28.3.2008 | 00:10
Rotnun Reykjavíkur.
Miðreykjavík er að grotna niður. Alveg er það með ólíkindum hversu hratt miðbærinn hefur orðið að slömmi. Fyrir nokkrum áratugum var talað um borgarrotnun (e. urban decay ). Einkum átti það við N-amrískar borgir þar sem bílisminn og verslanakjarnar gældu við úthverfahugsun og mótun. Svefnsöm úthverfi mynduðust og fólk ók svo á milli í bíldrekunum að sinna störfum sínum og mjólkurinnkaupum. Nú erum við að komast á þetta stig á örskammri stundu en langt á eftir öðrum borgum sem hafa lagt á sig mikið erfiði til að lagfæra þetta.
Í spjalli Sigurðar G. Tómassonar og Magnúsar Skúlasonar, arkitekts, á Útvarpi Sögu í dag benti sá síðarnefndi einmitt réttilega á það, hve miklu seinna við værum á ferðinni í þessum efnum en aðrar þjóðir. Nú væru allir hinir fyrir löngu farnir að dubba uppá gamlar byggingar til að vernda forna menningu. Magnús hefur verið ötull baráttumaður fyrir verndun gamalla kofa og hrófatildra með þessa hugsjón að leiðarljósi.Hann lagði að jöfnu þessa viðleitni sína hér og þess sem gert hefur verið annars staðar, s.s. í París og Róm. . En þar finnst mér einmitt að við séum miklu meira á eftir en hann vildi vera láta, og að þar sé verkurinn. Í Evrópu var farið að byggja stórbrotin mannvirki um þær mundir sem Snorri okkar Sturluson sagði: eigi skal höggva í moldargöngunum í Reykholti. Og raunar miklu, miklu fyrr.
Æ síðan hafa risið stórmerk og geymsluverð byggingaverk úti í heimi á þeim tímum þegar hér ríktu moldarkofar og móðuharðindi. Að sjálfsögðu eiga öll þessi svæði sína þróunarsögu með stöðugum breytingum í sögu styrjalda og plágna. Íslenskir stúdentar í kóngsins Kaupinhavn upplifðu stundum þennan mun á húsakosti og borgarmyndun með þeim vofeiflegum tilfinningum, að þeir biðu þess aldrei bætur við að snúa heim, ef þeir ekki beinlínis báru beinin í áfengiseitrun þar. En höfðu frá ýmsu að segja, sívalaturninum, skansinum, stúdentagörðum osfrv. En þar voru líka hreysi og kofaræksni, sem engum hefur til hugar komið að geyma sem menningardýrindi.Við eigum líka ágætar lýsingar t.d. á Lundúnum Olivers Twist. Ekki hefur neinum dottið í hug að viðhalda þeim ósköpum til að viðhalda fortíðarhyggju. Ég þykist nefnilega viss um að á öllum tímum hafi heilum hverfum verið rutt í burtu til að rýma fyrir nýjum og nýtilegri mannabústöðum og borgaralegum stofnunum, hvort sem hefur verið í Evrópu eða t.d. New York. Borgarrotnunin var yfirleitt afgreidd með því að hreinsa bara til, þótt alvörumenningarverðmæti hafi að sjálfsögðu verið varðveitt. Borg einsog Prag, sem ekki hefur orðið fyrir eyðingarmætti styrjalda og því fengið að viðhalda sínum einstaka gamla sjarma hefur ekki heldur haldið í gamla, fúna timburkofa.
Hvaða menningu erum við líka að viðhalda með því að láta viðgangast að einstök niðurnýdd hús fái að rotna niður einhvers staðar á stangli uppum allar götur? Mér fyndist í lagi að ákveða með skipulögðum hætti að mynda einstaka kjarna gamalla sjarmerandi húsa til sýnis um mannlíf frá fyrri tímum. Grjótaþorpið er dæmi um slíkt. Slíkt gæti gengt sama hlutverki einsog víkingasýningin í Perlunni. Koma þá í hugann frjóar tillögur Hrafns Gunnlaugsonar um að flytja Árbæjarsafnið niðurí Hljómskálagarð.
En það er því miður einmitt hluti af okkar menningararfi að hafa látið svo mörg hús drabbast niður um margara áratuga skeið. Slúbbertaháttur. Svo eru alltíeinu keyptir tveir fúahjallar fyrir milljarð svo að aðhaldsamur Sjálfstæðisflokkur geti fengið sér nýjan borgarstjóra. Götuhliðin samanstóð af gluggagímöldum einsog tannlaus gómur með myndum af sætum stelpum á nærfötunum. Var ekki nokkuð seint í rassinn gripið? (Afsakið) Er ekki jafnvel hægt að líta á það sem sögufölsun að láta einsog ekkert sé, kaupa nýtt timbur og byggja hús með allt öðrum hætti en það gamla hafði fengið að þróast gegnum áratugina? Pótemkimtjöld.
Fólk verður að gera upp við sig hvort það vill að höfuðborgin verði þorp, þyrping af úthverfum útum allar koppagrundir með tilheyrandi mengun ( þetta fer oftast saman) eðaraunveruleg borg. Alvöruborg byggist á þéttingu mannlífs þar sem margt fólk býr saman, starfar, drekkur teið sitt lesandi blöðin á veitingastað, kíkir á bækur, kaupir mjólkina sína eða Rólexinn, fer í leikhús og á myndlistarsýningar, sleikir saman sólina eða stiklar skafla án þess að þurfa fjallajeppa. Þar þurfa að vera verslanir sem bjóða öllum Kringlum byrginn. Gamlir sjarmalausir kofar eiga ekki heima þar. Ekkert frekar en svo hlægilegt fyrirbæri einsog miðbæjarflugvöllur.
Að lokum langar mig í þessu sambandi að ítreka þá tillögu mína að losa Ráðhúsið úr skammarkróknum og byggja nýtt við alvöru Ráðhústorg á brunarústunum í Austurstræti.
17.3.2008 | 22:50
Gerðu betur, RÚV.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2008 | 17:55
Gleðibankastigið.
Nú er búið að tryggja okkur hefðbundið sæti í Evróvisionkeppninni. Er það ekki nr.16?
Í fyrra tókst okkur að horfa langt framhjá því lagi, sem að minni hyggju hefði þokað okkur verulega upp listann. Slíkt verður að vísu auðvitað aldrei sannreynt. Þar á ég við ísmeygilegt og sérstakt lag sem Dísella Lárusdóttir söng afburðavel með fiðlu- og tangóundirspili. Öðruvísi. Keimur sem hefði setið eftir í fólki.
Í stað þess var valið fyrirferðarmikið, sniðugtog ágengt lag með Silvíu Nótt, sem skyldi ögra og vekja athygli. Satt best að segja var það þó mun hugnanlegra en lagið, sem valið var í þetta sinn. Nú erum við komin á Gleðibankastigið. Eru ekki allir í stuði?
Það vakti undrun mína þegar dómnefndin hafði sérstakt orð á því við fyrsta flutning lagsins, því til sérstaks hróss, að hér væri komið ekta júrovisionlag. Vá. Þarna var það komið. Þrusufjör og miklar umbúðir, hamingjan og fjörið uppmálað á ungt og fallegt fólk, syngjandi og dansandi berleggjað, gömlu hljómarnir, gömlu danssporin, gamli góði stíllinn. Fullkomið Evrólíf.
Er þetta það frumlegasta sem við höfum að bjóða uppá? Svarið er nei, örfá lög í undankeppninni voru mun eftirtektarverðari en sigurlagið, m.a. næsta lag (Hóhóhó, we say hayhayhay), sem var fyrir minn smekk meira grípandi, taktsterkara og hljómstríðara, þótt ég ætli ekki að fara nánar útí þá sálma. Grunur minn er sá að þessi sýning gleymist fljótt í keppninni í Serbíu, hún drjúpi hratt oní og blandist súpu ekta júróvisionlaga sem mallað hefur um áraraðir í sínu kryddi fjörs og stuðs og allir hafa fengið nóg af. Mönnum kunni jafnvel að finnast þetta bylmingur í tómri tunnu. Því miður.
Dægurmál | Breytt 17.11.2008 kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2008 | 22:23
Burt með miðbæjarflugvöll.
6.2.2008 | 00:01
Lýðræðið í hættu.
Þar kom að því að Mogginn fór að hafa áhyggjur af lýðræðinu!
Allt hefur hingað til verið allskostar í lagi um langa hríð. Ekkert athugavert við gengdarlausa ásælni framkvædavaldsins í yfirráð yfir bæði löggjafarvaldi og dómsvaldi undanfarandi mörg ár, ekki síst í stjórnartíð fyrri ríkisstjórnar, ofríkisstjórnarinnar, en einnig undanfarið. Í góðu lagi að leggja niður stofnanir, sem ekki eru ráðamönnum að skapi; hundsa niðurstöður Hæstaréttar Íslands; lauma þjóðinni inní innrásarstríð án þess að spyrja kóng eða prest, hvað þá Alþingi; gera færasta fólki ókleift að sækja um embætti, ef einhver tengdur ráðamönnum ( einkum einum ákveðnum, nefnum engin nöfn) sækir um, nú síðast með því eð tefla fram dýralækni í ráðherrastól til að tjá matsmönnum úr röðum virtustu lögfræðinga landsins, að þeir kynnu ekkert til verka, allt væri verk þeirra misskilningur.
Það þýðir auðvitað að þeir séu nú hálfgerðir asnar þegar kemur að starfi dómara í landinu. Enda best að í starfi dómara á Norðausturland fari embættismaður, sem hafi einkum reynslu í því að laga sig að kröfum framkvæmdavaldsins. Betra að hafa vit fyrir þessum fagmönnum. Framkvæmdavaldið ræður. Að vísu hafa komið fram mjög afgerandi skoðanir fjölda menntamanna, m. a. í dómarafélaginu, sem væntanlega kunna eitthvað fyrir sér í lögum, um að það séu fyrst og fremst einhverjir aðrir sem misskilji inntak lýðræðis.
Ég get ekki látið hjá líða í þessu sambandi að rifja upp sjónvarpsumræðu forðum daga milli umrædds ráðherra og Steingríms Sigfússonar , sem seint mun líða mér úr minni. Þeir voru að tala um innrásina í Afganistan. Steingrímur var á móti; ráðherrann með. Ellefta níunda ("9/11") bar þá á góma og fannst Steingrími það atvik ekki réttlæta heilt stríð. Ráðherranum fannst hinsvegar full ástæða til slíks þar sem fyrir elleftann HAFÐI EKKERT GERST. Takk. Svo djúpt lá skilningur hans á alþjóðapólitík þá. Það er von að hann sjái tilefni til að leiðrétta lögfræðiprófessora um lagaleg málefni nú. Mogginn sá líka síður en svo ástæðu til lýðræðislegra umþenkinga þegar stjórnmálaflokkur, sem löngum hefur kennt sig við aðhaldsemi í meðferð opinbers fjár, kaupir sér borgarstjóra í eitt ár fyrir sirka milljarð af almannafé og fer á málefnaleg hnén til þess eins að ná völdum. Fáséð spunaverk er í gang sett. En þá fyrst fer lýðræðisleg foldin að skjálfa og ólýsanlegar ógnir að steðja að þegar hópur fólks, einkum ungs, mætir á áheyrendapalla og fer að lýsa reiði sinni með því að baula. Menn eru skelfingu losnir og lýðræðislega lamaðir. Fundi seinkaði um heila klukkustund.
Þá gekk hópurinn út og lokaði pent á eftir sér. Var eitthvað skemmt? Kastað fúleggjum, tómötum eða slett skyri? Nei, svo svæsin var nú þessi byltingarkennda vá að vísu ekki, en lítil pólitísk hjörtu munu hafa slegið óþægilega hratt og Mogginn fer að sífra um árás á lýðræði. Jahérna.
Ég hef verið í fríi undanfarið og tek þá alvöru frí. Því sá ég ekki raunir Moggans og skelfingu Sjálfstæðismanna fyrren alveg nýlega. Sem læknir er ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af blaðinu. Linnulaus stjórnarandstaðan og ekki síst óvildarþráhyggjan í garð utanríkisráðherrans, sem potað er inní hvaðeina, sem ritstjóranir eru að fjalla um, Ingibjargarduldin, og gaggólegur málflutningur og (stak)steinakast vekja grunsemdir um að ekki sé lengur allt með felldu. Vinn á öldrunarstofnun og hugsa mitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2008 | 01:54
Íslenskufróður dómari.
Auk þess er ÞD er svo góður í íslensku og aukinheldur í dómnefnd bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar ( sem veitir jú einhverja viðbótarreynslu í dómarastörfum ). Hvað með hina umsækjendurna? Eru þeir málsóðar? Hvaðan kemur sú vitneskja? Og hvernig skyldi ÞD hafa komist í bókmenntasjóðsstjórnina í upphafi?
Málefnalegt? Og svo kemur gamla lumman: Hví á ÞD að þurfa að gjalda þess að vera sonur Davíðs Oddssonar? Þá verður að spyrja á móti: Hvers á allt annað hæfileikafólk fólk að gjalda að vera ekki börn DO? Eða vera a.ö.l. ekki tengt DO? Eða að vera ekki spilafélagi DO? Af hverju skyldi það vera að skv. reynslu undanfarandi ára virðist ekki taka því að sækja um veigamikil störf í kerfinu, ef einhver tengdur DO,- eða öðrum valdamönnum, ef því er að skipta, sækir um? Ég hef vissan skilning á því að stjórnmálamenn geti hneigst til að velja fyrri samstarfsmenn eða jafnvel flokksmenn til starfa. Í fyrsta lagi kann vegna slíkra kynna að liggja fyrir þekking á góðri starfshæfni viðkomandi og í öðru lagi er kannski ekki með öllu óeðlilegt að pólitísk sjónarmið geti átt rétt á sér. Ástæða geti verið til að veita brautargengi pólitískri stefnu, sem valdamaðurinn var kjörinn til að fylgja, jafnvel þótt slíkt umboð geti verið ansi veikt skv. íslensku flokkalýðræði. En þá finnst mér nauðsynleg forsenda, að ekki sé um ævistarf að ræða. Og ekki sé um að ræða yfirgangsemi framkvæmdarvaldsins gagnvart hinum tveimur valdastólpum lýðræðisins. Maður var satt að segja að vona, að ófyrirleitni af þessu tagi færi að linna eftir að fyrri ofríkisstjórn hætti. Ég fann reyndar svolítið til með Sigurði Kára í Kastljósþætti að vera att útí gaggóslag af þessu tagi. Að verja svona geðþóttaákvarðanir innan kerfis sem ætlast til að verða tekið alvarlega og vera virkt með þeim hætti að ætíð veljist allrahæfustu einstaklingar til starfa. Enda sagði hann svo í restina, að vissulega væri alltaf erfitt að velja úr hópi umsækjenda og kæmu þar ýmis sjónarmið til greina önnur (en þau faglegu). Það virðist allavega auðvelda töluvert ákvarðanatöku að geta tekið mið af meintum yfirburðum í íslensku sem séu jafngildir tveimur starfsgæðaflokkum að mati faglegra álitsgjafa.27.11.2007 | 23:18
Ágangur Rússa
4.11.2007 | 21:57
“Fráið” í okrinu.
Það er hið besta mál að alvöruumræða er komin í gang um það, hvernig við erum dregin á asnaeyrunum um grýtta jörð fáokunar í landinu, hvernig við höfum verið fífluð og táldregin. Einn liður í þeim táldrætti er orðið frá.
Eitthvað kostar í auglýsingum frá þessu eða hinu verðinu. Það þýðir í raun, að varningurinn kostar aldrei eingöngu hina uppgefnu upphæð. Ég tók pakkaferð hjá Heimsferðum til Montreal um daginn. Verð frá um 35 þús. krónum. Með gistingu. Og fararstjórn. Allur pakkinn. Flott. Allur pakkinn? Við nánari eftirgrennslan kostaði aukalega 3800 kr á mann að taka rútuna með hópnum frá flugvellinum niðurá hótel fram og til baka. Leigubílar, sem t.d. fjórir hefðu getað tekið, hefðu kostað um 70 Can $ eða um 3500 kr. Nú segja þeir áreiðanlega þar á bæ, að þarna sé einmitt fráið ljóslifandi komið. Einhverjir gætu átt vini og kunningja til að sækja sig á flugvöllinn og því væri ekki réttlátt að rukka þá um rútufarið. Hina verður því hinsvegar að rukka á okurverði. Skv. öllum viðteknum viðhorfum er samt pakkaferð pakki með öllu innifalið. En þeir, sem hugsa þannig eru lentir í gildru. Og hvað má þá segja um skráningargjaldið 2500 kr.? Um það er ekkert val. Þessutan er bætt við forfallatryggingu, um 2000 kr. án þess að spyrja hvort þess sé óskað. Þannig er kostar fráið í þessu dæmi tæplega 25% til viðbótar hinu auglýsta frá-verði. Þetta er frá-leit blekkingaraðferð, sem ekki ætti að líðast. Önnur ferðaskrifstofa auglýsir pakkaferð til Tenerife (Úrval/Útsýn) . Nýtt glæsilegt hótel......með útsýni yfir flóann..... Þegar betur að er gáð kostar það reyndar 27000 til viðbótar, ef óskir eru uppi um það, að fá herbergi með þetta útsýni í tvær vikur.
Ég fjallaði fyrir margt löngu (7.4. sl) um tannlækninn, sem tók rúmlega þrefalda auglýsta upphæð fyrir skoðun á barni vegna viðbóta, sem hann skáldaði sjálfur (atferlisfæðilega meðferð og heilbrigðisráðgjöf). Hafði samt ekkert frá á gjaldskrá sinni. Nú eru tannlæknar einmitt að berjast fyrir þeim mannréttindum að hafa ekki gjaldskár sínar of áberandi eða aðgengilegar og allra síst fyrir TR. Ég gat forðum einnig póstsendingar, þar sem bætt var við um 40% gjaldi vegna eldsneytiskostnaðar.Það er mikið neytendamál að stöðva þessi bellibrögð, sem allt morar af á ótrúlegustu stöðum. Í mínum augum er þetta, þegar á öllu er á botninn hvolft, ekki minna mál en meint verðsamráð í fáokunarumhverfi íslenskra verslunahátta. Hér er reglan sú, að birta eigi verð MEÐ virðisaukaskatti, svo að dagljóst sé fyrir neytendann hvað varningurinn kostar. Á sama hátt ætti að innleiða reglur, sem sporna myndu við því að við neytendur séum fíflaðir með umgreindum hætti. Það er gott að heyra þá áherslu, sem viðskiptamálaráðherra leggur á neytendamál. Helst finnst mér að ráðuneyti hans yrði ekki síður kennt við neytendur en viðskipti.Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 23:32
Um ástir samlyndra hjúa.
Mér finnst umræðan um samvistir samkynhneigðra að mörgu leyti snúast um keisarans skegg,- eða eigum við að segja um skegg Guðs.
Í Kastljósinu áðan kom fram að ORÐ hafi sterk gildi. Að sjálfsögðu. En þá verða leikreglurnar að gilda um öll orð. Eitt slíkra er orðið: hjón. Því verður varla í móti mælt, að það á við um vígða sambúð karls og konu. Það er að mínu mati töluverður yfirgangur af hálfu þeirra, sem sjálf eru að berjast undan yfirgangi og ójöfnuði fyrir sitt leyti, að svipta slíku pari eigindum sínum og breyta þeirri ævafornu merkingu til þess að falla endilega í sama kramið sjálft. Hjón eru í hjónabandi. Konan giftist, sem merkir að hún er gefin skv. fornum sið eða gefur sig framtíðarlífsförunauti. Karlinn kvænist eða kvongast, þ.e. tekur sér konu til slíks sambands. Ég er hræddur um að það þætti nokkuð séráparti, ef kona kvongaðist annarri konu. Slíkt væri að umbylta hefðbundnum skilningi á fyrirbærinu svo um munar. Og um leið tilfinningum, þar sem ORÐ hafa, einsog þið munið, einmitt sterk gildi. Hins vegar tel ég að sátt gæti orðið um hugtakið hjúskapur, þegar gefnir eru saman samkynhneigðir einstaklingar. Það hugtak er fengið úr fornum sið og merkir þá stöðu pars að mega taka hjú. Nokkurs konar húsbændur. Og: gefnir saman. Það er gifting. Sem þýðir auðvitað að vígja sambúð. Mér finnst vera seilst óþarflega langt, ef samkynhneigðir hafa enn allt á hornum sér, þegar þeir eru að ná jöfnuði í samfélaginu, sem mestur er í heiminum, og tala um aðskilnaðarstefnu. Hvar er nú gay pride? Vilja þeir gjörsamlega neita sinni sérstöðu sem persónur með því að deila um skegg keisarans?
Mér er mjög hlýtt til samkynhneigðs fólks. Mér finnst hommar hafa marga eiginleika og lífsviðhorf sem fegra tilverunu og mannleg samskipti að því marki, að aðrir mættu læra af. Hef átt marga slíka að vinum gegnum ævina. Þekkt mun færri lessur, en hef svipaða sögu að segja um þær. Því fagna ég því formlega og lagalega jafnrétti, sem þau hafa öðlast og varpa fram þeirri hugmynd, að allir geti fallist á þá málnotkun að hommar eða lesbíur séu gefin saman, gefist hvor öðrum eða annarri, giftist og lifi svo sem hjú (samhjú) í sínum hjúskap uns dauðinn þau sundur skilur. Orðið hjú felur að vísu í sér hugmynd um vinnufólk. Síst er það nú meiningin. En þar er málum blandið. Orðið hjón getur nefnilega líka falið í sér sömu merkingu: vinnufólk. Og hjúskapur er vissulega ekki sambúð vinnufólks. Svo þar er í raun jafnt á með þessum orðum komið. Hjón séu hins vegar áfram hjón, karl og kona. Þeirra sambandi sé á komið með hjónavígslu, þau lifi saman í hjónabandi og uppfylli jörðina.
Við nánari hugsun dettur manni vissulega í hug orðið ektapar um hjúskap samkynhneigðra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2007 | 22:51
Erum við umhverfiss(l)óðar?
Við höfum yfirleitt talið okkur trú um, að við værum sérstaklega umhverfisvænt fólk. Það hefur verið okkur innblásið alveg frá barnaskólaárunum, þeim tíma þegar okkur var talin trú um að hér ríkti alvöru lýðræði með þrískiptingu valdsins, sem komst þó ekki á fyrr en löngu síðar með tilskipun frá útlöndum, að hér lemdu menn aldrei konurnar sínar, hér væru engir barnanýðingar, engin fátækt osfrv. Við bárum okkur saman við reykjarsvælu iðnaðarborga erlendis og komum vel útúr þeim samanburði. Töldum að þetta væri allt okkur sjálfum að þakka en ekki þeirri staðreynd, að nátturuhagir hér eru sérstaklega góðir. Þegar betur er að gáð virðist samt sem andvaraleysi varðandi umhverfismál hafi verið meira en góðu hófi gegnir á öllum tímum, ekki síst undanfarandi ár gagnvart hlýnun andrúmsloftsins.
Sem dæmi er mér minnisstætt, þegar sortnaði lyng og mosi á töluvert stóru svæði um Kapelluhraun og víðar umhverfis álverið í Straumsvík, og allar hænur drápust á bæ skammt frá. Málið fór fyrir dómstól, sem komst að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir sviðna jörð og ótímabæran dauða kjúklinga, væri ekki sannað að þar gæti verið samband við mengun frá álverinu. Allt gæti þetta bara verið hrein tilviljun, smáslys. Minnir á rök tóbaksframleiðenda um áratugi varðandi samband lungnakrabbameins og reykinga. Og mér er nær að halda að þetta sé sá grunntónn, sem ríkt hefur hérlendis í umhverfismálum. Let them prove it.
Náttúran hefur yfirleitt ekki notið vafans. Jarðnám klífur fjöll. Náttúruperlum sökkt undir vatn. Menn brjóta eða svindla á náttúruverndarreglum og lögum að geðþótta, narta í friðlýst svæði eða hreinlega vaða yfir þau og komast upp með það. Mér þótti nokkuð undarlegt, þegar borgarfulltrúinn Gísli Marteinn birtist á mynd í dagblaði fyrir nokkru með þá yfirlýsingu, að hann vonaði að Reykjavík yrði ekki bílaborg. Hvar hefur maðurinn verið? hugsaði ég. Allar götur fullstoppaðar bílum með einum einstaklingi innanborðs að aka milli dreifðra hverfa borgarinnar. Hann virðist þó ásamt félögum sínum í Borgarstjórn hafa náð áttum og haft uppi einhverjar aðgerðir í samgöngumálum borgarinnar, sem ekki er vert að horfa framhjá. Vonandi má vænta frekari aðgerða hjá nýrri borgarstjórn. Og óneitanlega hefur undanfarið komið fram alvöru umræða um umhverfisvernd í daglegu lífi, t.d. í Mogganum um síðust helgi. En það þarf miklu meira til. Ákveðnari og markvissari stefnumörkun í borgarskipulagsmálum sem og umhverfismálum almennt á vegum hins opinbera. Og umfram allt almenna hugarfarsbreytingu. Auðmýkt gagnvart samspili nátturunnar og fegurð hennar í staðinn fyrir að beita hana ofbeldi.
Það fyrsta sem þarf er áróður gegn dofanum sem við erum öll gegnsýrð af. Mætti þar gjarnan nýta þá miklu orku, sem farið hefur í það að leggja reykingarmenn í einelti. Um þennan doða morar af dæmum. Sorpgámar eru staðsettir á hæstu hæðum svo blasir við um allar sveitir. Menn vaða með gröfur í dýrmæta skógarlunda, tæta þar upp einsog eigi að reisa íþróttahöll. Það var gert með vitund bæjarstjóra, en mér verður einnig hugsað til gröfustjórans, sem sagður var hafa verið óþarflega stórtækur í starfinu. Hverslags hugarfar? Nú er svipað að gerast í útjaðri Reykjavíkur vegna útþenslustefnu borgarinnar uppum holt og hæðir, skapandi vaxandi umferð. Einhverjir kallar á Snæfellsnesi virkja einsog þeim sýnist í trássi við gefin skilyrði. Golfklúbbur býr til ljóskastaraárás sem beint er innað borgarmiðju Reykjavíkur, sker í augu og blindar ökumenn svo sverfur að kvöldhúminu. Aðeins um helmingur borgarbúa fer með sín hundruð kílóa af dagblöðum í gáma. Hvað ætli margir flokki sorpið sitt frekar?
Ég ók um daginn um eittleytið að nóttu Reykjanesbraut til Reykjavíkur og undraðist yfir hátíðahöldum svæðisins. Meirihluti allra skrifstofubygginga var upplýstur um allar hæðir, svo og verslanir og einhverjar íbúðarblokkir einsog væri gamlaárskvöld. Víða í Evrópu ( og líka í Kaliforníu! ) notar fólk innkaupapoka að heiman þegar verslað er. Víða, t.d. í Þyskalandi, eru ruslatunnur strætanna þrískiptar fyrir mismunandi tegundir sorps og gámar til reiðu fyrir slíkt svo ekki þurfi að aka borgirnar endanna á milli til að losa sig við það. Þar slekkur fólk í herbergjum, sem ekki eru notuð. Ekki er óalgengt, að samdar séu reglugerðir um notkun sparpera. Mórall sögunnar er, að það er í hinu litla, sem umhverfisvitundin vaknar. Þjóðverjar hafa kannski forskot í slíkum þankagangi nægjuseminnar eftir að hafa tapað tveimur heimsstyrjöldum. En nú er svo komið, að það sem okkur hefur jafnvel fundist púkó er að verða dyggð í umhverfislegum skilningi. Flestir eru sammála um að það munar um allt til að draga úr almennri orkunotkun. Margar þjóðir eru okkur miklu fremri varðandi þróun umhverfivænna eldsneytis. Byggingameistarar um allan heim eru að hanna hús á þann veg, að spara má alltað 60% af venjulegri orkunotkun og jafnvel meira. The Bank of America er að byggja skýjakljúf af slíku tagi í New York. Er sjáanlegt eitthvert frumkvæði að þessu leyti hjá borg eða ríki? Það fylgir sömu hugleiðingum, að neyta eigi innlendrar fæðu einsog kostur er til að draga úr flutningsmengun. Þónokkur ástæða til að hugsa fallega um íslenskan landbúnað! Í skipulagi borga eru flestir sammála um að þétting byggðar er mottó dagsins.Sú aðferð að þenja út byggðina með æ fleiri útborgum uppum holt og hæðir sé einn helsti mengunarvaldurinn. Draga þurfi úr fjarlægðum milli heimila annars vegar og vinnustaða, verslana og afþreyingar (ekki síst fyrir börn) hinsvegar. Síaukin götuvirki og risastórar verslanahallir auki aðeins á umferð og mengun. Auka og bæta þurfi almenningssamgöngur osfrv osfrv, ekki ætla ég að kyrja þann söng frekar nema að því leyti, að ég tel að unnt sé að skipa strætómálum miklu betur með auknum sveigjanleika sem tillit tæki til stórra vinnustaða og skólasóknar. Aðalniðurstaða þessara bollalenginga er , að nú sé ekki hægt að eiga bæði kökuna og éta, menn geti ekki lengur búist við því að búa bæði í borg og sveit. Borg er borg. Fólk, iðandi mannlíf. Enn frekari niðurstaða er sú, að allt þetta er meira en næg ástæða ein og sér til að flytja Reykjavíkurflugvöll úr dýrmætasta byggingarreit landsins. Meira um hann seinna.