Er Framsókn í framsókn eða bara í heimsókn?

 

Það er segin saga að eins manns dauði er annars brauð. Uppúr hræi Framsóknarflokksins virðist vera að spíra nýtt grænmeti, nýjar jurtir. Fólk keppist við að tilkynna þjóðinni, að sé sé gengið í Framsóknarflokkinn. Það finnst mér eiginlega verið skýrasta tákn um að þeim flokki hefur í núverandi kreppuástandi og uppljóstrun um spillingu tekizt furðuvel að stikkfría sig af ábyrgð á  því öllu og koma fram sem nýpúðraðir barnarassar, saklausir og hneykslaðir. Fáum dylst samt að Framsókn undi sér ákaflega vel með Sjálfstæðisflokknum og tók fullan þátt í helmingaskiptum stjórnmálanna einsog löngum fyrr. Þeir hafa svamlað í miðjunni og opnað faðm sinn í allar áttir eftir þeim tækifærum, sem buðust hverju sinni. Það var kallað að vera opinn í báða enda. Jafnvel klofinn í báða enda. Þeir fengu sinn skerf af sölu bankanna á sínum tíma, ráðskuðust mjúklega með Samvinnutryggingar og græddu stórum og réðu flokksfólk til hægri og vinstri í lykilstöður. Íslenzk alþýða virtist fara jafnt í taugarnar á báðum foringjum stjórnarflokkanna í ofríkisstjórninni síðustu. Fyrr stóðu þeir saman um kvótagjöfina til vina og vandamanna. Það hefði áreiðanlega orðið saga til næsta bæjar í öðrum löndum, að sjávarútvegsherra annars lands hefði staðið að löggjöf, sem hann sjálfur og hans fjölskylda hagnaðist á í þeim mæli að eftir það var farið að tala um milljarða hér á landi. Spásserandi saman tóku formenn stjórnarflokkanna tveggja ákvörðun einir sér að fara í stríð við Írak. Með öðrum orðum: Framsóknarflokkurinn átti sannarlega sinn mikla þátt í pólitísku sukki hér um ára og áratuga skeið.

Mér finnst það sæta furðu að t.d. Jónína Benediktsdóttir skuli vilja ganga í hjólförin eftir  Finn Ingólfsson, sem hún hafði engar sérstakar mætur á og virtist vita töluvert margt gruggugt um, þann klækjaref. Ég kann vel við Jónínu. Hún er skelegg, hefur eldmóð og dugnað og er baráttuglöð. Það er áreiðanlega verulegur akkur í henni í flokksstarfi. Ég er reyndar búinn að bíða í mörg ár eftir bók, sem hún sagðist vera með í smíðum um stjórnmálasvínaríið, ekki sízt um Finn Ingólfsson, sem hún væri að rannsaka og ætlaði að opinbera. Þá myndi margt misjafnt koma í ljós. Fyrir tveimur til þremur árum kom loks út bók. Skáldsaga. Ég var soldið forvitinn og kíkti í  hana í bókabúð. Tilviljun réði því að ég opnaði einmitt á lýsingu á endaþarmsmökum. Í sjálfu sér er ekkert sérstakt að því, lífið er nú margslungið og spennandi. En ekki var þetta það, sem ég var að bíða eftir. Og þó? Var þetta kannski sýmbólsk lýsing á því hvernig Framsóknarflokkurinn hefur tekið þjóðina í öll þessi ár?

Ekki meira um það. Nú hafa fleiri heimsótt Framsókn, væntanlega til langdvalar. T.d. Jón Sullenberger, Guðmundur Steingrímsson, Sigmundur Gunnlaugsson. Og hin Jónínan, Bjartmarz, er farin að skrifa greinar.Þetta eru flest líklega sómapersónur, en ég skil hreinlega ekki af hverju þau ganga ekki hreint til verks og stofna með sér nýja og ferska hreyfingu. Ég er sannfærður um að hún væri líkleg til að fá meira brautargengi en gamli flokkurinn, þótt þau bæti sennilega ástand hans töluvert. Það er öruggt, að gamla gengið, flokkseigendafélagið, mun bregðast hart við og beita öllu, sem það má til að tryggja völd sín og hagsmuni. Flokkurinn er líklegur til að verða illa klofinn í annan endann. Bjarni Harðarson gaf örlitla innsýn inní hagsmunagæzlu foringjanna, þegar hann hvarf af Alþingi (illu heilli). Ég er sömu skoðunar og bloggvinur minn, Gunnlaugur B. Ólafsson, um líkleg mótív þessa fólks, og væri það ekki í fyrsta skiptið. Gunnlaugur segir ( án hans leyfis ): "En er það ekki einmitt framsóknarmennskan í hnotskurn eins og hún hefur birst síðustu áratugina. Enginn hugmyndatengdur metnaður, engin lífsýn, en einungis útreiknað mat á því hvað sé stysta leiðin í völd". Að vísu held ég ekki að hér sé ekki um neina lífssýn að ræða.

En það veldur mér töluverðri depurð að sjá  ágætisfólk ætla að sigla gamla, feyskna fleyinu undir nýjum seglum en með lík í lestinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú mesta bull sem ég hef heyrt lengi.  Það er eins og með annað sunnanlið að það lýtur aldrei út fyrir borgarmörkin.  Svo vill til að Framsóknarflokkurinn hefur 25-35% fylgi vítt og breitt um landsbyggðina.  Er landsbyggðarfólk eitthvert hræ í þínum augum.  Settu upp réttu gleraugun, þú hefur sjón á við blinda kettling.

RR (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband