Kommúnistar eru ekki það sama og kommúnismi.

 

Ég er viss um að góðir frjálshyggjumenn, og margir fleiri, myndu ekki taka sérstaklega vel í þessa staðhæfingu. Né heldur að það hafi ekki verið hugmyndafræðin, sem hafi klikkað, heldur bara fólk.

Auðvitað innifól stefnan sjálf í sér fall kommúnismans.Mannskepnan væri nú þeirrar náttúru að vilja sjá sjálfri sér farboða, nýta það úr tilverunni, sem henni hugnaðist bezt og bezt félli að eigin metnaði og hæfileikum. Miðstýrt áætlanasamfélag gengi gegn þessum eiginleikum, leiddi til valdbeitingar yfir lífi og gjörðum borgaranna, kúgun og spillingu. Hugmyndafræðin. Þetta var að sjálfsögðu rullan, sem frjálshyggjumenn mæltu fram hvenær sem tækifæri gafst, sérlega glaðir yfir því að þessi ismi væri dauður, þeir hefðu sigrað. Horfðu um leið einbeittir framhjá því að engu að síður væri samfélag okkar enn uppfullt af sósíalistískum velferðarfyrirbærum.

Haft var eftir Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni í blaðaviðtali í vetur að kapítalistar séu ekki það sama og kapítalismi. Þarna horfa málin einhvern veginn öðru vísi við. Það hefur satt að segja verið aumkunarvert að sjá, hvernig frjálshyggjumenn bíta fast í rótina í sandinum, sem þeir hafa stungið höfðinu í.

Og nú bregðast margir í forrystu Sjálfstæðisflokksins við einkar virðingarverðri naflaskoðun í "drögum" að ályktun hluta af framtíðarnenfd flokksins um þátt hans í krakkinu á þann veg að þeir, sem fylgt hefðu stefnu flokksins undanfarið, væru ekki það sama og stefnan.

Adam Smith lagði ekki fram kenningar sínar á grundvelli mannúðar og gerði sér grein fyrir því sjálfur. Þvert á móti eru þær byggðar á eigingirni og græðgi. Hann notaði þau orð sjálfur. Margir frjálshyggjumenn hafa æ síðan ekki kynokað sér við það að telja eigingirni mannsins hina ágætustu eiginleika og grundvöll að góðum bisness. Litið hefur verið á þessa hugmyndafræði sem hagfræðilegan Darwinisma. Viðbrögð þeirra, sem kæmu ekki ár sinni fyrir borð í þessari frumskógarmenningu, yrðu svo bara öfundsjúkir. Og öfundsýkin er jú ein af höfuðsyndunum segir Hannes Hólmsteinn. Hann gleymir því þá að græðgin er líka ein þeirra. Vandlifað.

Adam og Hannes hafa ekki gáð að því hve eigingirnin er eigingjörn. Græðgin veltir uppá sig og spillir sálinni einsog völd. Fær aldrei nóg. Herðir sálina. Heimtar æ meiri umsvif ("frelsi") til að sinna eigingirni sinni og leitar sífellt að réttlætingu fyrir hana. Enga afskiptasemi frá samfélaginu, takk. Jafnaðarmennska og velferðarhugsun eru "flathyggja". Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu um að aðeins sá sterki lifi af.

Þannig hefur eigingirnistefnan aftur og aftur leitt þjóðir í efnahagslegt hrun. Og þarf þá að skríða á fjórum fótum undir pilsfald hjá hinu annars handónýta ríkisvaldi. Helstu fyrirtækjabubbar, ekki sízt í BNA, eru þannig komnir á skeljarnar.

Þróunarkennig Darwins stenzt. Og mannapar hafa 99% sama arfstofn og við. Eigum við ekki að álykta, að þetta eina prósent, sem um munar, hafi leitt okkur og muni leiða okkur í vaxandi mæli frá frumskógarlögmálum inní þroska, sem smám saman nær að yfirvinna það. Bæta samhygð okkar og mannúð, sem lætur ekki smælingja liggja hjá garði.

Slíkt er þróun mennskunnar, sköpun mannsandans með sínu eina prósenti. Þróun. Eigingirnistefnan er frumstæð íhaldssemi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband