Íslenskufróður dómari.

Alltaf skal maður verða gómaður með allt niðrum sig. Maður trúir því sí og æ í einfeldni sinni að einhvern tíma muni renna upp þeir tímar þegar stjórnmálamenn virða leikreglur lýðræðislegra stjórnarhátta. En auðvitað breytist ekki svo glatt í einu vetfangi þetta valdapot og þessi hagsmunagæsla sér og sínum til handa sem ríkt hefur í þessum bransa á öllum tímum og gætir ekki síst hér á landi einsog dæmin sanna. Þessutan hlýtur fámennið hér að krefjast ósvífnari framgangs valdamanna vegna ættingja og vina, sem eru hlutfallslega býsna fjölmennir í þessu tumaþumalssamfélagi. Því eru öll tækifæri fullkreist, þegar vænir bitar bjóðast, t.d. nú síðast í gjafmildi til handa vinum og vandamanna á Keflavíkurvelli.Þorsteinn Davíðsson er eflaust hinn mætasti maður og auk þess “hæfur og góður dómari”. En hann er bara ekki einn um það. Það eru væntanlega einnig þeir sem sóttu um dómaraembætti á móti honum, en fengu ekki. Útskýringar fjármálaráðherra á forsendum þeim, sem lágu að baki því að hann valdi Þ.D. í dómaraembætti eru með því snautlegra sem maður hefur lengi séð í íslenskri pólitík. Hinn útvaldi hefur það einna mest til ágætis skv. mati ráðherrans að hafa verið aðstoðarmaður dómsmálaráðherra í nokkur ár. Þó reyndist t.d. sama reynsla umsækjenda um sæti í hæstaréttardómara fyrrum um miklu lengra tímabil ekki vega þungt á sinni tíð. En einmitt í þessu atriði kemur fram hvernig sjálfstæðismenn virðast hafa gleymt eða þá þumbast við að viðurkenna  grundvallarhugsun lýðræðisins um þrískiptingu valdsins. Þeim virðist svíða það sárt að hafa verið snupraðir af Evrópusambandinu á sínum tíma og gert að skilja að þá að sem rannsaka sakamál og sækja menn til saka annars vegar  og þá sem dæma hins vegar. Nú er það talið til sérstakra tekna, að umsækjandi hafi verið í læri hjá ráðherra dómsmála, þekki  innviði stjórnarráðsins og  stjórnsýslu. Reynsla sem dómari og fræðimennska í lögfræði hefðu mun minna vægi í dómarastarf. Menn vilja gleyma því, að umsagnarnefndin var sérstaklega sett á laggirnar til að stuðla að aðgreiningu framkvæmdavalds og dómsvaldsins. Þessu meginprinsípi lýðræðisins er einfaldlega gefið langt nef. Sá valinn, sem metinn var síst hæfur þótt hann sé áreiðanlega engu að síður “ hæfur og góður dómari”. “Ég má alveg gera það sem mér sýnist”, “ég er ekki bundinn af einni eða neinni faglegri umfjöllun reyndustu manna”, “nefndin hefur ekkert að gera með að meta mismunandi mikla hæfni”. 

Auk þess er ÞD er svo góður í íslensku og aukinheldur í dómnefnd bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar ( sem veitir jú einhverja viðbótarreynslu í dómarastörfum ). Hvað með hina umsækjendurna? Eru þeir málsóðar? Hvaðan kemur sú vitneskja? Og hvernig skyldi ÞD hafa komist í bókmenntasjóðsstjórnina í upphafi?

Málefnalegt? Og svo kemur gamla lumman: Hví á ÞD að þurfa að gjalda þess að vera sonur Davíðs Oddssonar? Þá verður að spyrja á móti: Hvers á allt annað hæfileikafólk fólk að gjalda  að vera ekki börn DO? Eða vera a.ö.l. ekki tengt DO? Eða að vera ekki spilafélagi DO? Af hverju skyldi það vera að skv. reynslu undanfarandi ára virðist  ekki taka því að sækja um veigamikil störf í kerfinu, ef einhver tengdur DO,- eða öðrum valdamönnum, ef því er að skipta, sækir um? Ég hef vissan skilning á því að stjórnmálamenn geti hneigst til að velja fyrri samstarfsmenn eða jafnvel flokksmenn til starfa. Í fyrsta lagi kann vegna slíkra kynna að liggja fyrir þekking á góðri starfshæfni viðkomandi og í öðru lagi er kannski ekki með öllu óeðlilegt að pólitísk sjónarmið geti átt rétt á sér. Ástæða geti verið til að veita brautargengi pólitískri stefnu, sem valdamaðurinn var kjörinn til að fylgja, jafnvel þótt slíkt umboð geti verið ansi veikt skv. íslensku flokkalýðræði. En þá finnst mér nauðsynleg forsenda, að ekki sé um ævistarf að ræða.  Og ekki sé um að ræða yfirgangsemi framkvæmdarvaldsins gagnvart hinum tveimur valdastólpum lýðræðisins. Maður var satt að segja að vona, að ófyrirleitni af þessu tagi færi að linna eftir að fyrri ofríkisstjórn hætti.  Ég fann reyndar svolítið til með Sigurði Kára í Kastljósþætti að vera att útí gaggóslag af þessu tagi. Að verja svona geðþóttaákvarðanir innan kerfis sem ætlast til að verða tekið alvarlega og vera virkt með þeim hætti að ætíð veljist allrahæfustu einstaklingar til starfa. Enda sagði hann svo í restina, að vissulega væri alltaf erfitt að velja úr hópi umsækjenda og kæmu þar ýmis sjónarmið til greina önnur (en þau faglegu). Það virðist allavega auðvelda töluvert ákvarðanatöku að geta tekið mið af meintum yfirburðum í íslensku sem séu jafngildir tveimur starfsgæðaflokkum að mati faglegra álitsgjafa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hann verður en betri íslenskumaður fyrir norðan.  Þetta mál er óskaplega dapurlegt

Hólmdís Hjartardóttir, 12.1.2008 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband