24.2.2009 | 20:58
Hrollvekja.
Og ég sem var farinn að halda að Framsókn væri að fara í endurnýjun og hygðist stunda annars konar pólitík en valda- og sérhagsmunastefnu með Sjálfstæðisflokknum. Í ljósi síðustu atburða óttast maður að það hafi verið tálvon. Að gömlu kjötkatlaflokkarnir og flokkseigendur láti ekkert af hendi og beiti allra bellibragða til að halda áfram ríkjandi ástandi þrátt fyrir allar yfirlýsingar um nýtt Ísland, endurreisn og að Frammarar séu satt að segja raunar svolítið vinstri sinnaður. Það útaf fyrir sig getur sannarlega ekki talizt nýtt fyrirbæri í þeim flokki að hann opni arminn í allar áttir eftir því sem hentar. Og fordæmið frá borgarstjórnmálunum er sízt til að draga úr þessum áhyggjum. Það eina, sem virðist skipta máli eru völd, uppspretta sérhagsmuna og gæðadreifingar til vina og flokks.
Vonandi á þessi grunur ekki stoð í raunveruleikanum. Ef hann reynist réttur verður að segja að slægð og undirhyggja Frammara sé með almesta móti, og er þá mikið sagt, í ljósi yfirlýsinga þeirra undanfarið.
Það sem er enn verra að furðustór hluti þjóðarinnar virðist reiðubúinn að kjósa enn og aftur yfir sig þetta tvíeyki þrátt fyrir að allur óþverragangurinn, sem við höfum verið að komast að undanfarið, ósvífnin, spillingin og loks hrun lífskjara okkar og tiltrú annarra hafi fæðst, þrifist og dafnað í þeirra skjóli og velvilja.
Það fer um mig hrollur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.