Burt með miðbæjarflugvöll.

Ég bý í Fossvoginum. Þar er yfirleitt gott að vera. Maður veit ekki mikið af veðrasviftingum og stormum, sem Veðurstofan hefur svo oft verið  að spá yfir okkur undanfarið. Einn er þó ókostur á þessu svæði, sem ég tel heilmikla skerðingu á lífsgæðum, en það eru drunur flugvéla, sem verða látlausar um vissan tíma dagsins. Sigla þær inn til lendingar á flugvellinum í hjarta Reykjavíkurborgar með suðandi gný svo að samtöl, sem stundum geta verið innvirðuleg og viðkvæm, leggjast niður í uþb 15-20 sekúndur hverju sinni. Sömuleiðis leggst af falleg melódía í tónverki, hluti af samtali í útvarpi, kafli upplestrar, áhugaverð frétt. Uþb 15 sekúndur x 15 um fallegt síðdegi er reyndar töluverður tími. Það er undir slíkum kringumstæðum, sem maður kann að meta “yndi augnabliksins”, og þá einsog vanalega, þegar því er eiginlega rænt frá manni. Enginn veit hvað átt hefur osfrv. Þar við bætist þó kannski aðalatriðið: þessi hátt surgandi hvinur sem ristir sig inní sálina hverju sinni. Þessi aðför að lífgæðum ákveðinna borgara vill yfirleitt gleymast í flugvallarumræðunni. Menn horfa frekar á þau lífsgæði, sem þeim sjálfum  finnst í hættu fyrir sinn hatt, ef miðborgarflugvöllurinn yrði fluttur. Utanbæjarfólki finnst skelfilegt að lenda ekki niðrí miðri borg, jafnvel þótt það þurfi síðan að aka tugi kílómetra útí úthverfin. Ég hlustaði á laugardagsumræðu norðanmanna í RÚV um efnið fyrir nokkru. Kona nokkur sagði frá óförum þeim, sem hún verður fyrir við það að þurfa að fljúga til Reykjavíkur. Það taki hana amk eina ef ekki 2 nætur í hvert sinn að ljúka erindum sínum. Ég fæ ekki séð hverskonar innlegg slíkt er í þessa umræðu. Stóri faktorinn í umræddu dæmi er auðvitað umfang erinda þessarar konu. Ég get með engu móti skilið hvaða afgerandi áhrif það hefur á næturdvalir hennar þótt flugvöllurinn flytti úr miðbæ Reykjavíkur t.d. á Hólmsheiðina eða jafnvel til Keflavíkur. Áætlanir flugfélaga eru ekki heldur meitlaðar í steintöflur. Vel má laga þær að breyttum aðstæðum. Utanbæjarembættismönnum af ýmsu tagi finnst líka skítt að sinna snöggum verkum í stjórnarmiðstöðinni Reykjavík ef miðbæjarvöllurinn yrði fluttur. Þar sé komið enn eitt dæmið um dramb Reykvíkinga gagnvart landsbyggðinni  En þá vill líka stundum gleymast, að nákvæmlega sama óhagræðið á við samskonar embættisfólk, sem starfar í Reykjavík og þarf að eiga samskipti við merkisfólk í dreifbýlinu. Þetta er umferð í báðar áttir. Breytingar eru einfaldlega þeirrar náttúru að þær fela í sér breytingar.  Ekkert helst óbreytt. Unnt er að veita fortíðarþrá nokkur umsvif, innilegan áhuga á því að viðhalda gömlu húsi fyrir stemninguna og sögulegan vitnisburð þótt ljótt sé, en þesskonar nástalgía getur fjandakornið ekki átt við um eitt stykki flugvöll á langverðmætustu landspildu landsins í hjarta Reykjavíkurborgar. Ekki ætla ég að tína til þau mörgu rök önnur til stuðnings flutnings miðbæjarvallarins. Þar ber auðvitað langhæst þau, sem eru af umhverfislegum toga einsog ég hef áður drepið á í bloggpistli (22.10). Það væri óforsvaranlegt ábyrgðarleysi að nýta ekki miðborgarsvæðið til borgarþróunar í stað þess að  þenja byggðina uppum holt og hæðir með aukinni umferð, mengun og umferðarmannvirkjun. Efst á blaði í allri umhverfisumræðu nú er þétting byggðar. Um er að ræða að byggja þéttbyggða alvöruborg með iðandi mannlífi á torgum og strætum eða raða saman svefnþorpum uppum fjöll og fyrnindi og setja mannlíf  í kassa verslunarmiðstöðva.  Gamall bekkjarfélagi minn og samstúdent, hann Eiður Guðnason, kom mér verulega á óvart í blaðagrein fyrir nokkru þar sem hann hafði allt á hornum sér varðandi flutning miðbæjarvallarins. Yfirleitt væri það flónska. Við bjuggum einu sinni saman í Fossvoginum, ég og Eiður, og virðist þá hávaðamengun ekki hafa háð honum, en þetta var raunar töluvert austar en núverandi dvalastaður minn er og flugvélar ekki komnar jafn lágt í lendingarfluginu.  En hvaða vægi hefur umrædd hávaðamengun í samanburði við stóra umhverfismálið um byggðaþróun? Þar sem Eiður var á sínum tíma ráðherra umhverfismála, sá fyrsti minnir mig, vakti þessi afstaða hans mér nokkra furðu.Það má hinsvegar líka líkja því við grunnhygginn flottræfislhátt að byggja aukalega nýjan flugvöll á Reykjanesvæðinu. Ég er því sammála Eiði um að það sé lítið fýsilegt að smíða flugvöll á Hólmsheiði og enn minna á skerjum í sjó fram. En Keflavík er fjandakornið ekki á enda veraldar. Almenn umsvif eru að aukast mikið þar, ekki síst með nýrri Íslendingabyggð á fyrra varnarliðssvæði. Alþjóðlegur háskóli og allt. Þangað mætti til viðbótar flytja í anda dreifbýlisstefnunnar nokkrar opinberar stofnanir, sem hafa mikil samskipti við dreifbýlið, svo að kröm embættismanna annars staðar á landinu megi linast.   Reykjanesbær er raunar þegar í miklum uppvexti. Bæta ætti enn Reykjanesbrautina þannig að hún þyldi 110-120 km hraða einsog tíðkast á hraðbrautum annars staðar og stórbæta í sama markmiði aðreinar frá hverfum og aðkomuna inní borgina alltað að umferðarmiðstöð, m.a. með Öskjuhlíðargöngum. Þó er reyndar ekki gefið, að slík umferðarmiðstöð sé landfræðilega best komin við Öskjuhlíð. Umferðartími milli Reykjavíkur og Keflavíkur yrði þannig um 20 mínútur, eða ekki ósvipaður því að aka úr Skerjafirðinum uppí Grafarholt eða Kórana. Ofangreind norðankona þyrfti varla að eyða tveimur nóttum í erindagjörðum sunnan heiða, þótt þetta kæmist í framkvæmd. Flugfélög gætu talið sér í hag að sinna innanlandsflugi um lengri tíma dagsins án þess að hljóðmenga umhverfi okkar Fossvogsbúa eða nokkurra annarra, s.s. allra þeirra, sem koma allavega til með að búa í Vatnsmýrinni eða sjúklinga á nýja hátæknisjúkrahúsinu og raska svefni þeirra.Þetta getur eflt byggð og athafnasemi á Suðurnesjum, sem er þegar á fullu skriði.Kostnaðurinn samt ekki nema brot af því sem nýr flugvöllur mundi kosta. Nú kann einhver spyrja hverskonar umhverfishugsjónagaspur það sé að vilja lengja lítilsháttar akstursleið þeirra, sem erindi eiga í innanlandsflug. Gild athugasemd. Það þarf að  reikna. Annars vegar þá lengingu ekinna kílómetra, sem fluggestir verða að aka, hinsvegar allra þeirra, sem bólfestu taka uppi á heiðum og eiga erindi niðurí bæ á tveimur bílum oftar en daglega í stað þess að fá inni í miðri borg á núverandi flugvallarsvæði. Í mörgum tilvikum myndi örugglega vegalengd þeirra í innanlandsflug lítið lengjast við það að keyra til Keflavíkur. Utanbæjaralþingismenn hafa flestir lagst gegn flutningi flugvallarins. Sumt fólk hefur grunað þá um að huga helst að hugsanlegum eigin þægindamissi. Ekki trúi ég öðru en þeir muni fyrst og fremst hugsa um málið á víðara grundvelli en þeim sem varðar þeirrea eigin hugsmuni. Og spyrja má í leiðinni um hagsmuni allra þeirra utanbæjarmanna, sem eru á leið í sumarfrí. Hví þurfa þeir endilega að arka frá Reykjavík til Keflavíkur hverju sinni? Enginn smáhópur. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ólafur!

Nú er sýning á Vatnsmýrarsamkeppninni í Hafnarhúsinu.  Ég bendi núna öllum flugvallarsinnum að fara að skoða sýninguna milli 1600 og 1700 virka daga. Um þennan tíma heyrist varla mannsins mál í sýningarsalnum fyrir hálftómum flugvélum að lenda  á dýrasta byggingarlandi á Íslandi.

Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband