Kommúnistar eru ekki það sama og kommúnismi.

 

Ég er viss um að góðir frjálshyggjumenn, og margir fleiri, myndu ekki taka sérstaklega vel í þessa staðhæfingu. Né heldur að það hafi ekki verið hugmyndafræðin, sem hafi klikkað, heldur bara fólk.

Auðvitað innifól stefnan sjálf í sér fall kommúnismans.Mannskepnan væri nú þeirrar náttúru að vilja sjá sjálfri sér farboða, nýta það úr tilverunni, sem henni hugnaðist bezt og bezt félli að eigin metnaði og hæfileikum. Miðstýrt áætlanasamfélag gengi gegn þessum eiginleikum, leiddi til valdbeitingar yfir lífi og gjörðum borgaranna, kúgun og spillingu. Hugmyndafræðin. Þetta var að sjálfsögðu rullan, sem frjálshyggjumenn mæltu fram hvenær sem tækifæri gafst, sérlega glaðir yfir því að þessi ismi væri dauður, þeir hefðu sigrað. Horfðu um leið einbeittir framhjá því að engu að síður væri samfélag okkar enn uppfullt af sósíalistískum velferðarfyrirbærum.

Haft var eftir Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni í blaðaviðtali í vetur að kapítalistar séu ekki það sama og kapítalismi. Þarna horfa málin einhvern veginn öðru vísi við. Það hefur satt að segja verið aumkunarvert að sjá, hvernig frjálshyggjumenn bíta fast í rótina í sandinum, sem þeir hafa stungið höfðinu í.

Og nú bregðast margir í forrystu Sjálfstæðisflokksins við einkar virðingarverðri naflaskoðun í "drögum" að ályktun hluta af framtíðarnenfd flokksins um þátt hans í krakkinu á þann veg að þeir, sem fylgt hefðu stefnu flokksins undanfarið, væru ekki það sama og stefnan.

Adam Smith lagði ekki fram kenningar sínar á grundvelli mannúðar og gerði sér grein fyrir því sjálfur. Þvert á móti eru þær byggðar á eigingirni og græðgi. Hann notaði þau orð sjálfur. Margir frjálshyggjumenn hafa æ síðan ekki kynokað sér við það að telja eigingirni mannsins hina ágætustu eiginleika og grundvöll að góðum bisness. Litið hefur verið á þessa hugmyndafræði sem hagfræðilegan Darwinisma. Viðbrögð þeirra, sem kæmu ekki ár sinni fyrir borð í þessari frumskógarmenningu, yrðu svo bara öfundsjúkir. Og öfundsýkin er jú ein af höfuðsyndunum segir Hannes Hólmsteinn. Hann gleymir því þá að græðgin er líka ein þeirra. Vandlifað.

Adam og Hannes hafa ekki gáð að því hve eigingirnin er eigingjörn. Græðgin veltir uppá sig og spillir sálinni einsog völd. Fær aldrei nóg. Herðir sálina. Heimtar æ meiri umsvif ("frelsi") til að sinna eigingirni sinni og leitar sífellt að réttlætingu fyrir hana. Enga afskiptasemi frá samfélaginu, takk. Jafnaðarmennska og velferðarhugsun eru "flathyggja". Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu um að aðeins sá sterki lifi af.

Þannig hefur eigingirnistefnan aftur og aftur leitt þjóðir í efnahagslegt hrun. Og þarf þá að skríða á fjórum fótum undir pilsfald hjá hinu annars handónýta ríkisvaldi. Helstu fyrirtækjabubbar, ekki sízt í BNA, eru þannig komnir á skeljarnar.

Þróunarkennig Darwins stenzt. Og mannapar hafa 99% sama arfstofn og við. Eigum við ekki að álykta, að þetta eina prósent, sem um munar, hafi leitt okkur og muni leiða okkur í vaxandi mæli frá frumskógarlögmálum inní þroska, sem smám saman nær að yfirvinna það. Bæta samhygð okkar og mannúð, sem lætur ekki smælingja liggja hjá garði.

Slíkt er þróun mennskunnar, sköpun mannsandans með sínu eina prósenti. Þróun. Eigingirnistefnan er frumstæð íhaldssemi.


Stjórnlagaþing, takk!

 

Mér finnst því miður, að þrátt fyrir fögur orð ætli þaulsetin elíta ekki að flýta sér að gera afmarkandi breytingar á reglum þjóðfélags okkar og nýsköpun lýðræðis. Í raun virðist litlu skipta hvaða stjórnarform ríkir, alltaf hlýtur að myndast viss hópur forsvarsfólks, elíta, sem skilgreinir sig sem slíka og semur sig að slíkri stöðu í samfélaginu. Galdurinn við ásættanlegt form lýðræðis er sá að þeir, sem þennan hóp fylla, séu sem flestum að skapi og skv. vilja sem stærsta hluta þjóðarinnar. Sömuleiðis að ekki sé of erfitt að losa sig við þá, sem uppfylla ekki þær vonir, sem bundnar við þá.  Það útaf fyrir sig styður sterklega þá hugmynd að unnt skuli vera að kjósa einstaklinga en ekki bara lista þar sem engu verður um turnað.

Oftar en hitt er það svo að elítan gerist þaulsetin og rætir sig um þjóðfélagið með þeim hætti að áhrif og völd aukast og ná til æ víðari sviða samfélagsins þ.m.t. auðvalds. Og óðara en varir er hún svo innmúruð að henni finnst það hin mesta ósvífni og raunar hreint rán að ætlast til að aðrir geti komið í þeirra stað. Þetta þekkjum við alltof vel. Þetta gæti skýrt hina duldu tregðu til að láta til skarar skríða í lýðræðisbótum, þrátt fyrir fögur orð.

Ný liggja fyrir tillögur um að breyta strax kosningalögum á þann veg að unnt verði með einum hætti eða öðrum raða nokkuð innan hvers lista, t.d. með því að velja einn einstakling, sem dragi svo flokk sinn með atkvæði sínu. Þetta er svo sem góð hugmynd sem eitt lítið skref. Lítið skref. En það viðheldur enn flokkaviðmiðum. Enn verða til pólitískar hjarðir, sem smalað er hverri í sína kví,- eða skotgröf, í orrahríð stjórnmálanna. Ríkisstjórnir verða til með samsulli slíkra hópa.

Ég tel að ekki verði hjá því komist að hafa flokka, sem eru málsvarar hugmyndafræði á breiðum grundvelli og ákveðnar einingar í samfélagsbyggingunni. En það er ekkert, sem ætti að hindra að losa um flokkamörk. "Persónukjör" ná skammt ef ekki er unnt að losa um flokksbindingu kosninga. Með því að geta valið einstaklinga úr öðrum flokkum en þeim, sem ég geld höfuðatkvæði mitt, á ég tækifæri til að styrkja einstaklinga, sem ég treysti  til að gefa minni hugmyndafræði aukið vægi. Við vitum ekkert og höfum aldrei haft nokkur áhrif á það, hvernig ríkisstjórn verður mynduð í kjölfar flokkskosninga, hverjir binda saman trúss sín. Með víðari persónukosningu geta skapazt meiri líku á því, að til samstjórnarinnar geti valizt einstaklingar, sem ég (og margir aðrir) hef mætur á og haft tækifæri til að styðja við.

Tilhögun gæti verið einhvern veginn með þessum hætti: Hver kjósandi á jafnmörg atkvæði og þingmannatalan segir til um. Hann raðar sjálfur (ef hann vill) frambjóðendum þess flokks sem hann kýs en getur varið fjórðungi atkvæðamagns síns á einstaklinga annarra flokka. Atkvæði hvers frambjóðanda verða talin sér og flokkanna sér. Kjósandi má eyða utanflokksatkvæðum sínum öllum á einn einstakling eða dreifa þeim.

Ég reifaði þessi mál í bloggi sl. vor og nefndi þá til sögunnar bók eftir Björn S. Stefánsson um "Raðval" og "Sjóðval", sem fæst við hugmyndir af þessu tagi.

Ég tel ekki rétt að gera einhverjar bráðabirgðabreytingar á lýðræðis- eða kosningareglum á þeim stutta tíma, sem er til kosninga. Það gæti beinlínis dregið úr líkum á að hafizt verði handa eftir þær svo um munaði. Hinsvegar er það áreiðanlega vilji stórs hluta þjóðarinnar að saman verði kallað stjórnlagaþing. Í ljósi alls er á því bráð nauðsyn. Flokkar eiga að kynna okkur hver þeirra vill stuðla að því. Þá eigum við valið.


Mun Mogginn fara að "ganga erinda" einhvers?

 

Ég var kominn með svolitlar áhyggjur af örlögum Moggans og er bara glaður yfir því að hann sé búinn að fá kaupendur. Mér hefði þótt slæmt ef hann hefði rúllað. Hann er þrátt fyrir allt bezta dagblaðið og hefur verið eftir að hann hætti að vera málgagn Flokksins. Segja má að hann sé eftir öll þessi ár orðinn hluti af manni sjálfum, kannski annar handleggurinn, og þá að sjálfsögðu sá hægri. A.m.k. er ég farinn að skrifa aftur zetu!

Auðvitað hefur hann oft gert í bólið sitt og lagzt lágt. Hann gat ekki hamið hatur sitt á forsetanum ÓRG eða leynt því, t.d. á síðustu forsetakosningum, og né á Jóni Ásgeiri og Bónus. Hann lét sig hafa það að reyna að móta almenningsálitið í miðjum klíðum á meðan réttað var einn góðan gang um Bónus, með því að senda Agnesi Braga vestur um haf til Jóns Sullenberger til að mæra hann og lofsyngja í tveggja blaða opnugreinum, svo að sjaldan eða aldrei hafði sézt annað eins, og  sýna þjóðinni hvað þetta væri nú góður og heiðríkur strákur. Þetta gekk svo á mis við hlutlausa blaðamennsku að ég sagði Mogganum upp.

Ekki er hægt að bera á móti því að fráhvarfseinkenni voru með þeim hætti að ég endaði með því að gerast aftur áskrifandi. Því er hann nú skráður á aðalstjórnandann á mínu heimili, konuna mína.

Mér hefur líka sárnað fyrir hans hönd. Sínkt og heilagt hafa menn verið að klifa á því og væla, að öll pressan væri í höndum fárra auðmanna. Allir blaðamenn aðrir en hjá Mogganum "gengu erinda Bónusveldisins".  Sannleikurinn skýr og tær fengi ekki að koma upp á yfirborðið fyrir vikið. En hvað með Moggann? Var hann slíkur aumingi að hann gæti ekki borið þessum sannleika vitni. Var hann svona lítilssigldur?  Öll þessi klifun virtist ganga útfrá því að hann væri bara ekki til. Þá sárnaði mér nú aðeins.

Ég gef ekki mikið í það að kannanir bendi til þess að Fréttablaðið sé meira lesið en Mogginn. Hvenær lesa menn blöð? Hirða þau upp úr bunkum í einhverju stigahúsi og líta á forsíðuna. Fá það óbeðið innum bréfalúguna. Fbl er alls staðar. Og fyrir utan innantóma lífsstílsþætti, nokkuð góða leiðara og fasta greinarhöfunda af og til en kæfandi magn auglýsinga, er lítið annað þar að finna. Lesið? Blaðar fólk mikið til að horfa á allar þessar auglýsingar?

Mogginn hefur stundum verið betri en uppá síðkastið. Samt er hann langframbærilegastur dagblaða hér og hefur farið batnandi. Og þrátt fyrir margvísleg glappaskot og furður, eða kannski vegna þeirra, þykir mér vænt um hann og vona að hann fái að lifa án þess að þurfa að "ganga erinda" auðjöfra eða  Bónusveldisins einsog leit útfyrir á tímabili.

Í því máli hef ég hinsvegar blendnar tilfinningar. Eftir söluna virðist óumflýjanlegt að hann muni ganga einhvers erinda í augum þeirra, sem litið hafa blaðamennsku í slíku ljósi. Kannski erinda Bónusveldisins eftir allt saman? Það er þó fyrrum framkvæmdastjóri þess, sem fer fyrir flokki kaupenda. En kannski langar hann til að ná sér niðri á því einhverra hluta vegna.

Allavega eru kvótalénsherrar fyrirferðarmiklir í kaupendahópnum. Gefur ekki augaleið að þeir muni skipta sér að efnisvali, svona skv. eigin hugmyndafræði varðandi önnur dagblöð? Gæti verið að þeir færu að búa til skoðanakannanir um kvótakerfið og niðurstöður? Nú er að sjá til. Hingað til hefur Mogginn birt álit sitt gegn því af festu. Ef þeir þar á bæ halda því fram að þeir muni nú að sjálfsögðu gæta blaðamannsheiðurs síns og láta engan stýra sér, þá ætti Mogginn að hætta að klifa á því að allir aðrir blaðamenn séu að "ganga erinda" Baugsveldisins.

 

 

 


Jón Magnússon á sig ekki sjálfur

 

Ég varð fyrir vonbrigðum þegar Jón Magnússon flutti sig um set í Sjálfstæðisflokkinn. Auðvitað er það hans mál að vilja ekki lengur vera hjá Frjálslyndum, sökkvandi skipinu. Mér hefur fundizt hann hafa ýmislegt skynsamlegt til málanna að leggja þótt sumt af því hafi verið rangtúlkað og notað í síklifun einsog umræðan um að koma einhverju skipulagi á þá útlendinga, sem vilja setjast hér að.

Mér hefur líka fundizt hann vera á þeim buxunum að vilja laga ærlega til í því, sem við höfum kallað lýðræði. Eitt af því, sem hefur verið gagnrýnt hvað mest, m.a. hef ég þusað um það hér í eitt ár a.m.k.,er að hér ríki flokkaræði í stað lýðræðis. Ég skírskotaði þá sérstaklega til hinnar frægu setningar: "nú á ég mig sjálf" og gagnrýndi  þau viðhorf þingmanna, sem á þing hafa komizt fyrir það að tilheyra ákveðnum flokki, að telja sig allt í einu óbundna af því samhengi og geta bara gert hvað sem er. Jón var ekki kosinn til að fara í Sjálfstæðisflokkinn, menn hefðu þá frekar bara kosið þann flokk. Það væri skárra lýðræði. Framkoma Jóns er einmitt eitt versta dæmið um flokkaræði. Ef hann vill ekki vera í Frjálslynda flokknum á hann að sjálfsögðu að láta sig hverfa og rýma fyrir varamanni sínum svo að flokkurinn, sem hann var valinn fyrir, haldi sínu kjörfylgi.

Sem stendur er Jón raunar kominn í meiri háttar lykilstöðu. Með hans tilstilli opnast skýr möguleiki fyrir tapsára og valdþurfta Sjálfstæðismenn að rotta sig saman með Frömmurum og steypa stjórninni. Það er allt sem við þurfum nú í kreppunni! Frömmurum trúir maður til alls eftir allt saman, þrátt fyrir andlitslyftinguna.

Í mínum augum eiga Jón Magnússon eða Kristinn H "sig ekki sjálfa" núna.


Deja vue.

 

Allir þekkja líklega þá tilfinningu að þeir hafi upplifað einhvern atburð áður. Einhverjum taugabrautum í heilanum slær saman á slíkan hátt að það glyttir sterklega í einhverja óljósa fyrri upplifun. Á fínu máli: desja vy.

Þetta henti mig nýlega þegar kynntar voru hugmyndir nýframmara um að klípa 20% af skuldum allra skuldara, ríkra sem fátækra, lántakanda til neyzluveislu eða til framtíðarsköpunar, til 12 milljóna króna ofurbíla eða fyrsta heimilis fyrir fjölskylduna, þeirra sem skulda mikið eða lítið o.s.frv. Og svo mundi ég allt í einu frá fyrri upplifuninni. Það var þegar gömlu Frammararnir buðu uppá það fyrir kosningar að hækka húsnæðislán og lána 90%. Það voru líklega dýrustu atkvæðakaup Íslandssögunnar, sem vissulega áttu ekki lítinn þátt í því að keyra upp ofþensluna með eftirfylgjandi hruni. Hinn frægi kosningavíxill.

Svo virðist sem hið nýja lið, sem sagzt hefur vilja endurskapa Framsóknarflokkinn, haldi sér engu að síður í gamlar og notadrjúgar hefðir fyrri flokkseigenda.

Og mér finnst það ekki kunna góðri lukku að stýra þegar krónprins Viðeyjardynastíunnar í Sjálfstæðisflokknum tekur bara vel í þetta.

Eru samningar komnir þetta langt?

 


Davíð hleypt út.

 

Davíð Oddsson er fyrirbæri. Þegar hann var við stjórnvölinn hugsaði ég oft, hve yndislegt það gæti verið að vera Íslendingur og eiga þetta stórkostlega land án þess að þurfa sí og æ að búa við yfirgang ofríkisstjórnarinnar, sem gerði manni gramt í geði og spillti þeirri gleði svo um munaði. Fyrirferðin í manninum var þrúgandi.

Því var það verulegur léttir þegar hann hvarf í hamarinn og við tók fólk, sem þorði að tala saman, mátti orða mismunandi skoðanir refsilaust og gat samt starfað að sameiginlegum málefnum. Mörgum þótti þetta sýna veikleika að gömlum sið, "stjórnin veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga". Í mínum augum er þetta stjórnmálegur þroski.

En því var ekki lengi að heilsa. Nú er minn maður fyrirferðarmeiri en nokkru sinni fyrr. Davíð Oddsson hér, Davíð Oddson þar. Fígaró hér, Fígaró þar. Davíð, Davíð. Og hótar þjóðinni að koma aftur í pólitík, einsog hann sé ekki núna í bullandi pólitík. Sumum finnst að með því sé hann svolítið að svíkja landsmenn, sem trúðu því að hann væri hættur í flokkastandi íslenzks lýðræðis, enda nýbúinn að verða sér úti um góðan eftirlaunapakka.

Annað loforð virðist hann algjörlega ætla að svíkja. Hann sagði í haust á blaðamannafundi að ef hann yrði beðinn um að hætta myndi hann að sjálfsögðu draga sig í hlé. Þetta loforð hefur hann svikið.

Þjóðin á ekki góðra kosta völ. Þarna fer maður, sem telur að leikreglur samfélagsins séu fyrir alla aðra en hann. Af tvennu illu finnst mér einsog flestum öðrum, sem eru að leggja hann í einelti, að hann eigi þá bara að koma aftur í pólitík.

Sjálfum finnst mér að alltof mikil orka meðal þjóðarinnar og hjá mér sjálfum hafi farið í þessa síhugsun: Davíð Oddsson. Nú hyggst ég nota þá orku í eitthvað annað. Losa um þetta uppistöðulón í huganum, hleypa af: Davíð Oddsson, Davíð Oddsson, Davíð Oddsson, Davíð Oddsson Davíð Oddsson, Davíð Oddsson.

Ei meir, ei meir.


Hrollvekja.

 

Og ég sem var farinn að halda að Framsókn væri að fara í endurnýjun og hygðist stunda annars konar pólitík en valda- og sérhagsmunastefnu með Sjálfstæðisflokknum. Í ljósi síðustu atburða óttast maður að það hafi verið tálvon. Að gömlu kjötkatlaflokkarnir og flokkseigendur láti ekkert af hendi og beiti allra bellibragða til að halda áfram ríkjandi ástandi þrátt fyrir allar yfirlýsingar um nýtt Ísland, endurreisn og að Frammarar séu satt að segja raunar svolítið vinstri sinnaður. Það útaf fyrir sig getur sannarlega ekki talizt nýtt fyrirbæri í þeim flokki að hann opni arminn í allar áttir eftir því sem hentar. Og fordæmið frá borgarstjórnmálunum er sízt til að draga úr þessum áhyggjum. Það eina, sem virðist skipta máli eru völd, uppspretta sérhagsmuna og gæðadreifingar til vina og flokks.

Vonandi á þessi grunur ekki stoð í raunveruleikanum. Ef hann reynist réttur verður að segja að slægð og undirhyggja Frammara sé með almesta móti, og er þá mikið sagt, í ljósi yfirlýsinga þeirra undanfarið.

Það sem er enn verra að furðustór hluti þjóðarinnar virðist reiðubúinn að kjósa enn og aftur yfir sig þetta tvíeyki þrátt fyrir að allur óþverragangurinn, sem við höfum verið að komast að undanfarið, ósvífnin, spillingin og loks hrun lífskjara okkar og tiltrú annarra hafi fæðst, þrifist og dafnað í þeirra skjóli og velvilja.

Það fer um mig hrollur.


Hvenær hringir maður í mann?

 

Nú velta menn vöngum um það hversvegna Geir Haarde skyldi ekki hafa hringt í kollega sinn brezkan eftir að sá síðarnefndi sturtaði yfir okkur hryðjuverkalögum.

Mér finnst miklu þýðingarmeira að spyrja hversvegna Gordon Brown skyldi ekki hafa hringt í Geir áðuren hann sagði okkur stríð á hendur. He certainly should have. Samræða um það eftirá hefði væntanlega ekki breytt miklu. Daginn áður en Brown beitti okkur þessu ofbeldi hafði Geir lýst því yfir með áherzlu á blaðamannafundi, þar sem m.a. brezkir blaðamenn voru viðstaddir, að við myndum ekki skorast undan skuldbindingum okkar í málinu. Þetta hlaut Brown að hafa vitað á þeim tíma þegar hann ákvað að setja okkur á kaldan klaka, frysta reikninga með eigin Icesaveaðgerðum.

Hvað hefði verið eðlilegra en að hann hefði samband við leiðtoga bandalagsþjóðar sinnar og fullvissað sig um hversu rík ástæða hafi verið til ofbeldisins eða yfirleitt að leita annarra lausna en að beita ofbeldi? Það ætti ekki sízt við ef Bretar töldu þessa ákvörðun réttlætanlega í ljósi einhverrar vitneskju um mikið fjárstreymi frá Bretlandi svo að  líkja mætti því við hryðjuverk, en umrædd lög, sem beitt var, voru fyrst og fremst sett til varnar gegn slíkri iðju. Það að hafa ekkert samband við bandalagsþjóð sína til að reyna að leita diplómatískra úrræða er fádæma hrokafullt. Telja má fullvíst að hann hefði ekki beitt aðrar stærri þjóðir slíkum bolabrögðum. 

Telja má víst að þessi ákvörðun hafi þegar legið fyrir og verið undirbúin. Þarna fundu þeir ástæðu til að vinna hetjudáð sína gagnvart smáþjóðinni af  stórveldismætti gamallar nýlenduþjóðar. Og laug  að þjóð sinni þrátt fyrir að það lægi fyrir að við myndum ekki skorast undan réttmætum skyldum okkar, svipað og Georg Bush yngri laug að öllum til að réttlæta innrásina í Írak.

Við megum ekki láta hjá líða að taka þetta mál upp pólitískt, ekki sízt hjá Nato, sem varla var stofnað í því markmiði að ein bandalagsþjóð beitti aðra óréttlæti og ofbeldi.

 


Hvenær hringir maður í mann?

 

Nú velta menn vöngum um það hversvegna Geir Haarde skyldi ekki hafa hringt í kollega sinn brezkan eftir að sá síðarnefndi sturtaði yfir okkur hryðjuverkalögum.

Mér finnst miklu þýðingarmeira að spyrja hversvegna Gordon Brown skyldi ekki hafa hringt í Geir áður en hann sagði okkur stríð á hendur. He certainly should have. Samræða um það eftirá hefði væntanlega ekki breytt miklu. Daginn áður en Brown beitti okkur þessu ofbeldi hafði Geir lýst því yfir með áherzlu á blaðamannafundi, þar sem m.a. brezkir blaðamenn voru viðstaddir, að við myndum ekki skorast undan skuldbindingum okkar í málinu. Þetta hlaut Brown að hafa vitað á þeim tíma þegar hann ákvað að setja okkur á kaldan klaka, frysta reikninga með eigin Icesaveaðgerðum.

Hvað hefði verið eðlilegra en að hann hefði samband við leiðtoga bandalagsþjóðar sinnar og fullvissað sig um hversu rík ástæða hafi verið til ofbeldisins eða yfirleitt að leita annarra lausna en að beita ofbeldi? Það ætti ekki sízt við ef Bretar töldu þessa ákvörðun réttlætanlega í ljósi einhverrar vitneskju um mikið fjárstreymi frá Bretlandi svo að  líkja mætti því við hryðjuverk, en umrædd lög, sem beitt var, voru fyrst og fremst sett til varnar gegn slíkri iðju. Það að hafa ekkert samband við bandalagsþjóð sína til að reyna að leita diplómatískra úrræða er fádæma hrokafullt. Telja má fullvíst að hann hefði ekkið beitt aðrar stærri þjóðir slíkum bolabrögðum. 

Telja má víst að þessi ákvörðun hafi þegar legið fyrir og verið undirbúin. Þarna fundu þeir ástæðu til að vinna hetjudáð sína gagnvart smáþjóðinni af  stórveldismætti gamallar nýlenduþjóðar. Og laug  að þjóð sinni þrátt fyrir að það lægi fyrir að við myndum ekki skorast undan réttmætum skyldum okkar, svipað og Georg Bush yngri laug að öllum til að réttlæta innrásina í Írak.

Við megum ekki láta hjá líða að taka þetta mál upp pólitískt, ekki sízt hjá Nato, sem varla var stofnað í því markmiði að ein bandalagsþjóð beitti aðra óréttlæti og ofbeldi.


Um náungakærleik

 

"Þarna er verið að verðlauna störf sem unnin eru af fórnfýsi, hógværð og látleysi.............eitt hetjuverk eða hugsjónastarf einstaklinga eða félaga í áratugi..............Verk sem byggist á því að vera góður við náungann dettur aldrei úr tísku......"

Fallegt.

 Svona mæltist Hildi Petersen, í dómnefnd um Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins. Áður átti hún sæti í stjórn SPRON. Það var á þeim tíma þegar gengi þess var mikið, stofnfjárbréf hækkuðu ævintýralega og til stóð að breyta sjóðnum í hlutafélag. Fram að  því hafði fólk verið hvatt til að kaupa og kaupa á svipaðan hátt og nú er viðurkennt  að hafi átt sér stað varðandi lántökur með gjaldeyriskörfum hjá hinum bönkunum og kaup á markaðsbréfum. Haft var m.a á orði að þetta væri pottþéttur bisness þar sem stjórnendurnir sjálfir hefðu lagt mikið fé í fyrirtækið, varla færu þeir að láta eitthvað henda það. Fólk var hvatt til þess að verða sér úti um lán (hjá SPRON ) til að afla sér bréfa. Verðið og gengið voru pumpuð upp eins gjarnan tíðkaðist með ýmsum aðferðum um þær mundir, nýjum eigendum til ánægju. Capacent mat eignirnar á u.þ.b. 65 milljarða, ef ég man rétt. En rétt fyrir hlutafélagsvæðinguna læddust um fréttir að raunverulegt virði SPRON  væru innan við fjórðung af þeirri upphæð. Fór þetta býsna leynt. Svo vildi samt til að nokkrir stjórnarmenn, þ.m.t. umrædd Hildur Petersen, seldu bréfin sín fyrir milljarða degi fyrir hlutafélagsvæðinguna. Að eigin sögn var þetta hrein tilviljun, allir höfðu þeir haft mismunandi persónulegar ástæður til að selja. en vissu annars ekkert sérstakt um þessi mál né hver um annan. Þessu gleypti Efnahagsbrotanefnd  við og var fljót að ákveða að engin ástæða væri til frekari rannsókna á mögulegum innherjaviðskiptum og því síður á bókhaldi og endurskoðendum þeirra reikninga, sem gáfu tilefni til að afvegaleiða Capacent svo hrapalega.

Umleið vaknar sú spurning hvort félagið geti bara sagt ó mig auman og lofað að vanda sig betur næst. Ekki hefur sézt að nokkur telji þetta heldur aum vinnubrögð og afdrifarík Væri ekki ástæða til að draga Capacent til ábyrgðar á svona herfilegu og ótrúlegum slóðaskap. Vissu margir en þögðu þó.

Næsta dag, gleðidaginn mikla með hlutafélagsvæðingu, sukku bréfin til botns. Fjöldi manns tapaði stórum upphæðum og sumir aleigunni þar sem verðgildi bréfanna fór niðurfyrir lánin, sem þau voru veðsett fyrir. Voru þá flysjaðar af allar eigur viðkomandi í bankanum. Einstaklingar, sem höfðu látið blekkjast, stóðu uppi slyppir og snauðir, þústaðir og gátu lítið sýnt annað en "hógværð og látleysi".

Þessi saga er því miður ekkert einsdæmi um þessar mundir. Því miður. Ein sagan af mörgum. Gefur smáinnsýn inní hugarheim tímans og að "tízkunni" virðist vera misjafnlega fylgt eftir. Einsog það að "vera góður við náungann".

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband