsta flokksþingi. Einsog unnt sé að skilja að frjálshyggjuna og græðgi! Stefna, sem byggist á sérhyggju og síngirni, eiginhagsmunapoti og eigingirni, getur ekki annað en falið í sér græðgi einsog planta, sem vex og verður stór og mikil, en er eitruð í kjarnanum. Fall stefnunnar á sér þannig stað aftur og aftur einsog við höfum upplifað mörgum sinnum. Ójafnræðið og ranglætið er líka innifalið. Frjálshyggjumenn eru sjálfir ekkert feimnir við að nota orðið "eigingirni" um drifkraft stefnunnar. Sjálfur Adam Smith reyndi ekki að halda því fram að stefnan fæli í sér einhverja félagslega réttlætiskennd, hvað þá humanisma. Markaðurinn sé vettvangur gróðasóknar og ekkert annað, en hann lumaði samt á einhverri "ósýnilegri hönd", sem mundi sjá um að réttlætis yrði gætt. Þessi hönd er enn ósýnileg enda virðist hún visnuð fyrir löngu síðan. Og Adam greyið virðist hafa horft framhjá breyzkleika mannskepnunnar varðandi kenndalífið og þarmeð framhjá því hve gróðafíkn er ánetjandi og þarf einsog hver önnur fíkn æ stærri skammta. Svo að þessi Adam var ekki lengi í Paradís frekar en nafni hans forðum.

Ég er hins vegar viss um að mínir menn eru glaðir núna yfir einbeitni og ósérhlífni í þeirra manni, þegar hann hunzar vilja "réttkjörinnar" ríkisstjórnar ( orð sem svo oft er notað yfir flokkaræðið á Íslandi) . Hann er búinn að eiga svo ofurbágt, þetta milda skinn. Þessi Íslandsmeistari í einelti og valdbeitingu í embættisgjörðum sínum gagnvart öðru fólki, sem flestir þekkja vel, er nú lagður í einelti sjálfur og hefur verið í fimm ár frá því Ingibjörg Sólrún hélt sína frægu ræðu í Borgarnesi, þar sem hún skaut nokkuð föstum skotum á skotgrafarhernað og skilyrðislausa flokkshlýðni stjórnmálanna og undirlægjuhátt og lagði til að stjórnarfar byggðist á umræðu og samvinnu. Ræða þessi lagðist algerlega á sinnið í Sjálfstæðismönnum, fæðin á Ingibjörgu jókst enn með síendurteknum árásum í ræðu  og riti. Einelti hvað?

Mínum mönnum við ljóta veggfóðrið var mikið niðri fyrir um þessar hremmingar síns sára foringja. Þeir hófu enn upp sönginn um að hann hefði séð fyrir allt hrunið fyrir löngu síðan. Þó liggur fyrir að í ræðu í aprílmánuði sl. hefði hann ekki haft neitt útá fjármálakerfið að setja nema síður væri. Nú segir Davíð, sem ekki vill rýma stólinn sinn vegna þess að bankinn hans á að vera algjörlega frjáls undan pólitískum áhrifum (!!), að hann hafi séð hættuna fyrir sl. 3-4 ár. En Jóhanna Sigurðardóttir, sem nú er búin að vera forsætisráðherra í rúma viku, hafi ekki hreyft litla fingur.  Gerum eitt augnablik ráð fyrir því, svona til gamans, að hann segði satt. Hverjum hefði þá staðið nær að hreyfa litla fingur en einmitt þeim, sem af speki sinni sá alla hættuna fyrir? Hefði ekki forsætisráðherranum, Geiri Haarde, staðið nær að lyfta fingri í stað þess að halda sífellt fram að engin ástæða væri til þess að hafa áhyggjur eða rasa um ráð fram? Eða sjálfum sjáandanum, DO?  Eru það ekki hrein embættisglöp að hreyfa ekki fingurinn? Láta hann t.d.tifa um farsímann sinn til símtals við viðskiptaráðherra Íslands, en það kom fram í tengslum við krakkið að þeir hefðu ekki talað saman í heilt ár?

Ekki vantar að hann hafi haft vettvang til þess arna. Einn bezti vinur hans og spilafélagi var í stjórn Landsbankans, og þar að auki var samflokksmaður hans, fyrrverandi Alþingisforseti, formaður stjórnar bankans. Hefði það nú ekki verið sjálfsagður vinagreiði á huggulegu spilakveldi að vara spilafélagann við í stað þess að láta hann og þingforsetann verða að æ meiri óráðsíumönnum unz yfir lauk? Og nú borgum við brúsann.

Í raun er kannski þrátt fyrir allt lítill munur á þessum ágætu fjórmenningum og Omega-stöðinni annar en veggfóðrið.

 


Landráð?

 

 

 

Mig rak í rogastanz þegar ég heyrði ummæli Geirs Haarde um stjórnarslitin og hans skýringu á þeim. Ekki átti ég von á því að hann, sem flestum er heldur hlýtt til, þrátt fyrir allt, skuli leggjast svona lágt að gefa upp hatur "á einum manni" sem einu ástæðuna fyrir stjórnarslitunum. Þetta er komið á sandkassastigið. Það gefur hinsvegar í raun vísbendingu um hvað hann sjálfur telur aðalágreiningsefnið stjórnar hans í að leiða þjóðina uppúr nýfrjálshyggjufeninu: að halda fast í óbreytta stjórn Seðlabankans hvað sem tautaði eða raulaði. Þar er í forystu hinn "eini maður". Það nálgast greinilega trúarspjöll að ætlast til að hann taki á sig einhverja ábyrgð á ástandinu. Meiri hluti þjóðarinnar hefur hinsvegar margsinnis og sýnilega borið fram þessa kröfu, svo hafa hagfræðingar innlendir sem erlendir einnig tekið undir og lýst yfir undrun sinni yfir aðgerðarleysinu og jafnvel haft það að háði. Það er alveg ljóst að traust meðal annarra þjóða verður ekki endurheimt nema breyting verði á stjórn Seðlabankans. Svo að hatursmenn Davíðs Oddssonar eru býsna margir. Og "eineltið" býsna útbreytt. Ef slímseta hans hefur á annað borð  verið mesta ágreiningsefnið í síðustu stjórn, þá vegur alveg örugglega mest í stjórnarslitunum sú staðfasta tregða forsætisráðherrans að taka til í Seðlabankanum. Einhvernveginn finnst manni jafnvel að ofangreind greining Geirs komi beint úr Dimmuborgum. Og spunameistarar flokksins hafa greinilega tekið þennan kúrs. Það á ekki við að krossfesta frelsarann. Hann var hinsvegar ekki þekktur af því að fara mjúkum höndum um þá, sem voru honum ekki að skapi.

Nú hefur Hannes Hólmsteinn tekið undir þessa hjákátlegu afstöðu, þessa tilbeiðslu og um leið þann hroka að seðlabankastjóri eigi ekki að vera seldur undir gagnrýni eða ábyrgð. Hann eigi ekki að lúta reglunum. Ég sem hélt að H.H. væri ögn faglegri í hugsun, þrátt fyrir allt. Hann hagar sér nú einsog unglingur á þrjóskuskeiði og níðir land sitt og íbúa þess hástöfum erlendis með greinaskrifum. Þessi framkoma hans á þeim tímum, þegar okkur ríður á að endurheimta snefil af trúverðugleika um allan heim, finnst mér ekki eiga langt eftir í það að geta talizt landráð.


Heilarok um nýja stjórn

 

Sem áhugamaður um utanþingsstjórn er nánast óhjákvæmilegt að láta hugann reika um fýsilega einstaklinga til að taka þátt í slíkri stjórn. Það gæti kannski komið skrið á aðrar hugmyndir og mótað ramma þeirra.

Því læt ég flakka þessa niðurstöðu eftir heilarok, sem ég varð fyrir. Svona í hálfgerðu gamni. Ég geri mér fulla grein fyrir því að sjóndeildarhringurinn er ekki stór með kynslóð af eldra taginu.

Gert er ráð fyrir að hver um sig fái umráð yfir ríkjandi embættisráðuneytum þar sem vissuleg eru mikil þekking og reynsla til staðar.

Spurning vaknar hvort svona stjórn eigi ekki að hafa lengri tíma en fram í maí nk.

 

Herdís Þorgeirsdóttir (forsætisrn)

Jón Ormur Halldórsson (utanrrn)

Vilhjálmur Egilsson (fjármrn)

Björg Thorarensen ( dómsmrn)

Ómar Ragnarsson (Umhvrn)

Svanlaug Svavarsdóttir (samgrn)

Þorvaldur Gylfason (viðskiptarn)

Jón Björnsson, sálfræðingur ( félagsmrn)

Halla Tómasdóttir(landb.sjávarútvrn)

Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir (heilbrrn)

Rannveig Rist (iðnaðarrn)

Páll Skúlason og Björk Guðmundsdóttir koma sterkt uppí hugann.


Hvað nú?

 

Eitt er að mótmæla og krefjast breytinga. Annað er að tryggja að þær breytingar séu skilgreindar í höfuðdráttum  og eigi sér raunverulega stað. Mér hefur fundizt að áhuginn á að komið sé á uppstokkun í samfélaginu sé svo mikill að stundum gleymist að horfa á framhaldið. Það er látið sem svo að höfuðverkefnið sé að losna við alla stjórnendur á þeim forsendum að þeir hafi gert allt vitlaust og horfið að einhverju leyti framhjá þeim staðreyndum hversu ógnarmikill sá vandi er, sem við horfumst í auga við. Hann hverfur ekki þótt nýtt fólk setjist við stýrið. Reynslan hefur sýnt okkur að það hefur greinilega ekki orðið okkur til góðs að segja bara: við borgum ekki. Varla verður það auðvelt að skila bara láni AGS, takk fyrir.  Í Kastljósinu í vikunni spurði Geir Haarde Steingrím J. Sigfússon beint út hvaða aðrar lausnir hann sæi fyrir sér.  Þeim síðarnefnda vafðist þá meira tunga um tönn en maður á að venjast hjá þeim manni.

Ég er heldur ekki þeirrar skoðunar að núverandi stjórn hafi ekki gert margt til að lina þjáningarnar, t.d. félagslega. T.d. hefur mér hugnast hvernig Atvinnuleysisjóði er gert kleyft að styðja við atvinnuvegina, eða tilraun til að frysta afborganir. Engu að síður finnst mér að nýtt fólk eigi að taka við. Viðbrögð hafa verið alltof hæg og lengi vel nokkuð tilviljunarkennd og á þeim lítill leiðtogabragur. Þannig er það með ólíkindum að nánast skynja það að stjórninni sé stjórnað frá Svörtuhömrum. En umfram allt þarf að fylgja eftir þeirri hugarfarsbyltingu, sem þyrlast nú um samfélagið, um Nýtt Ísland, nýtt lýðveldi, með grundvallarbreytingum. Til þess er gamlir stjórnmálaflokkar ekki ýkja nytsamlegir. Nú þarf fyrst og fremst fagmennsku til að kljást við efnahagsvandann og í annan stað valinn hóp til að búa okkur nýtt stjórnkerfi, nýtt lýðræði. Ekkert minna.

Valkostirnir eru þessir:

          

  • 1. Framhald ríkjandi flokkakerfis skv. síðustu kosningum með ýmsum uppstokkunum og flokkapúsli uppá gamla mátann.
  • 2. Minnihlutastjórn.
  • 3. Þjóðstjórn
  • 4. Utanþingsstjórn.

Um fyrsta valkostinn hef ég þegar úttalað mig. Ekkert tryggir það að ekki verði bara hjakkað í gamla fari flokkaskipana og beðið verði endalaust eftir hinu og þessu flokksþinginu.

Annar valkostur er raunar afsprengi af hinum fyrsta. Og með sama hætti er ekki sennilegt að flokkar geti lyft sér uppá heiðan hlutleysistind, þegar kosningar eru svo á næstu grösum. Erfitt verður þá að líta framhjá hinni klassísku togsreytu milli hagsmuna þjóðarinnar og hagsmuna flokksins. Sú tilhneiging er mikil að túlka þá veröldina á þann veg að það sem sé gott  fyrir flokkinn sé raunar gott fyrir þjóðina.n Það vilji bara svona til.

Þriðji valkosturinn virðist vinsælastur skv. skoðanakönnunum. Sem er í sjálfu sér merkilegt. Valdabarátta flokkræðisins hefur fengið frí. En ég hef ekki trú á því að það auki snerpu í fangbrögðum við kreppuna, nema síður sé. Flokksviðjur muni halda fast, skoðanir, sem þarf að samhæfa, mjög margvíslegar

Mér finnst fjórði kosturinn bestur. Hann uppfyllir kröfur til fagmannlegra vinnubragða, ef valið er fólk sem bezt er hæft hver á sínu sviði og hinsvegar fólk með ferska hugmyndafræði. Oft kennir þess misskilnings hjá þingmönnum, að með því að "þjóðin hafi valið þá til forystu", þ.e.a.s. valið flokk viðkomandi, geri þá að sérstökum sérfræðingum í hverju sem er. Reifaði ég þennan kost í síðasta bloggi og hafði hugmyndir um vinnubrögðin, m.a. um vinnuhóp til að semja nýja stjórnarskrá, en slík grúppa mun nefnast stjórnlagaþing.Nú er komin fram hreyfingin Nýtt lýðveldi, sem stefnir nákvæmlega í þessa átt. Gaman. Nú er verkefnið að afla þessari hugsun fylgis svo að óvenjulegt tækifæri renni okkur ekki úr greipum.


Hvað tekur við?

 

Nú þegar endalok þessara stjórnar virðast í augsýn verðum við að vita hvað við viljum að taki við. Fyrir nokkru fjallaði ég um þann þunga undirstraum í þjóðfélaginu, sem vildi breytingu, verulega uppstokkun á lýðræðislegum viðmiðunum og að draga tennurnar úr nýkapítalismanum (26.11.08).Það er réttilega hamast á Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa mótað "pólitískt umhverfi" til að fóðra þessi ósköp, og Samfylkingin dregst inní þá gagnrýni vegna þess að nú samrekkir hún með honum. Hinsvegar tekst Framsókn að vera algjörlega stikkfrí þótt hún hafi sízt legið á liði sínu við að valda ástandinu.. Kvótinn, vinavæðing, sala bankanna með dæmigerðum helmingaskiptum, brask með tryggingafélög og algjör ofkeyrsla athafnalífs með stórbrotnum virkjunum og kosningaloforðum um 90% lán til húsnæðiskaupa. Afleiðingu alls þessa mátti létt sjá fyrir. Samt sagði þáverandi formaður flokksins um síðustu helgi að Framsókn ætti engan þátt í krakkinu nú! Ekki virðist annað að sjá en að á þeim bæ ríki enn sú skoðun að við séum öll til hópa asnar. Að vísu er komin ný kynslóð til sögunnar hjá þessum flokki, sem gera má töluverðar væntingar til. Það hlýtur samt að þurfa mikið þvottaduft til að hreinsa af sér fyrri sögu og ná upp trausti. Samt kemur hann nú galvaskur til sögunnar og vill standa að nýrri stjórn, takk.

Viðfangsefni næstu framtíðar eru tvenns konar: að vinna vasklega að endurreisn efnahagslífsins og verja heimilin einsog unnt er, og að lappa uppá lýðræðið á afgerandi hátt. Það er ekki óeðlilegt að lítið traust sé fyrir hendi gagnvart stjórnvöldum, sem dormuðu svo dyggilega á vaktinni , til að hreinsa ærlega til í fjármálakerfinu og losa sig úr þeim hugsanaramma þröngrar flokkaskipunar, samtryggingar og valdaskipunar, sem hingað til hefur ríkt. Nýtt Ísland verður varla til ef enn verður látið duga að setja á meiddið nokkra plástra af þeim, sem valsað hafa um þjóðfélagsbygginguna  svo lengi sem elstu menn muna. Hið nauðsynlega traust, sem svo mikið er kallað á, getur varla vaxið nóg, ef gömlu flokkarnir, þ.m.t. Framsókn, eiga enn um að véla.

Mér finnst aðeins utanþingsstjórn koma til greina, hópur fagfólks, sem hefur hvorki hagsmuna að gæta né er bundið ríkjandi "valdstjónar" (BB)  hjá pólitískri elítu. Stjórn þessi á svo að stofna sérstakan vinnuhóp til að vinna að nýrri skipan lýðræðis og nýrri stjórnarskrá. Það gæti hún gert með virkjun og úrvinnslu hugmynda, sem kvikna hjá borgurunum, á einhvern þann hátt, sem ég hef fjallað um í fyrri pistli.    

 


Boða þarf strax til kosninga.

 

Það er augljóst að ríkisstjórnin fékk gríðarlegt verkefni í fangið sl. haust. Verst hvað það kom henni á óvart. Þörf var skjótra aðgerða, og i mörg horn var að líta. Hún hefur gert ýmsa hluti vel til að reyna að lina áfall kreppunnar, ekki sízt á félagslegu sviði. En það er að koma æ betur í ljós hve sukkið var í rauninni mikið, spillingin, viðvaningshátturinn, andvaraleysið og svo morkið lýðræði. Og í heild var tekið á vandanum  með lítilli snerpu. Þegar hugsað er í þessu ljósi um dáðleysi yfirvalda fer traustið til hennar að skreppa saman.

Margir fræðimenn hérlendis og erlendis hafa gefið ríkisstjórninni falleinkunn. Allt frá falli Glitnis hafi viðbrögðin verið röng og tilviljanakennd. Flestir telja að þar skipi seðlabankastjóri veglegan sess. Komið hefur t.d. fram að Kastljósviðtalið fræga hafi verið baneitrað. Menn gera bara grín að honum. Erlendir sérfræðingar stinga uppá því að gera hann að sendiherra á sætri Kyrrahafseyju hið snarasta. Það virðist ljóst að traust til okkar verður ekki vakið upp fyrr en fenginn er nýr fagmaður í stólinn hans. Eða jafnvel bjóða honum mannsæmandi eftirlaun, sem hann kom sjálfur á sér til handa. Hann virðist hafa þau tök á flokksmönnum sínum og jafnvel fleirum, að enginn þorir að stjaka við honum. Sá þungi ótti í samfélaginu, sem einkenndi ofríkisstjórn hans og fældi margan manninn frá gagnrýninni umræðu, virðist enn vera á kreiki. Þá mætti í leiðinni spyrja, hvort það myndi vera liðið í öðrum sk. lýðræðisríkjum að embættismaður neiti að gefa þingnefnd þær veigamiklu upplýsingar, sem hann kveðst búa yfir.

Svo er það silagangurinn í myndun rannsóknarnefndar Alþingis, sem varla getur verið fær um að brjótast í gegn um varnarvirki kumpánavaldsins án þess að fá utanaðkomandi, óháðan sérfræðing í lið með sér. Og nú hefur verið ráðinn rannsóknardómari, sem reynist vera sérlega handpikkaður af ríkisstjórninni. Ætli hann þori? Hversvegna hafa aðrir ekki sótt um? Traust?

Málið er að ríkisstjórnin getur ekki talizt hafa umboð lengur. Allt þjóðfélagið, forsendur stjórnmálanna og viðhorf borgaranna hefur gjörbreyzt. Nýir tímar eru að renna upp. Stjórnin ætti að þekkja sinn vitjunartíma og bregðast við þessum miklu, djúpu hræringum, sem eru að myndast meðal þjóðarinnar. Hún hreinlega vill nýja byrjun, nýja stjórnskipun. Það gerir stjórnin aðeins svarað þessari hreyfingu með því að víkja til hliðar og boða til kosninga næsta vor. Slíkt myndi skerpa sköpunarmátt, sem núna er að leysast úr læðingi, mikla þátttöku og nýjar hugsanir. Í síðasta bloggi mínu kom ég fram með hugmyndir um netþing fyrir ferskar hugsanir og úrvinnslu. Um þessa sömu hugmynd hefur átt sér stað góð og lífleg umræða á Eyjunni. Allir eru kappsfullir. Hópar eru að myndast, nýir flokkar geta orðið til eða jafnvel endurfæðing þeirra gömlu einsog e.t.v. í Framsókn ( ég hef reyndar tjáð mig um efasemdir mínar um það að veita hugsjónum sínum um æðar gamalla flokksleifa Framsóknarflokksins).  Næstu kosningar munu snúast um algjörlega ný grundvallaratriði. Og þessutan um viðhorf til EB. Það er í mínum augum óttalega lítil snerpa í því að bíða eftir flokksþingi Sjálfstæðisflokksins og leyfi frá honum til að KANNA málið.

Það er fráleitt að ætla sér að bíða í tvö ár til að veita þessum nýju kröftum brautargengi. Ekkert er eðlilegra en að gera sér grein fyrir þessum gjörbreyttu, nýju kringumstæðum, horfast í augu við stöðu sína eftir 100 daga kreppu og víkja.

Á meðan fram til kosninga í vor þarf að koma á þjóðstjórn fagmanna, sem ekki þurfa að bíða eftir flokksþingum til að taka ákvarðanir.

 

 

 

 


Er Framsókn í framsókn eða bara í heimsókn?

 

Það er segin saga að eins manns dauði er annars brauð. Uppúr hræi Framsóknarflokksins virðist vera að spíra nýtt grænmeti, nýjar jurtir. Fólk keppist við að tilkynna þjóðinni, að sé sé gengið í Framsóknarflokkinn. Það finnst mér eiginlega verið skýrasta tákn um að þeim flokki hefur í núverandi kreppuástandi og uppljóstrun um spillingu tekizt furðuvel að stikkfría sig af ábyrgð á  því öllu og koma fram sem nýpúðraðir barnarassar, saklausir og hneykslaðir. Fáum dylst samt að Framsókn undi sér ákaflega vel með Sjálfstæðisflokknum og tók fullan þátt í helmingaskiptum stjórnmálanna einsog löngum fyrr. Þeir hafa svamlað í miðjunni og opnað faðm sinn í allar áttir eftir þeim tækifærum, sem buðust hverju sinni. Það var kallað að vera opinn í báða enda. Jafnvel klofinn í báða enda. Þeir fengu sinn skerf af sölu bankanna á sínum tíma, ráðskuðust mjúklega með Samvinnutryggingar og græddu stórum og réðu flokksfólk til hægri og vinstri í lykilstöður. Íslenzk alþýða virtist fara jafnt í taugarnar á báðum foringjum stjórnarflokkanna í ofríkisstjórninni síðustu. Fyrr stóðu þeir saman um kvótagjöfina til vina og vandamanna. Það hefði áreiðanlega orðið saga til næsta bæjar í öðrum löndum, að sjávarútvegsherra annars lands hefði staðið að löggjöf, sem hann sjálfur og hans fjölskylda hagnaðist á í þeim mæli að eftir það var farið að tala um milljarða hér á landi. Spásserandi saman tóku formenn stjórnarflokkanna tveggja ákvörðun einir sér að fara í stríð við Írak. Með öðrum orðum: Framsóknarflokkurinn átti sannarlega sinn mikla þátt í pólitísku sukki hér um ára og áratuga skeið.

Mér finnst það sæta furðu að t.d. Jónína Benediktsdóttir skuli vilja ganga í hjólförin eftir  Finn Ingólfsson, sem hún hafði engar sérstakar mætur á og virtist vita töluvert margt gruggugt um, þann klækjaref. Ég kann vel við Jónínu. Hún er skelegg, hefur eldmóð og dugnað og er baráttuglöð. Það er áreiðanlega verulegur akkur í henni í flokksstarfi. Ég er reyndar búinn að bíða í mörg ár eftir bók, sem hún sagðist vera með í smíðum um stjórnmálasvínaríið, ekki sízt um Finn Ingólfsson, sem hún væri að rannsaka og ætlaði að opinbera. Þá myndi margt misjafnt koma í ljós. Fyrir tveimur til þremur árum kom loks út bók. Skáldsaga. Ég var soldið forvitinn og kíkti í  hana í bókabúð. Tilviljun réði því að ég opnaði einmitt á lýsingu á endaþarmsmökum. Í sjálfu sér er ekkert sérstakt að því, lífið er nú margslungið og spennandi. En ekki var þetta það, sem ég var að bíða eftir. Og þó? Var þetta kannski sýmbólsk lýsing á því hvernig Framsóknarflokkurinn hefur tekið þjóðina í öll þessi ár?

Ekki meira um það. Nú hafa fleiri heimsótt Framsókn, væntanlega til langdvalar. T.d. Jón Sullenberger, Guðmundur Steingrímsson, Sigmundur Gunnlaugsson. Og hin Jónínan, Bjartmarz, er farin að skrifa greinar.Þetta eru flest líklega sómapersónur, en ég skil hreinlega ekki af hverju þau ganga ekki hreint til verks og stofna með sér nýja og ferska hreyfingu. Ég er sannfærður um að hún væri líkleg til að fá meira brautargengi en gamli flokkurinn, þótt þau bæti sennilega ástand hans töluvert. Það er öruggt, að gamla gengið, flokkseigendafélagið, mun bregðast hart við og beita öllu, sem það má til að tryggja völd sín og hagsmuni. Flokkurinn er líklegur til að verða illa klofinn í annan endann. Bjarni Harðarson gaf örlitla innsýn inní hagsmunagæzlu foringjanna, þegar hann hvarf af Alþingi (illu heilli). Ég er sömu skoðunar og bloggvinur minn, Gunnlaugur B. Ólafsson, um líkleg mótív þessa fólks, og væri það ekki í fyrsta skiptið. Gunnlaugur segir ( án hans leyfis ): "En er það ekki einmitt framsóknarmennskan í hnotskurn eins og hún hefur birst síðustu áratugina. Enginn hugmyndatengdur metnaður, engin lífsýn, en einungis útreiknað mat á því hvað sé stysta leiðin í völd". Að vísu held ég ekki að hér sé ekki um neina lífssýn að ræða.

En það veldur mér töluverðri depurð að sjá  ágætisfólk ætla að sigla gamla, feyskna fleyinu undir nýjum seglum en með lík í lestinni.


Að spúla dekkið

 

          Fyrir rúmum mánuði nefndi ég í bloggi, að nú liggi í loftinu einhver ára breytinga, róttæks endurmats og sköpunar til nýs þjóðfélags. Kreppan hefur löðrungað okkur það duglega, að af okkur hefur runnið sljóleikinn, gamalt nöldur um skavanka þess þjóðskipulags, sem ríkt hefur hér. Það var einmitt afgreitt sem nöldur og neikvæðni og það "að vera á móti öllu"; nú verður þetta allt í einu partíhæft og nothæft til einhverrar umhugsunar. En spurningin er í hvaða farveg sé unnt að veita hugmyndum og hvar, hvernig og af hverjum ætti að vinna úr þeim. Og hvernig á yfirleitt að halda þeim á lofti og gangandi í stað þess að lenda í enn einni skúffunni.

         Fyrst eftir krakkið stóra var ég ekki í slíkum vígahug að heimta strax nýjar kosningar. Mér fannst stjórnvöld hafa í nógu að snúast og yrðu að fá ráðrúm til að bregðast við, hvað þau væntanlega gerðu af öllu afli og beztu getu. Nú eru þau búin að fá töluverðan tíma. Undanfarnir þrír mánuðir hafa verið með ólíkindum. Maður hefur verið í mestum vandræðum með hvar eigi að stilla tilfinningastrengi sína; hatur, reiði, örvæntingu, kapp, samstöðu, nornaleit, ótta.....Það hafa verið mestu vandræði að vakna á morgnana. Fréttir hafa haugast upp, flestar vondar. Vill maður flýta sér að meðtaka þær eða bíða pínupons? En þá kemur einmitt eftirvæntingin eftir nýjustu fréttum, vá, það er alltaf eitthvað í gangi. Maður ánetjast á þetta.Umfang umsvifa útrásarvíkinganna reyndist svo tröllslegt að ma,-ma,-ma bara á engin orð. Hið sama á við um hið spillta stjórnkerfi, sem við höfum búið við. Og dáðleysið! Tilefni til grundvallarbreytinga verður æ brýnna. Nú þarf aldeilis að spúla dekkið!

         Mikið talað um að allt eigi að verauppiáborðinu, veltahverjumsteini, gegnsæi og traust. Ósköp hefur nú gegnsæið verið í mikilli móðu. Og þarmeð traustið. Seinagangur og klúður er það sem mér finnst einkum vera uppi á mínu borði. Og hugmyndafátæktin. Ég leyfi mér t.d. að fullyrða, að tilurð hinnar fínu rannsóknarnefndar Alþingis sé til þess fallin að rýra stjórnvöld trausti. Af hverju kom hún svona seint? Eiga þessir þrír karlmenn, yfirleitt með óljós tengsl við kerfið, að velta við öllum þessum steinum? Eiga þeir að hafa afl og þor til að setja sig upp á móti spillingarnetinu? Ekki þarf að efast um það að það muni berjast um með kjafti og klóm og beita öllu sínu valdi, sem liggur víða. Ég er sannfærður um að samstaða og traust fari útí veður og vind, ef ekki eru fengnir alvöru fræðimenn og bankamenn, sumpart erlendis frá og hafi engra hagsmuna að gæta sér og sínum til handa, til að annast þessa rannsókn og stýra henni. Skipanir í rannsóknarstöður og t.d. endurskoðenda endurskoðenda bankanna hafa verið meiri háttar hallærislegar.Hið sama gildir um þá sem enn sitja yfir bönkunum sínum. Og skorturinn á allri kynningarstarfsemi um stöðu landsins hefur verið ótrúlega slöpp.

         Nú er komið nóg af þessu dáðleysi. Ekki finnst mér það röggsamlegt að láta þar við sitja, að umdeildasti maður landsins, tolli sem fastast yfir Seðlabankanum. Ekki er það traustvekjandi. Né það að bíða bara og bíða eftir landsfundi Sjálfstæðismanna. Og sízt er það röggsemi að láta sér nú detta í hug að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort stjórnvöld megi yfirleitt náðarsamlegast fara að tala við EB og kanna undirtektir. Svo að síðan liggi eitthvað alveru mál til að kjósa um. Svona tafpólitík sýnir einmitt hve mikil áhrif ákveðnir hópar innan Flokksins hafa.

En hvað þá með farveg nýrra hugmynda og úrvinnslu þeirra?

          Nú ku sitja að spjalli nefnd á vegum forsætisráðuneytisins sem  á að gera tillögur að breytingum á stjórnarskránni. Mun vera nokkuð þaulsetin. Ekki hefur frétzt mikið um það hvað hún er að bauka með grundvallargildi okkar sem þjóðar, hvað hún er eiginlega að fást við né hversu víðtækt umboð hún hefur í veganesti frá upphafi. Og hvenær og hvernig hefur átt að kynna þetta þjóðinni og hvernig á hún að fá að tjá sig um málið?

          Ég er nokkuð sannfærður um að ekki hefur staðið til að gera breytingar umfram blæbrigða, nema kannski eitthvað til að rýra vald forseta til að vísa málum, sem orka tvímælis, aftur til þjóðarinnar.

         Nú fer aftur á móti yfir bylgja nývaknaðs stjórnmálaáhuga og gagnrýni á útfærslu lýðræðis hér. Fólk er farið að sjá galla flokkalýðræðis eða framkvæmd ráðamanna í hinu þrískipta valdi, en það er einmitt mál sem ég hef þusað um á síðum þessum. Fólk vill alvörubreytingar og ferskar hugmyndir. Þetta á ekki að vera viðfangsefni aðeins örfárra manna, sem mjög líklega eru með einum eða öðrum hætti reyrðir í hefðbundið hugarfar um völd og lýðræði. Hvar er meira viðeigandi að nota lýðræðislegar aðferðir en við umræðu og skoðanaskipti um sjálfa stjórnaskrá Íslands? Því fleiri sem geta tekið þátt og komið hugmyndum sínum á framfæri, því betra er lýðræðið.

            Þetta má gera með tölvusamskiptum. Opna ætti spjallvef um þetta málefni. Að baki honum stæði Stjórnarskrárráð, sem í gætu setið t.d. þjóðréttar-, þjóðhags- og lögfræðingar, og heimspekingur, tilnefndir af háskólunum, fulltrúar Dómarafélagsins, kirkjunnar, þingflokka og ráðuneyta (jöfn kynjaskipti). Slíkur hópur velji sér framkvæmdastjórn  (þriggja manna?), sem stýrði umræðuferlinu og tæki saman þolanlegar niðurstöður til sáttar og niðurstöður skoðanakannana, sem gera mætti á vefnum um einstök málefni jöfnum höndum. Aðrir í ráðinu störfuðu með sem ráðgjafar og sérfræðingar og tækju fullan þátt í þessari samræðu.

            Með slíkri þátttöku "lýðsins"í opnu ferli ("gegnsætt" og "allt uppiáborðinu") gæti Ísland orðið fyrirmynd annarra og þá kannski getað státað af alvörulýðræði.


Hvað þykir “raunhæft” í Ísrael.

 

 Mér hefur verið það ljóst lengi að Ísrael hefur alls ekki í hyggju að semja um eitt eða neitt varðandi Palestínu. Þeirra hugmyndafræði virðist snúast um það eitt að vera herraþjóð á Gamla Palestínusvæðinu og sölsa það undir sig hægt og bítandi. Það sé þeirra réttur, tilkominn frá Guði sjálfum, þessum grimma, hégómlega, afbrýðisama og hefnigjarna Jahve, sem fram kemur í ævafornum flökkusögum, teknar saman um 600 f.K. og gerðar að helgibókum. Sá gamli harðstjóri hvatti á sínum tíma til þjóðarmorða svo afgerandi, að ekkert kvikt mátti lifa af svo að ekki yrði vakin reiði hans og refsingar. Þannig varð Ísrael til á sínum tíma. Þeim virðist sýnilega finnast að enn séu þeir útvalin þjóð og æðri öðrum. Það heimili þeim að kúga Palestínumenn, sem þeir halda sem hersetinni þjóð og gert allt til að gera þeim lífið nánast óbærilegt, auðmýkt þá, hindrað þá í að komast til vinnu sinnar, á akra sína, í skólana sína eða í ferðum milli einstakra svæða þeirra eigin lands. Öll milliríkjaverzlun er háð þeirra eftirliti og reglum. Það er einkar kaldhæðnislegt, að einmitt þessi þjóð skuli búa til stærðar gettó um byggðir Palestínumanna, sem þeir nefna raunar "Palestínuaraba". Þeir tefja samningaviðleitni jafnt og þétt til að leggja undir sig land þeirra með æ fleiri landnámsvæðum á þeirra eigin landi. Þegar horft er á kortlagningu þeirra landssvæða, sem þeir hafa þegar lagt undir sig og merkt eru með rauðu, þá lítur slíkt kort út einsog slæmt mislingatilfelli um allt land Palestínu. Verið er kerfisbundið að búa til nógu margvíslegar Israelsbyggðir til þess að ekki verði aftur snúið, ef einhvern tíma skyldi koma að því að einhvers konar samningar gætu átt sér stað. Fyrir nokkru síðan voru nokkrir landnemar fjarlægðir, en það virðist mér í ljósi þess mikla umfangs landnemabyggða, sem þegar hafa risið, hafa verið smáleikrit til að blekkja umheiminn.

Nú er Ísrael eitt af stærri herveldum veraldar, m.a.kjarnorkuveldi. Í þessu valdi, og í skjóli Bandaríkjanna, telja þeir sig ekki vera seldir undir alþjóðamannúðarlög eða -reglur, ekki heldur undir ályktanir Sameinuðu Þjóðanna og hunza flest slíkt að eigin geðþótta.

Vissulega hafa þeir hendur sínar að verja gegn herskáum Aröbum. En ég held að flestir séu sammála um að öll þeirra viðbrögð séu algert "overkill", í orðsins fyllstu, úr hófi fram grimmdarleg og úr öllu samhengi við tilefnið, sem þeir segjast vera að hefna fyrir. Mottóið virðist vera 100 augu fyrir auga og hundrað tennur fyrir tönn. Fyrir bragðið ögra þeir og kveikja á sér hatur og biturleika, sem sízt eru til þess fallin að skapa andrúmsloft samnings- og sáttavilja. Virðist þetta vera eina aðferðin sem þeir geta hugsað sér til að komast að niðurstöðu;  ofbeldi og hernaðarmáttur. Svipar þeim þá til verndara sinna, Bandaríkjamanna. Oft er haft á orði að "þeir hafi rétt á því að verja sig" t.d. hjá Bush, Condoliza Rice, Hillary Clinton (því miður) og nú nýverið forseta Tékklands. Mér er ekki ljóst hvað kúgun og niðurlæging Palestínumanna hafi með landvarnir að gera. Eða t.d.þétt breiða klasasprengja á stóru svæði í Líbanon, sem þeir gættu eftir misheppnað stríð að skilja eftir til að sprengja fætur barna um mörg ókomin ár.

Ísraelar hafa sérstaklega þjarmað að Gazabúum. Þeir hafa orsakað matar-, vatns-, orku- og lyfjaskort, áður en þeir fóru að bombardera. Þegar ástandið varð æ skelfilegra undir árásum Ísraelsmanna var þess farið á leit að gert yrði 2 daga hlé á ódæðisverkum   gagnvart borgurum til þess að þeir mættu fá lyf, mat og vatn. Þessu svaraði hernaðarveldið og kjarnorkuþjóðin þannig að slíkt væri ekki "raunhæft". Það að unnt sé að hindra það að konur og börn létu lífið, er sem sagt "óraunhæft". Síðasta dæmið um tilfinningaleysið var reifað í fréttum áðan, þegar sagt var frá tilmælum Ísraelsmanna til borgara Gazasvæðisins um að hafa sig á brott til að verða ekki felldir. Landið er umkringt, liggur undir árásum frá landi, lofti og sjó, land sem varla er stærra en Árnessýsla. Hvert á fólkið að flýja?!

Ísrael fylgir ómengaðri kynþáttastefnu og apartheid. Ég minnist þess að hafa heyrt í útvarpi í þeim orðvara manni, Jóni Ormari Halldórssyni, frásögn af viðtali sínu við Olmert, sem nú er enn forsætisráðherra Ísraels og þykir heyra til hógværari arms stjórnmálamanna í þvísa landi. Sagðist Jón aldrei hafa hitt annan eins rasista.

Þegar þjóðernisstefna Suður-Afríku var við lýði var sett á þá viðskiptabann. Voru þeir einangraðir og m.a. útilokaðir frá þátttöku á Ólympíuleikum. Talið er ótvírætt að þessar aðgerðir hafi flýtt fyrir lausn í Suður-Afríku. Það er auðvitað rökleysa að bregðast ekki við Ísrael á sama hátt. Við vitum auðvitað orsökina, og pólitík er sjaldnast rökrétt, sjálfri sér samkvæm eða réttlát.

Engu að síður finnst mér sjálfsagt og brýnt að Ísland sýni í verki að það geti ekki samþykkt kúgun og aðskilnaðarstefnu og slíta þessvegna stjórnmálasambandi við Ísrael.

Ennfremur er svolítið undarlegt að það taki þátt í söngkeppni Evrópu. Þeir eru ekki Evrópubúar. Íslendingar gerðu rétt með því að benda á þetta og tala fyrir því að úthýsa þeim. Við gætum jafnvel losnað sjálf við þátttöku með því að gefa í skyn, að við kjósum að taka ekki þátt svo lengi sem Ísrael sé meðal þátttakenda.

 


Svínaríið rannsakað?

 

Fjallið tók ekki jóðsótt, en loksins varð til örlítil mús. Lengi höfum við nú beðið eftir því að hafizt yrði handa til að  skilja betur tilurð og gang þeirra óskapa, sem eru að dynja á okkur. Og verða sífellt með meiri ólíkindum. Svínaríið virðist miklu meira en flesta óraði fyrir. Fyrir liggur að vinna okkur fram úr þessum óhroða, en til þess að það sé unnt verður að vita hvernig hann gat yfirleitt átt sér stað. Og segjum það bara hreinskilningslega: réttláta reiðina þyrstir að vita hverjir hafa leikið okkur svo grátt.

Því hefur aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart því að slík rannsókn hefjist verið illa þolanleg. Ég gerði dofa viðskiptamálanefndar Alþingis að umtalsefni í síðasta pistli, en henni virðist ekki liggja neitt mikið á að frétta um þýðingarmiklar upplýsingar, sem seðlabankastjóri kveðst luma á og varpa myndu nýju ljósi á allt málið. Sér er nú hver stjórnsýslan á svo örlagaríkum tímum!

Og nú er litla músin fædd án jóðsóttar. Skipa skal nefnd til að fara ofaní kjölinn á allri þessari kollsiglingu. Þrír menn úr innsta kjarna stjórnsýslunnar. Og hún MÁ kalla inn fleiri, jafnvel útlendinga!

Hverjir eru þessir þrír menn? Það eru Umboðsmaður Alþingis, einn tilnefndur af Hæstarétti og einn af Alþingi sjálfu. Svona ekta embættismannatríó. Hin festulega niðurstaða stjórnarinnar getur þessvegna leitt til að þessir verði tilnefndir:

Af hálfu Alþingis:        Björn Bjarnason. Eða að einhver verði sóttur utan þingsins, t.d:

                                Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Af hálfu Hæstaréttar: Jón Steinar Gunnlaugsson

Af hálfu Umboðsmanns: einhver, sem þekkir vel til bankamála, t.d.

                                 Kjartan Gunnarsson.

Meiningin er sögð vera að fara í saumana á spillingu, siðleysi og sofandahætti á æðstu stöðum, ekki bara í fjármálum útrásarvíkinga heldur einnig á þætti íslenzkra stjórnmála. Halda menn virkilega að ekki verði tekið á móti af alefli, hörku og ýtrasta samráði, þegar um getur verið að ræða fólk í æðstu valdastöðum?! Þessi síðbúna mýslufæðing eru doðakennd vanaviðbrögð gamallar rammahugsunar stjórnmálakynslóðar, sem við erum einmitt að reyna að losa okkur við. Sami hrærigrauturinn og fyrr í þessu litla venzlasamfélagi þar sem allir verða að taka tillit til allra, eða......

Að sjálfsögðu á allt frumkvæði þessarar rannsóknar að vera í höndum einhverra utanaðkomandi aðilja, sem engin tengsl hafa og engra hagsmuna að gæta og geta lagzt undir fávísisfeldað hætt Rawls. En ekki bara einhvers, sem þessi blessaða nefnd ákveður.

Allt er þetta hörmulega ótraustvekjandi.

Að sjálfsögðu verður að taka tillit til þess, að stjórnvöld eru að róa lífróður og reyna að bjarga því sem bjargað verður. En það innifelur ekki björgun á einhverjum, sem hafa ekki hreint mjöl í pokanum. Stjórnin hefur því sannarlega nóg á sinni könnu og þarf að fá sitt tóm til að sinna því. Þessvegna væri það að minni hyggju  fráleitt að þyrlast upp í einhvern kosningaslag núna. En jafnfráleitt þætti mér að kjósa ekki næsta vor. Í millitíðinni þurfum við að átta okkur og vinna að nýjum hugmyndum um þjóðfélagsskipun og lýðræði í landinu. Setja á flot nýjar hugsanir, ferskar hugsjónir, lausnir og aðferðafræði. Og þekkja þá þau víti sem varast þarf.

Ég átti erindi í Pennann/Eymundsson til að kaupa erlent fréttatímarit. Það fékkst ekki vegna innflutningshafta. Ég brá mér þá á efri hæðina. Þar er unnt að kaupa ýmsar græjur. Yfirleitt hafa mætt manni strax við innganginn prentarar, faxmaskínur, tölvur, afritunartæki. Nú bar svo við að ekkert af þessu sást. Allt rýmið var fullt af pappírstæturum. Tímanna tákn?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband