Falklandseyjastríð Gordons.

   Ég er frekar hlynntur klisjum. Oft fjalla þær um fyrirbæri sem birtast æ ofaní æ og mynda því vissan alþýðusannleik, en “alþýðan” er einsog of fáir vita, býsna athugul. Við höfum séð nokkrar slíkar opinberast enn og aftur um þessar mundir. T. d.: Völd spilla. eða: Margur verður af aurum api. Og nú síðast: Vinir eru vinum verstir.Yfirleitt höfum við talið að Bretar væru sæmilegir vinir okkar, eyjaskeggjar einsog við. En nú höfum við verið óheppin. Orðhvatur bankastjóri og margnefndur, Davíð Oddsson (yfir ein milljón tilvitnana um D.O. koma upp þá er gúglað er), hafði uppi ábyrgðarlaust tal um það, hvernig Ísland hygðist bregðast við skulbindingum sínu í Bretlandi varðandi bankahrunið hjá okkur í viðtali þar sem hann gagnrýndi hart ábyrgðarlausa hegðun útrásarvíkinganna, sem þó hafa fyrrum verið svo mærðir af honum og hans liði. Og  hér talar nú einu sinni fyrrum forsætisráðherra landsins, margfrægur, einsog þegar hefur verið lýst, og sem slíkur þekktur víða, t.d. í Bretlandi. Önnur óheppni var svo að því sem sagt er að fjármálaráðherra hafi knúið í sama knérunn í símtali við brezkan kollega sinn. Þriðja óheppnin var svo að á nefndum Bretlandseyjum ríkir forsætisráðherra, sem er í örvæntingu að hindra hrun fylgis við sinn flokk. Var hann ekki lengi að grípa þessa sendingu á lofti og færa sér hana í nyt, og skirrðist þá ekki við að beita brögðum af því tagi sem svo oft einkenna stjórnmál. Áhlaup! Túlka á hinn versta veg. Virða ekki viðlits útskýringar og yfirlýsingar um að auðvitað myndum við leysa þessi mál að hætti siðaðra manna. Nú var hann kominn með sinn stóra óvin til að kýla, sameiginlegan fjandamann þjóðar sinnar, sitt Falklandsstríð, og farinn að berja sér á brjóst til að veiða atkvæði. Einsog oftast er raunin var lýst yfir þessu stríði með tilbúnum réttlætingum. Rétt einsog ráðist var inn í Írak með upplognum rökum. Við vorum sett á stall með hryðjuverkafólki þegar beitt var sérstökum sérlögum sem ganga útfyrir venjulega skipan lýðræðis og mannréttinda einmitt af því að nauðsynlegt væri að beita slíkum aðförum til að verjast hermdarverkum. Hann beitti þunga embættis síns til að sverta ímynd lands okkar svo að illa bætandi er. Allar kringumstæður alheimskreppunnar veittu þessum árangri óvanalega gott brautargengi. Brezk þjóð er rétt einsog flestar aðrar þjóðir í losti af áhrifum heimskreppunnar. Íslenzku hremmingarnar virtust koma sem himnasending fyrir Brown og Co til að finna blóraböggul, þrengja vandamálið í huga landsmanna með athæfi sínu. Helst er að sjá þar að Ísland sé skilgreint sem höfuðorsök heimskreppunnar, að íslenzku bankarnir séu einu bankarnir sem hafi farið á hausinn þar í landi. Því var í lagi að sprengja í tætlur löglegt fyrirtæki, sem líklegt þótti til þess að standast áföll líðandi stundar og standa sína pligt. Án frekari umþenkinga en með rangtúlkunum að skjóta vinaþjóð sína í kaf, koma í veg fyrir að hún gæti klórað í bakkann, draga í land björgunarhringana sem hefðu getað dugað og spilla hróðri hennar. Það var því Gordon Brown sjálfur sem vissulega framdi hryðjuverk gagnvart þjóð sem hann þorði í. Gamla flotastórveldið að hefna harma sinna úr þorskastríðinu.Svo sýnist, að Geiri Haarde geti því ekki orðið  að ósk sinni um að reyna að settla málin að siðaðra manna hætti. Í staðinn er staðið fast við stríðsyfirlýsinguna með því að hóta milliríkjaréttarhöldum. Tökum á móti þeim. Ég er viss um að slík orrahríð við litla ríkiskrílið í norðri auki að lokum ekki hróður breska bolabítsins. Brown kann að finna sitt Waterloo. Og ekki mun þetta hryðjuverk bjarga honum frá því að falla í næstu kosningum.  

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband