Palestínumenn eru líka fólk

Á dauða mínum átti ég von, þar sem ég var að snatta um lengri tíma “í öngum mínum erlendis”, en ekki því að verða ásamt fjölskyldu minni fyrir skítkasti frá ákafasömum og furðuvökulum varðmanni Ísraelsstjórnar, Vilhálmi nokkrum Vilhjálmssyni, fornleifafræðingi í Kaupmannahöfn. Tilefnið: sonur minn, Már Wolfgang, hafði ritað grein í Eyjuna um stóra áhrifavalda heimsögunnar og m.a. nefnt þá alkunnu staðreynd að oftar en hitt ættu stórstyrjaldir rót að rekja til áhrifamáttar og  drottnunarsemi  peningavaldsins  og gæslu þess gegnum tíðina í einu eða öðru formi. Tiltók þá eina frægustu auðætt sögunnar, Rothschildættina, sem lánaði á báðar hendur þeim sem vildu fara í stríð. Engin ný tíðindi, það. Mun einnig hafa nefnt Goldman Sachs, eina af stoðum heimskapítalismans og harðvítugrar frjálshyggju, er einskis svífst, sem heldur ógeðugan áhrifamátt heimssögunnar nútil dags. Meira þurfti nú ekki til að umræddur vaktari hóf skítkastið að hætti svo margra af hans líkum að tala aldrei um málefni heldur upphefja strax persónulegan, hatursfullan óhróður gagnvart hverjum þeim, sem leyfir sér að gagnrýna hátterni stjórnar Ísraels, og hrópa upp hið sérstaklega tilfinningahlaðna orð “gyðingahatur”, sem að vörmu spori er ætlað að tengjast í hugum margra helförinni forðum og öllum þeim hryllingi. Samt hafði orðið Gyðingur aldrei komið fram í umræddri grein Más. Engu að síður er hann orðinn “gyðingahatari” og meira að segja þriðji ættliðurinn af því tagi þar sem fyrir væru ég og faðir minn. Ég meina það! Eiginlega er svona öfgafull vænisýki ekki svaraverð. Þó finnst mér, þegar betur er að gáð, að ekki eigi að láta svona yfirgang endalaust um kyrrt liggja. Við Vilhjámur höfum áður att kappi. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég blaðagrein um óbeit mína á kúgunarstefnu og mannréttindabrotum Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum. Játa reyndar að um leið lýsti ég því hversu lítið mér þætti koma til hins duttlungafulla og grimma Jahve einsog honum er lýst í Gamla Testamentinu. Var að velta því fyrir mér hvort loddi saman móralskt það sem þar er lýst og núverandi háttalag Ísraelsmanna.Við því er búið að það hafi sært sál þeirra sem hafa valið að lúta þessu goðmagni, sem bauð mönnum frekar að ótta sig en elska og “gaf” svo þessum þjóðflokki lönd með því að siga honum á fyrri ábúendur þess og eyða þeim með manni og mús. Það var í sjálfu sér miður, virða ber trú hvers manns og lífsskilning, þótt maður eigi oft erfitt með að skilja sjálfur. Vilhjálmur brást svipstundis við “gyðingahatri” mínu með því að birta óflatterandi mynd af öldungnum, föður mínum, sem þá var látinn, og hafði komist yfir flokksskírteinisnúmer hans í Nasistaflokknum frá 1929. Þetta hefur honum fundist einu rökin til varnar framferði Ísraelsmanna um þessar mundir um 80 árum síðar. Góð upplýsingasambönd. Ég svaraði þessu á sínum tíma og fer ekki mörgum orðum um það nú. Satt að segja hafði ég ekki vitað um þessa gjörð föður míns að hætti svo margra annarra ungra menntamanna á þessum tíma. Sú ályktun að allt það fólk hafi á þeim tíma gert það af einskæru gyðingahatri er að mínu mati ekki mjög málefnaleg svo ekki sé meira sagt. Það sem faðir minn hafðist að næsta áratug eftir flokksskráninguna, var að byggja upp íslenskt tónlistarlíf af lífi og sál.  Í lok þess tímabils beitti hann sér sérstaklega fyrir því að landi hans og kollegi, sem mátti sæta miklum erfiðleikum og hafði hrökklast til Austurríkis frá Þýskalandi vegna þess að hann var kvæntur konu af Gyðingaættum, kæmist undan hingað og gengi hér beint í það starf, sem hann hafði gengt. Gekk það eftir. Þessi maður var okkar ástsæli Victor Urbancic. Svona var nú Gyðingahatrið mikið. Eftir heimkomu föður míns til Austurríkis úr stríðsfangabúðum, en hann hafði verið munstraður í þýska herinn, fékk hann fljótt aftur stöðu sem rektor tónlistarskóla fyrir orð þeirra álitsgjafa, sem þekktu hann og báru honum sérstaklega vel söguna. Þess var nú heldur betur gætt á þeim tíma að vondir nasistar kæmust ekki í slík störf. Ekki eitt styggðaryrði. Þvert á móti. Nóg um það.

  Hver skapar Guð? 

Ég fékk annað svar við ofangreindri grein minni. Það barst frá háskólakennara í heimspeki í Noregi. Þá varð ég hissa. Texti heimspekingsins gekk útá það að hér væri í minni persónu kominn fulltrúi AlKaida á Íslandi! Ég hafði einnig látið í ljós sterka gagnrýni á Bandaríkin. Hann skrifaði samt mest um það, sem aðrir en ég höfðu ritað um andúð sína á hátterni Ísraelsmanna. Hið eina, sem hann hafði efnislega að segja var að ímynd Jahve hefði stórbreyst til batnaðar á meðan Babýlonvist Ísraelsmanna stóð. Þar lá að! Það er ekki Guð sem skapar manninn heldur maðurinn, sem skapar Guð. Þetta hafði mig lengi grunað. Ísraelsmenn munu víst ekki hafa átt svo slæma vist í Babýlon, t.d. ekki ef borin er saman við hlutskipti Palestínumanna undir hernámi þeirra sjálfra nú. Þeir fóru að vera virkir þátttakendur í þessu nýja þjóðfélagi svo að strangir trúmenn höfðu áhyggjur af því að þeir gætu e.t.v. samlagast að fullu hinni nýju þjóð og horfið inní hana, rétt einsog hinar tíu ættkvíslir Ísraels höfðu líklega gert á undan endur fyrir löngu. Tóku þeir þá til þess ráðs að stappa í þá stálinu, breyta Guði til betra horfs og safna saman í heild þeim þjóð- og flökkusögum, sem höfðu verið á sveimi svo öldum skipti, svo og miklum bálki siðareglna, sem eflaust hafa að geyma margsháttar vísdóm. Athafnasemi af þessu tagi heyrir undir það, sem hefur verið kallað í sagnfræði að “finna upp hefðir” (e. inventing tradition). Þetta tókst vel. Sú þjóð, sem fékk aftur að snúa til gamla Ísraels hafði fengið skarpt afmarkaða sjálfsmynd sem Guðs eigin þjóð og lífsleiðbeiningar, sem elfdu samstöðu hennar og vitund sem úrval annarra þjóða. Einhverjir segja að þeim hafi reyndar ekki verið mjög vel tekið, þegar þeir komu til baka til landsins, sem þeim hafði verið “gefið”. En þar er tilkominn sá “réttur”, sem þeir skírskota æ síðan til sem útskýringar á ofbeldi sínu gagnvart Palestínumönnum. Ekki var þá frekar en nú minnst á sögulegan rétt Kanaansmanna til lands þarna, enda búið að útrýma þeim af yfirborði jarðar í Drottins nafni. Í þennan “rétt” skírskotaði Metanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í ræðu hjá SÞ fyrir nokkru. Sagði einsog alltaf að Ísrael biði eftir tækifæri til að semja, en það gæti kostað þá hinar sárustu fórnir, jafnvel þótt aldrei yrði samið um að skila aftur öllu því landi, sem þeir höfðu hertekið 1967 og lagt undir sig . Fórnir? Að skila aftur landi, sem þeir hafa rænt til búsetu, þvert ofaní alþjóðasamþykktir og lög? Þarna liggur einmitt hundurinn grafinn. Hefur einhverjum virkilega dottið í hug að Ísraelsmenn hyggist semja endanlega við Palestínumenn? Þeir draga endalaust lappirnar um leið og þeir búa til nýtt landakort með landráni, nýjan veruleika, sem gerir það of “sárt” fyrir þá að semja um ásættanlegan frið fyrir heimsbyggðina. Nú þegar búa um hálfmilljón manns í landránsbyggðum í Palestínu. Þar er að finna ofsatrúarmenn, sem fara um gráir fyrir járnum og slíta gjarnan upp olívutrén, sem eru helsta lífbjörg palestrínskra bænda. Ísraelsstjórn gefur heiminum langt nef með því að hundsa viðurkennd mannréttindi, storka alþjóðasamfélaginu æ ofaní í æ og ullaði jafnvel á vini sína, Bandaríkjamenn, þegar þeir síðarnefndu báðu þá fyrir nokkru  blessaða að hætta þessu. Beita yfirburðaher sínum af grimmd, einangra landið algjörlega, skilja eftir jarðsprengjusvæði í Líbanon, þar sem fólk er sífellt að missa fæturnar, og sprengja upp byggðir. Þeir hafa töglin og halgdirnar í Palestínu, beita aflsmunar og ríkja þar og drottna, ráðskast með allt líf Palestínumanna, hvað þeir megi flytja inn sér til matar og drykkjar, stöðva innflutning á byggingarefni, búa til gettó Palestínumanna með múr á þeirra eigin landi, slíta sundur fjölskyldur, bændur frá ökrum sínum, börn frá skólum sínum, fólk frá vinnu sinni, gera þeim lífið nær óbærilegt með því að hindra eðlilegar ferðir þeirra um eigið land með urmul af varðstöðvum til tálmunar á öllum vegum, fangelsa þá oft fyrir litlar eða engar sakir um árabil án dóms og umfram allt niðurlægja þá, lítillækka, smána og drottna yfir þeim á ómennskan hátt. Virðast ekki hafa heyrt mikið um almenn mannréttindi. Hindra að útlendingar geti stuðlað að nytsamri uppbyggingu í landinu og jafnvel að flytja þangað hjálpargögn. Flytja frekar sjálfir inn erlent vinnuafl til Jerúsalem og víðar frekar en að ráða þarbúandi Palestínumenn til þeirra starfa. Þeir eru þar annars flokks íbúar með skert mannréttindi, án ríkisfangs og gert að undirskrifa eiðstaf um það. Ísraelsmenn kvarta sáran (skiljanlega) yfir því að fá ekki viðurkenningu nokkurra Arabaríkja sem sérstök þjóð (sem Palestínumenn hafa þó ítrekað gert og gefið eftir mun stærra land en ætlað var með stofnun Ísraels), en vilja ekki viðurkenna Palestínumenn sem þjóð. Nefna þá bara alla upp til hópa “hryðjuverkamenn” og heilaþvo æskufólk sitt á þeim nótum. Læsa þá inni.  Framferði þeirra er líkast því að þeir séu að reyna hægt og bítandi að mölbrjóta þrek Palestínumanna og gera þeim lífið óbærilegt þar til,- ja, til hvers? Að þeir verði flóttamenn í eigin landi? Eða hverfi hreinlega einhvern veginn?

Rasisma af þessu tagi, í minna mæli þó, sáum við síðast í Suður-Afríku. Þá brást heimsbyggðin öll við og snupraði yfirvöld þar með góðum árangri. Menn geta hugsað sitt hversvegna það sama er ekki gert nú. Svipað þarf að eiga sér stað til þess að einhver von sé til þess að samningar náist meðal þessara þjóða.

Ályktun um viðurkenningu Alþingis í síðustu viku á því að Palestínumenn séu líka fólk er til fyrirmyndar. Verst að hjarðmennskan í Sjálfstæðisflokknum skuli enn við líði, allir þeirra menn með tölu komnir á sína kví.

Þaráður mátti heimsbyggðin horfa uppá vitfirrtan rasisma, sem einmitt beindist að gyðingum sjálfum, sem nú hreykja sér yfir aðra. Sorglegt og kaldranalegt. 

Ísrael er merkileg þjóð, en.. 

Sú var tíðin að ég bar mikla virðingu fyrir Ísraelsmönnum. Fannst einsog flestum í kjölfar þess hryllings, sem þeir hefðu mátt sæta í helförinni, réttlátt að afhenda þeim það land sem er þeirra enn í dag. Átti þá ekki von á því að þeir myndu ræna meira og kúga nágranna sína, sem þegar hefðu mátt sjá af helmingi lands síns við stofnun Ísraels Ég dáðist og dáist enn að dugnaði frumbyggjanna, seiglu, hugviti og útsjánarsemi. Afreksmenn í skarpri hugsun og fara heldur létt með það að velta til sín einum og einum Nóbelsverðlaunum, einog raunin varð einmitt þetta árið. Fannst jafnvel stríðið 1967 hljóta ásættanlegan endi. Mosche Dian var minn maður. Hef skilning á þörf þeirra fyrir að verja hendur sínar og bíta frá sér þegar því er að skipta, m.a. vegna sjálfsprengjufólks, sem myrðir fólk á götum úti. En síðan eru liðnir allir þessir áratugir. Allan þennan tíma hafa þeir beitt yfirdrifnum yfirgangi og ofbeldi og ekki viljað  sleppa  kverkatakinu. Friður virðist í þeirra huga byggjast á því að geta kúgað Palestínumenn og hindrað þá í því að njóta einföldustu mannréttinda. Að hafa frið til þess að stela frá þeim landi, vatni og  ekrum, arfleifð og sögu. Valda því að hundrað þúsundir barna séu vannærðar, atvinnuleysi um 80%. Þeir kunna ekki heiminum neinar þakkir fyrir að hafa fengið landið að gjöf frá alþjóðasamfélaginu. Einog mannkynssöguleg þróun um lönd og þjóðir eigi allstaðar við nema bara ekki hjá þeim. Þar eigi menn að snúa til baka sögunni  um 4000 ár skv. forsætisráðherra þeirra. Manni er næst að halda að þeir geri hreinlega í því að storka umheiminum, láta ekkert af mannfyrirlitningunni, telja ekki friðvænlegt sýna af sér velvilja, það sé veikleikamerki, og hindra sættir, til að egna fram gremju og reiði og geta síðan stokkið upp og kallað: gyðingahatur, gyðingahatur. Þetta er einmitt það sem við búum enn við af hálfu vina Ísraels. Við, sem gagnrýnum þetta háttalag og höfum á því skömm, erum “gyðingahatarar” og berum væntanlega ábyrgð á helförinni fyrir 60 árum. Ég hef líka og hef haft óbeit á ýmsu háttalagi, hræsni og ofbeldi Bandaríkjamanna trekk í trekk og ekki farið leynt með það, einsog þegar hefur komið fram. Er þá væntanlega Bandaríkjamannahatari. Og að breyttu breytenda Rússahatari. O.s.frv. Ekki er unnt að segja að ég sé í vondum félagsskap með öllum þeim, sem hafa svipaða skoðun. Dettur mér þá strax í hug Gyðingurinn Noam Chomsky. Og samkvæmt þessu er einnig Rut, ekkja ofangreinds Moshe Dyan, Gyðingahatari. Hún hefur líka lýst yfir óbeit sinni á stefnu landa sinna.Viðbrögð við þessum pistli mínum verða væntanlega á svipuðum nótum og fyrr. Það er syndsamlegt að gagnrýna ofurþjóðina. En Ísrael verður bara að láta sér það lynda rétt einsog aðrar þjóðir. Hún er ekkert uppyfir þær hafin. Það er ekki nema sjálfsagt að gera sömu kröfur til hennar sem annarra þjóða varðandi gæslu mennsku og mannréttinda. Við ættum ekki að þurfa að sitja þegjandi og hljóðalaust undir þessum yfirlætislegu upphrópunum ef okkur hugnast ekki framferði stjórnmálamanna í öðrum löndum og leyfum okkur að láta það í ljós. Þessvegna er þessi pistill ritaður, þótt seint sé.   


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband