Ágangur Rússa

Umræðan í Kastljósi áðan um vaxandi hernaðarumsvif  Rússa á norðurslóðum fannst mér dæmigerð um ríkjandi rammahugsun um alþjóðapólitík. Fréttamenn okkar hafa fyrir augunum sífelldar fréttir frá vestrænum fréttastofum, sem vitað er að sjá heiminn þröngri sýn byggðri á því sem stjórnvöld og gildandi rétttrúnaður  bjóða uppá hverju sinni, - eða bjóða ekki uppá. Þannig var sífellt klifað á “ágangi” Rússa með þessu brölti sínu. Vestræni  heimurinn fórnar höndum og tekur andköf. Nýtt kalt stríð.  Menn virðast horfa alveg framhjá allri forsögu þessara mála. Varla höfðu Sovjétríkin hrunið þegar Nató fór að greikka sporið, taka inn gömlu kommúnistaríkin og færa sig alveg uppað landamærum Rússlands. Og Bandaríkin fóru fljótt að gera áætlanir um að reisa elflaugastöðvar beint fyrir framan nasirnar á þeim. Var þá nokkuð talað um “ágang”? Það var þá þegar algjörlega fyrirsjáanlegt, að Rússar myndu ekki geta tekið slíkri ögrun þegjandi og hljóðalaust. Það er vitað, að sértök viðkvæmni og taugaspenna ríkir á þessum svæðum miðevrópu þar sem landamæri hafa slengst til og frá meira en víðast annarsstaðar. Þarna er  sögulega séð einstaklega viðkvæmt svæði. En Nató og ekki síst Bandaríkin eru söm við sig, hirða lítið um annað en að sýna mátt sinn og megin. Þetta er kjarninn í hugmyndafræðinni á þeim bæ. Fara yfir í krafti hernaðarmáttar og beygja heiminn undir sinn vilja.  Beiting aflsmunar eru helstu rökin. Þetta þekkir auðvitað heimurinn af mörgum þeim styrjöldum sem þeir hafa stofnað til á undanförnum áratugum. Bandaríkin ein greiða næstum helming allrar hergagnaframleiðslu á heimsbyggðinni. Það liggur við að mann gruni, að hergagnaiðnaður á vegum hins opinbera sé undirstaða atvinnulífs í þessu landi, sem telur sig andsnúið ríkisafskiptum.  Rússar  kosta til um 1/30 hluta heimsframleiðslu á hergögnum og hernaðarkerfum. Samt lét Bush Bandaríkjaforseti sig ekki muna um það í fyrra að spyrja furðulostinn, hverjir gætu eiginlega verið óvinirnir fyrst Rússar væru farnir að smíða svo mikið af vopnum. Um leið og hann sjálfur var farinn að hreiðra um sig með eldflaugar sínar við bæjardyr þeirra. Þá spurði enginn hverjir gætu verið óvinir Bandaríkjamanna sjálfra þarna í húsagarði Rússa. Ef talað er um “ágang” á norðurslóðum þarf því að hyggja að upphafinu. Og vera ekki hissa, þótt upphafsögrunin og yfirgangur valdi einhverjum viðbrögðum nú.Til alls þessa er auðvitað stofnað samkvæmt hefðbundinni þráhyggju um valdbeitingu og hernað sem röksemd allra hluta og helsta verkefni mannkyns. Viðbrögð Rússa eru einmitt skv. sömu formúlu. Því miður. Kastljósþátturinn varpaði raunar töluverðu ljósi á þetta þegar vel er að gáð. Síst má heldur sofna á verðinum gagnvart hugsanlegri ógn úr þeirri átt. Búið er að erta björninn. En Björn Bjarnason var ekki einu sinni voðalega hræddur við Rússana. Í mínum huga er framganga Rússaforingjans Pútíns á heimaslóðum miklu meiraáhyggjuefni. Hann er óhugnanlega  ófyrirleitinn við að brjóta niður velflestarlýðræðisleikreglur og koma á einræði. Og kemst upp með það. Hann hefur fjöldafylgi. Gorbatshov og jafnvel Solchenicin kunna að meta hann. Hann virðist höfða til þjóðarsálarinnar þrátt fyrir allt. Endurheimta einhverja sjálfsvirðingu eftir langt niðurlægingartímabil. Kemur fram sem hinn sterki leiðtogi. Þessi þjóð virðist ansi svag fyrir slíku. Ég tel ekki ólíklegt, að “kaldastríðstilburðir” hans nú séu hluti af þessu sjóvi. Fá heiminn á móti sér. Draga þannig athygli bæði sinnar eigin þjóðar og umheimsins frá trampi hans á mann- og lýðréttindum. Vestrænir miðlar virðast falla fyrir þessu.        

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband