7.4.2007 | 22:38
Skeggræða um flokkapólitík.
Nú er runnin upp sú tíð, þegar ýmsir stjórnmálamenn breytast í einhvers konar jólasveina, sem koma af fjöllum með stóran poka á bakinu og gefa í skóinn á báða bóga. Verur með gerfiskegg, sem síðar er tekið niður og geymt í fjögur ár til næstu kosninga. Þangað til þýðir ekki að banka uppá með óskalista, benda á þarfir eða réttlætismál.
Sum okkar láta stundum blekkjast af þessu leikriti, þótt við vitum vel að skeggið er ekki ekta. Þá gleymum við um hríð þráteflinu, sem stundað hefur verið háð gegn verst settu hópum samfélags okkar, gleymum hæstu vöxtum og verðlagi álfunnar og mestri verðbólgu, stríðunum sem okkur hefur verið gert að heyja gegn náttúrunni og Írökum, samkeppnisnauðri fáokun og pilskapítalisma, ósvífinni vinavæðingu og brengluðu lýðræði. Komandi kosningar eru að mínu mati þýðingarmeiri en oftast fyrr. Það er kominn tími til að segja skilið við kaldrana- og hráslagsleikann, sem fylgt hafa trúarbrögðunum um hagvöxt, einkahagnað, sérhyggju. Losa okkur undan þeim hugsanahætti að það eitt sé gott fyrir þjóðina, sem er gott fyrir hluthafa..
Við höfum enn orðið vitni af því að vald spillir. Aukist hefur miðstýring og tilfinningaleysi gagnvart þeirri vitrænu,opnu samræðu, sem lýðræðinu er ætlað að verja. Margir Alþingismenn lifa í þeim skilningi að þjóðin hafi kosið þá persónulega til forystu, þegar staða þeirra er í raun fyrst og fremst til komin vegna þess að þeir eru hluti af stjórnmálaflokki og vegna hrossakaupa flokka án þess að fylgi kjósenda standi endilega þar að baki. Fara stórum, skipta um flokka, eiga sig sjálf , skipa sér í lykilstöður samfélagsins án persónulegs umboðs og búa þær jafnvel til.
Flokksræði það, sem við köllum lýðræði, er að ýmsu leyti stórt vandamál að minni hyggju. Til þess að bæta það þarf auðvitað miklu meira til en að losa sig við eina stjórn; djarfa og frumlega hugsun og níðsterka réttlætiskennd, sem ekki verður hrist fram úr erminni í hvelli. En það er hægt, ef viljinn er fyrir hendi. Í mörgum löndum ríkir viðleitni til að bæta lýðræðið, og hér hefur verið bent á leiðir til að gera kosningar markvissari (sjá t.d. bókina Lýðræði með raðvali og sjóðvali eftir Björn L. Stefánsson, 2003).
Eftir of langan valdatíma hefur nú þótt minni og minni ástæða til að spyrja kóng eða prest um mikilvæg mál. Framkvæmdavaldið hirðir lítið um löggjafarvaldið. Þjóðin veldur ráðamönnum pirringi. Æ ofaní æ eru stjórnarherrar staðnir að því að fara ekki að lögum og kæra sig kollótta. Hrapalleg mistök einsog þau að allri þjóðinni skuli att útí styrjöld á fundi tveggja manna eru afrakstur stórbokkaskaps langrar valdasetu. Þeir verða nánast hissa yfir æsingi í þjóðfélaginu útaf svona nauðsynlegu lítilræði.
Opinber afskiptasemi og valdbeiting hafa aukist.Viðfangsefni dagsins er ekki að losna við ríkisstjórn heldur ofríkisstjórn.
Nú hefur einn minnsti flokkur landsins, Framsóknarflokkurinn, fundað, sett upp skeggið og heitið mörgu. Þetta teygjudýr íslenskra stjórnmála er talandi tákn um óviðurkvæmni flokkræðisins. Það hefur teygt sig til allra átta eftir því sem hentað hefur hverju sinni og fengið framgang langt umfram það sem þjóðin hefur kosið. Nú er gripið til ráða, sem helst minna á ákveðna sjónvarpsauglýsingu á þvottaefni: kona er rifin úr grárri blússu, sem dýft er að hálfu oní þvottalög og tekin uppúr aftur. Er þá sá helmingur orðinn skjannhvítur á ævintýralegan hátt, en hinn jafngrár eftir sem áður. Galdrasýning. Skal nú á sama hátt hvítþvo heilan flokk af þátttöku í landstjórninni um tvö undanfarin kjörtímabil. Teygja sig í aðrar áttir og treysta gleymsku okkar. Vera borubrött og inna uppá sjálfstæðismenn að efna kosningaloforð um að stjórnarskrárbinda eignarrétt þjóðarinnar á auðæfum sjávarins. Hjóla í þá.
En sjálfstæðismenn tóku í hornin á geitinni og snéru hana niður með stæl. Þeim var færður sá möguleiki að festa í sessi eignarhald félaga þeirra í LÍÚ á fiskinum í sjónum. Vandlega er þess gætt að semja texta, sem er loðnari en lófarnir á auðmanni, og undirstrika, að ekkert muni breytast í málefnum fiska, aldrei nokkurn tíma.
Sagt er að vísu, að lög kveði á um, að auðævi sjávar skuli vera eign þjóðarinnar. En lögum má breyta . Ein setning út, og sægreifum eru tryggð sín votu lén um aldur og ævi. Þvottahrina framsóknarmanna hefur þannig snúist uppí afdrifaríka sneypuför. Svona er að lofa uppí teygjanlegar ermar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.