26.11.2008 | 00:01
Breyting, eitt orð.
Sannarlega má, og á, að virkja þá reiði, sem nú svellur um í þjóðfélaginu. Reiði er afl, rétt einsog streitan, sem virkja má hvorttveggja til jákvæðs sem neikvæðs framtaks, til góðs eða ills. Telja má þá reiði, sem nú ríkir, til "réttlátrar reiði". Líklegt má telja að slík réttlát reiði geti verið notadrýgri til uppbyggilegrar niðurstöðu frekar en önnur, sem nálgast frekar það að vera heiftúðleg.
Förum gætilega með þessa reiði.
Þeir tímar, sem eru nú upprunnir, eru einstakir í sögu lýðveldisins, ekki einungis fyrir þær sakir að blómlegt efnahagslíf og almenn lífskjör hafa dottið á skallann svo um munar, heldur er nú einnig runnin upp stund endurmats á ýmsum almennum lífsgildum og innviðum lýðræðisins sem aldrei fyrr. Ég leyfi mér að vitna í Jón Baldvin Hannibalsson, að "framvegis verður ekkert einsog það var". Látum ekki það tækifæri ganga okkur úr höndum að semja nýjan kafla í þjóðmálasögu okkar. Það verður ekki eins auðvelt og ætla mætti skv. endurteknum yfirlýsingum um að "velt verði hverjum steini", og að þeir verði allir færðir upp á eitthvert víðfrægt borð,sem væntanlega verður úr gleri þar sem allt á að verða gegnsætt. Búast verður við því að á þessu sama borði verði ýmsir olnbogar, sem alveg óvart skjóti steinum útaf þessu margumtöluðu borði. Það væri þá bara gamla sagan. Það lofar strax ekki góðu hversu langan tíma það tekur að gangast í þetta rannsóknarstarf. Hér er einmitt ein breytingin, sem koma þarf á og fylgja þarf eftir með ákveðinni einbeitni.
Ég skal játa, að ég var á báðum áttum hvort rétt væri að staðið, þegar fyrst var boðið til mótmælafundar á Austurvelli. Mótmæla hverju nákvæmlega? Tala fyrir hvaða tillögum nákvæmlega um úrvinnslu og lausnir? Ekkert var boðið uppá af slíku tagi í fundartilkynningum.
Þetta var auðvitað gamall reflex hjá mér, gamaldags kerfishugsun. Hafi Hörður Torfason þökk fyrir framtakið.
Fljótt varð ljóst, að þessir fundir létu uppi sameiginlegar frústrasiónir og reiði almennings og byrjuðu líka að skilgreina viðfangsefnið. Síðan hefur það runnið upp fyrir mörgum að þjóðfélagið okkar hefði verið afvegaleitt, því búinn þröngur lýðræðislegur stakkur og umræðurammi, sem hefur að töluverðu leyti byggzt á tilbúnum gerfistaðreyndum og bjöguðum sannleika auk ofríkis þeirra, sem setið hafa að kjötkötlunum. Svo var komið, að ég hef sjálfur aldrei talað um síðustu ríkisstjórn öðruvísi en sem "of-ríkisstjórnina".
Krafan um breytingu er því hreint ekki smá í sniðum, en má ekki vera minni. Engin plástrameðferð nú eða þykjustuleiðréttingar með tilheyrandi spunagjammi ráðstjórnarmanna. Um er að ræða alvarlega uppstokkun á viðhorfum og reglum um lýðræðið okkar, stjórnarskipan, réttlæti og sanngirni, en allt þetta hefur verið heldur skörðótt. Breyta þarf merkingu hugtaka og markmiða, sem hefur alltof oft verið einslit og háð klisjukenndri skoðanamótun af hálfu spunafólks .Róttæk endurskoðun stjórnarskrárinnar er brýn umfram það, sem núsitjandi Stjórnarskrárnefnd er væntanlega að fást við. Ég tel t.d. núverandi flokkalýðræði meingallað og hafa leitt til hinna undarlegustu niðurstaðna. Á Alþingi spranga einstaklingar, sem rétt skröngluðust þangað inn, jafnvel á grundvelli kosningaúrslita í fjarlægu kjördæmi, en telja sig réttkjörna fulltrúa þjóðarinnar vegna þess að þeir tilheyra flokki með ákveðna stefnuskrá, sem einhverjir kjósendur hafa greitt atkvæði sitt. Komast jafnvel í ótrúlega valdastóla af sama tilefni. Hinsvegar telja þeir hinir sömu sig geta skipt um stefnu, gengið í annan flokk, "eiga sig sjálf", og þarmeð ekki vera háða þeirri stjórnmálastefnu, sem þeir voru valdir til, en vera áfram "fulltrúar þjóðarinnar". Þá er alltí einu lýðræðinu og kjósendum gefið langt nef.
Auka þarf valmöguleika um einstaklinga, ekki bara flokka.
Vekja þarf Alþingi uppúr þeim hugmyndafræðilega doða, sem það hefur verið í og efla frumkvæði þess. Leysa okkur undan þeim sambræðingi framkvæmda-, löggjafa- og dómsvalds, sem við höfum mátt þola.
Núverandi ástand ber í sér mikla möguleika, svo gripið sé nú til einnar klisjunnar. Ég hef það á tilfinningunni, að nú sé að myndast töluverður hugur meðal þjóðarinnar til að endurskoða og losa sig við gamaldags, fúið stjórnarfar og hugmyndafræði, sem allir eru orðnir hundleiðir á. M.ö.o: Fólk vill BREYTINGAR.
Þetta orð, sem er svo fjarska almenns eðlis, virðist greinilega geyma með sér vissa skilgreiningu, sem skýrist hægt og bítandi. Er þá ekki úr vegi að renna huganum vestur til BNA, þar sem Barak Obama leyfði sér að gera þetta orð, Change, að sínu eina vígorði alla kosningabaráttu sína. Fólk skildi. Sami hugur virtist hafa fæðzt þar einsog hér nú, hið eiginlega tímabæra inntak þessa orðs við ríkjandi kringumstæður, þótt ekki sé unnt að búast við því að í því lögregluríki muni eiga sér stað jafn afgerandi lýðræðislegu umbætur og við getum og eigum að stefna að.
Komum þá aftur að reiðinni. Virkjum hana til þessarra átaka, en látum hana ekki stjórnast af þröngri skyndibræði né hvatvíslegum skyndilausnum með refsivöndinn á lofti, þótt slíkt sé óneitanlega fjarska freistandi og skiljanlegt.
Það er aðeins eitt alveg klárt um okkar vilja: Við viljum breytingu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.