Stjórnlagaþing, takk!

 

Mér finnst því miður, að þrátt fyrir fögur orð ætli þaulsetin elíta ekki að flýta sér að gera afmarkandi breytingar á reglum þjóðfélags okkar og nýsköpun lýðræðis. Í raun virðist litlu skipta hvaða stjórnarform ríkir, alltaf hlýtur að myndast viss hópur forsvarsfólks, elíta, sem skilgreinir sig sem slíka og semur sig að slíkri stöðu í samfélaginu. Galdurinn við ásættanlegt form lýðræðis er sá að þeir, sem þennan hóp fylla, séu sem flestum að skapi og skv. vilja sem stærsta hluta þjóðarinnar. Sömuleiðis að ekki sé of erfitt að losa sig við þá, sem uppfylla ekki þær vonir, sem bundnar við þá.  Það útaf fyrir sig styður sterklega þá hugmynd að unnt skuli vera að kjósa einstaklinga en ekki bara lista þar sem engu verður um turnað.

Oftar en hitt er það svo að elítan gerist þaulsetin og rætir sig um þjóðfélagið með þeim hætti að áhrif og völd aukast og ná til æ víðari sviða samfélagsins þ.m.t. auðvalds. Og óðara en varir er hún svo innmúruð að henni finnst það hin mesta ósvífni og raunar hreint rán að ætlast til að aðrir geti komið í þeirra stað. Þetta þekkjum við alltof vel. Þetta gæti skýrt hina duldu tregðu til að láta til skarar skríða í lýðræðisbótum, þrátt fyrir fögur orð.

Ný liggja fyrir tillögur um að breyta strax kosningalögum á þann veg að unnt verði með einum hætti eða öðrum raða nokkuð innan hvers lista, t.d. með því að velja einn einstakling, sem dragi svo flokk sinn með atkvæði sínu. Þetta er svo sem góð hugmynd sem eitt lítið skref. Lítið skref. En það viðheldur enn flokkaviðmiðum. Enn verða til pólitískar hjarðir, sem smalað er hverri í sína kví,- eða skotgröf, í orrahríð stjórnmálanna. Ríkisstjórnir verða til með samsulli slíkra hópa.

Ég tel að ekki verði hjá því komist að hafa flokka, sem eru málsvarar hugmyndafræði á breiðum grundvelli og ákveðnar einingar í samfélagsbyggingunni. En það er ekkert, sem ætti að hindra að losa um flokkamörk. "Persónukjör" ná skammt ef ekki er unnt að losa um flokksbindingu kosninga. Með því að geta valið einstaklinga úr öðrum flokkum en þeim, sem ég geld höfuðatkvæði mitt, á ég tækifæri til að styrkja einstaklinga, sem ég treysti  til að gefa minni hugmyndafræði aukið vægi. Við vitum ekkert og höfum aldrei haft nokkur áhrif á það, hvernig ríkisstjórn verður mynduð í kjölfar flokkskosninga, hverjir binda saman trúss sín. Með víðari persónukosningu geta skapazt meiri líku á því, að til samstjórnarinnar geti valizt einstaklingar, sem ég (og margir aðrir) hef mætur á og haft tækifæri til að styðja við.

Tilhögun gæti verið einhvern veginn með þessum hætti: Hver kjósandi á jafnmörg atkvæði og þingmannatalan segir til um. Hann raðar sjálfur (ef hann vill) frambjóðendum þess flokks sem hann kýs en getur varið fjórðungi atkvæðamagns síns á einstaklinga annarra flokka. Atkvæði hvers frambjóðanda verða talin sér og flokkanna sér. Kjósandi má eyða utanflokksatkvæðum sínum öllum á einn einstakling eða dreifa þeim.

Ég reifaði þessi mál í bloggi sl. vor og nefndi þá til sögunnar bók eftir Björn S. Stefánsson um "Raðval" og "Sjóðval", sem fæst við hugmyndir af þessu tagi.

Ég tel ekki rétt að gera einhverjar bráðabirgðabreytingar á lýðræðis- eða kosningareglum á þeim stutta tíma, sem er til kosninga. Það gæti beinlínis dregið úr líkum á að hafizt verði handa eftir þær svo um munaði. Hinsvegar er það áreiðanlega vilji stórs hluta þjóðarinnar að saman verði kallað stjórnlagaþing. Í ljósi alls er á því bráð nauðsyn. Flokkar eiga að kynna okkur hver þeirra vill stuðla að því. Þá eigum við valið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Ég verð að viðurkenna að ég skil hvorki fyrirsögn á færslu þinni né niðurlagið í ljósi þess að fulltrúar 4ra flokka af 5 hafa þegar lagt fram frumvarp um einmitt þetta: stjórnlagaþing (sjá: http://www.althingi.is/altext/136/s/0648.html).

Gísli Tryggvason, 5.3.2009 kl. 23:54

2 identicon

Takk fyrir athugasemdina. Ekki er það gott ef maður er ekki skilinn, eða þannin.

 Það kann vel að vera að ég hafi knúið óþarflega í sama knérunn með því að þusa með hávaðalátum um mál, sem sýnist komið í höfn með þriggja flokka yfirlýsingum. Fyrir mér er það samt ekki gulltryggt. Þess vegna langaði mig til að árétta enn einu sinni  þanka mína um kosningafyrirkomulag, sem væri eitt skref til "Nýs lýðræðis". Jóhanna Forsætisráðherra flutti 1995 tillögu um sama efni með mjög svipaðri tilhögun og nú. Ekki varð nú mikið úr því. Nú eru hugmyndir um skipan þessa væntanlega þings mjög margbreytilegar, hvernig á að velja, hve marga etc. Tillögur um fjöla þingmanna hafa flæmst frá 20 uppí eitthundrað! Menn greinir á um framboðin, hvort þau eigi að vera skv. hlutkesti eða tilnefningu eða hvorttveggja í ýmsum blöndum. Núverandi frumvarp gerir ráð fyrir því að hver frambjóðandi hafi á bak við sig 500 meðmæli og auk þess 2 vitni. ?! . Þeir verði 41. Ekki hef ég sjálfur trú á að svo stór hópur komist betur að afgerandi niðurstöðum án margvíslegra málamiðlana heldur en fámennari hópur og gæti sjálfum hugnast betur að þeir verði um 20. Og má ég þá bæta við fyrri hugmyndum um að þar séu leiddir fram fulltrúar ákveðinna faghópa í þessu máli.

Allt þetta gæti verið gott tækifæri til að þæfa málið.

Sem sagt, mér finnst svo margt enn ókannað um þjóðarsálina að það væri flausturslegt að rjúka í að búa Stjórnlagaþinginu ákveðinn ramma um framkvæmd á þessum stutta tíma, sem lifir til kosninga. Aukheldur tel ég misráðið að segja væntanlegum fulltrúum til um hvað þeir eigi að fjalla um.

Því tel ég að vanda þurfi betur til, en undirsrika það jafnframt að flokkar setji það formlega á stefnuskrá sína að vinna að því betur strax eftir kosningar.

Ólafur Mixa (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband