28.3.2007 | 00:51
Pólitísk orðræða
Eflaust knýja margar mismunandi ástæður fólk til að fara í pólitík;
Hugsjónir, löngun til að láta gott af sér leiða, veita ákveðinni hugmyndafræði brautargengi, setja nafn sitt á spjöld sögunnar, athyglisþörf o.s.frv.
Eitt er þó, sem áreiðanlega er þar ofarlega á blaði en oft látið liggja í þagnargildi einsog feimnismál: völd. Vitaskuld má til sanns vegar færa, að völd séu nauðsynleg forsenda þess að gera hugmyndir sínar að veruleika. En það lokkar líka margan manninn að geta ráðskast með hagi annarra og segja þeim fyrir verkum, ráðskast um efnahag þeirra, hvað má og hvað má ekki, tylla sér stalli ofar, stofna til skuldar annarra við sig, hlaða undir sig og sína o.s.frv. Og ber þá að nefna síðast en ekki síst valdið til að skilgreina, ráða málefnum líðandi stundar í valdi stöðu sinnar gagnvart fjölmiðlum, innihaldi, áherslum og merkingu. Þetta er mikið vald og vanmetið. Oft er það notað kerfisbundið til að afmarka umræðu dagsins, spinna umtalsvefinn eftir hentugleika, slæva gagnrýni og nýja hugsun.
Mér er hugsað til hótelgestsins sem hringdi niður í afgreiðslu til að spyrja hvort unnt væri að fá morgunverð í rúmið. Að sjálfsögðu var boðið uppá slíka þjónustu. En voru þá einhver tímamörk?. Jú, reyndar, hann yrði að koma með rúmið sitt niður í matsal frá kl. 7-10. "Hvað meinarðu?" hrópaði maðurinn.
"Við veitum að sjálfsögðu aðstoð við þetta".
"Hverskonar andskotans sörvis er þetta?" hélt gesturinn áfram að hrópa.
"Svona,svona, stillið yður, herra minn. Ég var að segja að við veittum alla aðstoð. Eigum við ekki að ræða um þetta málefnalega".
Með þessu valdi geta stjórnmálamenn haldið umræðunni í ákveðnum kössum, hún verður gjarnan hugmyndasnauð og vanaleg. Áhrif þeirra á fjölmiðla er umtalsverð, þeir geta nánast ráðið, hver hefur við þá viðtöl. Þetta er því varhugaverðara sem raunveruleg skoðanakúgun virðist hafa ríkt hér að því marki að fólk hefur ekki þorað að láta uppi gagnrýni af ótta við að það geti goldið hennar í starfi eða frama. Þegar þetta er skrifað var einmitt í fréttum, að presturinn að Stóra-Núpi benti opinberlega á kröm búenda við Þjórsá, sem breyta á verulega, væri töluverð, en þeir þyrðu ekki að láta þær skoðanir uppi.
Þetta mátti ekki. Hann "samþykkti" að vera ekkert að skipta sér að þessu.
Tengd þessari kassahugsun eru ekkisvörin. Einsog sá í afgreiðslunni áðan svaraði ekki spurningu gestins beint.
"Ertu þá fylgjandi vændi?" ".....ég og flokksbræður mínir leggjum höfuðáherslu á jafnrétti kynjanna og nauðsyn jafnrar þátttöku allra í atvinnulífi þjóðarinnar".
Því miður gerist nánast undantekningarlaust, að spyrillinn segir ekki: " En ég var að spyrja um það hvort..........". Eða bara einsog gesturinn hér að ofan: "Hvað meinarðu?".
Þarna er meinið. Blaða- og fréttamenn virðast telja það hluta af tilætluðu hlutleysi sínu að "fara ekki nánar útí það". Þeir hafa stundum verið kallaðir fjórða valdið. Það ber brýna og vaxandi nauðsyn til þess, að þeir beiti því betur. Annars möllum við áfram í makindalegum hugmyndadoða og gruggi klisja og orðaleppa, sem fleygt er um án merkingar að gömlum sið.
Tökum nokkur dæmi af handahófi:
"Einstaklingar sem geta verið þjóðfélaginu hættulegir". Þetta er klassískur frasi og hentugur, ekki síst í fasistaríkjum.Við munum mörg eftir MacCarthy gamla í BNA. Hann kallaði þá reyndar kommúnista og ofsótti af frægu miskunnarleysi. Hjá okkur var njósnað um fólk, það jafnvel rænt atvinnu sinni, langt framyfir kalda stríðið; Aldrei fannst hættan. En það getur óneitanlega hafa verið hentugt að haf slíkan aðgang að þeim, sem eru að gegn manni í stjórnmálabaráttunni.
Tengt þessu, ekki síst á alþjóðavettvangi, er "hryðjuverkamaður". Það er hægt að gera margt og víða með þá skilgreiningu. Eftir því var franska andspyrnuhreyfingin í stríðinu hryðjuverkasamtök. Eða Aríel Sharon.
"Halda völdum". Sumir hugsa um það eitt, t.d. R-listinn forðum. Hið versta mál. Einsog stjórnmál snúist um eitthvað annað. Hvað með stjórnarflokkana nú?
"Stjórnarandstaðan er alltaf á móti öllu". Það væri nú meiri stjórnarandstaðan, sem ekki setti sig á móti. Enda er í núríkjandi völtunarpólitík stjórnarliðsins auðvitað alltaf á móti öllum hugmyndum stjórnarandstöðunnar.
"Borgarnesræðan". Þar var settur fram nýr valkostur við ofangreindri valtarapólitík. Meiri lýðræðisleg samræða og samráð. Sjálfstæðismenn tóku andköf og hófu að spinna skipulagt klisjueinelti. Það er leit að fólki, sem hefur hugmynd um megininnihald þessarar ræðu þótt sífellt sé verið að tyggja á henni í skipulögðum áróðri.
"Lýðræðislega kosinn". Þetta segja gjarnan þeir, sem hnoðast hafa á þing í krafti flokka, sem hvað minnst þjóðarfylgi hafa á bakvið sig, og eru að hugsa um að skipta um flokk.
"Samsæriskenning". Alltaf, þegar augljóst plott er í gangi, er settur upp geislabaugur og málið talið afgreitt með þessu orði. Einsog stjórnmál séu ekki f.o.f. samhæfðar aðgerðir, oftar en hitt ofnar í spunasmiðjum flokkanna.
"Rasismi". Gott er að þyrla upp þessu hugtaki til að berja sér á brjóst. Ég hef um áratuga skeið haft með höndum læknisskoðun á þeim, sem hyggjast fara til Kanada í nám, starf eða til langdvalar. Skrifræðið og smásmuguhátturinn, sem tengjast þessum ferli, eru tröllaukin. Kanada er virtasta þjóð veraldar skv. nýrri könnun SÞ. Þeir myndu brosa yfir tilburðum okkar við að koma skipulag á núverandi óreiðu innflytjenda. Það er ekki rasismi að vita, að berklar séu nokkuð algengir í Rússlandi.
"Öfund". Hugarfar þeirra, sem setja sig upp á móti valda- og auðsöfnun þjóðarelítunnar á kostnað félagslegrar velferðar og réttlætis. Þessvegna að sama skapi þeirra, sem undu illa vistarböndum forðum, eða leiguliða landeigenda áður fyrri.
"Framfarir". Eitthvað sem þeir vilja ekki, sem ekki vilja einblína á stóriðju og tilheyrandi landsspjöll og efnahagsblístur sem einu úrræði athafnalífsins. Virkjun mannauðs og sköpunarmáttar, menntunar, félagslegra áherslna eru ekki framfarir. Það heitir að
"bíta fjallagrös".
"Þjóðarframleiðsla" getur þýtt hvað sem er. Hún er mikil. En ekki mikil á hverja vinnustund. Það vill gleymast.
"Hagvöxtur". Markmið tilverunnar. Það eina, sem gerir þjóðir hamingjusamar.
"Pólitísk ákvörðun". Málefni er reifað af sérfræðingum á sviði lögfræði, hagfræði, siðfræði, vísindum. Álit fengið. Pólitísk ákvörðun er óháð öllu þessu.
Hér eru nefndar örfáar klisjur, sem koma upp í hugann á augnablikinu. Menn velti þessu fyrir sér. Líklega eru ófáir ósammála mér um margt. Fínt. Þá er ég bara enn einn klisjarinn. Aðalatriðið er að því verði ekki svarað með öðrum klisjum heldur að upp komi nýjar hugsanir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 22:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.