Að spúla dekkið

 

          Fyrir rúmum mánuði nefndi ég í bloggi, að nú liggi í loftinu einhver ára breytinga, róttæks endurmats og sköpunar til nýs þjóðfélags. Kreppan hefur löðrungað okkur það duglega, að af okkur hefur runnið sljóleikinn, gamalt nöldur um skavanka þess þjóðskipulags, sem ríkt hefur hér. Það var einmitt afgreitt sem nöldur og neikvæðni og það "að vera á móti öllu"; nú verður þetta allt í einu partíhæft og nothæft til einhverrar umhugsunar. En spurningin er í hvaða farveg sé unnt að veita hugmyndum og hvar, hvernig og af hverjum ætti að vinna úr þeim. Og hvernig á yfirleitt að halda þeim á lofti og gangandi í stað þess að lenda í enn einni skúffunni.

         Fyrst eftir krakkið stóra var ég ekki í slíkum vígahug að heimta strax nýjar kosningar. Mér fannst stjórnvöld hafa í nógu að snúast og yrðu að fá ráðrúm til að bregðast við, hvað þau væntanlega gerðu af öllu afli og beztu getu. Nú eru þau búin að fá töluverðan tíma. Undanfarnir þrír mánuðir hafa verið með ólíkindum. Maður hefur verið í mestum vandræðum með hvar eigi að stilla tilfinningastrengi sína; hatur, reiði, örvæntingu, kapp, samstöðu, nornaleit, ótta.....Það hafa verið mestu vandræði að vakna á morgnana. Fréttir hafa haugast upp, flestar vondar. Vill maður flýta sér að meðtaka þær eða bíða pínupons? En þá kemur einmitt eftirvæntingin eftir nýjustu fréttum, vá, það er alltaf eitthvað í gangi. Maður ánetjast á þetta.Umfang umsvifa útrásarvíkinganna reyndist svo tröllslegt að ma,-ma,-ma bara á engin orð. Hið sama á við um hið spillta stjórnkerfi, sem við höfum búið við. Og dáðleysið! Tilefni til grundvallarbreytinga verður æ brýnna. Nú þarf aldeilis að spúla dekkið!

         Mikið talað um að allt eigi að verauppiáborðinu, veltahverjumsteini, gegnsæi og traust. Ósköp hefur nú gegnsæið verið í mikilli móðu. Og þarmeð traustið. Seinagangur og klúður er það sem mér finnst einkum vera uppi á mínu borði. Og hugmyndafátæktin. Ég leyfi mér t.d. að fullyrða, að tilurð hinnar fínu rannsóknarnefndar Alþingis sé til þess fallin að rýra stjórnvöld trausti. Af hverju kom hún svona seint? Eiga þessir þrír karlmenn, yfirleitt með óljós tengsl við kerfið, að velta við öllum þessum steinum? Eiga þeir að hafa afl og þor til að setja sig upp á móti spillingarnetinu? Ekki þarf að efast um það að það muni berjast um með kjafti og klóm og beita öllu sínu valdi, sem liggur víða. Ég er sannfærður um að samstaða og traust fari útí veður og vind, ef ekki eru fengnir alvöru fræðimenn og bankamenn, sumpart erlendis frá og hafi engra hagsmuna að gæta sér og sínum til handa, til að annast þessa rannsókn og stýra henni. Skipanir í rannsóknarstöður og t.d. endurskoðenda endurskoðenda bankanna hafa verið meiri háttar hallærislegar.Hið sama gildir um þá sem enn sitja yfir bönkunum sínum. Og skorturinn á allri kynningarstarfsemi um stöðu landsins hefur verið ótrúlega slöpp.

         Nú er komið nóg af þessu dáðleysi. Ekki finnst mér það röggsamlegt að láta þar við sitja, að umdeildasti maður landsins, tolli sem fastast yfir Seðlabankanum. Ekki er það traustvekjandi. Né það að bíða bara og bíða eftir landsfundi Sjálfstæðismanna. Og sízt er það röggsemi að láta sér nú detta í hug að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort stjórnvöld megi yfirleitt náðarsamlegast fara að tala við EB og kanna undirtektir. Svo að síðan liggi eitthvað alveru mál til að kjósa um. Svona tafpólitík sýnir einmitt hve mikil áhrif ákveðnir hópar innan Flokksins hafa.

En hvað þá með farveg nýrra hugmynda og úrvinnslu þeirra?

          Nú ku sitja að spjalli nefnd á vegum forsætisráðuneytisins sem  á að gera tillögur að breytingum á stjórnarskránni. Mun vera nokkuð þaulsetin. Ekki hefur frétzt mikið um það hvað hún er að bauka með grundvallargildi okkar sem þjóðar, hvað hún er eiginlega að fást við né hversu víðtækt umboð hún hefur í veganesti frá upphafi. Og hvenær og hvernig hefur átt að kynna þetta þjóðinni og hvernig á hún að fá að tjá sig um málið?

          Ég er nokkuð sannfærður um að ekki hefur staðið til að gera breytingar umfram blæbrigða, nema kannski eitthvað til að rýra vald forseta til að vísa málum, sem orka tvímælis, aftur til þjóðarinnar.

         Nú fer aftur á móti yfir bylgja nývaknaðs stjórnmálaáhuga og gagnrýni á útfærslu lýðræðis hér. Fólk er farið að sjá galla flokkalýðræðis eða framkvæmd ráðamanna í hinu þrískipta valdi, en það er einmitt mál sem ég hef þusað um á síðum þessum. Fólk vill alvörubreytingar og ferskar hugmyndir. Þetta á ekki að vera viðfangsefni aðeins örfárra manna, sem mjög líklega eru með einum eða öðrum hætti reyrðir í hefðbundið hugarfar um völd og lýðræði. Hvar er meira viðeigandi að nota lýðræðislegar aðferðir en við umræðu og skoðanaskipti um sjálfa stjórnaskrá Íslands? Því fleiri sem geta tekið þátt og komið hugmyndum sínum á framfæri, því betra er lýðræðið.

            Þetta má gera með tölvusamskiptum. Opna ætti spjallvef um þetta málefni. Að baki honum stæði Stjórnarskrárráð, sem í gætu setið t.d. þjóðréttar-, þjóðhags- og lögfræðingar, og heimspekingur, tilnefndir af háskólunum, fulltrúar Dómarafélagsins, kirkjunnar, þingflokka og ráðuneyta (jöfn kynjaskipti). Slíkur hópur velji sér framkvæmdastjórn  (þriggja manna?), sem stýrði umræðuferlinu og tæki saman þolanlegar niðurstöður til sáttar og niðurstöður skoðanakannana, sem gera mætti á vefnum um einstök málefni jöfnum höndum. Aðrir í ráðinu störfuðu með sem ráðgjafar og sérfræðingar og tækju fullan þátt í þessari samræðu.

            Með slíkri þátttöku "lýðsins"í opnu ferli ("gegnsætt" og "allt uppiáborðinu") gæti Ísland orðið fyrirmynd annarra og þá kannski getað státað af alvörulýðræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband