Boða þarf strax til kosninga.

 

Það er augljóst að ríkisstjórnin fékk gríðarlegt verkefni í fangið sl. haust. Verst hvað það kom henni á óvart. Þörf var skjótra aðgerða, og i mörg horn var að líta. Hún hefur gert ýmsa hluti vel til að reyna að lina áfall kreppunnar, ekki sízt á félagslegu sviði. En það er að koma æ betur í ljós hve sukkið var í rauninni mikið, spillingin, viðvaningshátturinn, andvaraleysið og svo morkið lýðræði. Og í heild var tekið á vandanum  með lítilli snerpu. Þegar hugsað er í þessu ljósi um dáðleysi yfirvalda fer traustið til hennar að skreppa saman.

Margir fræðimenn hérlendis og erlendis hafa gefið ríkisstjórninni falleinkunn. Allt frá falli Glitnis hafi viðbrögðin verið röng og tilviljanakennd. Flestir telja að þar skipi seðlabankastjóri veglegan sess. Komið hefur t.d. fram að Kastljósviðtalið fræga hafi verið baneitrað. Menn gera bara grín að honum. Erlendir sérfræðingar stinga uppá því að gera hann að sendiherra á sætri Kyrrahafseyju hið snarasta. Það virðist ljóst að traust til okkar verður ekki vakið upp fyrr en fenginn er nýr fagmaður í stólinn hans. Eða jafnvel bjóða honum mannsæmandi eftirlaun, sem hann kom sjálfur á sér til handa. Hann virðist hafa þau tök á flokksmönnum sínum og jafnvel fleirum, að enginn þorir að stjaka við honum. Sá þungi ótti í samfélaginu, sem einkenndi ofríkisstjórn hans og fældi margan manninn frá gagnrýninni umræðu, virðist enn vera á kreiki. Þá mætti í leiðinni spyrja, hvort það myndi vera liðið í öðrum sk. lýðræðisríkjum að embættismaður neiti að gefa þingnefnd þær veigamiklu upplýsingar, sem hann kveðst búa yfir.

Svo er það silagangurinn í myndun rannsóknarnefndar Alþingis, sem varla getur verið fær um að brjótast í gegn um varnarvirki kumpánavaldsins án þess að fá utanaðkomandi, óháðan sérfræðing í lið með sér. Og nú hefur verið ráðinn rannsóknardómari, sem reynist vera sérlega handpikkaður af ríkisstjórninni. Ætli hann þori? Hversvegna hafa aðrir ekki sótt um? Traust?

Málið er að ríkisstjórnin getur ekki talizt hafa umboð lengur. Allt þjóðfélagið, forsendur stjórnmálanna og viðhorf borgaranna hefur gjörbreyzt. Nýir tímar eru að renna upp. Stjórnin ætti að þekkja sinn vitjunartíma og bregðast við þessum miklu, djúpu hræringum, sem eru að myndast meðal þjóðarinnar. Hún hreinlega vill nýja byrjun, nýja stjórnskipun. Það gerir stjórnin aðeins svarað þessari hreyfingu með því að víkja til hliðar og boða til kosninga næsta vor. Slíkt myndi skerpa sköpunarmátt, sem núna er að leysast úr læðingi, mikla þátttöku og nýjar hugsanir. Í síðasta bloggi mínu kom ég fram með hugmyndir um netþing fyrir ferskar hugsanir og úrvinnslu. Um þessa sömu hugmynd hefur átt sér stað góð og lífleg umræða á Eyjunni. Allir eru kappsfullir. Hópar eru að myndast, nýir flokkar geta orðið til eða jafnvel endurfæðing þeirra gömlu einsog e.t.v. í Framsókn ( ég hef reyndar tjáð mig um efasemdir mínar um það að veita hugsjónum sínum um æðar gamalla flokksleifa Framsóknarflokksins).  Næstu kosningar munu snúast um algjörlega ný grundvallaratriði. Og þessutan um viðhorf til EB. Það er í mínum augum óttalega lítil snerpa í því að bíða eftir flokksþingi Sjálfstæðisflokksins og leyfi frá honum til að KANNA málið.

Það er fráleitt að ætla sér að bíða í tvö ár til að veita þessum nýju kröftum brautargengi. Ekkert er eðlilegra en að gera sér grein fyrir þessum gjörbreyttu, nýju kringumstæðum, horfast í augu við stöðu sína eftir 100 daga kreppu og víkja.

Á meðan fram til kosninga í vor þarf að koma á þjóðstjórn fagmanna, sem ekki þurfa að bíða eftir flokksþingum til að taka ákvarðanir.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ríkisstjórnin er rúin trausti. Það þarf að taka til í öllum flokkum áður en kosningar verða. Ég hef því miður ekki séð það vera að gerast.

Offari, 15.1.2009 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband