13.11.2008 | 00:07
Catch 22
Því ástandi sem við erum nú stödd í hefur stundum verið líkt við Catch 22 .
En hvað er þessi kengur 22?
Honum er lýst í víðfrægri sögu með þessu nafni eftir Joseph Heller og fjallar með kolsvörtum húmor um fáránlegt líf manna, sem lifa í stöðugum, hjálparvana ótta stríðsástands:
Það verður að teljast til heilbrigðrar skynsemi að vera andspænis augljósu hættuástandi einsog því að fljúga herþotu í styrjöld. Sá sem ekki hefði neinar áhyggjur af slíku er geðveikur og ætti því ekki að fljúga. Léti hann hinsvegar uppi hversu óttasleginn hann er, væri það ótvírætt tákn um andlegt heilbrigði, sem gerir hann hæfan til að fljúga. Það væri geðveiki að vilja fljúga útí orrustu og fullkomlega eðlilegt að vilja það ekki. Hann getur hinsvegar aðeins flogið ef hann er andlega heilbrigður. Væri hann haldinn lamandi ótta við flugorrustur væri það merki um andlegt heilbrigði sem skyldaði hann til að fljúga. Óttalaus er hann geðveikur og ófær um að fljúga.
Okkar staða er sú, að þess er ætlast til af okkur að inna af hendi greiðslur langt umfram þolanlega getu. Illvígir handrukkarar eru mættir á svæðið með tilheyrandi ofbeldisaðferðum. Einhverjir fíklar munu hafa stofnað til hárrar skuldar við meistara þeirra og yfirboðara. Að hætti handrukkara venda þeir sér nú í allri sinni ógn til ættmanna fíklanna, foreldra og barna og hóta öllu illu. Þeir brugðu fæti fyrir einn fíklanna, sem var kominn í meðferð og vonir stóðu til að gæti náð sér og bætt upp skuldina að einhverju leyti, fleygðu honum kylliflötum, lokuðu inni í handjárnum og gerðu honum ókleift að reyna að klóra í bakkann og minnka skuldirnar.
Þess vegna er þetta skyldfólk nú ófært um að greiða uppgefna skuld nema að taka lán. Taka þá ekki handrukkararnir einmitt þann aðila, sem vonir höfðu staðið til að gæti komið til hjálpar, í gíslingu, enda viðkomandi greinilega ekki frjáls undan ofríki handrukkaranna! Því er honum gert að setja það skilyrði fyrir lánveitingunni, að fjölskyldan sé búin að greiða yfirrukkaranum áður en lánið fengist. Hún hafði reyndar farið fram á lánið til að geta greitt. Ef hún gæti greitt þyrfti hún ekki lán.
Skýlaustfbeldi af hálfu vöðvafjalla.
Kengur 22.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.