Palestínumenn eru líka fólk

Á dauða mínum átti ég von, þar sem ég var að snatta um lengri tíma “í öngum mínum erlendis”, en ekki því að verða ásamt fjölskyldu minni fyrir skítkasti frá ákafasömum og furðuvökulum varðmanni Ísraelsstjórnar, Vilhálmi nokkrum Vilhjálmssyni, fornleifafræðingi í Kaupmannahöfn. Tilefnið: sonur minn, Már Wolfgang, hafði ritað grein í Eyjuna um stóra áhrifavalda heimsögunnar og m.a. nefnt þá alkunnu staðreynd að oftar en hitt ættu stórstyrjaldir rót að rekja til áhrifamáttar og  drottnunarsemi  peningavaldsins  og gæslu þess gegnum tíðina í einu eða öðru formi. Tiltók þá eina frægustu auðætt sögunnar, Rothschildættina, sem lánaði á báðar hendur þeim sem vildu fara í stríð. Engin ný tíðindi, það. Mun einnig hafa nefnt Goldman Sachs, eina af stoðum heimskapítalismans og harðvítugrar frjálshyggju, er einskis svífst, sem heldur ógeðugan áhrifamátt heimssögunnar nútil dags. Meira þurfti nú ekki til að umræddur vaktari hóf skítkastið að hætti svo margra af hans líkum að tala aldrei um málefni heldur upphefja strax persónulegan, hatursfullan óhróður gagnvart hverjum þeim, sem leyfir sér að gagnrýna hátterni stjórnar Ísraels, og hrópa upp hið sérstaklega tilfinningahlaðna orð “gyðingahatur”, sem að vörmu spori er ætlað að tengjast í hugum margra helförinni forðum og öllum þeim hryllingi. Samt hafði orðið Gyðingur aldrei komið fram í umræddri grein Más. Engu að síður er hann orðinn “gyðingahatari” og meira að segja þriðji ættliðurinn af því tagi þar sem fyrir væru ég og faðir minn. Ég meina það! Eiginlega er svona öfgafull vænisýki ekki svaraverð. Þó finnst mér, þegar betur er að gáð, að ekki eigi að láta svona yfirgang endalaust um kyrrt liggja. Við Vilhjámur höfum áður att kappi. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég blaðagrein um óbeit mína á kúgunarstefnu og mannréttindabrotum Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum. Játa reyndar að um leið lýsti ég því hversu lítið mér þætti koma til hins duttlungafulla og grimma Jahve einsog honum er lýst í Gamla Testamentinu. Var að velta því fyrir mér hvort loddi saman móralskt það sem þar er lýst og núverandi háttalag Ísraelsmanna.Við því er búið að það hafi sært sál þeirra sem hafa valið að lúta þessu goðmagni, sem bauð mönnum frekar að ótta sig en elska og “gaf” svo þessum þjóðflokki lönd með því að siga honum á fyrri ábúendur þess og eyða þeim með manni og mús. Það var í sjálfu sér miður, virða ber trú hvers manns og lífsskilning, þótt maður eigi oft erfitt með að skilja sjálfur. Vilhjálmur brást svipstundis við “gyðingahatri” mínu með því að birta óflatterandi mynd af öldungnum, föður mínum, sem þá var látinn, og hafði komist yfir flokksskírteinisnúmer hans í Nasistaflokknum frá 1929. Þetta hefur honum fundist einu rökin til varnar framferði Ísraelsmanna um þessar mundir um 80 árum síðar. Góð upplýsingasambönd. Ég svaraði þessu á sínum tíma og fer ekki mörgum orðum um það nú. Satt að segja hafði ég ekki vitað um þessa gjörð föður míns að hætti svo margra annarra ungra menntamanna á þessum tíma. Sú ályktun að allt það fólk hafi á þeim tíma gert það af einskæru gyðingahatri er að mínu mati ekki mjög málefnaleg svo ekki sé meira sagt. Það sem faðir minn hafðist að næsta áratug eftir flokksskráninguna, var að byggja upp íslenskt tónlistarlíf af lífi og sál.  Í lok þess tímabils beitti hann sér sérstaklega fyrir því að landi hans og kollegi, sem mátti sæta miklum erfiðleikum og hafði hrökklast til Austurríkis frá Þýskalandi vegna þess að hann var kvæntur konu af Gyðingaættum, kæmist undan hingað og gengi hér beint í það starf, sem hann hafði gengt. Gekk það eftir. Þessi maður var okkar ástsæli Victor Urbancic. Svona var nú Gyðingahatrið mikið. Eftir heimkomu föður míns til Austurríkis úr stríðsfangabúðum, en hann hafði verið munstraður í þýska herinn, fékk hann fljótt aftur stöðu sem rektor tónlistarskóla fyrir orð þeirra álitsgjafa, sem þekktu hann og báru honum sérstaklega vel söguna. Þess var nú heldur betur gætt á þeim tíma að vondir nasistar kæmust ekki í slík störf. Ekki eitt styggðaryrði. Þvert á móti. Nóg um það.

  Hver skapar Guð? 

Ég fékk annað svar við ofangreindri grein minni. Það barst frá háskólakennara í heimspeki í Noregi. Þá varð ég hissa. Texti heimspekingsins gekk útá það að hér væri í minni persónu kominn fulltrúi AlKaida á Íslandi! Ég hafði einnig látið í ljós sterka gagnrýni á Bandaríkin. Hann skrifaði samt mest um það, sem aðrir en ég höfðu ritað um andúð sína á hátterni Ísraelsmanna. Hið eina, sem hann hafði efnislega að segja var að ímynd Jahve hefði stórbreyst til batnaðar á meðan Babýlonvist Ísraelsmanna stóð. Þar lá að! Það er ekki Guð sem skapar manninn heldur maðurinn, sem skapar Guð. Þetta hafði mig lengi grunað. Ísraelsmenn munu víst ekki hafa átt svo slæma vist í Babýlon, t.d. ekki ef borin er saman við hlutskipti Palestínumanna undir hernámi þeirra sjálfra nú. Þeir fóru að vera virkir þátttakendur í þessu nýja þjóðfélagi svo að strangir trúmenn höfðu áhyggjur af því að þeir gætu e.t.v. samlagast að fullu hinni nýju þjóð og horfið inní hana, rétt einsog hinar tíu ættkvíslir Ísraels höfðu líklega gert á undan endur fyrir löngu. Tóku þeir þá til þess ráðs að stappa í þá stálinu, breyta Guði til betra horfs og safna saman í heild þeim þjóð- og flökkusögum, sem höfðu verið á sveimi svo öldum skipti, svo og miklum bálki siðareglna, sem eflaust hafa að geyma margsháttar vísdóm. Athafnasemi af þessu tagi heyrir undir það, sem hefur verið kallað í sagnfræði að “finna upp hefðir” (e. inventing tradition). Þetta tókst vel. Sú þjóð, sem fékk aftur að snúa til gamla Ísraels hafði fengið skarpt afmarkaða sjálfsmynd sem Guðs eigin þjóð og lífsleiðbeiningar, sem elfdu samstöðu hennar og vitund sem úrval annarra þjóða. Einhverjir segja að þeim hafi reyndar ekki verið mjög vel tekið, þegar þeir komu til baka til landsins, sem þeim hafði verið “gefið”. En þar er tilkominn sá “réttur”, sem þeir skírskota æ síðan til sem útskýringar á ofbeldi sínu gagnvart Palestínumönnum. Ekki var þá frekar en nú minnst á sögulegan rétt Kanaansmanna til lands þarna, enda búið að útrýma þeim af yfirborði jarðar í Drottins nafni. Í þennan “rétt” skírskotaði Metanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í ræðu hjá SÞ fyrir nokkru. Sagði einsog alltaf að Ísrael biði eftir tækifæri til að semja, en það gæti kostað þá hinar sárustu fórnir, jafnvel þótt aldrei yrði samið um að skila aftur öllu því landi, sem þeir höfðu hertekið 1967 og lagt undir sig . Fórnir? Að skila aftur landi, sem þeir hafa rænt til búsetu, þvert ofaní alþjóðasamþykktir og lög? Þarna liggur einmitt hundurinn grafinn. Hefur einhverjum virkilega dottið í hug að Ísraelsmenn hyggist semja endanlega við Palestínumenn? Þeir draga endalaust lappirnar um leið og þeir búa til nýtt landakort með landráni, nýjan veruleika, sem gerir það of “sárt” fyrir þá að semja um ásættanlegan frið fyrir heimsbyggðina. Nú þegar búa um hálfmilljón manns í landránsbyggðum í Palestínu. Þar er að finna ofsatrúarmenn, sem fara um gráir fyrir járnum og slíta gjarnan upp olívutrén, sem eru helsta lífbjörg palestrínskra bænda. Ísraelsstjórn gefur heiminum langt nef með því að hundsa viðurkennd mannréttindi, storka alþjóðasamfélaginu æ ofaní í æ og ullaði jafnvel á vini sína, Bandaríkjamenn, þegar þeir síðarnefndu báðu þá fyrir nokkru  blessaða að hætta þessu. Beita yfirburðaher sínum af grimmd, einangra landið algjörlega, skilja eftir jarðsprengjusvæði í Líbanon, þar sem fólk er sífellt að missa fæturnar, og sprengja upp byggðir. Þeir hafa töglin og halgdirnar í Palestínu, beita aflsmunar og ríkja þar og drottna, ráðskast með allt líf Palestínumanna, hvað þeir megi flytja inn sér til matar og drykkjar, stöðva innflutning á byggingarefni, búa til gettó Palestínumanna með múr á þeirra eigin landi, slíta sundur fjölskyldur, bændur frá ökrum sínum, börn frá skólum sínum, fólk frá vinnu sinni, gera þeim lífið nær óbærilegt með því að hindra eðlilegar ferðir þeirra um eigið land með urmul af varðstöðvum til tálmunar á öllum vegum, fangelsa þá oft fyrir litlar eða engar sakir um árabil án dóms og umfram allt niðurlægja þá, lítillækka, smána og drottna yfir þeim á ómennskan hátt. Virðast ekki hafa heyrt mikið um almenn mannréttindi. Hindra að útlendingar geti stuðlað að nytsamri uppbyggingu í landinu og jafnvel að flytja þangað hjálpargögn. Flytja frekar sjálfir inn erlent vinnuafl til Jerúsalem og víðar frekar en að ráða þarbúandi Palestínumenn til þeirra starfa. Þeir eru þar annars flokks íbúar með skert mannréttindi, án ríkisfangs og gert að undirskrifa eiðstaf um það. Ísraelsmenn kvarta sáran (skiljanlega) yfir því að fá ekki viðurkenningu nokkurra Arabaríkja sem sérstök þjóð (sem Palestínumenn hafa þó ítrekað gert og gefið eftir mun stærra land en ætlað var með stofnun Ísraels), en vilja ekki viðurkenna Palestínumenn sem þjóð. Nefna þá bara alla upp til hópa “hryðjuverkamenn” og heilaþvo æskufólk sitt á þeim nótum. Læsa þá inni.  Framferði þeirra er líkast því að þeir séu að reyna hægt og bítandi að mölbrjóta þrek Palestínumanna og gera þeim lífið óbærilegt þar til,- ja, til hvers? Að þeir verði flóttamenn í eigin landi? Eða hverfi hreinlega einhvern veginn?

Rasisma af þessu tagi, í minna mæli þó, sáum við síðast í Suður-Afríku. Þá brást heimsbyggðin öll við og snupraði yfirvöld þar með góðum árangri. Menn geta hugsað sitt hversvegna það sama er ekki gert nú. Svipað þarf að eiga sér stað til þess að einhver von sé til þess að samningar náist meðal þessara þjóða.

Ályktun um viðurkenningu Alþingis í síðustu viku á því að Palestínumenn séu líka fólk er til fyrirmyndar. Verst að hjarðmennskan í Sjálfstæðisflokknum skuli enn við líði, allir þeirra menn með tölu komnir á sína kví.

Þaráður mátti heimsbyggðin horfa uppá vitfirrtan rasisma, sem einmitt beindist að gyðingum sjálfum, sem nú hreykja sér yfir aðra. Sorglegt og kaldranalegt. 

Ísrael er merkileg þjóð, en.. 

Sú var tíðin að ég bar mikla virðingu fyrir Ísraelsmönnum. Fannst einsog flestum í kjölfar þess hryllings, sem þeir hefðu mátt sæta í helförinni, réttlátt að afhenda þeim það land sem er þeirra enn í dag. Átti þá ekki von á því að þeir myndu ræna meira og kúga nágranna sína, sem þegar hefðu mátt sjá af helmingi lands síns við stofnun Ísraels Ég dáðist og dáist enn að dugnaði frumbyggjanna, seiglu, hugviti og útsjánarsemi. Afreksmenn í skarpri hugsun og fara heldur létt með það að velta til sín einum og einum Nóbelsverðlaunum, einog raunin varð einmitt þetta árið. Fannst jafnvel stríðið 1967 hljóta ásættanlegan endi. Mosche Dian var minn maður. Hef skilning á þörf þeirra fyrir að verja hendur sínar og bíta frá sér þegar því er að skipta, m.a. vegna sjálfsprengjufólks, sem myrðir fólk á götum úti. En síðan eru liðnir allir þessir áratugir. Allan þennan tíma hafa þeir beitt yfirdrifnum yfirgangi og ofbeldi og ekki viljað  sleppa  kverkatakinu. Friður virðist í þeirra huga byggjast á því að geta kúgað Palestínumenn og hindrað þá í því að njóta einföldustu mannréttinda. Að hafa frið til þess að stela frá þeim landi, vatni og  ekrum, arfleifð og sögu. Valda því að hundrað þúsundir barna séu vannærðar, atvinnuleysi um 80%. Þeir kunna ekki heiminum neinar þakkir fyrir að hafa fengið landið að gjöf frá alþjóðasamfélaginu. Einog mannkynssöguleg þróun um lönd og þjóðir eigi allstaðar við nema bara ekki hjá þeim. Þar eigi menn að snúa til baka sögunni  um 4000 ár skv. forsætisráðherra þeirra. Manni er næst að halda að þeir geri hreinlega í því að storka umheiminum, láta ekkert af mannfyrirlitningunni, telja ekki friðvænlegt sýna af sér velvilja, það sé veikleikamerki, og hindra sættir, til að egna fram gremju og reiði og geta síðan stokkið upp og kallað: gyðingahatur, gyðingahatur. Þetta er einmitt það sem við búum enn við af hálfu vina Ísraels. Við, sem gagnrýnum þetta háttalag og höfum á því skömm, erum “gyðingahatarar” og berum væntanlega ábyrgð á helförinni fyrir 60 árum. Ég hef líka og hef haft óbeit á ýmsu háttalagi, hræsni og ofbeldi Bandaríkjamanna trekk í trekk og ekki farið leynt með það, einsog þegar hefur komið fram. Er þá væntanlega Bandaríkjamannahatari. Og að breyttu breytenda Rússahatari. O.s.frv. Ekki er unnt að segja að ég sé í vondum félagsskap með öllum þeim, sem hafa svipaða skoðun. Dettur mér þá strax í hug Gyðingurinn Noam Chomsky. Og samkvæmt þessu er einnig Rut, ekkja ofangreinds Moshe Dyan, Gyðingahatari. Hún hefur líka lýst yfir óbeit sinni á stefnu landa sinna.Viðbrögð við þessum pistli mínum verða væntanlega á svipuðum nótum og fyrr. Það er syndsamlegt að gagnrýna ofurþjóðina. En Ísrael verður bara að láta sér það lynda rétt einsog aðrar þjóðir. Hún er ekkert uppyfir þær hafin. Það er ekki nema sjálfsagt að gera sömu kröfur til hennar sem annarra þjóða varðandi gæslu mennsku og mannréttinda. Við ættum ekki að þurfa að sitja þegjandi og hljóðalaust undir þessum yfirlætislegu upphrópunum ef okkur hugnast ekki framferði stjórnmálamanna í öðrum löndum og leyfum okkur að láta það í ljós. Þessvegna er þessi pistill ritaður, þótt seint sé.   


Stjórnlagaréttur

 

Ég komst satt að segja ekki hjá því að heyra í gegnum skammarlega þunnan pappírsvegginn á kosningaklefanum hvað kjósandinn í næsta hólfi var að skrifa á sinn kjörseðil. 'Eg bara trúði ekki mínum eigin eyrum og hafði fyrir því að ná mér í tröppu með hjálp kjörnefndarstarfsmanns og kíkja yfir pappann. Ég hafði heyrt rétt Þarna var kjósandinn að krota niður þessar 25 fjögurrastafatölur einsog ég vissi. Og nú hafði ég séð allt! Skildi samt ekkert af þessu talnaflóði.Hugsaði, að engu að síður gæti vissulega með skörpum ásetningi einhver hópur starfsmanna eða embættismanna náð að sjá þennan kjörseðil í heilt sekúndubrot þar sem hann var ekki samanbrotinn eða jafnvel tekið hann upp á falinni myndavél.Svona þarf maður að passa sig.

Ekki er heldur unnt að treysta því að ekki hafi verið bætt í eða fækkað atkvæðum þótt kjörkassar væru innsiglaðir. Hvað getur ekki þessi nanótækni gert? Eða þá vaskir tölvumenn með brýna þekkingarþrá og geta fylgt einum kjörseðli eftir til uppruna síns? Allir þessir möguleikar eru vísir til að hafa valdið meiriháttar brenglun á kosningaúrslitum. Gott er nú að eiga hæstarétt sem skoðar málið í heild sinni og lætur ekki afvegaleiða sig vegna sérstöðu þessara kosninga í mörgu tilliti, 250 einstaklinga í kjöri, flókins ferils, nýmæla. Það kemur heildinni ekki við.Bara hitt að búa til eigin skilmerki af ýtrustu tæknilögfræði.


Heilsuátak í jafnréttismálum

Jafnrétti. Flott orð. Búið að vera svo lengi á sveimi. Eru þá t.d. laun jöfn til allra? Umgengi við börn? Réttindi barna til umgengis við foreldra?

Dómsmál. Í stjórnarskránni er heilmikið lið "dómenda". Orðið "dómari" kemur aðeins fyrir ( tvisvar) þegar rætt er um heimildir til að halda fólki í knastinu í einn sólarhring. Athyglisvert hvað þessari framkvæmd er lýst nákvæmlega á meðan svo margt annað er nánast afgreitt með fáum orðum og löggjafanum látin eftir nánari útfærsla. Einu sinni enn er þó "dómara" getið: Í 61 gr. þar sem kveðið er á um lausn frá embætti og sérstaklega getið eftirlaunakjara hæstaréttardómara.

En dæmir nokkur dómara? Í 70. grein segir að "..dómþing (skuli) háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila." Ekki verður annað séð en sl. haust hafi sjálf stjórnarskráin verið brotin í máli "nímenninganna" voðalegu. Dómarinn ákvað að aðeins hlutialmennings skyldi geta fylgst með í heyranda hljóði. Úrvalið var handahófskennt, þeir fengu sem komu tímanlega, hinir ekki. Hafi málið verið þeim vanköntum háð sem um segir í s.hl. ofangr. málsgreinar, hefði að sjálfsögðu átt að rýma allan salinn. Ef ekki, hefði átt að framfylgja gildandi stjórnarskrárboði og koma upp upplýsingagræjum einsog tíðkast á öllum fagráðstefnum. Að halda regluboð að hálfu en brjóta að hálfu hlýtur að vera nokkuð álappaleg dómsgjörð svo ekki sé meira sagt..

Því er nú teygður svona lopinn til að hugleiða hvar stjórnarskráin tekur að sér að lýsa einstökum ferlum í þjóðfélaginu útí hörgul en öðrum í engu.

Og hver dæmir dómara? Hversu mörg dómstig viljum við? Eru þetta veigaminni mál en eftirlaun hæstaréttardómara?

Hvernig er farið um ábyrgð í starfi opinberra starfsmanna?

Stjórnlagadómstóll?

Vilja Íslendingar taka þátt í stríðsrekstri eða ekki? Er EB stríðsbandalag en ekki NATO?

Börn sérstaklega koma fyrir í tveimur línum í stjórnarskránni,í 60 bókstöfum + 11 ásláttarbilum frá 1995. sem segja ekkert (76.gr). Nóg pláss er hér til að smeygja því öllu inn:" Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst". Takk fyrir pabbi. Ekkert um lágmarksréttindi, s.s. í hinum ýmsum tegundum sambúðartegunda, vitneskju um uppruna sinn og réttindi. Öryggi, vellíðan koma hvergi við sögu. Til er hópur fólks sem telur það hollt fyrir börn að flengja þau einsog "velferð þeirra krefst". Um vinnuhæfni og vinnukröfur á hverjum aldri eru engin orð höfð um.

Þetta á auðvitað ekki síst við á víðara vettvangi á nýjum tímum líffræðilegra undra einsog klónunar, genaumröðunar í plöntum, dýrum OG mönnum, Stofnfrumuheimur. Hvar munum við getað leitað athvarfs, snúist til varna og umfram allt mótað okkur grundvallarprinsíp í þeim darraðardansi? Þarna hefði sannarlega verið gott að vita af yfirlýstum fagmanni til að skutla inn.

Hvað um stöðu okkar vegna hlýnunar jarðar?

Er ekki kominn tími til að skera úr um það á afgerandi hátt hvað tungumál viljum nota í framtíðinni?

Og er ekki tími til kominn að banna í stjórnarskrá að hungur geti sótt að Íslendingum og þá einkum öryrkjum, öldruðum og einstökum mæðrum. Þá er gott að muna, að þar koma börn ( og "þeirra velferð", sjá 76. gr.) við sögu. Það á sannarlega heima í stjórnaskrá að mínu viti að gera ráð fyrir því að enginn skuli þurfa að lifa undir fátæktarmörkum sem skilgreind skulu á hverjum tíma, og mati á rekstrarkostnaði fjölskyldna. Það á að vera óheimilt að skrökva að þjóðinni að fjármagn til þesskonar jafnréttis sé ekki til. Auðvitað er það til! Þjóð sem um stundarsakir þótti meðal ríkustu þjóða heims (á þeim tíma sem uppihaldstryggingarbætur voru skertar hvað mest) situr enn að nógu þótt harðnað hafi á dalnum.

Það krefst heilsuátaks: Hjálpa þarf þeim sem bera þurfa að bera á bakinu þungar klyfjar gulls, sem þeir hafa ekkert að gera við, ( fá brjósklos vegna þess að gylltir liðþófar eru veikari en þeir náttúrulegu )og þreyja erfiðar siglingar til Karíbahafsins, bagga sem ætíð virðast gera slíkt fólk kolruglað í ríminu og leiða af sér andlega brenglun. Þetta gull er svo ærið nóg til að létta af þeim verst settu í samfélaginu sínar klyfjar og þarmeð þau andlegu og sálarlegu kraumum, sem skv. hlutarins eðlis steðja að þeim. Með svolitlu Herbalife gæti þetta verið vel til þess fallið að auka velferð og langlífi á Íslandi.

Orðið "réttlæti" kemur ekki fram í Stekkjargjá 2000, en fer frekar hátt í flokki hinna tvegga , 4. sæti hvort.. Við erum að tala um það hér að ofan.

Hvergi nema í stóru dyggðunum sjö, þessara sk. "kristnu"frá fornu fari , komast á blað dyggðirnar "viska" og "hugrekki".

Mikið óska ég þess að valdir þingfulltrúar á Þjóðlagaþingið láti nú ekki á sig fá þessa útlegð orðanna viska og hugrekki og leyfi þeim að fljóta með inní þingið.

Þau hefur vantað svo lengi.


4041

Stjórnlagaþingið virðist hafa úr nógu að moða af almennum hugmyndum um óaðfinnanlegt  hátterni skv því sem ég hef rætt undanfarið. Við eigum greinilega gott fólk með hjartahreinar hugsjónir og vilja til þátttöku. Maður heyrir í einstökum frambjóðenda innanúr seimnum í útvarpinu, sem minnir svolítið ónotanlega á jólakveðjur RÚV, og finnst þetta svosem vera sama tóbakið þótt almættinu sé lof fyrir einn og einn frambjóðendanna, sem laumar inn  hugmynd og málefni útfyrir venjurammann sem er vissulega einnar nætur virði.

En ég undrast líka hversu flestir láta sér nægja að halda á lofti nýju klisjunum, einsog um ákveðnari þrískiptingu valdsins, ráðherrar skuli ekki vera þingmenn ( líklega eitt af helstu hræðsluefnum fortíðarunnenda ), persónukosningar,  þjóðarkosningar, stjórnskipulegt hlutverk og skyldur kóngsins/forsetans,  o.s.frv.  Það er svo sem gott og blessað. ,en hvað með nútímann? Og framtíð? Í mínum huga hljómar gamla stjórnaskráin svolítið einsog karlaraup, umfjöllun um yfirmenn, elítismann. Restin er rýr og virkar á mig  einsog klapp á bakið, svona,svona kallinn hérna er eitthvað skemmtilegt fyrir þig líka.  

Landið okkar?  Í umræðunni virðist fyrst og fremst minnst á haggildi þess á merkantílan  hátt, sem auðlynd, er nauðsynlega þurfi að færa til réttrar eignar. Alveg mætti koma fram stolt og væntumþykja og tilfinningalegt verðmætismat sem afkomendur okkar skuli njóta sem slíks. En þá þarf að standa til boða fagkunnátta í  umhverfismálum, mengun. Ég man ekki í fljótu bragði eftir að nokkur hafi nefnt mengun á nafn. Mál nútímans og framtíðar. Mál allrar heimsbyggðar. Höfum við löngun eða skyldur til að taka þátt með öðrum þjóðum í að berja á þessum fjanda? Eða leiða aðrar þjóðir.  

Eða viljum við aðeins drolla hérna úti í ballarhafi og huga að eigin naflavandamálum án samneytis og samvinnu við aðra? Veðurbarinn, vöðvatelgdur afdalabóndinn staddur á fleyi eigi góðu úti á rúmsjó með hrífu ( úr áli ) í annarri en ár í hinni,  með atburðarýran heiðardalinn í starandi augnaráði, staddur þar sem hvergi sést til lands“.Miklir-menn –erum- við, Hrólfur minn” heilkennin. Svona Íslending viljum við helst ekki sem fyrirmynd.

Það er huggunarefni að til að mynda stendur til boða einstaklingur sem hefur til að bera  hvort tveggja í senn, þessa ást til landsins sem enginn efast um og þekkingu í mengunarmálum, Ómar Ragnarsson. Þótt það sé í sjálfu sér gleðiefni að frambjóðendur til þessara kosninga búi við fjölskrúðlega reynslu, mætti líka huga að því að sértæk þekking og kunnátta eru einnig eftirsóknarverð. Þingið mun væntanlega kalla til sérfræðiálit um flest mál, en sértæk þekking innan hópsins getur verið nauðsynleg til að feta sig um í vinnu þingsins. Ekki segi ég þetta vegna lílils trausts á mörgum sem hafa látið í ljós áhuga af þessu tagi.  

Á ekki að reyna að læra af reynslunni og reyna að hindra að fjárglæframenn geti hreiðrað um sig í skjóli ótakmakaðs agaleysis, skorts á ákveðnum leikreglum og lauslætis í bjagaðri eignaskilgreiningu, hafa gert stóran hluta þjóðarinnar nánast nánast að  leiguliðum fyrri alda. Á að halda opnum þeim fræðilega möguleika að einhverjum (óþekktum) aðilja verði selt allt rigningavatn til einkaleyfishafa, einsog menn gerðu sallarólegir í Bólivíu, sem breytir raunar endanlega leiguliðum í þræla. Viljum við fá ENRON ?    

 Almennt má segja, að lýðræði skuli ganga framar fjárræði, fólk framar fé. 

Á Íslandi hefur verið komið á lénsskipulagi í sjávarútvegi.

Líklega þætti ekki eftir allt saman alveg útúr kú að stjórnarskrárbinda bann við hungri.Og góða meðferð á niðursetningum Svona erum við nú bara langt komin.  

Það er því sannarlega ekki goðgá í mínum augum að fastsetja í lykilmálum nánari skilgreiningar en víðast hafa tíðkast. Einsog í umhverfismálum höfum við val um einstakling, sem býr að sérþekkingu í fjármálum. Það er nýlunda á þessum vettvangi að sá góði maður siglir undir réttu flaggi, kveðst eiga erindi á svæðið f.o.f. til að beita sér að þessum málaflokki í gerð stjórnarskrár. Af vissum ástæðum vil ég nú ekki nefna nafn hans sérstaklega, en get þó sagt að fyrstu stafirnir eru 4041.  


Stóru dyggðirnar

                            

                    Hver hafa verið viðmið okkar gegnum tíðina? Gerð var Gallupkönnun fyrir um 10 árum síðan um þær dyggðir, sem  Íslendingar mætu mest. Gaman að rifja upp niðurstöðurnar ( í röð mikilvægis ): Heiðarleiki (“yfirburðasigur”), hreinskilni, jákvæðni, traust, dugnaður, fjölskyldu- og vináttutengsl, heilsa. Gildi þessara almennu gilda er að “efla sameiginlega vellíðunarþátt lífsins á varanlegan hátt” ( Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir, rithöfundur). Ekki eitt aukatekið orð um eignarétt, Range Rover, stofnhlutabréf. Raunar einnig lítið fjallað um menntun og starfsframa. Við höfum greinilega trúað þeim hugarburði þá einsog nú þegar við slengjum frasakennt enn fram að við séum séum svo svakalega menntuð.          

Vissulega má svosem einnig deila um hvort “heilsa” teljist til dyggða, nema þá helst til dyggða heilbrigðisstéttanna.              

Þarna voru teknar saman sjö dyggðir svo bera mætti saman við gömlu, góðu Dyggðirnar sjö, sem gjarnan eru nefndar hinu kristnu dyggðir, einsog þær hafi verið fundnar upp í kristninni. Þær voru: Viska, hugrekki, hófstilling, réttlæti, trú, von, kærleikur. Þessar dyggðir fengu allar form í höndum myndlistarfólks og voru sýndar sumarlangt árið 2000 í Stekkjargjá á Þingvöllum. Ættu að hafa vakið hugleiðingar margra Íslendinga. Sorglegt hvað viskan hrapaði strax aftur útaf vinsældalistanum.        

Allt er þetta sætt og fallegt. En hvorki verður þessum dyggðum beinlínis í orð komið í stjórnarskrá eða lögum. Og nú hefur stjórnlagaþingi verið búið sérstakt veganesti af Þjóðfundinum: Jafnrétti, lýðræði, mannréttindi, réttlæti, frelsi, virðing, ábirgð. Nokkru neðar í röðinni er t.d. auðlind. Nú er verkefnið að bræða þessi hugtök um samfélagsleg gildi við dyggðirnar frá fyrri tímum. Þar leynast strax átökin. Þau eru auðvitað pólitísk. Það þýðir ekkert að horfa framhjá því og væri líklega jafnvel hræsni að halda öðru fram.           

Útfærsla eftirsóttustu gilda okkar er sannarlega ekki einsleit. Páll Skúlason, prófessor, orðaði það svona ( TMM 2, 2009): “Og þá skiptir höfuðmáli hvernig þeir (fræðimenn ) hugsa sér samfélagið, hvort þeir líta á það sem “ hagsmunafélag sérhagsmunanna” eða sem “ félagsskap hugsandi vera” “. Þessi hugsun lá mér töluvert í sinni í pistlinum  um fulltrúaval inná Stjórnlagaþingið og taktík til að ná fram pólitískum tilgangi.  Páll segir í sömu grein: “Við verðum sífellt að takast á við það ( lausn óvæntra úrlausnarefna ) sem við verðum að bregðast við sameiginlega. Þess vegna er ný sköpun(leturbr. ÓM) hvergi brýnni en í stjórnmálum, þar þurfa menn endalaust að leita nýrra leiða til að móta samlífið, setja niður ágreining.......”        

Vissulega er það ekki stjórnarskráratriði að “bregðast við sameiginlega” frá degi til dags, en minna má nú rota en dauðrota, ef ekki er talin þörf fyrir ötula nýsköpun á margra hundrað ára fresti á vettvangi stjórnarskrárinnar. Einsog kemur fram í ofangreindum samanburði á mismunandi gildum ríkjandi á hverjum tíma, þá finnst mér gefa augaleið að þessa eigi einnig að kenna stað í stjórnarskrá svo hún verði ekki einsog hver annar sýningargripur á Þjóðminjasafninu.                    Þarna er vandinn. Mikill vandi. Hvað er eiginlega lýðræði? Er það lýðræði að örflokkar komist til valda vegna pólitískra kringumstæðna og geti gegnsýrt samfélagið með víðtækum völdum sér, flokksmönnum og venslaliði til handa. Að þingmaður kjörinn gegnum hugmyndafræði ákveðins flokks geti allt í einu sagt “nú á ég mig sjálf” og gengið til liðs við einhvern annan flokks, sem, kjósendur hans sjálfs hafa hafnað?       

Stjórnlagaþing getur svarað mörgu af þessu með því að lýsa verklagi. Réttlæti. Frelsi. Allt ber að sama brunni. Lýsa hvernig okkur ber að lifa saman skv. þeim anda sem skilgreina þarf á markvissan hátt í sæmilegri sátt.

Annars verður þetta hreint orðagjálfur.     


Landslög eða þjóðlög?

Kannski gerir maður sér of miklar væntingar um að eitthvað skapandi og spennandi komi útúr þessu þjóðfundarþjóðlagaþingsveseni. En tækifærin heilla.      

 Margt þarf að varast. Þótt talað sé um Þjóðlagaþing er ekki verið að semja lög og þaðanafsíður að syngja þjóðlög nema kannski í kaffipásum.

 Um er að ræða þau bestu gildi, sem við getum sameinast um, ákveðnar almennar leikreglur sem við ákveðum að séu hollar og jafnvel nauðsynlegar fyrir alvörulýðræði og gott mannlíf og visst aðhald til að tryggja að þær séu haldnar. Ekki síst síðasta atriðið hefur klikkað hjá okkur.Til að afstýra að slíkt gerist aftur þarf skýrt og skorinort orðalag .Að öðru leyti er þessi vettvangur fullur af vænum hugtökum og algildum sem ekki verða eins létt mótaðar í orð einsog í myndverk til sýnis . Hvað er okkur efst í huga þegar við viljum vanda okkur? Gæfulegar dyggðir skulu ríkja og vera í miklum metum.

Samskiptaform okkar ráðist af slíkum gildum. Við deilum með okkur þessu landi, þessari óvanalega vel afmarkaðri fósturjörð og ber að taka vitrænar ákvarðanir um hvað sé okkur og öllum afkomendum okkar fyrir bestu í anda þeirrar mennsku sem við viljum að ríki. Auðvitað er ekki til neitt allsherjarsamkomulag um hvaða leiðir skuli farið til að komast að þeirri niðurstöðu. Slíkt kallast stjórnmál. En grundvallarplagg okkur á að setja ramma utanum þær aðferðir og þá breytni sem viðhafa skal í þeim leik. Og ekki síður að takmarka möguleika til að vaða yfir okkur á skítugum skónum einsog við höfum upplifað mörg síðustu ár. Hindra andrúmsloft svörtulofta þar sem sest að spillingarsýkt valdafólk sem getur haft það fyrir stafni að snúa útúr því sem lýðræðislegt má teljast, löglegt skv. Alþjóðadómstólnum eða réttlátt í kjörum þegnanna.

Var einhver að tala um.s sanngirni, gagnkvæma virðingu? Ég man það sveimér ekki.

Mæta og kjósa

Mér fannst verulega gaman að stúdera blaðakálfinn um kosningar til stjórnlagaþings. Las hann gaumgæfilega. Gaman að sjá þennan brennandi áhuga á inntaki lýðræðisins, sem allt í einu verður sýnilegur. Hvar hafa margir úr þessum hópi verið undanfarin ár þegar verið var að valta yfir okkur og allt alvörulýðræði lá ekki á lausu og það hantérað einsog verkfæri valdsins með tilheyrandi hundalógík, sem hripleki stjórnarskrár okkar bauð uppá og einhverjir vilja ekki fyrir nokkurn mun hnika við?

En allavega, nú er kominn fram þessi stóri hópur af mjög áhugaverðu fólki að minni hyggju, sem liggur mikið á hjarta. Loksins! Ekki dró úr vonargleðinni að heyra óminn frá því í gamla RÚV. Vitaskuld er megnið af því sem það hefur fram að færa hræðilegar endurtekningasamar klisjur, en - fyrir örfáum misserum var ekki mikið talað gegn "flokka"lýðræði", skotgrafaumræðuhefðir, spillingu, valdbeitingu, klíkuræði (e. chronismi), algjörlega bilað viðskiptasiðræði o.s.frv. Og nú eru þetta allt í einu orðnar klisjur. Ekki svo slæmt.

Það virðist þegar ljóst, að við megum vænta gagngerra breytinga í lýðræðisátt. Eða hvað? Við megum ekki gleyma þeim í þessum hópi , sem vilja ekki breytingar, hvað svo sem þeir eru að varðveita. Þeir eru tiltölulega fáir, en útfrá mínum bæjardyrum séð megum við gæta okkar. Fæð þeirra segir ekki mikið um stærð þess hóps sem að baki þeim stendur. Það má ekki tæla okkur í álfarann með því að taka ekki alvarlega það sem þeir standa fyrir. Það getur verið kostur fyrir pólitískan málstað að vera sem fæstir! Allur bakhópurinn dreifir þá ekki atkvæðum sínum, kýs þá í fyrsta sæti og engan annan. Við hin sem kannski eigum í verstu vandræðum með að velja úr þessum fjölda af vitrum einstaklingum, eigum beinlínis bágt. Þurfum við að svara þessari mögulegu, litlu ógn gegn bættu lýðræði með því að setja sjálf aðeins einn eða tvo á atkvæðaseðilinn? Jafnvel það gæti komið fyrir ekki því að þau atkvæði myndu líklegast engu að síður dreifast um víðan völl. Og þá er þetta ekki eins gaman! Frjó hugsun og fagleg ekki eins gefin og vonir okkar standa til.Ekki þarfyrir verður þingið skipað minnst 25mönnum. Vonandi næst góð breidd í hópinn.

En eitt er nauðsynlegt: Mæta og kjósa!

 

 

 

        

         

Plástrar gegn lungnabólgu.

 

 

Það sem mér finnst skipta höfuðmáli við vinnuna að bættum siðum í samfélaginu er djörfung og frjó hugsun. Ég á bágt með að skilja önuglyndi þeirra sem helst ekki vilja breyta neinu í grundvallarplaggi þjóðarinnar. Það er engu líkara en þeim finnist ekkert hafa breyst í samfélagslegri hugsun og gildismati í rúmlega öld, eða jafnvel enn lengur aftur í tímann, ef miða skal við höfuðkjarna stjórnarskráa alltfrá frönsku byltingunni og gerð stjórnarskrár BNA. Þessi regluverk voru að sjálfsögðu á sínum tíma æðimögnuð og settu fram djarfar hugsanir og visku; teljast enn til stóru viðburða sögunnar. Grunninnihald þeirra einsog það kemur fram í okkar stjórnarskrá blífur enn kjarni hennar. Enda talar varla nokkur um það að umturna eigi ríkjandi stjórnarskrá einsog fortíðarunnendur gefa stundum í skyn. Kannski hefði einhverjum þótt það nokkuð bíræfið á sinni tíð, ef íslenskir kotungar, tómthúsarmenn og útigangslýður hefðu tekið sig saman í þorpinu Krummaskuði og ályktað að enginn skuli búa við hungur í þessu landi um aldur og ævi. Enn skrýtnara myndi okkur eflaust finnast ef við létum þar við sitja í dag.

Í mínum augum er það einhver sérstakur varnarspuni að segja t.d. að stjórnarskráin okkar, lekagirni hennar, vöntun og loðmælgi, hafi ekkert haft með Krakkið mikla að gera. Það minnir á þegar þekktur og mætur prófessor hélt því fram að hin óhefta frjálshyggja hefði heldur ekkert haft að gera með Hrunið. Aðeins væri um að ræða að vitlaust fólk og gallaðir aulabárðar hefðu átt sök á því að svo fór sem fór. Ekki held ég að undirtektir hefðu verið góðar, einmitt ekki síst hjá þessum umrædda prófessor, ef haldið hefði verið á lofti þeirri söguskýringu að Kommúnisminn hefði ekkert haft með kommúnistískt sama hversu mikið þú plástrar þá bjargar það ekki manneskju með lungnabólgu.þjóðskipulag að gera. Þar hefðu aðeins rangir vitleysingar um vélað. Þ.e.a.s. kommúnistar.

Því er nokkuð haldið á lofti að búið sé að gera tugi breytinga á stjórnarskránni. Sem læknir leyfi ég mér að fullyrða það sem allir vita auðvitað, að það er sama hversu mikið þú plástrar, þú bjargar ekki manneskju með lungnabólgu með plástrum.

 

 

 

  


Getum við rétt úr kútnum?

 

Mikið er ég glaður í hjarta mínu yfir þeirri lýðveldisumræðu sem nú á sér stað. Eitthvað var ég að tuða um svipuð mál fyrir nokkrum misserum hér á þessu bloggi og þá einmitt ekki síst um þau meginmál, sem nú eru ofarlega á baugi.

Þráttfyrir allar hremmingar í stjórnmálum undanfarið eigum við þó þetta til! Ég tel þessa tíma vera mjög merkilega í stjórnmálasögu okkar. Við höfum gert okkur að athlægi of veröld víða með stórbokkaskap, kunnáttuleysi, óskammfeilni og glæpsamlegri óþjóðhollustu í fjármálahestaatinu mikla; aflað okkur algjörs vantrausts og niðurlægingar. Að minni hyggju eru yfirstandandi þjóðmálapælingar hressandi mótvægi við þennan lamaða orðstýr, sem geti ögn gert okkur kleift að rétta úr bakinu og litið upplitsdjarfari framí heiminn úr óvæntri átt. Mér finnst sem mörg af okkar kannist ekki við það og sumir vera jafnvel beinlýnis önugir og fúlir yfir því að raska eigi við stjórnarskránni, þótt nokkuð augljóst hljóti að vera að hún sé ekki gallalaus. Mér finnst í raun að hér sé að eiga sér stað merkileg þróun í skyndilegri almennri tjáningu um hvaða gildi skuli sitja efst í þjóðarsáttmála um mennsku innan stýriramma landstjórnar. Deyfðin ( og jafnvel óttinn ) að láta soldið undan.

Ferlið sem við erum að feta er í mínum augum spennandi. Þátttaka svo margra og um leið pælingar um alvörugildi í þjóðmálum, þjóðfundur og síðan þjóðlagaþing, á eftir að verða í minnum haft og afla sér orðstýrs útyfir landsteinanna, sem vonandi getur bætt okkar rikti agnarögn.

Ekki veitir af.

 

 

 


Engeyjarprinsinn.

 

Nú virðist allt benda til þess að Engeyjardýnastían sé enn einu sinni að komast til æðstu valda hér. Krónprinsinn mættur til leiks.

Hvað skyldi vera á bakvið þessa þróun? Og hvað skyldi hún boða?

Mér sýnist það allavega ekki boða endurnýjun í Sjálfstæðisflokknum. Nema síður sé. Enda okkar dæmigerði íhaldsflokkur. Og ekki lítið í húfi. Öll þau ítök, sem hann hefur haft og nælt sér í gegnum mestan part lýðveldissögunnar eru nú sannarlega þess virði að halda í. Hvað svo sem öllum heitstrengingum um "nýtt lýðveldi" líður.

Mér finnst smám saman verða æ ljósara hvert stefnir, síðast í Spegli Egils. Þar benti Bjarni Benediksson á að á Íslandi væri ekki rými fyrir annað en fákeppni á helztu viðskiptasviðum og þannig muni það vera um ókomna framtíð. Þarna kemur einn úr einum helzta fákeppnisbransanum, olíusölu, sem sannarlega hefur nýtt sér fákeppni á ýmsan hátt, einsog allir vita. Fákeppni er ekki skárri en einokun. Það sjáum við einmitt hjá olíufélögunum, þegar þau hækka og lækka verð nánast á sama klukkutíma öll í einu. Þegar heimsmarkaðsverð olíu lækkar bíða þau öll í þónokkurn tíma með að lækka hér vegna þess að þau þurfa auðvitað að selja "gamlar birgðir" á gamla verðinu. Ef heimsmarkaðsverð hækkar hinsvegar, þá eru aldrei til neinar birgðir hjá neinu þeirra og verðið hækkar í hvelli.

Þegar öllu er á botninn hvolft er heilmikið til í þessu með fákeppnina. Að því leytinu má segja að Bjarni hafi vikið af venjubundinni lógík Sjálfstæðismanna. Þeir hafa hingað til mært hina óvöktuðu, frjálsu samkeppni, sem væri svo hrikalega góð t.d. í BNA. Sannlega vöruðu þá einhverjir við hættunni á fákeppni, en það þótti ekki góð latína né umhugsunarverð, jaðraði við guðlast. Og greinilega fannst Bjarna þetta vera eitthvað, sem Íslendingar þyrftu að búa við um ókomna framtíð. Sorrí.

Í annan stað vildi Bjarni ekki dæma fjársýslumenn síðustu missera hart. Enga sleggjudóma. Kannski væri ekki við nokkurn að sakast voru um það hvernig væri komið fyrir okkur.

Á Alþingi vildu Sjálfstæðismenn hætta að þinga og fara í kosningar sem allra fyrst. Eftir 3j mánaða stjórnarsetu eftir krakkið voru viðbrögð með eindæmum silaleg og klaufaleg, en eftir stjórnarskiptin voru þeir strax farnir að hneykslast yfir seinagangi núríkjandi stjórnar, sem hefur 80 daga framkvæmda.

Nú síðast eru þeir að finna umræddu stjórnlagaþingi ýmislegt til foráttu. Ég hef ekki heyrt neinn Sjálfstæðismann lýsa yfir einlægum áhuga á slíku þingi. Reiknaðar eru himinháar kostnaðartölur. Hvers vegna gera þeir þá ekki breytingartillögur um stærð og umfang hins umrædda þings, sem mér sjálfum finnst ætlað að verða ótæpilegt monster, sitjandi með aðstoðarmenn dag eftir dag í allt að tvö ár!

Það virðist ekki vera áhugi á breytingum. Hið takmarkaða lýðræði okkar hefur verið ágætt til síns brúks hingað til.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband