Krónan og “frelsið”.

Tragíkómískri atburðarrás í íslenzku þjóðfélagi þessar vikurnar virðast greinilega engin takmörk sett. Nægilegt undrunar- og aðhlátursefni fyrir heiminn fer síst þverrandi. 

Sú saga er í raun miklu lengri en undanfarandi vikur. Trú Bjarts í Sumarhúsum á því “frelsi” sem varðveita á með því að viðhalda úreltum tækjum og hugsanahætti, einyrkju og þrákelkni og afneitun á veruleikanum hefur núna verið okkur jafndýrkeypt og hún varð Bjarti blessuðum. Við höfum öll fundið til með honum Bjarti, kallgreyinu, en haft á því óbeit hvernig hann fórnaði öllum þeim, sem stóðu honum næst, fyrir einstrengingslega einmanakennd og þráhyggju, sem hann leit á sem frelsi. Slík Bjartssýni mænir útá hafsauga , ekki á heiminn.

Nú erum við öll fjölskylda Bjarts, hann sjálfur í líki þvergirðingslegra ráðamanna, sem ekki hafa viljað hlíta ráðum beztu manna úr öllum sviðum þjóðlífsins, heldur kosið að ríghalda í sérvizku sína, krónuna, í þágu einhvers, sem þeir álíta vera frelsi og (karl)manndómur. 

Mörgum hefur verið ljóst lengi, að þeir sem mestu ráða um vegferð þjóða nútildags eru ekki ríkisstjórnir eða þjóðþing, heldur auðmagnið og fulltrúar þess útum allt jarðarþorpið. Um allar koppagrundir flæðir það án landamæra undir stjórn mógúla þess, hvar í heimi sem þeir halda sig. Kallast alþjóðavæðing. Og hún er í sjálfu sér ekki af hinu vonda heldur kall tímans í heild sinni. Með því á ég við, að hún eigi að finna sér stað á breiðari forsendum en auðmagnsins eins, á forsendum samvinnu og jafnræðis í menningu, listum, öryggismálum , siðferði, húmanisma og virðingu fyrir umhverfinu. Og ekki sízt friðar.

Evrópubandalagið þróaðist upphaflega fyrst og fremst á þeirri hugsjón að leitast við að hindra hernaðarátök milli helztu grannríkja Evrópu. Og var þá gjarnan spurt, hvað sérhver gæti lagt gott til við þá hugmynd, ekki eingöngu hvaða hagnað mætti hafa af þátttöku þar án nokkurs framlags. 

Einræði auðmagnsstefnu felur í sér flest það, sem gagnstætt er þessum gildum. Í líki nýfrjálshyggjunnar  ber hún í sér ævarandi Darwinískt stríðsástand, sem alvörumenningarþróun hefur verið að reyna að draga úr sem frumstæðu fyrirbrigði  í mannlegum samskiptum; ójöfnuð, hráslagaleika í samneyti manna, græðgi, eigingirni og sérgæzku, jafnvel hjá þokkalega innrættu fólki. En umfram allt leggur frjálshyggjan undir sig vald til að ákveða innihald umræðunnar hverju sinni og útdeila þeim “sannleika” sem hentar því hverju sinni.

Það getur sett stjórnvöldum leikreglur í krafti yfirburða sinna í fjármálalegum samskiptum. Þessi samverkan menningarlegrar samvinnu og ægivalds fjármagns hefur leitt af sér umtalsverðar ígrundanir um hugtakið “þjóðríki” og framtíð þess. Nú ríður mikið á að sætta með einum eða öðrum hætti þessar andstæður og horfa til allrar þróunar í  betra samhengi. Er þá vert að minnast þess, að hugtakið“þjóðríki” hefur undanfarið verið í vaxandi mæli undir stækkunargleri með efasemdum um nauðsyn þess og ágæti í heimi, sem breytist hratt og minnkar stöðugt vegna nánast undurhraðrar tækniþróunar.

Landamærahindranir veikjast, og höft á samskiptum þjóða og þjóðflokka minnka stöðugt. Þjóðernishyggja nýtur ekki þeirra aðdáunar sem fyrr í okkar sögulega samhengi og getur nú einatt þótt heldur varasöm, jafnvel hættuleg einsog svo mörg harkaleg dæmi frá síðustu öld hafa sýnt okkur. Og þjóðernishrokinn er sjaldnast langt undan. Má þá einnig árétta, að þjóðríkishugtakið  er miklu nýrra á nálinni en flestir halda, ættað frá seinni hluta nítjándu aldar og þótti þá býsna framandlegt í augum margra. 

Hvaða “frelsi” er þá verið að tala um? Við erum þegar komin í EES og höfum fengið þaðan umtalsverðar réttarbætur til betra lýðræðis og mannréttinda, sem fram að því höfðu aðeins verið í orði en skammarlega lítið á borði. Með því fengum við raunar líka það frelsi til verzlunar  og samgangs við Evrópuþjóðir með hinu fræga fjórfrelsi.

Hins vegar er þetta fyrir okkur hreinn erkibiskupsboðskapur, sem við höfum alls ekkert um að segja. Með því að verða alvöruevrópuþjóð myndum við a.m.k. sitja við borðið og koma sjónarmiðum á framfæri.. Er það frelsissvipting?

Þá segja einhverjir, að það leysi ekki vandann núna. Auðvitað ekki. Mér þætti gaman að fá að frétta um einhvern, sem haldið hefur því fram. Þetta er útúrsnúningur, einn af mörgum sem notaðir eru til að varpa umræðunni á dreif.  Hinsvegar er tregðan við að láta yfirleitt reyna á samvinnu við EB hluti af orsök núverandi ástands. 

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, tilkynnti helmingshækkun stýrivaxta í dag. Sagði það vera “í samráði við” Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. "Sjálfstæði? “Frelsi”?

Aðrar þjóðir reyna flestar að auka bankaviðskipti með því að draga úr stýrivöxtum. Við getum það ekki strax. Fyrst þarf að bjarga þessari veslingskrónu. Svo er að “setja hana á flot”. Það er reyndar réttnefni.  Hún flýtur einsog svartfuglsungi  í ölduróti úthafa, hnígur og stígur hjálparvana í fyssandi briminu.

Burðugri gjaldmiðlar stærri þjóða fljóta ekki. Þeir sigla. Beita uppí vindinn og kljúfa öldur. Einsog fram kom í dag þarf þjóðin að leggja á sig enn meiri fórnir umfram aðra aðeins til liðsinnis við þetta krónugrey. Til sömu tíðar lýsir seðlabankastjóri því yfir að hann treysti krónunni fullkomlega. 

Kanntu annan betri?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband