19.11.2008 | 00:26
Afdrifarík kurteisi í Seðlabankanum.
Nú er mér allt í einu orðið ljóst hvað hefur verið örlagaríkasta staðreyndin, sem varð okkur að falli: Hæverska og feimni seðlabankastjóra.
Þrátt fyrir það að hann sæi allt tilvonandi fjáramálahrun fyrir strax á vordögum gat hann ekki fyrir hæversku og uppburðarleysis sakir komið þessum framtíðarspám á framfæri. Öll vitum við svosem um þessa eiginleika hans að láta lítið fyrir sér fara, skjótast með veggjum, láta valta yfir sig en láta ekki uppi skoðanir sínar, viðhorf eða spádóma nema honum bæri sterk embættismannleg skylda til.
Það hlýtur í rauninni að hafa verið virkilega skelfilegt fyrir hann að búa yfir allri þessari framtíðarsýn og sitja með hana innilokaða í sálinni; tala fyrir daufum eyrum, þegar honum buðust einstaka tækifæri til að vara fólk við, sem svo sýndi honum engan áhuga frekar en fyrri daginn.
Ég tel að við verðum að skilja þetta og finna til með uppurðarleysi þesssu.
En nú er búið að höggva á Gord(í)ons hnútinn og von á glaðningi frá IMF. Við höfum orðiðð áþreyfanlega vör við hverju Bjartssýnin um að strembast við að ríghalda sér í krónuræfilinn og gamlar hefðir hefur áorkað.
Þetta er allt í keii. T.d. fyrir Evrópubandalagið, sem við stóðum öfugu megin við. Það hélt fast um jafnræði 27 þegna sinni á grundvelli sömu reglna og gerðu kleift að stofna til Icesave-reikninganna í upphafi. Þær sömu leikreglur skyldu því líka gilda þegar afleiðingarnar af þátttöku í þeim dansi, sem leyfði tilskilið frelsi, urðu ekki eins hagstæðar og væntingar höðu staðið til. Þátttökuríkjum EB hefur væntanlega fundizt það góður fílíngur að vita af sterkum málsvara, sem ekki gerði mannamun.
Gordon Brown má líka una glaður við sitt. Nú getur hann sagt við sitt heimafólk: "sjáiði hvernig við tókum þá!" Og hætt er við að þjóð hans trúi að í raun hafi verið full ástæða til að setja á okkur hryðjuverkalög þar sem við ætluðum að svindla svolítið. Okkar almannatengsl hafa verið svo skelfilega óburðug, að varla er unnt að búast við öðru.
En er þar með málið í höfn og Gordon búinn að vinna stríðið sem hann sagði okkur á hendur?
Nú finnst mér komið að okkur að líta á þetta sem tvö óskyld mál. Hann gat að vísu leitað í fang EB með Icesave málið. Engu að síður situr hann enn eftir með þá stríðsyfirlýsingu, sem hann lýsti yfir gagnvart okkur með umræddum hryðjuverkalögum. Hann stendur enn uppi með ábyrgðina af þeim stórfellda skaða, sem hann olli okkur með því að leggja af velli önnur íslenzk fyriræki, sem ekkert höfðu til saka unnið.
Slíkum efnahagsgerðum er, einsog neyðarlögin gera ráð fyrir, einungis beitt sem sérstökum refsiaðgerðum gagnvart stríðsandstæðingum, í þessu tilfelli hryðjuverkamönnum, sem vorum við.
Þetta var svívirðilegur yfirgangur og beindist raunar einnig að brezkum þegnum, þar sem með honum var hindrað að finna mætti leiðir fyrir bankana til að greiða upp innistæðurnar. Allar mögulegar diplómatískar lausnir, sem yfirleitt eru notaðar með siðuðum þjóðum, voru útilokaðar á einni nóttu.. Það leiddi til þess að þær eignir, sem þeir Gordon og Darling settu á frost rýrnuðu stórum, en reikningurinn fyrir allt það tjón svo sendur til dvergþjóðarinnar í norðri.
Svo það verður ekki af honum skafið að það var hann sem var hryðjuverkamaðurinn. Því getum við ekki tekið með þegjandi þögninni. Hann jók Icesavevandann til muna áður en hann leitaði skjóls hjá EB og jók þarmeð hjálparvana reiði okkar. Þessu þarf að halda á lofti.
Um leið og orsakaferli hins íslenzka bankahruns verður rannsakað í kjölinn ætti einnig að rannsaka að hve miklu leyti beiting hryðjuverkalaganna var ólögleg, skaðleg fyrir "vinaþjóð" og siðlaus. Og helzt að rukka til baka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.11.2008 kl. 01:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.