Davíð og Adam.

 

Eitthvað var ég að ráfa um á breiðbandinu þegar ég rakst á samræðu fjögurra manna, sem allir kepptust um það að vera sammála. Mín fyrstu viðbrögð voru, að þetta hlyti að vera  Omega-stöðin, þar sem aldrei er brugðið útaf hinni einu og sönnu  trú. Þó sá ég fljótt af skelfilegu veggfóðri sem umlukti fjórmenningana, og heyrði af ræðu þeirra, að þarna voru saman komnir rétttrúarmenn í stjórnmálum, sem höfðu svipaða lífsýn og Omega-menn. Svarthvítt sýn. Einsog Bush jr. sagði, að þeir, sem samþykktu ekki gjörðir Bandaríkjamanna í einu og öllu, væru óvinir þeirra. Hjá fjórmenningunum ( Ingvi Hrafn, Árni Mathiessen, Hallur Hallson og Jón Kristinn Snæhólm) ríkti sú sýn, að þeir, sem væru ekki fylgjendur Flokksins, væru kommúnistar. Á því plani var umræðan og hin mikla samstaða fjórmenninganna. Þeir áttu í engum vangaveltum um það, að á tíma stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins sl. 18 ár hefur flest farið úrskeiðis fyrir okkur. Kvótakerfið og sérstaklega lénsherraskipulag þess er að sigla sjávarútveginn í kaf af þeim, sem taldir höfðu verið bezt til þess fallnir að gæta auðlindarinnar skv. kennisetningum nýfrjálshyggjunnar. Sömu örlög hlutu viðtakendur bankaeinkavinavæðingarinnar, einsog við finnum svo harkalega fyrir um þessar mundir. Kárahnjúkavirkjunin er óðum að verða að allsherjar klandri. Strax í byrjun gerðu margir sér grein fyrir að hún myndi varla bera sig. Það eina, sem við myndum bera úr býtum væru skattar af tekjum álfyrirtækjanna. Mestur hlutinn færi strax úr landi. Þetta er ekki nefnt, þegar verið er að telja upp útflutningstekjur okkar nú. Rafmagnsverð er tengt heimsverði á áli. Það hefur nú lækkað um helming, og spár segja að álnotkun muni fara minnkandi í heiminum.

Nú er svo komið að bjargræði okkar skuli liggja í hugmyndaauðgi og hugviti gáfaðrar og vel menntaðrar þjóðar í líki sprotafyrirtækja af ýmsu tagi. En þetta er einmitt valkosturinn, sem andmælendur stóriðjuframkvæmda vildu leggja áherzlu á strax í upphafi í stað hugmyndafátæktar og staðnaðrar einsleitni í atvinnuvegum. Við erum sem sagt búin að fara einn heljar krók, kostnaðarsaman, mengandi og landeyðandi og erum komin aftur á upphafsreit og varla það. Það var, og er, kallað "að vilja ekki framfarir".

Ekki skal þagað um það að eitthvað vafðist fyrir hópnum að hve miklu leiti græðgi hefði átt þátt í falli frjálshyggjunnar. Ekki var unnt að útiloka að hún hefði kannski komið við sögu í þessu öllu, bara pínupons, en ekki meira en svo, að hún verði auðveldlega upprætt á næsta flokksþingi. Einsog unnt sé að skilja að frjálshyggjuna og græðgi! Stefna, sem byggist á sérhyggju og síngirni, eiginhagsmunapoti og eigingirni, getur ekki annað en falið í sér græðgi einsog planta, sem vex og verður stór og mikil, en er eitruð í kjarnanum. Fall stefnunnar á sér þannig stað aftur og aftur einsog við höfum upplifað mörgum sinnum. Ójafnræðið og ranglætið er líka innifalið. Frjálshyggjumenn eru sjálfir ekkert feimnir við að nota orðið "eigingirni" um drifkraft stefnunnar. Sjálfur Adam Smith reyndi ekki að halda því fram að stefnan fæli í sér einhverja félagslega réttlætiskennd, hvað þá humanisma. Markaðurinn sé vettvangur gróðasóknar og ekkert annað, en hann lumaði samt á einhverri "ósýnilegri hönd", sem mundi sjá um að réttlætis yrði gætt. Þessi hönd er enn ósýnileg enda virðist hún visnuð fyrir löngu síðan. Og Adam greyið virðist hafa horft framhjá breyzkleika mannskepnunnar varðandi kenndalífið og þarmeð framhjá því hve gróðafíkn er ánetjandi og þarf einsog hver önnur fíkn æ stærri skammta. Svo að þessi Adam var ekki lengi í Paradís frekar en nafni hans forðum.

Ég er hins vegar viss um að mínir menn eru glaðir núna yfir einbeitni og ósérhlífni í þeirra manni, þegar hann hunzar vilja "réttkjörinnar" ríkisstjórnar ( orð sem svo oft er notað yfir flokkaræðið á Íslandi) . Hann er búinn að eiga svo ofurbágt, þetta milda skinn. Þessi Íslandsmeistari í einelti og valdbeitingu í embættisgjörðum sínum gagnvart öðru fólki, sem flestir þekkja vel, er nú lagður í einelti sjálfur og hefur verið í fimm ár frá því Ingibjörg Sólrún hélt sína frægu ræðu í Borgarnesi, þar sem hún skaut nokkuð föstum skotum á skotgrafarhernað og skilyrðislausa flokkshlýðni stjórnmálanna og undirlægjuhátt og lagði til að stjórnarfar byggðist á umræðu og samvinnu. Ræða þessi lagðist algerlega á sinnið í Sjálfstæðismönnum, fæðin á Ingibjörgu jókst enn með síendurteknum árásum í ræðu  og riti. Einelti hvað?

Mínum mönnum við ljóta veggfóðrið var mikið niðri fyrir um þessar hremmingar síns sára foringja. Þeir hófu enn upp sönginn um að hann hefði séð fyrir allt hrunið fyrir löngu síðan. Þó liggur fyrir að í ræðu í aprílmánuði sl. hefði hann ekki haft neitt útá fjármálakerfið að setja nema síður væri. Nú segir Davíð, sem ekki vill rýma stólinn sinn vegna þess að bankinn hans á að vera algjörlega frjáls undan pólitískum áhrifum (!!), að hann hafi séð hættuna fyrir sl. 3-4 ár. En Jóhanna Sigurðardóttir, sem nú er búin að vera forsætisráðherra í rúma viku, hafi ekki hreyft litla fingur.  Gerum eitt augnablik ráð fyrir því, svona til gamans, að hann segði satt. Hverjum hefði þá staðið nær að hreyfa litla fingur en einmitt þeim, sem af speki sinni sá alla hættuna fyrir? Hefði ekki forsætisráðherranum, Geiri Haarde, staðið nær að lyfta fingri í stað þess að halda sífellt fram að engin ástæða væri til þess að hafa áhyggjur eða rasa um ráð fram? Eða sjálfum sjáandanum, DO?  Eru það ekki hrein embættisglöp að hreyfa ekki fingurinn? Láta hann t.d.tifa um farsímann sinn til símtals við viðskiptaráðherra Íslands, en það kom fram í tengslum við krakkið að þeir hefðu ekki talað saman í heilt ár?

Ekki vantar að hann hafi haft vettvang til þess arna. Einn bezti vinur hans og spilafélagi var í stjórn Landsbankans, og þar að auki var samflokksmaður hans, fyrrverandi Alþingisforseti, formaður stjórnar bankans. Hefði það nú ekki verið sjálfsagður vinagreiði á huggulegu spilakveldi að vara spilafélagann við í stað þess að láta hann og þingforsetann verða að æ meiri óráðsíumönnum unz yfir lauk? Og nú borgum við brúsann.

Í raun er kannski þrátt fyrir allt lítill munur á þessum ágætu fjórmenningum og Omega-stöðinni annar en veggfóðrið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband