28.3.2008 | 00:10
Rotnun Reykjavíkur.
Miðreykjavík er að grotna niður. Alveg er það með ólíkindum hversu hratt miðbærinn hefur orðið að slömmi. Fyrir nokkrum áratugum var talað um borgarrotnun (e. urban decay ). Einkum átti það við N-amrískar borgir þar sem bílisminn og verslanakjarnar gældu við úthverfahugsun og mótun. Svefnsöm úthverfi mynduðust og fólk ók svo á milli í bíldrekunum að sinna störfum sínum og mjólkurinnkaupum. Nú erum við að komast á þetta stig á örskammri stundu en langt á eftir öðrum borgum sem hafa lagt á sig mikið erfiði til að lagfæra þetta.
Í spjalli Sigurðar G. Tómassonar og Magnúsar Skúlasonar, arkitekts, á Útvarpi Sögu í dag benti sá síðarnefndi einmitt réttilega á það, hve miklu seinna við værum á ferðinni í þessum efnum en aðrar þjóðir. Nú væru allir hinir fyrir löngu farnir að dubba uppá gamlar byggingar til að vernda forna menningu. Magnús hefur verið ötull baráttumaður fyrir verndun gamalla kofa og hrófatildra með þessa hugsjón að leiðarljósi.Hann lagði að jöfnu þessa viðleitni sína hér og þess sem gert hefur verið annars staðar, s.s. í París og Róm. . En þar finnst mér einmitt að við séum miklu meira á eftir en hann vildi vera láta, og að þar sé verkurinn. Í Evrópu var farið að byggja stórbrotin mannvirki um þær mundir sem Snorri okkar Sturluson sagði: eigi skal höggva í moldargöngunum í Reykholti. Og raunar miklu, miklu fyrr.
Æ síðan hafa risið stórmerk og geymsluverð byggingaverk úti í heimi á þeim tímum þegar hér ríktu moldarkofar og móðuharðindi. Að sjálfsögðu eiga öll þessi svæði sína þróunarsögu með stöðugum breytingum í sögu styrjalda og plágna. Íslenskir stúdentar í kóngsins Kaupinhavn upplifðu stundum þennan mun á húsakosti og borgarmyndun með þeim vofeiflegum tilfinningum, að þeir biðu þess aldrei bætur við að snúa heim, ef þeir ekki beinlínis báru beinin í áfengiseitrun þar. En höfðu frá ýmsu að segja, sívalaturninum, skansinum, stúdentagörðum osfrv. En þar voru líka hreysi og kofaræksni, sem engum hefur til hugar komið að geyma sem menningardýrindi.Við eigum líka ágætar lýsingar t.d. á Lundúnum Olivers Twist. Ekki hefur neinum dottið í hug að viðhalda þeim ósköpum til að viðhalda fortíðarhyggju. Ég þykist nefnilega viss um að á öllum tímum hafi heilum hverfum verið rutt í burtu til að rýma fyrir nýjum og nýtilegri mannabústöðum og borgaralegum stofnunum, hvort sem hefur verið í Evrópu eða t.d. New York. Borgarrotnunin var yfirleitt afgreidd með því að hreinsa bara til, þótt alvörumenningarverðmæti hafi að sjálfsögðu verið varðveitt. Borg einsog Prag, sem ekki hefur orðið fyrir eyðingarmætti styrjalda og því fengið að viðhalda sínum einstaka gamla sjarma hefur ekki heldur haldið í gamla, fúna timburkofa.
Hvaða menningu erum við líka að viðhalda með því að láta viðgangast að einstök niðurnýdd hús fái að rotna niður einhvers staðar á stangli uppum allar götur? Mér fyndist í lagi að ákveða með skipulögðum hætti að mynda einstaka kjarna gamalla sjarmerandi húsa til sýnis um mannlíf frá fyrri tímum. Grjótaþorpið er dæmi um slíkt. Slíkt gæti gengt sama hlutverki einsog víkingasýningin í Perlunni. Koma þá í hugann frjóar tillögur Hrafns Gunnlaugsonar um að flytja Árbæjarsafnið niðurí Hljómskálagarð.
En það er því miður einmitt hluti af okkar menningararfi að hafa látið svo mörg hús drabbast niður um margara áratuga skeið. Slúbbertaháttur. Svo eru alltíeinu keyptir tveir fúahjallar fyrir milljarð svo að aðhaldsamur Sjálfstæðisflokkur geti fengið sér nýjan borgarstjóra. Götuhliðin samanstóð af gluggagímöldum einsog tannlaus gómur með myndum af sætum stelpum á nærfötunum. Var ekki nokkuð seint í rassinn gripið? (Afsakið) Er ekki jafnvel hægt að líta á það sem sögufölsun að láta einsog ekkert sé, kaupa nýtt timbur og byggja hús með allt öðrum hætti en það gamla hafði fengið að þróast gegnum áratugina? Pótemkimtjöld.
Fólk verður að gera upp við sig hvort það vill að höfuðborgin verði þorp, þyrping af úthverfum útum allar koppagrundir með tilheyrandi mengun ( þetta fer oftast saman) eðaraunveruleg borg. Alvöruborg byggist á þéttingu mannlífs þar sem margt fólk býr saman, starfar, drekkur teið sitt lesandi blöðin á veitingastað, kíkir á bækur, kaupir mjólkina sína eða Rólexinn, fer í leikhús og á myndlistarsýningar, sleikir saman sólina eða stiklar skafla án þess að þurfa fjallajeppa. Þar þurfa að vera verslanir sem bjóða öllum Kringlum byrginn. Gamlir sjarmalausir kofar eiga ekki heima þar. Ekkert frekar en svo hlægilegt fyrirbæri einsog miðbæjarflugvöllur.
Að lokum langar mig í þessu sambandi að ítreka þá tillögu mína að losa Ráðhúsið úr skammarkróknum og byggja nýtt við alvöru Ráðhústorg á brunarústunum í Austurstræti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er innilega sammála þér að eitthvað róttækt þarf að gera í þessum málum, ekki er hægt endalaust að horfa á miðborgina okkar grotna hægt og rólega og verða að drungalegu hverfi sem enginn þorir að fara um eftir að skyggja tekur.
Linda Samsonar Gísladóttir, 28.3.2008 kl. 09:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.