Viðskiptamálanefnd Alþingis stykkfrí.

 

Ekki trúi ég því að margir hafi átt von á því að Davíð Oddsson myndi fara að mæta á fund með viðskiptamálanefnd Alþingis til að láta hana rekje úr sér garnirar. Svei mér þá og seisei! Hann þurfti að fara á fund, einhvern annan fund.  Spurning hvað muni tefja hann næsta fimmtudag.

Verra er þó langlundargeð sjálfrar nefndarinnar. Í fyrstu fannst henni í lagi að bíða þess í marga daga fram á næsta reglulega nefndarfund til að frétta af þeim viðtölum, sem munu hafa skipt sköpum fyrir þjóðina, og hann kveðst vita um. Og þegar hann hafði í það skiptið öðrum merkilegri erindum að sinna en hitta þá var bara í lagi að bíða aftur í heila viku til að sjá hvort hann mætti þá vera að því að sinna nefndinni fyrir svona lítilræði.

Um er að ræða mál sem nauðsynlegt er að vita um samstundis. Öll þjóðin, sem enn spáir agndofin í atburðarrás undanfarandi vikna og veit sannarlega ekki hvaðan á henni standa veðrin, á rétt á að fá að vita þetta tafarlaust. Það er ekkert smámál að búið sé að dylgja og gefa í skyn að orsakir ófaranna séu ekki þekktar neinum nema seðlabankastjóra, en honum sjálfum að öðru leyti algjörlega óviðkomandi. Æðsti stjórnandi peningastefnu Íslands heldur fund og ræðu þar sem lítið kemur fram annað en málefni eigin persónu og vörn gegn gagnrýni; hann hafi séð þetta allt fyrir og varað við því og það "sé dokúmenterað". Hvar? Það eina sem ég hef séð skráð er ræða sem hann hélt í apríl sl. þar sem hann mærði stöðu íslenzka fjármálakerfisins.

Hvernig á þjóðin að bregðast við og hugsa um eigin stöðu, þegar henni er sagt blákalt, að hún viti ekkert um málið? Greyið hann Steingrímur J. bar sig illa undan framkomu Breta og hryðjuverkalögunum þeirra á fundi hjá EB. Er hann að vaða villu þar sem hann veit ekki um raunveruleg málsatvik?

Seinagangur og doði nefndarinnar er með ólíkindum. Bíða bara til næsta reglulega fundar eftir viku og sjá þá til. Ástæða er til neyðarfundar. En hér virðist koma skýrt fram hve innræting um auma stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu er innmúruð. Engum dylst að DO er enn tákn þess pólitíska valds og virkur þátttakandi.

 

 


Breyting, eitt orð.

 

Sannarlega má, og á, að virkja þá reiði, sem nú svellur um í þjóðfélaginu. Reiði er afl, rétt einsog streitan, sem virkja má hvorttveggja til jákvæðs sem neikvæðs framtaks, til góðs eða ills. Telja má þá reiði, sem nú ríkir, til "réttlátrar reiði". Líklegt má telja að slík réttlát reiði geti verið notadrýgri til uppbyggilegrar niðurstöðu frekar en önnur, sem nálgast frekar það að vera heiftúðleg.

Förum gætilega með þessa reiði.

Þeir tímar, sem eru nú upprunnir, eru einstakir í sögu lýðveldisins, ekki einungis fyrir þær sakir að blómlegt efnahagslíf og almenn lífskjör hafa dottið á skallann svo um munar, heldur er nú einnig runnin upp stund endurmats á ýmsum almennum lífsgildum og innviðum lýðræðisins sem aldrei fyrr. Ég leyfi mér að vitna í Jón Baldvin Hannibalsson, að "framvegis verður ekkert einsog það var". Látum ekki það tækifæri ganga okkur úr höndum að semja nýjan kafla í þjóðmálasögu okkar. Það verður ekki eins auðvelt og ætla mætti skv. endurteknum yfirlýsingum um að "velt verði hverjum steini", og að þeir verði allir færðir upp á eitthvert víðfrægt borð,sem væntanlega verður úr gleri þar sem allt á að verða gegnsætt. Búast verður við því að á þessu sama borði verði ýmsir olnbogar, sem alveg óvart skjóti steinum útaf þessu margumtöluðu borði. Það væri þá bara gamla sagan. Það lofar strax ekki góðu hversu langan tíma það tekur að gangast í þetta rannsóknarstarf. Hér er einmitt ein breytingin, sem koma þarf á og fylgja þarf eftir með ákveðinni einbeitni.

Ég skal játa, að ég var á báðum áttum hvort rétt væri að staðið, þegar fyrst var boðið til mótmælafundar á Austurvelli. Mótmæla hverju nákvæmlega? Tala fyrir hvaða tillögum nákvæmlega um úrvinnslu og lausnir? Ekkert var boðið uppá  af slíku tagi í fundartilkynningum.

Þetta var auðvitað gamall reflex hjá mér, gamaldags kerfishugsun. Hafi Hörður Torfason þökk fyrir framtakið.

Fljótt varð ljóst, að þessir fundir létu uppi sameiginlegar frústrasiónir og reiði almennings og byrjuðu líka að skilgreina viðfangsefnið. Síðan hefur það runnið upp fyrir mörgum að þjóðfélagið okkar hefði verið afvegaleitt, því búinn þröngur lýðræðislegur stakkur og umræðurammi, sem hefur að töluverðu leyti byggzt á tilbúnum gerfistaðreyndum og bjöguðum sannleika auk ofríkis þeirra, sem setið hafa að kjötkötlunum. Svo var komið, að ég hef sjálfur aldrei talað um síðustu ríkisstjórn öðruvísi en sem "of-ríkisstjórnina".

Krafan um breytingu er því hreint ekki smá í sniðum, en má ekki vera minni. Engin plástrameðferð nú eða þykjustuleiðréttingar með tilheyrandi spunagjammi ráðstjórnarmanna. Um er að ræða alvarlega uppstokkun á viðhorfum og reglum um lýðræðið okkar, stjórnarskipan, réttlæti og sanngirni, en allt þetta hefur verið heldur skörðótt. Breyta þarf merkingu hugtaka og markmiða, sem hefur alltof oft verið einslit og háð klisjukenndri skoðanamótun af hálfu spunafólks .Róttæk endurskoðun stjórnarskrárinnar er brýn umfram það, sem núsitjandi Stjórnarskrárnefnd er væntanlega að fást við. Ég tel t.d. núverandi flokkalýðræði meingallað og hafa leitt til hinna undarlegustu niðurstaðna. Á Alþingi spranga einstaklingar, sem rétt skröngluðust þangað inn, jafnvel á grundvelli kosningaúrslita í fjarlægu kjördæmi, en telja sig réttkjörna fulltrúa þjóðarinnar vegna þess að þeir tilheyra flokki með ákveðna stefnuskrá, sem einhverjir kjósendur hafa greitt atkvæði sitt. Komast jafnvel í  ótrúlega valdastóla af sama tilefni. Hinsvegar telja þeir hinir sömu sig geta skipt um stefnu, gengið í annan flokk, "eiga sig sjálf", og þarmeð ekki vera háða þeirri stjórnmálastefnu, sem þeir voru valdir til, en vera áfram "fulltrúar þjóðarinnar". Þá er alltí einu lýðræðinu og kjósendum gefið langt nef.

Auka þarf valmöguleika um einstaklinga, ekki bara flokka.

Vekja þarf Alþingi uppúr þeim hugmyndafræðilega doða, sem það hefur verið í og efla frumkvæði þess. Leysa okkur undan þeim sambræðingi framkvæmda-, löggjafa- og dómsvalds, sem við höfum mátt þola.  

Núverandi ástand ber í sér mikla möguleika, svo gripið sé nú til einnar klisjunnar. Ég hef það á tilfinningunni, að nú sé að myndast töluverður hugur meðal þjóðarinnar til að endurskoða og losa sig við gamaldags, fúið stjórnarfar og hugmyndafræði, sem allir eru orðnir hundleiðir á. M.ö.o: Fólk vill BREYTINGAR.

Þetta orð, sem er svo fjarska almenns eðlis, virðist greinilega geyma með sér vissa skilgreiningu, sem skýrist hægt og bítandi. Er þá ekki úr vegi að renna huganum vestur til BNA, þar sem Barak Obama leyfði sér að gera þetta orð, Change, að sínu eina vígorði alla kosningabaráttu sína. Fólk skildi. Sami hugur virtist hafa fæðzt þar einsog hér nú, hið eiginlega tímabæra inntak þessa orðs við ríkjandi kringumstæður, þótt ekki sé unnt að búast við því að í því lögregluríki muni eiga sér stað jafn afgerandi lýðræðislegu umbætur og við getum og eigum að stefna að.

Komum þá aftur að reiðinni. Virkjum hana til þessarra átaka, en látum hana ekki stjórnast af þröngri skyndibræði né hvatvíslegum skyndilausnum með refsivöndinn á lofti, þótt slíkt sé óneitanlega fjarska freistandi og skiljanlegt.

Það er aðeins eitt alveg klárt um okkar vilja: Við viljum breytingu.


Afdrifarík kurteisi í Seðlabankanum.

 

Nú er mér allt í einu orðið ljóst hvað hefur verið örlagaríkasta staðreyndin, sem varð okkur að falli: Hæverska og feimni seðlabankastjóra.

Þrátt fyrir það að hann sæi allt tilvonandi fjáramálahrun fyrir strax á vordögum gat hann ekki fyrir hæversku og uppburðarleysis sakir komið þessum framtíðarspám á framfæri. Öll vitum við svosem um þessa eiginleika hans að láta lítið fyrir sér fara, skjótast með veggjum, láta valta yfir sig en láta ekki uppi skoðanir sínar, viðhorf eða spádóma nema honum bæri sterk embættismannleg skylda til.

Það hlýtur í rauninni að hafa verið virkilega skelfilegt fyrir hann að búa yfir allri þessari framtíðarsýn  og sitja með hana innilokaða í sálinni; tala fyrir daufum eyrum, þegar honum buðust einstaka tækifæri til að vara fólk við, sem svo sýndi honum engan áhuga frekar en fyrri daginn.

Ég tel að við verðum að skilja þetta og finna til með uppurðarleysi þesssu.

En nú er búið að höggva á Gord(í)ons hnútinn og von á glaðningi frá IMF. Við höfum orðiðð áþreyfanlega vör við hverju Bjartssýnin um að strembast við að ríghalda sér í krónuræfilinn og gamlar hefðir hefur áorkað.

Þetta er allt í keii. T.d. fyrir Evrópubandalagið,  sem við stóðum öfugu megin við. Það hélt fast um jafnræði 27 þegna sinni á grundvelli sömu reglna og gerðu kleift að stofna til Icesave-reikninganna í upphafi. Þær sömu leikreglur skyldu því líka gilda þegar afleiðingarnar af  þátttöku í þeim dansi, sem leyfði tilskilið frelsi, urðu ekki eins hagstæðar og væntingar höðu staðið til. Þátttökuríkjum EB hefur væntanlega fundizt það góður fílíngur að vita af sterkum málsvara, sem ekki gerði mannamun.

Gordon Brown má líka una glaður við sitt. Nú getur hann sagt við sitt heimafólk: "sjáiði hvernig við tókum þá!" Og hætt er við að þjóð hans trúi að í raun hafi verið full ástæða til að setja á okkur hryðjuverkalög þar sem við ætluðum að svindla svolítið. Okkar almannatengsl hafa verið svo skelfilega óburðug, að varla er unnt að búast við öðru.

En er þar með málið í höfn og Gordon búinn að vinna stríðið sem hann sagði okkur á hendur?

Nú finnst mér komið að okkur að líta á þetta sem tvö óskyld mál. Hann gat að vísu leitað í fang EB með Icesave málið. Engu að síður situr hann enn eftir með þá stríðsyfirlýsingu, sem hann lýsti yfir gagnvart okkur með umræddum hryðjuverkalögum. Hann stendur enn uppi með ábyrgðina af þeim stórfellda skaða, sem hann olli okkur með því að leggja af velli önnur íslenzk fyriræki, sem ekkert höfðu til saka unnið.

Slíkum efnahagsgerðum er, einsog neyðarlögin gera ráð fyrir, einungis beitt sem sérstökum refsiaðgerðum gagnvart stríðsandstæðingum, í þessu tilfelli hryðjuverkamönnum, sem vorum við.

Þetta var svívirðilegur yfirgangur og beindist raunar einnig að brezkum þegnum, þar sem með honum var hindrað að finna mætti leiðir fyrir bankana til að greiða upp innistæðurnar. Allar mögulegar diplómatískar lausnir, sem yfirleitt eru notaðar með siðuðum þjóðum, voru útilokaðar á einni nóttu.. Það leiddi til þess að þær eignir, sem þeir Gordon og Darling settu á frost rýrnuðu stórum, en reikningurinn fyrir allt það  tjón svo sendur til dvergþjóðarinnar í norðri.

Svo það verður ekki af honum skafið að það var hann sem var hryðjuverkamaðurinn. Því getum við ekki tekið með þegjandi þögninni. Hann jók Icesavevandann til muna áður en hann leitaði skjóls hjá EB og jók þarmeð hjálparvana reiði okkar. Þessu þarf að halda á lofti.

Um leið og orsakaferli hins íslenzka bankahruns verður rannsakað í kjölinn ætti einnig að rannsaka að hve miklu leyti beiting hryðjuverkalaganna var ólögleg, skaðleg fyrir "vinaþjóð" og siðlaus. Og helzt að rukka til baka.

 


Íhaldið er samt við sig

  Það heldur í: 

Íslandskrónuna

seðlabankastjórn

fjármálaeftirlitið

gömlu stjórnina

gömlu hugmyndafæðinag

gömlu tækin;

sjálft sig.   

Gömlu tækjunum hefur undanfarið verið líkt við hin ýmsu faratæki, skip og fley, rútubíla og flugvélar. Ég hef um stundarsakir verið í hópi rútumanna:  

Illa löskuð rúta liggur í flæðarmálinu. Hún hafði skrensað útaf veginum með látum í mjög krappri beygju, sem einmitt hafði verið til umræðu um nokkra hríð á héraðsfundum og deilt var um af töluverðum tilfinningahita.

Sumir höfðu bæði viljað takmarka ökuhraða um þennan hlykkjótta fjallaveg og setja vegrið á kröppustu beygjunum til að tryggja vegfarendum skárra öryggi.

Öðrum þótti svona lagað hins vegar vera miklar frelsishömlur og skerðing sjálfsforræðis; þeir sem gætu og vildu  ættu að fá að spítta eftir því sem þeim hentaði án fjötra og þvingana, jafnvel þótt einhver á veginum gæti slasazt. Þannig kæmust þeir hraðar milli byggða, þær sameinuðust í eitt athafnasvæði, einn markað, allir að verzla.

Þeir sem vildu fara varlegar  heltust einfaldlegaúr lestinni, misstu af lífsnautn markaðsgæðanna. Það væri þeirra mál. 

Nú höfðu menn verið í dýrlegri veizlu, sem ferðaskrifstofa ríkisins hafði haldið þeim. Stórbrotnar veitingar, allir orðnir mettir, reifir og glaðir. Dæstu og ropuðu af hamingju. Rútan fyrir utan. Rútubílstjórinn, gamall spilafélagi, hafði um langa hríð verið aðalmaðurinn í stjórn ferðafélagsins, en nýlega gert sig sjálfan að aðalrútubílstjóra. Þótti hann bæði frakkur og áræðinn.

Margir höfðu varað stjórnina við þessu ráðslagi, ekki sízt þar sem hann hefði ekki einu sinni meira próf til að aka rútum, þótt hann kynni ýmislegt fyrir sér í að nýta umferðarreglur sér til framdráttar. En stjórninni fannst ekkert að þessu og kynokaði sér algjörlega við að hugsa nánar um svona aukaatriði. Svo nú var okkar maður mættur þarna galvaskur í byrjun vetrar, myrkrið að skella á og ísing á vegum að aukast.

Við síðustu bílaskoðun hafði reyndar komið fram, að bremsurnar í umræddri rútu væru farnar að lýjast umtalsvert, en þannig höfðu þær verið lengi og ekkert meiri háttar óhapp komið fyrir, svo hví skyldi eitthvað koma fyrir nú?    Var svo ferðin hafin og fararstjórinn að halda smáræðu um nauðsyn þess að fá að ferðast frjáls í fjallasal milli staða einsog í þessu tilfelli, þegar mikið lægi við að komast sem fyrst í næstu veizlu. Hvatti hann því bílstjórann dyggilega að auka hraðann. Ekki bar mikla nauðsyn til að hvetja bílstjórann, enda voru þeir miklir mátar með svipuð áhugamál. 

Nú var farið  að bylja, fenna og skafa. Ekið var með hvini framhjá nokkrum vegalögregluþjónum, sem gæta skyldu öryggis á vegum úti, en þeir urðu rútunnar ekki varir vegna þess að þeir voru niðursokknir í að spila Matador. Var nú svo komið að fara fór um einstaka farþega, sem leizt ekki allskostar á blikuna. Einhver gerði athugasemd. Hún féll ekki í góðan jarðveg. Þarna væri einhver, sem væri alltaf á móti öllu og vildi ekki framfarir. Enda kom þá í ljós að fyrirspyrjandinn hafði laumað sér um borð óboðinn og því ekki úr hópi þeirra, sem  heyrðu til veizluglaums. Reyndar kom sér bara vel að hafa hann þarna til að vanda um við hann og aðra hans líka. Hlógu þá allir dátt. Ekki líta í bakspegilinn, sögðu þeir, heldur horfa fram á veginn ( það var nú einmitt það, sem veizluspillirinn vildi sízt af öllu gera). Horfa með víkingslund og djörfung fram til nýrrar veizlu. 

Nú var komið að ofangreinri krappbeygju. Bremsur ískruðu, sumardekk höðu enga viðspyrnu og farkosturinn þeyttist útaf. Lágu menn misjafnlega dasaðir og laskaðir. Bílstjórinn og fararstjórinn sluppu með skrámur. Þeim síðarnefnda fannst ekki býsna mikið koma til andvarpa og kveina. Sumir farþegar höfðu í upphafi ferðar sýnt þá fyrirhyggju að olnboga sig með hörku og staðfestu í öruggari sætin og höfðu því að sjálfsögðu sloppið betur en hinir friðsælari. Svona var það nú bara samkvæmt viðskiptalögmálum mannlífsins.

Farastjórinn leitaði afsíðis og settist á stein á litlum hólma í flæðarmálinu og lét augnaráðið reika útyfir fyssandi hafrótið sem ýrði í upplýstu af bílljósum í myrkrinu.. 

Krappar öldur. Heimsins náttúrulögmál. Handan hafsins voru aðrar þjóðir og staðfastari, t.d. Chile, sem höfðu fyrr um nokkurt árabil séð að sér og uppgötvað, að náttúran felur ekki í sér neina siðfræðilega veikleika. Slíkt væri ónáttúra. Siðfræði væri ekki hluti af náttúrunni.

Chileleiðtoginn hefði ruðzt áfram djarflega og engu eirt. Ef einhver  hafði verið með múður hafði jafnvel, því miður, þurft að klípa af honum fingur eða skafa upp andlitið (ódeyft) eða hreinlega sveipa slíku fólki af yfirborði jarðar. Það væri veiklundað og tefði fyrir Darwínskri efnahagsþróun.  Það aðhylltist flathyggjulegan tilbúning  mannlegrar þróunar með þessum ónáttúrulega hætti vegna þess  að mannkynið væri komið svo sorglega langt í burtu frá mannapanum.  

Ætli fararstjórinn hugsi í rauninni svona? 

Ég held ekki. Þetta er kurteis og greindur maður. Honum hugnast líklega varla sá fórnarkostnaður mannlegra hörmunga, sem náttúrulögmál hagfræðinnar veldur.

En hann trúir. Sem er allt annað en að hugsa, einsog viðurkennt er. Mjög mörgum finnst trú sín góð, þeir horfa fram hjá öllum fórnarkostnaði, m.a. þeir sem lúta gyðingkristilegum kennisetningum.  

Svo að þarna situr þessi ágæti fararstjóri og horfir í brimrótið. Er hugsanlega að ala með sér nýjan trúarhita og nýjan trúboðsleiðangur. Hvernig megi lægja brimið og ganga á því. Hvikar ekki. 

Við rúturæksnið hófust nú frekari kveinstafir. Hvaða glannaskapur hafði þarna átt sér stað? Þá mæltist annar viðstaddur eindregið til þess að persónugera ekki þetta mál. Horfa framávið og sjá til þess að ná sem fyrst næstu veizlu.

Vegalögreglan var nú mætt til leiks og hafði eitthvað orð á því að kannski hefði eftir allt saman verið viturlegra að hafa sett upp vegrið á þessum stað. Bregðast þá bílstjórinn og fleiri hart við og segja, einsog svo oft fyrr, að nú dygðu anskotann engin vegrið lengur til að bjarga þessari rútu. Því væri ekkert gagn af vegriðum yfirleitt einsog dæmin sönnuðu og eins gott að gleyma þeim. 

Vegalögreglan var auðvitað þegar búin að hafa samband við ferðafélagsstjórnina og björgunarlið. Stjórnin kom verulega af fjöllum um það að svona gæti gerzt. Hún gerði sér samt grein fyrir því að tryggingarfélagið myndi væntanlega ekki borga þetta tjón þar sem hvort tveggja var, að um hraðakstur hafði verið  að ræða og hitt, að bílstjórinn hafði ekki meirapróf. Öllu heldur væri líklegt að ferðafélag ríkisins yrði sektað um stórar upphæðir. En bílstjórinn var ekki af baki dottinn, heldur lýsti því yfir við fréttamann í Gemsanum, að þeir ætluðu fjandakornið ekki að borga neitt svo heitið gæti, heldur kynni hann klækjaleiðir til að aftra því. Þetta fannst trygingarfélginu ekki verulegar góðar fréttir, jafnvel þótt rútustjórinn reyndi að plata það með því að segja að hann fengi hvort sem er lán austanaf landi fyrir þessari smágreiðslu auk viðgerða á rútunni. En það var nú óðara rekið ofan í hann aftur.

Svo virtist að ekki væri ólíklegt að í lokin myndu bændur og búandlið í nálægum sveitum þurfa að greiða uppgjör þessa óhapps, ýmist með afurðum sínum af ýmsu tagi eða beinhörðum peningum. Inna af hendi fé af tvennskonar tagi. Gætu við það einstakir bæir lent í eyði vegna allra þessara veizluhalda. En svona er lífið. 

Nú kom að björgunaraðgerðum. Upp kom sú hugmynd að þrátt fyrir allt mætti kannski reyna að keyra rútuskriflið til næstu byggða eftir að það hefði verið dregið uppúr flæðarmálinu. Fæddust þá allmiklar umræður og sýndist sitt hverjum innan þess hóps, sem nú hafði drifið að. Sumir voru ansi forvitnir að frétta frekar hvernig svona nokkuð gæti gerzt þrátt fyrir vegalögreglu og rómaðar forvarnir. En þá fannst öðrum að ekki ætti að leita að sökudólgum né, einsog áður hafði fram komið, að persónugera svona flókið slys. Sjálfur vildi rútubílstjórinn eindregið  aka þessari löskuðu rútu enn um sinn. Tryggingafélagið þagði um það þunnu hljóði, en samkvæmt góðum heimildum mun það hafa hugsað sitt um að sízt væru þeir til viðtals um einhvers konar samninga, ef  þessi próflausi og umferðarhvatvísi maður ætti enn að sitja við stjórnvölinn.

 Um þetta urðu fjörugar umræður á meðan gert var í rólegheitum að sárum veislufarþeganna, og þeir læddu sér svo lítið bar á af slysstað. 

Ferðafélagsstjórnin fór að reyna að semja við tryggingarfélagið með ýmsum lögfæðilegum brellum, þrátt fyrir að flestum væri ljóst viðhorf félagsins til rútubílstjórans. Hún vildi heldur alls ekki láta einhvern annan, sem hefði meiraprófið, taka við rútunni. Reynt var að leita til baktryggingafélaga um að leggja til þótt ekki væri nema smávegis lausafé til að hjálpa uppá. Þau svöruðu því þannig að þau myndu ekki láta neitt af hendi rakna svo lengi sem ekki væri búið að ganga frá sektagreiðslum rútufélagsins. Það kvaðst hinsvegar ekki geta greitt sektina, sem þeir gætu ekki komizt undan að greiða, efir allt saman, nema þeir fengju lánaðan pening frá baktryggingafélögunum. Þau stóðu aftur á móti fast á sínu, að lána ekki nema rútufélagið væri búið að greiða. Og þannig áfram koll af kolli.

Málið var komið í það, sem stundum hefur verið nefnt kengur númer 22, eða catch 22 uppá enska móðurmálið. Sumir hafa líka sagt að það sé komið í Gord(í)ons hnút. 

Svona er það nú, haldið er í gamlar og þjóðræknislegar hefðir.  Þetta íhald heldur í:            

tréstikur í stað vegriðs                

sama rútubílstjóra           

sömu vegalögreglu, sem spilar Matador           

sömu ferðafélagsstjórnina

sama fararstjóra

sömu rútuna;

sjálft sig.  

Hvar á að leita að sökudólginum?

 Ekki var annað að sjá og heyra en að Sigmar Guðmundsson teldi í Kastljósinu í gær

aðeins einn mann bera ábyrgð á bankahruninu: Björgólf Guðmundsson. Öll tilraun Björgólfs til að koma á umræðu um hina ýmsu samverkandi þætti sem gætu hafa komið við sögu í almennri þróun kreppunnar var slegin af með þeirri fullyrðingu að Björgólfur væri bara að beina allri ábyrgð frá sér eitthvað annað.

Ég þykist auðvitað vita að Sigmar er ekki svo grænn að halda  að aðeins sé um einn einstakling eða örfáa að ræða, sem skella mætti allri skuld á.

Hann er fylginn sér, hann Sigmar, og beinskeyttur  og telur það líklega merki um góðan fréttaspyril að ganga hart að viðmælanda sínum og helst flæma hann útí horn einsog hér var raunin. Enda í samkeppni við kollega á öðrum fjölmiðlum.

 

Hinsvegar tel ég, að hann sé tákn um hina almennu umræðu í þjóðfélaginu. Þar er nú um stundir hellt úr skálum skiljanlegrar reiði yfir bankamenn og auðmenn, sem fyrir furðustuttu síðan voru í augum landsmanna óskabörn þjóðarinnar, inntak íslenskrar snilli og víkingahugs (hvað sem það nú er). Við vorum færri sem töluðum um græðgivæðingu og ófyrirleitni og vorum gjarnan afgreidd sem gamaldags og púkó, “á móti öllu” og þá ekki síst á móti “framförum”. Töluvert var talað um “öfund” og þeir sem ekki hugnaðist hið vaxandi þjóðfélagslega misrétti og kjaramismunun taldir vera haldnir “flathyggju”.

Mörgum stóð ofar í huga réttlæti ríkra heldur en rík réttlætiskennd.

Að sjálfsögðu átti sér stað græðgisvæðing og glórulaus tryllingsdans kringum gullkálfinn.Það er hinsvegar heldur einfeldnisleg ályktun að þar eigi bankamenn einir alla sök. Mér finnst hið sífellda tuð um einkaþotur og fín hús vera ómálefnalegt, smásmyglslegt og kauðalegt. Skynhelgi. Er ekki bara verið að vísa frá sjálfum sér allri ábyrgð og láta einsog enginn okkar hinna hafi að neinu leyti tekið þátt í þessum dansi? Er óeðlilegt að auðmenn noti hluta af peningunum sína til að gera eitthvað sem þeim sjálfum þykir skemmtilegt? Það er erfitt að vera ríkur. Þar ert þú líka í samkeppni. Er með sanni réttlátt að bera brigður á það að þoturnar geti verið atvinnutæki rétt einsog fínustu Benzar geti verið atvinnutæki leigubílstjóra?

Mönnum gleymist að þrátt fyrir allt létu sumir þessara auðmanna, og þá ekki sízt einmitt Björgólfur Guðmundsson, mikið fjarmagn af hendi rakna til stuðnings menningar og lista.

Hitt skiptir meira máli hvernig og undir hvaða kringumstæðum þessa gífurlega fjár hefur verið aflað.Á Íslandi hefur nú um margra áratuga skeið ríkt skilyrðislaus trú á stjórnlausa auðhyggju. Gjöf fiskikvóta og einkavinavæðing var bara yfirborðið á djúpum og skriðmiklum straumi sjálfshverfu og eigingirni. Í tíð ofríkisstjórnar Davíðs Oddsonar var kynt dyggilega undir slíka hugmyndafræði, sem fólst mest í því að eina markmið lífsins væri “hagvöxtur” og hagnaður. Vaxandi mismunun og misrétti var svarað með því að það væri ekki til fátækt á Íslandi , hins vegar væru ófáir tækifærissinnar sem gjarnan færu sníkjuferðir til hjálparstofnana. Ekki þarf að orðlengja um allt afnám eftirlits og reglusemi, öryggisstjórnunar og áhættumats. Allt var lagt í hina frægu ósýnilegu hönd markaðarins sem nú hefur reyndar gefið okkur heldur betur á snúðinn. 

Allt var þetta semsagt komið á fljúgandi ferð og rómað mjög. Því þótti við upphaf nýrrar ríkisstjórnar brýna nauðsyn bera til að viðhalda þessu ástandi og þarmeð að leyfa DÓ að gera sjálfan sig að höfuðstjórnanda fjármála í landinu, sterkan áhugamann um þjóðmál ásamt með nokkrum fleirum slíkum einsog góðlátlegum hagyrðingi að norðan sem tekur í nefið. Embættið varð pólitískara en nokkru sinni fyrr. Enn dregið úr aðhaldi, bindisskylda afnumin. Andvaraleysi um tryggingu gjaldeyris, yfirlýsingaþörf og –bráðræði, hvatafullar skyndiákvarðanir og mistök á ögurstundum, allt hefur þetta vakið undrun um allan heim einsog m.a. var eitt helsta fréttaefni kvölfréttatímans í gær með ummælum forstöðumanns IMF, Strauss-Kahn, og hins virta hagfræðings Róberts Alibers. 

Hugmyndafræðin um markaðshagkerfi er að mínu viti ekki galin í sjálfu sér. En sú hólmsteinska að það feli í sér einbert einvígi milli einstaklingsumsvifa (eigingirni) og afskipta ríkisins af högum almennings, og að annað útiloki hitt, þykir mér fátækleg heimsýn sem ber í sér grunnhygli gagnvart manneskjunni og feyskni mennskunnar. Græðginni er gert of hátt undir höfði þegar litið er á hana sem helsta hreyfiafl velmegunar. Hagræðingu er ekki beitt til að bæta þjónustu eða mannlíf yfirleitt heldur nær eingöngu til að auka hagnað hluthafa. Það er kapitalistísk grunnregla. 

Íslenzkir athafnamenn sigldu á þessi mið og raunar með einum eða öðrum hætti flestir landsmenn, kannski jafnvel Sigmar Guðmundsson. Í kjölfarið komu fyrirsjáanlegar afleiðingar, útþensla, æ meiri sókn í arð, brenglað gildismat um lífsgæði, tillitslaus áhættusókn og burgeisaháttur og samanburður um að öðlast getu til að umbuna “okkar bestu mönnum” með milljarðagreiðslum, eignahaldsflækjur og spilling o.s.frv.Mikið vill meira. Fórnarkostnaður er að vísu fátækt einhverra en aðalatriðið er að meðaltal hagtalna líti vel út.

Okkar menn fóru eftir gildandi siglingareglum, fylgjandi baujunum dyggilega, og pólitískri trúarinnrætingu. Og stjórnvöld höfðu velþóknun á. Og okkar menn gerðu þetta líklega býsna vel. 

Fram hefur komið að líklega hafi allir bankarnir átt eignir umfram skuldir og jafnvel gott betur. Þetta virðist ekki allt hafa verið viðstöðulaus óreiða sem allir geti bent á sér til hugarhægðar í reiði sinni. Öflun lausafjár brast, m.a. vegna fyrirhyggjuleysis Seðlabankans, sem  þóttist ófær að útvega það.

 

Þetta er afleiðing trúarinnar á gullkálfinn.

Ekki bara Björgólfi Guðmundssyni að kenna.       

Gordon Brown í stríði.

   Lögin sem Bretar notuðu til að spilla framtíð okkar eru stríðslög. Þau ganga því mun lengra á  viðurkennd grundvallarmannréttindi heldur en gengur og gerist. Neyðarlög.

Bush forseti hafði lýst yfir stríði við óljóst hugtak sem hann kallaði hryðjuverkamenn, hvernig sem menn kusu að túlka það fyrirbæri. Ben Gurion eða andspyrnuhreyfing Norðmanna gegn nasistum geta hæglega heyrt undir það. Í kjölfar þessa styrjaldarástands, og með hliðsjón af því, settu Bandaríkjamenn neyðarlög sem braut illilega gegn mörgum lýðræðislegum mannréttindum, heimila  t.d. njósnir um borgarana, skerða stórum réttindi fólks gagnvart réttarkerfinu , sem gerði pyntingarnar á Guant-mano mögulegar o.s.frv. Það er óneitanlega hentugt að hafa slík lög ef manni er illa við einhvern og af því töluverð reynsla frá McCarthyárunum. 

Bretar biðu ekki boðanna að taka virkan þátt í stríðinu með Bandaríkjamönnum frekar en fyrri daginn . Á þeim styrjaldargrundvelli settu þeir sín eigin lög. Það liggur í augum uppi, eða svo var a.m.k. lýst yfir, þrátt fyrir efasemdir margra, sem óttuðust misbeitingu, að þeim lögum skyldi eingöngu beitt í tengslum við hið yfirlýsta stríð þeirra engilsaxa. Um leið verður sú staðreynd, að þeim skuli beitt gegn minnstu bandalagsþjóð þeirra, ekki túlkuð á annan veg en að þeir telji sig vera í styrjöld við okkur.  

M.ö.o., þeir hafa sagt Íslandi stríð á hendur.  Þetta er ekki sagt í hálfkæringi. Ég tel að við eigum að bregðast við með þetta í huga, þótt við getum ekki vænst að vinna slíkt stríð með netklippum einsog forðum daga. En mér finnst ákaflega brýnt láta uppi þennan skilning á yfirstandandi ástandi í orðum og látæði . 

Mér hugnast vel afstaða Ólafs Ragnars forseta. Í því sambandi hafa verið bornar fram áhyggjur af því að við kynnum að hafa móðgað Breta. Almáttugur! Á kannski að biðja afsökunar á því að bent sé á það undir öllu þeirra ofbeldi, að þeir eru ekki þeir einu sem urður fyrir missi í seinni heimstyrjöldinni, frekar en að þeir eru ekki þeir einu sem verða fyrir búsifjum í heimskreppunni nú og afleiðingum græðgiskapítalismans. 

Ekki skánar absúrdisminn, ef vænst er til að við tökum því svo með þegjandi undirgefni að Bretar komi  með herflaugar sínar til að passa uppá lofthelgi hryðjuverkaþjóðarinnar Íslands, bandalagsríkis þeirra. Vonandi verður ekki af því, en ekki þykir mér það snöfurmannlegt að útskýra það með því eingöngu, að við séum að spara í stað þess að segja einsog allir Íslendingar hljóta að hugsa, að þjóð sem sagt hefur okkur stríð á hendur og er þegar búin að vinna á okkur stórfelld hryðjuverk, sé meiri háttar óvelkomin. Það er mesti misskilningur hjá breska sendiherranum hér að segja, að samskipti þessara þjóða sé með “eðlilegum hætti”.

Kannski hefði þetta getað átt við Ceylon í sínum tíma og þótt eðlilegt í augum Breta, en takk fyrir, nú er nýlendutíminn búinn.   


Catch 22

 Því ástandi sem við erum nú stödd í hefur stundum verið líkt við Catch 22 .

En hvað er þessi kengur 22?

Honum er lýst í víðfrægri sögu með þessu nafni eftir Joseph Heller og fjallar með kolsvörtum húmor um fáránlegt líf manna, sem lifa í stöðugum, hjálparvana ótta stríðsástands: 

Það verður að teljast til heilbrigðrar skynsemi að vera  andspænis augljósu hættuástandi einsog því að fljúga herþotu í styrjöld. Sá sem ekki hefði neinar áhyggjur af slíku er geðveikur og ætti því ekki að fljúga. Léti hann hinsvegar uppi hversu óttasleginn hann er, væri það ótvírætt tákn um andlegt heilbrigði, sem gerir hann hæfan til að fljúga. Það væri geðveiki að vilja fljúga útí orrustu og fullkomlega eðlilegt að vilja það ekki. Hann getur hinsvegar aðeins flogið ef hann er andlega heilbrigður. Væri hann haldinn lamandi ótta við flugorrustur væri það merki um andlegt heilbrigði sem skyldaði hann til að fljúga. Óttalaus er hann geðveikur og ófær um að fljúga. 

Okkar staða er sú, að þess er ætlast til af okkur að inna af hendi greiðslur langt umfram þolanlega getu. Illvígir handrukkarar eru mættir á svæðið með tilheyrandi ofbeldisaðferðum. Einhverjir fíklar munu hafa stofnað til hárrar skuldar við meistara þeirra og yfirboðara. Að hætti handrukkara venda þeir sér nú í allri sinni ógn til ættmanna fíklanna, foreldra og barna og hóta öllu illu. Þeir brugðu fæti fyrir einn fíklanna, sem var kominn í meðferð og vonir stóðu til að gæti náð sér og bætt upp skuldina að einhverju leyti, fleygðu honum kylliflötum, lokuðu inni í handjárnum og gerðu honum ókleift að reyna að klóra í bakkann og minnka skuldirnar.

Þess vegna er þetta skyldfólk nú ófært um að greiða uppgefna skuld nema að taka lán. Taka þá ekki handrukkararnir einmitt þann aðila, sem vonir höfðu staðið til að gæti komið til hjálpar, í gíslingu, enda viðkomandi greinilega ekki frjáls undan ofríki handrukkaranna! Því er honum gert að setja það skilyrði fyrir lánveitingunni, að fjölskyldan sé búin að greiða yfirrukkaranum áður en lánið fengist. Hún hafði reyndar farið fram á lánið til að geta greitt. Ef hún gæti greitt þyrfti hún ekki lán. 

Skýlaustfbeldi af hálfu vöðvafjalla.

Kengur 22.  


Krónan og “frelsið”.

Tragíkómískri atburðarrás í íslenzku þjóðfélagi þessar vikurnar virðast greinilega engin takmörk sett. Nægilegt undrunar- og aðhlátursefni fyrir heiminn fer síst þverrandi. 

Sú saga er í raun miklu lengri en undanfarandi vikur. Trú Bjarts í Sumarhúsum á því “frelsi” sem varðveita á með því að viðhalda úreltum tækjum og hugsanahætti, einyrkju og þrákelkni og afneitun á veruleikanum hefur núna verið okkur jafndýrkeypt og hún varð Bjarti blessuðum. Við höfum öll fundið til með honum Bjarti, kallgreyinu, en haft á því óbeit hvernig hann fórnaði öllum þeim, sem stóðu honum næst, fyrir einstrengingslega einmanakennd og þráhyggju, sem hann leit á sem frelsi. Slík Bjartssýni mænir útá hafsauga , ekki á heiminn.

Nú erum við öll fjölskylda Bjarts, hann sjálfur í líki þvergirðingslegra ráðamanna, sem ekki hafa viljað hlíta ráðum beztu manna úr öllum sviðum þjóðlífsins, heldur kosið að ríghalda í sérvizku sína, krónuna, í þágu einhvers, sem þeir álíta vera frelsi og (karl)manndómur. 

Mörgum hefur verið ljóst lengi, að þeir sem mestu ráða um vegferð þjóða nútildags eru ekki ríkisstjórnir eða þjóðþing, heldur auðmagnið og fulltrúar þess útum allt jarðarþorpið. Um allar koppagrundir flæðir það án landamæra undir stjórn mógúla þess, hvar í heimi sem þeir halda sig. Kallast alþjóðavæðing. Og hún er í sjálfu sér ekki af hinu vonda heldur kall tímans í heild sinni. Með því á ég við, að hún eigi að finna sér stað á breiðari forsendum en auðmagnsins eins, á forsendum samvinnu og jafnræðis í menningu, listum, öryggismálum , siðferði, húmanisma og virðingu fyrir umhverfinu. Og ekki sízt friðar.

Evrópubandalagið þróaðist upphaflega fyrst og fremst á þeirri hugsjón að leitast við að hindra hernaðarátök milli helztu grannríkja Evrópu. Og var þá gjarnan spurt, hvað sérhver gæti lagt gott til við þá hugmynd, ekki eingöngu hvaða hagnað mætti hafa af þátttöku þar án nokkurs framlags. 

Einræði auðmagnsstefnu felur í sér flest það, sem gagnstætt er þessum gildum. Í líki nýfrjálshyggjunnar  ber hún í sér ævarandi Darwinískt stríðsástand, sem alvörumenningarþróun hefur verið að reyna að draga úr sem frumstæðu fyrirbrigði  í mannlegum samskiptum; ójöfnuð, hráslagaleika í samneyti manna, græðgi, eigingirni og sérgæzku, jafnvel hjá þokkalega innrættu fólki. En umfram allt leggur frjálshyggjan undir sig vald til að ákveða innihald umræðunnar hverju sinni og útdeila þeim “sannleika” sem hentar því hverju sinni.

Það getur sett stjórnvöldum leikreglur í krafti yfirburða sinna í fjármálalegum samskiptum. Þessi samverkan menningarlegrar samvinnu og ægivalds fjármagns hefur leitt af sér umtalsverðar ígrundanir um hugtakið “þjóðríki” og framtíð þess. Nú ríður mikið á að sætta með einum eða öðrum hætti þessar andstæður og horfa til allrar þróunar í  betra samhengi. Er þá vert að minnast þess, að hugtakið“þjóðríki” hefur undanfarið verið í vaxandi mæli undir stækkunargleri með efasemdum um nauðsyn þess og ágæti í heimi, sem breytist hratt og minnkar stöðugt vegna nánast undurhraðrar tækniþróunar.

Landamærahindranir veikjast, og höft á samskiptum þjóða og þjóðflokka minnka stöðugt. Þjóðernishyggja nýtur ekki þeirra aðdáunar sem fyrr í okkar sögulega samhengi og getur nú einatt þótt heldur varasöm, jafnvel hættuleg einsog svo mörg harkaleg dæmi frá síðustu öld hafa sýnt okkur. Og þjóðernishrokinn er sjaldnast langt undan. Má þá einnig árétta, að þjóðríkishugtakið  er miklu nýrra á nálinni en flestir halda, ættað frá seinni hluta nítjándu aldar og þótti þá býsna framandlegt í augum margra. 

Hvaða “frelsi” er þá verið að tala um? Við erum þegar komin í EES og höfum fengið þaðan umtalsverðar réttarbætur til betra lýðræðis og mannréttinda, sem fram að því höfðu aðeins verið í orði en skammarlega lítið á borði. Með því fengum við raunar líka það frelsi til verzlunar  og samgangs við Evrópuþjóðir með hinu fræga fjórfrelsi.

Hins vegar er þetta fyrir okkur hreinn erkibiskupsboðskapur, sem við höfum alls ekkert um að segja. Með því að verða alvöruevrópuþjóð myndum við a.m.k. sitja við borðið og koma sjónarmiðum á framfæri.. Er það frelsissvipting?

Þá segja einhverjir, að það leysi ekki vandann núna. Auðvitað ekki. Mér þætti gaman að fá að frétta um einhvern, sem haldið hefur því fram. Þetta er útúrsnúningur, einn af mörgum sem notaðir eru til að varpa umræðunni á dreif.  Hinsvegar er tregðan við að láta yfirleitt reyna á samvinnu við EB hluti af orsök núverandi ástands. 

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, tilkynnti helmingshækkun stýrivaxta í dag. Sagði það vera “í samráði við” Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. "Sjálfstæði? “Frelsi”?

Aðrar þjóðir reyna flestar að auka bankaviðskipti með því að draga úr stýrivöxtum. Við getum það ekki strax. Fyrst þarf að bjarga þessari veslingskrónu. Svo er að “setja hana á flot”. Það er reyndar réttnefni.  Hún flýtur einsog svartfuglsungi  í ölduróti úthafa, hnígur og stígur hjálparvana í fyssandi briminu.

Burðugri gjaldmiðlar stærri þjóða fljóta ekki. Þeir sigla. Beita uppí vindinn og kljúfa öldur. Einsog fram kom í dag þarf þjóðin að leggja á sig enn meiri fórnir umfram aðra aðeins til liðsinnis við þetta krónugrey. Til sömu tíðar lýsir seðlabankastjóri því yfir að hann treysti krónunni fullkomlega. 

Kanntu annan betri?


Kveðja frá meintum terrorista.

 

Ég var að undirrita þá yfirlýsingu að ég teldi mig ekki vera hryðjuverkamann. Vona að kallinn í Bretlandi trúi því.

Á síðunni indefence.is er nánast bráðfyndið að sjá listann fræga yfir terrorista í heiminum. Þar eru nefnd öll þau ríki sem þekktust eru í heiminum fyrir að valda hermdarverkum um víðan völl. Iran, N-Kórea, einnig Alchaida o.s.frv. Svo dúkkar allt í einu upp í þeim hópi skrítið nafn sem líklegt er að komi ekki eins kunnuglega fyrir sjónir flestra einsog þessi hroðalegu lönd: “Landsbanki”.

Besti vinur Davíðs Oddssonar, Kjartan Gunnarsson,  hagyrðingurinn og traustur fylgismaðurinn Halldór Blöndal, gamli góði Hannes Hólmsteinn Gissurarson, allir eru þeir settir í hóp með Bin Laden og Kim Jong-Il. Þeir tilheyra að vísu flokki með vafasama hugmyndafræði og raunar hættulega einsog berlega hefur komið fram undanfarið, en ég verð nú að segja að það sé langt í frá að þeir jafnist á við Laden og Co. Láta þeir sér þetta vel lynda?

Indefencesíðan er ljómandi frumkvæði til að efla samstöðu og koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það vakti samt nokkra undrun mína að undirskriftirnar eru ekki betur kennimerktar. Þar skrifa sig á listann Einar eða Vera eða Eva án nokkurs frekara auðkennis. Jafnvel einn undirskrifari virðist heita Fuckyou GB. Mér finnst þetta draga úr sannverðugleika þessa lista og veikja hann til muna. Einnig vakti athygli mína hversu margir útlendingar skrifa sig á listann frá öllum hornum heims, Kýpur, Egyptalandi, Filippseyjum, Mexicó. Jafnvel skrifar sig á listann hann Bob Marley frá Djamæku. Þar skara samt Svíar langt yfir aðra. Ég gæti vel trúað að um 15% uf undirskrifendum séu útlendingar. Það er í sjálfu sér auðvitað mjög ánægjulegt, en ekki er þá unnt að kynna listann sem hlutfall þjóðarinnar ( sem er því miður ekki enn nægilega stórt). 

Það var hrein stríðsyfirlýsing og innrás í bandalagsþjóð af hálfu Breta að beita ólögum og

bola(bíts)brögðum og þústa efnahag okkar. Það er með ólíkindum. Enn furðulegra er samt að innan tíðar er þeim ætlað að taka upp varðstöðu fyrir okkar hönd til verndar lofthelgi okkar gegn vondum Rússum. Það er alveg absúrd að Bretar eigi nú, eftir að hafa veizt að okkur með þessum hætti , bandalagsþjóð í NATO, og skotið efnahag okkar í tætlur, að koma og vernda okkur einsog ekkert hafi í skorist! Að vernda terroristana, sem þeir óttuðust meira en flest annað, fyrir hönd sama bandalags.

Þetta eigum við ekki að láta yfir okkur ganga. Við eigum að neita þessu og gefa um leið umheiminum enn frekari skilaboð um hug okkar til þessarar “bandalagsþjóðar”. Það á ekki að líðast að láta sussa á okkur og segja að ekki eigi að blanda þessum tveimur málum saman. Það sem ekki má, er að blanda ekki  þessum málum saman.

Við eigum að fara fram á það að einhver önnur NATOþjóð taki að sér þetta hlutverk í  stað þeirrar gömlu nýlenduþjóðar sem gert hefur sig ( enn og aftur) að óvinaþjóð okkar.

Því legg ég til að hinn ágæti indefencevefur safni öðrum undirskriftarlista um þetta baráttumál og auðkenni þá betur þá sem leggja fram þessa kröfu.

Falklandseyjastríð Gordons.

   Ég er frekar hlynntur klisjum. Oft fjalla þær um fyrirbæri sem birtast æ ofaní æ og mynda því vissan alþýðusannleik, en “alþýðan” er einsog of fáir vita, býsna athugul. Við höfum séð nokkrar slíkar opinberast enn og aftur um þessar mundir. T. d.: Völd spilla. eða: Margur verður af aurum api. Og nú síðast: Vinir eru vinum verstir.Yfirleitt höfum við talið að Bretar væru sæmilegir vinir okkar, eyjaskeggjar einsog við. En nú höfum við verið óheppin. Orðhvatur bankastjóri og margnefndur, Davíð Oddsson (yfir ein milljón tilvitnana um D.O. koma upp þá er gúglað er), hafði uppi ábyrgðarlaust tal um það, hvernig Ísland hygðist bregðast við skulbindingum sínu í Bretlandi varðandi bankahrunið hjá okkur í viðtali þar sem hann gagnrýndi hart ábyrgðarlausa hegðun útrásarvíkinganna, sem þó hafa fyrrum verið svo mærðir af honum og hans liði. Og  hér talar nú einu sinni fyrrum forsætisráðherra landsins, margfrægur, einsog þegar hefur verið lýst, og sem slíkur þekktur víða, t.d. í Bretlandi. Önnur óheppni var svo að því sem sagt er að fjármálaráðherra hafi knúið í sama knérunn í símtali við brezkan kollega sinn. Þriðja óheppnin var svo að á nefndum Bretlandseyjum ríkir forsætisráðherra, sem er í örvæntingu að hindra hrun fylgis við sinn flokk. Var hann ekki lengi að grípa þessa sendingu á lofti og færa sér hana í nyt, og skirrðist þá ekki við að beita brögðum af því tagi sem svo oft einkenna stjórnmál. Áhlaup! Túlka á hinn versta veg. Virða ekki viðlits útskýringar og yfirlýsingar um að auðvitað myndum við leysa þessi mál að hætti siðaðra manna. Nú var hann kominn með sinn stóra óvin til að kýla, sameiginlegan fjandamann þjóðar sinnar, sitt Falklandsstríð, og farinn að berja sér á brjóst til að veiða atkvæði. Einsog oftast er raunin var lýst yfir þessu stríði með tilbúnum réttlætingum. Rétt einsog ráðist var inn í Írak með upplognum rökum. Við vorum sett á stall með hryðjuverkafólki þegar beitt var sérstökum sérlögum sem ganga útfyrir venjulega skipan lýðræðis og mannréttinda einmitt af því að nauðsynlegt væri að beita slíkum aðförum til að verjast hermdarverkum. Hann beitti þunga embættis síns til að sverta ímynd lands okkar svo að illa bætandi er. Allar kringumstæður alheimskreppunnar veittu þessum árangri óvanalega gott brautargengi. Brezk þjóð er rétt einsog flestar aðrar þjóðir í losti af áhrifum heimskreppunnar. Íslenzku hremmingarnar virtust koma sem himnasending fyrir Brown og Co til að finna blóraböggul, þrengja vandamálið í huga landsmanna með athæfi sínu. Helst er að sjá þar að Ísland sé skilgreint sem höfuðorsök heimskreppunnar, að íslenzku bankarnir séu einu bankarnir sem hafi farið á hausinn þar í landi. Því var í lagi að sprengja í tætlur löglegt fyrirtæki, sem líklegt þótti til þess að standast áföll líðandi stundar og standa sína pligt. Án frekari umþenkinga en með rangtúlkunum að skjóta vinaþjóð sína í kaf, koma í veg fyrir að hún gæti klórað í bakkann, draga í land björgunarhringana sem hefðu getað dugað og spilla hróðri hennar. Það var því Gordon Brown sjálfur sem vissulega framdi hryðjuverk gagnvart þjóð sem hann þorði í. Gamla flotastórveldið að hefna harma sinna úr þorskastríðinu.Svo sýnist, að Geiri Haarde geti því ekki orðið  að ósk sinni um að reyna að settla málin að siðaðra manna hætti. Í staðinn er staðið fast við stríðsyfirlýsinguna með því að hóta milliríkjaréttarhöldum. Tökum á móti þeim. Ég er viss um að slík orrahríð við litla ríkiskrílið í norðri auki að lokum ekki hróður breska bolabítsins. Brown kann að finna sitt Waterloo. Og ekki mun þetta hryðjuverk bjarga honum frá því að falla í næstu kosningum.  

 

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband