Færsluflokkur: Bloggar
7.4.2007 | 20:37
Tannvernd og -verð.
Nýlega höfum við séð í fjölmiðlum,að tannlæknar stunda gjarnan atferlismeðferð. Óbeðið, en ekki án þess að rukka. Eftir að skólatannlækningar voru aflagðar og færðar í fang hinna heilögu, frálsu markaðsafla hefur tannheilsa íslenskra barna orðið langlökust á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Hefur jafnvel verið haldið fram, að varla sé til heil tönn, hvað þá brú, í ungum krökkum hér á landi og ástæða að hyggja að því að fara að gefa tennur í fermingargjöf einsog í denn. Ljóst er, að mörgum vex kostnaðurinn við barnatanngæslu í augum nú til dags, jafnvel þótt ekki eigi að vera til fátækt fólk á Íslandi. Ofannefnd fjölmiðlafrásögn segir frá því að auglýstur kostnaður hjá ákveðnum barnatannlækni við að kíkja í munn í tannræktarskyni nemi 6500 kr. Á meðan skoðunin átti sér stað, talaði tannlæknirinn ( að eigin sögn ) um að það væri nauðsynlegt að bursta tennurnar reglulega. Það er aðskilin meðferð, sem heitir heilsuverndarráðgjöf ( Baktus) og kostar 3500 kr. Síðan er reynt að fara ljúlfega að barninu, kannski tekinn fram bangsi og skoðað uppí hann, til að kveða niður ótta hjá barninu ( sem var ekki til staðar skv. frásögn móðurinnar) . Það heitir "atferlisfræðileg meðferð" (Karíus) og kostar einnig 3500 kr. Svo að reiknigurinn fyrir að kíkja inní þennan opna barnsmunn hljóðaði uppá 13500 kr. Ég ætla ekki að fara að gera þetta sérstaka undarlega viðvik að frekara umtalsefni hér nema í almennu samhengi við verðlagningu yfirleitt. Það færist sífellt í vöxt að falsa hið eiginlega verð vöru og þjónustu. Svo sem ekki nýtt af nálinni. Í mínum huga inniheldur álagning bæði kostnað við verkið og arðsemiskröfu þjónustuveitandans. Maður kaupir fjóra potta af mjólk á uppsettu verði og á ekki von á því að greiða 150kall í viðbót fyrir að fá að fleyta þeim á afgreiðslurenninginn við kassann og borga.. Þó hafa t.d. bankarnir stundað þetta í áratugi. Maður þarf að borga 450 kr. fyrir að fá að borga ( t.d.af skuldabréfi). Ég hef fram að þessu td litið svo á, að þegar ég sendi bréf í póst sé ég að greiða fyrir flutning hans um mismunandi langan vega á samsvarandi verði. Ó ekkí: Um daginn lenti sending frá mér í hendurnar á fyrirtæki sem heitir UPS. Og ég sagði "úps" stundarhátt þegar ég fékk reikninginn:
"Hraðsending-Bréf/Umslag" kr. 3620 (Ath. ekkert skilgreint nánar, t.d. hvert sendingin fór. Slíkt gæti gefið of miklar upplýsingar um almenna verðlagningu)
"Eldsneytisgjald án vsk." kr. 470. ELDSNEYTISGJALD! Ég sendi fyrirspurn. Svar: ""Eldsneytisgjald" er gjald, sem allir flutningsmiðlar taka sem viðkemur eldsneytisgjaldi flugvéla".
Svona er nú skvaldrað til að dylja eiginlega verðlagningu. Í kjölfar þessa spurði ég hvort ég mætti vænta þess að greiða til viðbótar sérstakt "gjald sem öll símafyrirtæki taka sem viðkemur símaþjónustu" eða sem "öll þjónustufyrirtæki taka sem viðkemur ræstingu á skrifstofu".
Það alvarlega í þessu er blekkingarþátturinn. Um hann eru auðvitað mýmörg önnur dæmi. Með öllum ráðum er reynt að rugla kúnnann í ríminu og þá ekki síður neytenda-, verðlags- og samkeppniseftirlit og væntanlega að skekkja verðlagsvísitölur. Vel mætti fara nánara ofaní saumana á þessu. Ég leyfi mér samt ennþá að treysta því að fá ekki næst viðbótarreikning hjá bloggvini mínum, Rögga rakara, fyrir atferlismeðferð, kr. 3500 oná sitt sanngjarna auglýsta verð fyrir klippinguna ( sem ég ætla ekkert að kjafta frá ) Eru þó rakarar yfirleitt rómaðir sálfræðingar. Ekki þarfyrir að hann hefði kannski þörf fyrir slíkt af minni hendi ef mið er tekið af bloggi hans undanfarið. En það verður reikningslaust.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2007 | 23:04
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Breytt 17.11.2008 kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Svo er sagt mér, að maður sé ekki maður með mönnum nema taka þátt í blogginu. Þessu hefur m.a. hann Röggi vinur minn og hárskurðarmeistari haldið fram, en hann er greinilega iðinn við kolann sjálfur, fer m.a. geyst gegn þeim Baugsmönnum. Bloggið sé tækifærið til að hella úr skálum reiði sinnar niðurbældri og afhlaða; einnig að kíkja á hugsinar annarra og skoðanir. Hið besta mál. Væntanlega nokkuð lýðræðislegt. Hér má sjá að margir nota tækifærið til tjá sig, sumir virðast m.a.s. hafa töluverða sýniþörf og aðrir gægjuþörf og er það gott og blessað. Vel mætti því kalla þetta fyrirbæri gjugg í blogg. Ég hef því ákveðið að taka þátt og segja heiminum svolítið til, svona þegar stund gefst frá amstri dagsins og þess gætt að það er líklegt til að veita ekki margar stundir til að gjugga í blogg.
Þá er næsta skrefið að kasta sér útí djúpu laugina og skrifa jómfrúarpistilinn.