24.2.2009 | 22:26
Davíð hleypt út.
Davíð Oddsson er fyrirbæri. Þegar hann var við stjórnvölinn hugsaði ég oft, hve yndislegt það gæti verið að vera Íslendingur og eiga þetta stórkostlega land án þess að þurfa sí og æ að búa við yfirgang ofríkisstjórnarinnar, sem gerði manni gramt í geði og spillti þeirri gleði svo um munaði. Fyrirferðin í manninum var þrúgandi.
Því var það verulegur léttir þegar hann hvarf í hamarinn og við tók fólk, sem þorði að tala saman, mátti orða mismunandi skoðanir refsilaust og gat samt starfað að sameiginlegum málefnum. Mörgum þótti þetta sýna veikleika að gömlum sið, "stjórnin veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga". Í mínum augum er þetta stjórnmálegur þroski.
En því var ekki lengi að heilsa. Nú er minn maður fyrirferðarmeiri en nokkru sinni fyrr. Davíð Oddsson hér, Davíð Oddson þar. Fígaró hér, Fígaró þar. Davíð, Davíð. Og hótar þjóðinni að koma aftur í pólitík, einsog hann sé ekki núna í bullandi pólitík. Sumum finnst að með því sé hann svolítið að svíkja landsmenn, sem trúðu því að hann væri hættur í flokkastandi íslenzks lýðræðis, enda nýbúinn að verða sér úti um góðan eftirlaunapakka.
Annað loforð virðist hann algjörlega ætla að svíkja. Hann sagði í haust á blaðamannafundi að ef hann yrði beðinn um að hætta myndi hann að sjálfsögðu draga sig í hlé. Þetta loforð hefur hann svikið.
Þjóðin á ekki góðra kosta völ. Þarna fer maður, sem telur að leikreglur samfélagsins séu fyrir alla aðra en hann. Af tvennu illu finnst mér einsog flestum öðrum, sem eru að leggja hann í einelti, að hann eigi þá bara að koma aftur í pólitík.
Sjálfum finnst mér að alltof mikil orka meðal þjóðarinnar og hjá mér sjálfum hafi farið í þessa síhugsun: Davíð Oddsson. Nú hyggst ég nota þá orku í eitthvað annað. Losa um þetta uppistöðulón í huganum, hleypa af: Davíð Oddsson, Davíð Oddsson, Davíð Oddsson, Davíð Oddsson Davíð Oddsson, Davíð Oddsson.
Ei meir, ei meir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
.Aumingja Davíð sagði við Sigmar: .."Þú ert búinn að vera að reyna að sverta bankann minn og mig persónulega" ..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.2.2009 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.