15.11.2008 | 01:45
Hvar á að leita að sökudólginum?
aðeins einn mann bera ábyrgð á bankahruninu: Björgólf Guðmundsson. Öll tilraun Björgólfs til að koma á umræðu um hina ýmsu samverkandi þætti sem gætu hafa komið við sögu í almennri þróun kreppunnar var slegin af með þeirri fullyrðingu að Björgólfur væri bara að beina allri ábyrgð frá sér eitthvað annað.
Ég þykist auðvitað vita að Sigmar er ekki svo grænn að halda að aðeins sé um einn einstakling eða örfáa að ræða, sem skella mætti allri skuld á.
Hann er fylginn sér, hann Sigmar, og beinskeyttur og telur það líklega merki um góðan fréttaspyril að ganga hart að viðmælanda sínum og helst flæma hann útí horn einsog hér var raunin. Enda í samkeppni við kollega á öðrum fjölmiðlum.
Hinsvegar tel ég, að hann sé tákn um hina almennu umræðu í þjóðfélaginu. Þar er nú um stundir hellt úr skálum skiljanlegrar reiði yfir bankamenn og auðmenn, sem fyrir furðustuttu síðan voru í augum landsmanna óskabörn þjóðarinnar, inntak íslenskrar snilli og víkingahugs (hvað sem það nú er). Við vorum færri sem töluðum um græðgivæðingu og ófyrirleitni og vorum gjarnan afgreidd sem gamaldags og púkó, á móti öllu og þá ekki síst á móti framförum. Töluvert var talað um öfund og þeir sem ekki hugnaðist hið vaxandi þjóðfélagslega misrétti og kjaramismunun taldir vera haldnir flathyggju.
Mörgum stóð ofar í huga réttlæti ríkra heldur en rík réttlætiskennd.
Að sjálfsögðu átti sér stað græðgisvæðing og glórulaus tryllingsdans kringum gullkálfinn.Það er hinsvegar heldur einfeldnisleg ályktun að þar eigi bankamenn einir alla sök. Mér finnst hið sífellda tuð um einkaþotur og fín hús vera ómálefnalegt, smásmyglslegt og kauðalegt. Skynhelgi. Er ekki bara verið að vísa frá sjálfum sér allri ábyrgð og láta einsog enginn okkar hinna hafi að neinu leyti tekið þátt í þessum dansi? Er óeðlilegt að auðmenn noti hluta af peningunum sína til að gera eitthvað sem þeim sjálfum þykir skemmtilegt? Það er erfitt að vera ríkur. Þar ert þú líka í samkeppni. Er með sanni réttlátt að bera brigður á það að þoturnar geti verið atvinnutæki rétt einsog fínustu Benzar geti verið atvinnutæki leigubílstjóra?
Mönnum gleymist að þrátt fyrir allt létu sumir þessara auðmanna, og þá ekki sízt einmitt Björgólfur Guðmundsson, mikið fjarmagn af hendi rakna til stuðnings menningar og lista.
Hitt skiptir meira máli hvernig og undir hvaða kringumstæðum þessa gífurlega fjár hefur verið aflað.Á Íslandi hefur nú um margra áratuga skeið ríkt skilyrðislaus trú á stjórnlausa auðhyggju. Gjöf fiskikvóta og einkavinavæðing var bara yfirborðið á djúpum og skriðmiklum straumi sjálfshverfu og eigingirni. Í tíð ofríkisstjórnar Davíðs Oddsonar var kynt dyggilega undir slíka hugmyndafræði, sem fólst mest í því að eina markmið lífsins væri hagvöxtur og hagnaður. Vaxandi mismunun og misrétti var svarað með því að það væri ekki til fátækt á Íslandi , hins vegar væru ófáir tækifærissinnar sem gjarnan færu sníkjuferðir til hjálparstofnana. Ekki þarf að orðlengja um allt afnám eftirlits og reglusemi, öryggisstjórnunar og áhættumats. Allt var lagt í hina frægu ósýnilegu hönd markaðarins sem nú hefur reyndar gefið okkur heldur betur á snúðinn.
Allt var þetta semsagt komið á fljúgandi ferð og rómað mjög. Því þótti við upphaf nýrrar ríkisstjórnar brýna nauðsyn bera til að viðhalda þessu ástandi og þarmeð að leyfa DÓ að gera sjálfan sig að höfuðstjórnanda fjármála í landinu, sterkan áhugamann um þjóðmál ásamt með nokkrum fleirum slíkum einsog góðlátlegum hagyrðingi að norðan sem tekur í nefið. Embættið varð pólitískara en nokkru sinni fyrr. Enn dregið úr aðhaldi, bindisskylda afnumin. Andvaraleysi um tryggingu gjaldeyris, yfirlýsingaþörf og bráðræði, hvatafullar skyndiákvarðanir og mistök á ögurstundum, allt hefur þetta vakið undrun um allan heim einsog m.a. var eitt helsta fréttaefni kvölfréttatímans í gær með ummælum forstöðumanns IMF, Strauss-Kahn, og hins virta hagfræðings Róberts Alibers.
Hugmyndafræðin um markaðshagkerfi er að mínu viti ekki galin í sjálfu sér. En sú hólmsteinska að það feli í sér einbert einvígi milli einstaklingsumsvifa (eigingirni) og afskipta ríkisins af högum almennings, og að annað útiloki hitt, þykir mér fátækleg heimsýn sem ber í sér grunnhygli gagnvart manneskjunni og feyskni mennskunnar. Græðginni er gert of hátt undir höfði þegar litið er á hana sem helsta hreyfiafl velmegunar. Hagræðingu er ekki beitt til að bæta þjónustu eða mannlíf yfirleitt heldur nær eingöngu til að auka hagnað hluthafa. Það er kapitalistísk grunnregla.
Íslenzkir athafnamenn sigldu á þessi mið og raunar með einum eða öðrum hætti flestir landsmenn, kannski jafnvel Sigmar Guðmundsson. Í kjölfarið komu fyrirsjáanlegar afleiðingar, útþensla, æ meiri sókn í arð, brenglað gildismat um lífsgæði, tillitslaus áhættusókn og burgeisaháttur og samanburður um að öðlast getu til að umbuna okkar bestu mönnum með milljarðagreiðslum, eignahaldsflækjur og spilling o.s.frv.Mikið vill meira. Fórnarkostnaður er að vísu fátækt einhverra en aðalatriðið er að meðaltal hagtalna líti vel út.
Okkar menn fóru eftir gildandi siglingareglum, fylgjandi baujunum dyggilega, og pólitískri trúarinnrætingu. Og stjórnvöld höfðu velþóknun á. Og okkar menn gerðu þetta líklega býsna vel.
Fram hefur komið að líklega hafi allir bankarnir átt eignir umfram skuldir og jafnvel gott betur. Þetta virðist ekki allt hafa verið viðstöðulaus óreiða sem allir geti bent á sér til hugarhægðar í reiði sinni. Öflun lausafjár brast, m.a. vegna fyrirhyggjuleysis Seðlabankans, sem þóttist ófær að útvega það.
Þetta er afleiðing trúarinnar á gullkálfinn.
Ekki bara Björgólfi Guðmundssyni að kenna.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.11.2008 kl. 00:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.