Lýðræðið í hættu.

Þar kom að því að Mogginn fór að hafa áhyggjur af lýðræðinu!

Allt hefur hingað til verið allskostar í lagi um langa hríð. Ekkert athugavert við gengdarlausa ásælni framkvædavaldsins í yfirráð yfir bæði löggjafarvaldi og dómsvaldi undanfarandi mörg ár, ekki síst í stjórnartíð fyrri ríkisstjórnar, ofríkisstjórnarinnar, en einnig undanfarið. Í góðu lagi að leggja niður stofnanir, sem ekki eru ráðamönnum að skapi; hundsa niðurstöður Hæstaréttar Íslands;  lauma þjóðinni inní innrásarstríð án þess að spyrja kóng eða prest, hvað þá Alþingi;  gera færasta fólki ókleift að sækja um embætti, ef einhver tengdur ráðamönnum ( einkum einum ákveðnum, nefnum engin nöfn) sækir um, nú síðast með því eð tefla fram dýralækni í ráðherrastól til að tjá matsmönnum úr röðum virtustu lögfræðinga landsins, að þeir kynnu ekkert til verka, allt væri verk þeirra “misskilningur”.

Það þýðir auðvitað að þeir séu nú hálfgerðir asnar þegar kemur að starfi dómara í landinu. Enda best að í starfi dómara á Norðausturland fari embættismaður, sem hafi einkum reynslu í því að laga sig að kröfum framkvæmdavaldsins. Betra að hafa vit fyrir þessum fagmönnum. Framkvæmdavaldið ræður. Að vísu hafa komið fram mjög afgerandi skoðanir fjölda menntamanna, m. a. í dómarafélaginu, sem væntanlega kunna eitthvað fyrir sér í lögum, um að það séu fyrst og fremst einhverjir aðrir sem misskilji inntak lýðræðis.  

Ég get ekki látið hjá líða í þessu sambandi að rifja upp sjónvarpsumræðu forðum daga milli umrædds ráðherra og Steingríms Sigfússonar , sem seint mun líða mér úr minni. Þeir voru að tala um innrásina í Afganistan. Steingrímur var á móti; ráðherrann með. Ellefta níunda ("9/11") bar þá á góma og fannst Steingrími það atvik ekki réttlæta heilt stríð. Ráðherranum fannst hinsvegar full ástæða til slíks þar sem fyrir elleftann HAFÐI EKKERT GERST. Takk. Svo djúpt lá skilningur hans á alþjóðapólitík þá. Það er von að hann sjái tilefni til að leiðrétta lögfræðiprófessora um lagaleg málefni nú. Mogginn sá líka síður en svo ástæðu til lýðræðislegra umþenkinga þegar stjórnmálaflokkur, sem löngum hefur kennt sig við aðhaldsemi í meðferð opinbers fjár, kaupir sér borgarstjóra í eitt ár fyrir sirka milljarð af almannafé og fer á málefnaleg hnén til þess eins að ná völdum. Fáséð spunaverk er í gang sett. En þá fyrst fer lýðræðisleg foldin að skjálfa og ólýsanlegar ógnir að steðja að þegar hópur fólks, einkum ungs, mætir á áheyrendapalla og fer að lýsa reiði sinni með því að baula. Menn eru skelfingu losnir og lýðræðislega lamaðir. Fundi seinkaði um heila klukkustund.

Þá gekk hópurinn út og lokaði pent á eftir sér. Var eitthvað skemmt? Kastað fúleggjum, tómötum eða slett skyri? Nei, svo svæsin var nú þessi byltingarkennda vá að vísu ekki, en lítil pólitísk hjörtu munu hafa slegið óþægilega hratt og Mogginn fer að sífra um árás á lýðræði. Jahérna. 

Ég hef verið í fríi undanfarið og tek þá alvöru frí. Því sá ég ekki raunir Moggans og skelfingu Sjálfstæðismanna fyrren alveg nýlega. Sem læknir er ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af blaðinu. Linnulaus stjórnarandstaðan og ekki síst óvildarþráhyggjan í garð utanríkisráðherrans, sem potað er inní hvaðeina, sem ritstjóranir eru að fjalla um, Ingibjargarduldin, og gaggólegur málflutningur og (stak)steinakast vekja grunsemdir um að ekki sé lengur allt með felldu. Vinn á öldrunarstofnun og hugsa mitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband