25.10.2007 | 23:32
Um ástir samlyndra hjúa.
Mér finnst umræðan um samvistir samkynhneigðra að mörgu leyti snúast um keisarans skegg,- eða eigum við að segja um skegg Guðs.
Í Kastljósinu áðan kom fram að ORÐ hafi sterk gildi. Að sjálfsögðu. En þá verða leikreglurnar að gilda um öll orð. Eitt slíkra er orðið: hjón. Því verður varla í móti mælt, að það á við um vígða sambúð karls og konu. Það er að mínu mati töluverður yfirgangur af hálfu þeirra, sem sjálf eru að berjast undan yfirgangi og ójöfnuði fyrir sitt leyti, að svipta slíku pari eigindum sínum og breyta þeirri ævafornu merkingu til þess að falla endilega í sama kramið sjálft. Hjón eru í hjónabandi. Konan giftist, sem merkir að hún er gefin skv. fornum sið eða gefur sig framtíðarlífsförunauti. Karlinn kvænist eða kvongast, þ.e. tekur sér konu til slíks sambands. Ég er hræddur um að það þætti nokkuð séráparti, ef kona kvongaðist annarri konu. Slíkt væri að umbylta hefðbundnum skilningi á fyrirbærinu svo um munar. Og um leið tilfinningum, þar sem ORÐ hafa, einsog þið munið, einmitt sterk gildi. Hins vegar tel ég að sátt gæti orðið um hugtakið hjúskapur, þegar gefnir eru saman samkynhneigðir einstaklingar. Það hugtak er fengið úr fornum sið og merkir þá stöðu pars að mega taka hjú. Nokkurs konar húsbændur. Og: gefnir saman. Það er gifting. Sem þýðir auðvitað að vígja sambúð. Mér finnst vera seilst óþarflega langt, ef samkynhneigðir hafa enn allt á hornum sér, þegar þeir eru að ná jöfnuði í samfélaginu, sem mestur er í heiminum, og tala um aðskilnaðarstefnu. Hvar er nú gay pride? Vilja þeir gjörsamlega neita sinni sérstöðu sem persónur með því að deila um skegg keisarans?
Mér er mjög hlýtt til samkynhneigðs fólks. Mér finnst hommar hafa marga eiginleika og lífsviðhorf sem fegra tilverunu og mannleg samskipti að því marki, að aðrir mættu læra af. Hef átt marga slíka að vinum gegnum ævina. Þekkt mun færri lessur, en hef svipaða sögu að segja um þær. Því fagna ég því formlega og lagalega jafnrétti, sem þau hafa öðlast og varpa fram þeirri hugmynd, að allir geti fallist á þá málnotkun að hommar eða lesbíur séu gefin saman, gefist hvor öðrum eða annarri, giftist og lifi svo sem hjú (samhjú) í sínum hjúskap uns dauðinn þau sundur skilur. Orðið hjú felur að vísu í sér hugmynd um vinnufólk. Síst er það nú meiningin. En þar er málum blandið. Orðið hjón getur nefnilega líka falið í sér sömu merkingu: vinnufólk. Og hjúskapur er vissulega ekki sambúð vinnufólks. Svo þar er í raun jafnt á með þessum orðum komið. Hjón séu hins vegar áfram hjón, karl og kona. Þeirra sambandi sé á komið með hjónavígslu, þau lifi saman í hjónabandi og uppfylli jörðina.
Við nánari hugsun dettur manni vissulega í hug orðið ektapar um hjúskap samkynhneigðra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.