Hvað nú?

 

Eitt er að mótmæla og krefjast breytinga. Annað er að tryggja að þær breytingar séu skilgreindar í höfuðdráttum  og eigi sér raunverulega stað. Mér hefur fundizt að áhuginn á að komið sé á uppstokkun í samfélaginu sé svo mikill að stundum gleymist að horfa á framhaldið. Það er látið sem svo að höfuðverkefnið sé að losna við alla stjórnendur á þeim forsendum að þeir hafi gert allt vitlaust og horfið að einhverju leyti framhjá þeim staðreyndum hversu ógnarmikill sá vandi er, sem við horfumst í auga við. Hann hverfur ekki þótt nýtt fólk setjist við stýrið. Reynslan hefur sýnt okkur að það hefur greinilega ekki orðið okkur til góðs að segja bara: við borgum ekki. Varla verður það auðvelt að skila bara láni AGS, takk fyrir.  Í Kastljósinu í vikunni spurði Geir Haarde Steingrím J. Sigfússon beint út hvaða aðrar lausnir hann sæi fyrir sér.  Þeim síðarnefnda vafðist þá meira tunga um tönn en maður á að venjast hjá þeim manni.

Ég er heldur ekki þeirrar skoðunar að núverandi stjórn hafi ekki gert margt til að lina þjáningarnar, t.d. félagslega. T.d. hefur mér hugnast hvernig Atvinnuleysisjóði er gert kleyft að styðja við atvinnuvegina, eða tilraun til að frysta afborganir. Engu að síður finnst mér að nýtt fólk eigi að taka við. Viðbrögð hafa verið alltof hæg og lengi vel nokkuð tilviljunarkennd og á þeim lítill leiðtogabragur. Þannig er það með ólíkindum að nánast skynja það að stjórninni sé stjórnað frá Svörtuhömrum. En umfram allt þarf að fylgja eftir þeirri hugarfarsbyltingu, sem þyrlast nú um samfélagið, um Nýtt Ísland, nýtt lýðveldi, með grundvallarbreytingum. Til þess er gamlir stjórnmálaflokkar ekki ýkja nytsamlegir. Nú þarf fyrst og fremst fagmennsku til að kljást við efnahagsvandann og í annan stað valinn hóp til að búa okkur nýtt stjórnkerfi, nýtt lýðræði. Ekkert minna.

Valkostirnir eru þessir:

          

  • 1. Framhald ríkjandi flokkakerfis skv. síðustu kosningum með ýmsum uppstokkunum og flokkapúsli uppá gamla mátann.
  • 2. Minnihlutastjórn.
  • 3. Þjóðstjórn
  • 4. Utanþingsstjórn.

Um fyrsta valkostinn hef ég þegar úttalað mig. Ekkert tryggir það að ekki verði bara hjakkað í gamla fari flokkaskipana og beðið verði endalaust eftir hinu og þessu flokksþinginu.

Annar valkostur er raunar afsprengi af hinum fyrsta. Og með sama hætti er ekki sennilegt að flokkar geti lyft sér uppá heiðan hlutleysistind, þegar kosningar eru svo á næstu grösum. Erfitt verður þá að líta framhjá hinni klassísku togsreytu milli hagsmuna þjóðarinnar og hagsmuna flokksins. Sú tilhneiging er mikil að túlka þá veröldina á þann veg að það sem sé gott  fyrir flokkinn sé raunar gott fyrir þjóðina.n Það vilji bara svona til.

Þriðji valkosturinn virðist vinsælastur skv. skoðanakönnunum. Sem er í sjálfu sér merkilegt. Valdabarátta flokkræðisins hefur fengið frí. En ég hef ekki trú á því að það auki snerpu í fangbrögðum við kreppuna, nema síður sé. Flokksviðjur muni halda fast, skoðanir, sem þarf að samhæfa, mjög margvíslegar

Mér finnst fjórði kosturinn bestur. Hann uppfyllir kröfur til fagmannlegra vinnubragða, ef valið er fólk sem bezt er hæft hver á sínu sviði og hinsvegar fólk með ferska hugmyndafræði. Oft kennir þess misskilnings hjá þingmönnum, að með því að "þjóðin hafi valið þá til forystu", þ.e.a.s. valið flokk viðkomandi, geri þá að sérstökum sérfræðingum í hverju sem er. Reifaði ég þennan kost í síðasta bloggi og hafði hugmyndir um vinnubrögðin, m.a. um vinnuhóp til að semja nýja stjórnarskrá, en slík grúppa mun nefnast stjórnlagaþing.Nú er komin fram hreyfingin Nýtt lýðveldi, sem stefnir nákvæmlega í þessa átt. Gaman. Nú er verkefnið að afla þessari hugsun fylgis svo að óvenjulegt tækifæri renni okkur ekki úr greipum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband