Landráð?

 

 

 

Mig rak í rogastanz þegar ég heyrði ummæli Geirs Haarde um stjórnarslitin og hans skýringu á þeim. Ekki átti ég von á því að hann, sem flestum er heldur hlýtt til, þrátt fyrir allt, skuli leggjast svona lágt að gefa upp hatur "á einum manni" sem einu ástæðuna fyrir stjórnarslitunum. Þetta er komið á sandkassastigið. Það gefur hinsvegar í raun vísbendingu um hvað hann sjálfur telur aðalágreiningsefnið stjórnar hans í að leiða þjóðina uppúr nýfrjálshyggjufeninu: að halda fast í óbreytta stjórn Seðlabankans hvað sem tautaði eða raulaði. Þar er í forystu hinn "eini maður". Það nálgast greinilega trúarspjöll að ætlast til að hann taki á sig einhverja ábyrgð á ástandinu. Meiri hluti þjóðarinnar hefur hinsvegar margsinnis og sýnilega borið fram þessa kröfu, svo hafa hagfræðingar innlendir sem erlendir einnig tekið undir og lýst yfir undrun sinni yfir aðgerðarleysinu og jafnvel haft það að háði. Það er alveg ljóst að traust meðal annarra þjóða verður ekki endurheimt nema breyting verði á stjórn Seðlabankans. Svo að hatursmenn Davíðs Oddssonar eru býsna margir. Og "eineltið" býsna útbreytt. Ef slímseta hans hefur á annað borð  verið mesta ágreiningsefnið í síðustu stjórn, þá vegur alveg örugglega mest í stjórnarslitunum sú staðfasta tregða forsætisráðherrans að taka til í Seðlabankanum. Einhvernveginn finnst manni jafnvel að ofangreind greining Geirs komi beint úr Dimmuborgum. Og spunameistarar flokksins hafa greinilega tekið þennan kúrs. Það á ekki við að krossfesta frelsarann. Hann var hinsvegar ekki þekktur af því að fara mjúkum höndum um þá, sem voru honum ekki að skapi.

Nú hefur Hannes Hólmsteinn tekið undir þessa hjákátlegu afstöðu, þessa tilbeiðslu og um leið þann hroka að seðlabankastjóri eigi ekki að vera seldur undir gagnrýni eða ábyrgð. Hann eigi ekki að lúta reglunum. Ég sem hélt að H.H. væri ögn faglegri í hugsun, þrátt fyrir allt. Hann hagar sér nú einsog unglingur á þrjóskuskeiði og níðir land sitt og íbúa þess hástöfum erlendis með greinaskrifum. Þessi framkoma hans á þeim tímum, þegar okkur ríður á að endurheimta snefil af trúverðugleika um allan heim, finnst mér ekki eiga langt eftir í það að geta talizt landráð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband