21.1.2009 | 22:59
Hvað tekur við?
Nú þegar endalok þessara stjórnar virðast í augsýn verðum við að vita hvað við viljum að taki við. Fyrir nokkru fjallaði ég um þann þunga undirstraum í þjóðfélaginu, sem vildi breytingu, verulega uppstokkun á lýðræðislegum viðmiðunum og að draga tennurnar úr nýkapítalismanum (26.11.08).Það er réttilega hamast á Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa mótað "pólitískt umhverfi" til að fóðra þessi ósköp, og Samfylkingin dregst inní þá gagnrýni vegna þess að nú samrekkir hún með honum. Hinsvegar tekst Framsókn að vera algjörlega stikkfrí þótt hún hafi sízt legið á liði sínu við að valda ástandinu.. Kvótinn, vinavæðing, sala bankanna með dæmigerðum helmingaskiptum, brask með tryggingafélög og algjör ofkeyrsla athafnalífs með stórbrotnum virkjunum og kosningaloforðum um 90% lán til húsnæðiskaupa. Afleiðingu alls þessa mátti létt sjá fyrir. Samt sagði þáverandi formaður flokksins um síðustu helgi að Framsókn ætti engan þátt í krakkinu nú! Ekki virðist annað að sjá en að á þeim bæ ríki enn sú skoðun að við séum öll til hópa asnar. Að vísu er komin ný kynslóð til sögunnar hjá þessum flokki, sem gera má töluverðar væntingar til. Það hlýtur samt að þurfa mikið þvottaduft til að hreinsa af sér fyrri sögu og ná upp trausti. Samt kemur hann nú galvaskur til sögunnar og vill standa að nýrri stjórn, takk.
Viðfangsefni næstu framtíðar eru tvenns konar: að vinna vasklega að endurreisn efnahagslífsins og verja heimilin einsog unnt er, og að lappa uppá lýðræðið á afgerandi hátt. Það er ekki óeðlilegt að lítið traust sé fyrir hendi gagnvart stjórnvöldum, sem dormuðu svo dyggilega á vaktinni , til að hreinsa ærlega til í fjármálakerfinu og losa sig úr þeim hugsanaramma þröngrar flokkaskipunar, samtryggingar og valdaskipunar, sem hingað til hefur ríkt. Nýtt Ísland verður varla til ef enn verður látið duga að setja á meiddið nokkra plástra af þeim, sem valsað hafa um þjóðfélagsbygginguna svo lengi sem elstu menn muna. Hið nauðsynlega traust, sem svo mikið er kallað á, getur varla vaxið nóg, ef gömlu flokkarnir, þ.m.t. Framsókn, eiga enn um að véla.
Mér finnst aðeins utanþingsstjórn koma til greina, hópur fagfólks, sem hefur hvorki hagsmuna að gæta né er bundið ríkjandi "valdstjónar" (BB) hjá pólitískri elítu. Stjórn þessi á svo að stofna sérstakan vinnuhóp til að vinna að nýrri skipan lýðræðis og nýrri stjórnarskrá. Það gæti hún gert með virkjun og úrvinnslu hugmynda, sem kvikna hjá borgurunum, á einhvern þann hátt, sem ég hef fjallað um í fyrri pistli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2009 kl. 00:13 | Facebook
Athugasemdir
... mér líst vel á faglega utanþingsstjórn... en hvernig er henni komið á koppinn með lýðræðislegum hætti?
Brattur, 21.1.2009 kl. 23:22
Það er í höndum forsetans
Ólafur Fr Mixa, 27.1.2009 kl. 17:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.