Íhaldið er samt við sig

  Það heldur í: 

Íslandskrónuna

seðlabankastjórn

fjármálaeftirlitið

gömlu stjórnina

gömlu hugmyndafæðinag

gömlu tækin;

sjálft sig.   

Gömlu tækjunum hefur undanfarið verið líkt við hin ýmsu faratæki, skip og fley, rútubíla og flugvélar. Ég hef um stundarsakir verið í hópi rútumanna:  

Illa löskuð rúta liggur í flæðarmálinu. Hún hafði skrensað útaf veginum með látum í mjög krappri beygju, sem einmitt hafði verið til umræðu um nokkra hríð á héraðsfundum og deilt var um af töluverðum tilfinningahita.

Sumir höfðu bæði viljað takmarka ökuhraða um þennan hlykkjótta fjallaveg og setja vegrið á kröppustu beygjunum til að tryggja vegfarendum skárra öryggi.

Öðrum þótti svona lagað hins vegar vera miklar frelsishömlur og skerðing sjálfsforræðis; þeir sem gætu og vildu  ættu að fá að spítta eftir því sem þeim hentaði án fjötra og þvingana, jafnvel þótt einhver á veginum gæti slasazt. Þannig kæmust þeir hraðar milli byggða, þær sameinuðust í eitt athafnasvæði, einn markað, allir að verzla.

Þeir sem vildu fara varlegar  heltust einfaldlegaúr lestinni, misstu af lífsnautn markaðsgæðanna. Það væri þeirra mál. 

Nú höfðu menn verið í dýrlegri veizlu, sem ferðaskrifstofa ríkisins hafði haldið þeim. Stórbrotnar veitingar, allir orðnir mettir, reifir og glaðir. Dæstu og ropuðu af hamingju. Rútan fyrir utan. Rútubílstjórinn, gamall spilafélagi, hafði um langa hríð verið aðalmaðurinn í stjórn ferðafélagsins, en nýlega gert sig sjálfan að aðalrútubílstjóra. Þótti hann bæði frakkur og áræðinn.

Margir höfðu varað stjórnina við þessu ráðslagi, ekki sízt þar sem hann hefði ekki einu sinni meira próf til að aka rútum, þótt hann kynni ýmislegt fyrir sér í að nýta umferðarreglur sér til framdráttar. En stjórninni fannst ekkert að þessu og kynokaði sér algjörlega við að hugsa nánar um svona aukaatriði. Svo nú var okkar maður mættur þarna galvaskur í byrjun vetrar, myrkrið að skella á og ísing á vegum að aukast.

Við síðustu bílaskoðun hafði reyndar komið fram, að bremsurnar í umræddri rútu væru farnar að lýjast umtalsvert, en þannig höfðu þær verið lengi og ekkert meiri háttar óhapp komið fyrir, svo hví skyldi eitthvað koma fyrir nú?    Var svo ferðin hafin og fararstjórinn að halda smáræðu um nauðsyn þess að fá að ferðast frjáls í fjallasal milli staða einsog í þessu tilfelli, þegar mikið lægi við að komast sem fyrst í næstu veizlu. Hvatti hann því bílstjórann dyggilega að auka hraðann. Ekki bar mikla nauðsyn til að hvetja bílstjórann, enda voru þeir miklir mátar með svipuð áhugamál. 

Nú var farið  að bylja, fenna og skafa. Ekið var með hvini framhjá nokkrum vegalögregluþjónum, sem gæta skyldu öryggis á vegum úti, en þeir urðu rútunnar ekki varir vegna þess að þeir voru niðursokknir í að spila Matador. Var nú svo komið að fara fór um einstaka farþega, sem leizt ekki allskostar á blikuna. Einhver gerði athugasemd. Hún féll ekki í góðan jarðveg. Þarna væri einhver, sem væri alltaf á móti öllu og vildi ekki framfarir. Enda kom þá í ljós að fyrirspyrjandinn hafði laumað sér um borð óboðinn og því ekki úr hópi þeirra, sem  heyrðu til veizluglaums. Reyndar kom sér bara vel að hafa hann þarna til að vanda um við hann og aðra hans líka. Hlógu þá allir dátt. Ekki líta í bakspegilinn, sögðu þeir, heldur horfa fram á veginn ( það var nú einmitt það, sem veizluspillirinn vildi sízt af öllu gera). Horfa með víkingslund og djörfung fram til nýrrar veizlu. 

Nú var komið að ofangreinri krappbeygju. Bremsur ískruðu, sumardekk höðu enga viðspyrnu og farkosturinn þeyttist útaf. Lágu menn misjafnlega dasaðir og laskaðir. Bílstjórinn og fararstjórinn sluppu með skrámur. Þeim síðarnefnda fannst ekki býsna mikið koma til andvarpa og kveina. Sumir farþegar höfðu í upphafi ferðar sýnt þá fyrirhyggju að olnboga sig með hörku og staðfestu í öruggari sætin og höfðu því að sjálfsögðu sloppið betur en hinir friðsælari. Svona var það nú bara samkvæmt viðskiptalögmálum mannlífsins.

Farastjórinn leitaði afsíðis og settist á stein á litlum hólma í flæðarmálinu og lét augnaráðið reika útyfir fyssandi hafrótið sem ýrði í upplýstu af bílljósum í myrkrinu.. 

Krappar öldur. Heimsins náttúrulögmál. Handan hafsins voru aðrar þjóðir og staðfastari, t.d. Chile, sem höfðu fyrr um nokkurt árabil séð að sér og uppgötvað, að náttúran felur ekki í sér neina siðfræðilega veikleika. Slíkt væri ónáttúra. Siðfræði væri ekki hluti af náttúrunni.

Chileleiðtoginn hefði ruðzt áfram djarflega og engu eirt. Ef einhver  hafði verið með múður hafði jafnvel, því miður, þurft að klípa af honum fingur eða skafa upp andlitið (ódeyft) eða hreinlega sveipa slíku fólki af yfirborði jarðar. Það væri veiklundað og tefði fyrir Darwínskri efnahagsþróun.  Það aðhylltist flathyggjulegan tilbúning  mannlegrar þróunar með þessum ónáttúrulega hætti vegna þess  að mannkynið væri komið svo sorglega langt í burtu frá mannapanum.  

Ætli fararstjórinn hugsi í rauninni svona? 

Ég held ekki. Þetta er kurteis og greindur maður. Honum hugnast líklega varla sá fórnarkostnaður mannlegra hörmunga, sem náttúrulögmál hagfræðinnar veldur.

En hann trúir. Sem er allt annað en að hugsa, einsog viðurkennt er. Mjög mörgum finnst trú sín góð, þeir horfa fram hjá öllum fórnarkostnaði, m.a. þeir sem lúta gyðingkristilegum kennisetningum.  

Svo að þarna situr þessi ágæti fararstjóri og horfir í brimrótið. Er hugsanlega að ala með sér nýjan trúarhita og nýjan trúboðsleiðangur. Hvernig megi lægja brimið og ganga á því. Hvikar ekki. 

Við rúturæksnið hófust nú frekari kveinstafir. Hvaða glannaskapur hafði þarna átt sér stað? Þá mæltist annar viðstaddur eindregið til þess að persónugera ekki þetta mál. Horfa framávið og sjá til þess að ná sem fyrst næstu veizlu.

Vegalögreglan var nú mætt til leiks og hafði eitthvað orð á því að kannski hefði eftir allt saman verið viturlegra að hafa sett upp vegrið á þessum stað. Bregðast þá bílstjórinn og fleiri hart við og segja, einsog svo oft fyrr, að nú dygðu anskotann engin vegrið lengur til að bjarga þessari rútu. Því væri ekkert gagn af vegriðum yfirleitt einsog dæmin sönnuðu og eins gott að gleyma þeim. 

Vegalögreglan var auðvitað þegar búin að hafa samband við ferðafélagsstjórnina og björgunarlið. Stjórnin kom verulega af fjöllum um það að svona gæti gerzt. Hún gerði sér samt grein fyrir því að tryggingarfélagið myndi væntanlega ekki borga þetta tjón þar sem hvort tveggja var, að um hraðakstur hafði verið  að ræða og hitt, að bílstjórinn hafði ekki meirapróf. Öllu heldur væri líklegt að ferðafélag ríkisins yrði sektað um stórar upphæðir. En bílstjórinn var ekki af baki dottinn, heldur lýsti því yfir við fréttamann í Gemsanum, að þeir ætluðu fjandakornið ekki að borga neitt svo heitið gæti, heldur kynni hann klækjaleiðir til að aftra því. Þetta fannst trygingarfélginu ekki verulegar góðar fréttir, jafnvel þótt rútustjórinn reyndi að plata það með því að segja að hann fengi hvort sem er lán austanaf landi fyrir þessari smágreiðslu auk viðgerða á rútunni. En það var nú óðara rekið ofan í hann aftur.

Svo virtist að ekki væri ólíklegt að í lokin myndu bændur og búandlið í nálægum sveitum þurfa að greiða uppgjör þessa óhapps, ýmist með afurðum sínum af ýmsu tagi eða beinhörðum peningum. Inna af hendi fé af tvennskonar tagi. Gætu við það einstakir bæir lent í eyði vegna allra þessara veizluhalda. En svona er lífið. 

Nú kom að björgunaraðgerðum. Upp kom sú hugmynd að þrátt fyrir allt mætti kannski reyna að keyra rútuskriflið til næstu byggða eftir að það hefði verið dregið uppúr flæðarmálinu. Fæddust þá allmiklar umræður og sýndist sitt hverjum innan þess hóps, sem nú hafði drifið að. Sumir voru ansi forvitnir að frétta frekar hvernig svona nokkuð gæti gerzt þrátt fyrir vegalögreglu og rómaðar forvarnir. En þá fannst öðrum að ekki ætti að leita að sökudólgum né, einsog áður hafði fram komið, að persónugera svona flókið slys. Sjálfur vildi rútubílstjórinn eindregið  aka þessari löskuðu rútu enn um sinn. Tryggingafélagið þagði um það þunnu hljóði, en samkvæmt góðum heimildum mun það hafa hugsað sitt um að sízt væru þeir til viðtals um einhvers konar samninga, ef  þessi próflausi og umferðarhvatvísi maður ætti enn að sitja við stjórnvölinn.

 Um þetta urðu fjörugar umræður á meðan gert var í rólegheitum að sárum veislufarþeganna, og þeir læddu sér svo lítið bar á af slysstað. 

Ferðafélagsstjórnin fór að reyna að semja við tryggingarfélagið með ýmsum lögfæðilegum brellum, þrátt fyrir að flestum væri ljóst viðhorf félagsins til rútubílstjórans. Hún vildi heldur alls ekki láta einhvern annan, sem hefði meiraprófið, taka við rútunni. Reynt var að leita til baktryggingafélaga um að leggja til þótt ekki væri nema smávegis lausafé til að hjálpa uppá. Þau svöruðu því þannig að þau myndu ekki láta neitt af hendi rakna svo lengi sem ekki væri búið að ganga frá sektagreiðslum rútufélagsins. Það kvaðst hinsvegar ekki geta greitt sektina, sem þeir gætu ekki komizt undan að greiða, efir allt saman, nema þeir fengju lánaðan pening frá baktryggingafélögunum. Þau stóðu aftur á móti fast á sínu, að lána ekki nema rútufélagið væri búið að greiða. Og þannig áfram koll af kolli.

Málið var komið í það, sem stundum hefur verið nefnt kengur númer 22, eða catch 22 uppá enska móðurmálið. Sumir hafa líka sagt að það sé komið í Gord(í)ons hnút. 

Svona er það nú, haldið er í gamlar og þjóðræknislegar hefðir.  Þetta íhald heldur í:            

tréstikur í stað vegriðs                

sama rútubílstjóra           

sömu vegalögreglu, sem spilar Matador           

sömu ferðafélagsstjórnina

sama fararstjóra

sömu rútuna;

sjálft sig.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband