22.10.2007 | 22:51
Erum við umhverfiss(l)óðar?
Við höfum yfirleitt talið okkur trú um, að við værum sérstaklega umhverfisvænt fólk. Það hefur verið okkur innblásið alveg frá barnaskólaárunum, þeim tíma þegar okkur var talin trú um að hér ríkti alvöru lýðræði með þrískiptingu valdsins, sem komst þó ekki á fyrr en löngu síðar með tilskipun frá útlöndum, að hér lemdu menn aldrei konurnar sínar, hér væru engir barnanýðingar, engin fátækt osfrv. Við bárum okkur saman við reykjarsvælu iðnaðarborga erlendis og komum vel útúr þeim samanburði. Töldum að þetta væri allt okkur sjálfum að þakka en ekki þeirri staðreynd, að nátturuhagir hér eru sérstaklega góðir. Þegar betur er að gáð virðist samt sem andvaraleysi varðandi umhverfismál hafi verið meira en góðu hófi gegnir á öllum tímum, ekki síst undanfarandi ár gagnvart hlýnun andrúmsloftsins.
Sem dæmi er mér minnisstætt, þegar sortnaði lyng og mosi á töluvert stóru svæði um Kapelluhraun og víðar umhverfis álverið í Straumsvík, og allar hænur drápust á bæ skammt frá. Málið fór fyrir dómstól, sem komst að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir sviðna jörð og ótímabæran dauða kjúklinga, væri ekki sannað að þar gæti verið samband við mengun frá álverinu. Allt gæti þetta bara verið hrein tilviljun, smáslys. Minnir á rök tóbaksframleiðenda um áratugi varðandi samband lungnakrabbameins og reykinga. Og mér er nær að halda að þetta sé sá grunntónn, sem ríkt hefur hérlendis í umhverfismálum. Let them prove it.
Náttúran hefur yfirleitt ekki notið vafans. Jarðnám klífur fjöll. Náttúruperlum sökkt undir vatn. Menn brjóta eða svindla á náttúruverndarreglum og lögum að geðþótta, narta í friðlýst svæði eða hreinlega vaða yfir þau og komast upp með það. Mér þótti nokkuð undarlegt, þegar borgarfulltrúinn Gísli Marteinn birtist á mynd í dagblaði fyrir nokkru með þá yfirlýsingu, að hann vonaði að Reykjavík yrði ekki bílaborg. Hvar hefur maðurinn verið? hugsaði ég. Allar götur fullstoppaðar bílum með einum einstaklingi innanborðs að aka milli dreifðra hverfa borgarinnar. Hann virðist þó ásamt félögum sínum í Borgarstjórn hafa náð áttum og haft uppi einhverjar aðgerðir í samgöngumálum borgarinnar, sem ekki er vert að horfa framhjá. Vonandi má vænta frekari aðgerða hjá nýrri borgarstjórn. Og óneitanlega hefur undanfarið komið fram alvöru umræða um umhverfisvernd í daglegu lífi, t.d. í Mogganum um síðust helgi. En það þarf miklu meira til. Ákveðnari og markvissari stefnumörkun í borgarskipulagsmálum sem og umhverfismálum almennt á vegum hins opinbera. Og umfram allt almenna hugarfarsbreytingu. Auðmýkt gagnvart samspili nátturunnar og fegurð hennar í staðinn fyrir að beita hana ofbeldi.
Það fyrsta sem þarf er áróður gegn dofanum sem við erum öll gegnsýrð af. Mætti þar gjarnan nýta þá miklu orku, sem farið hefur í það að leggja reykingarmenn í einelti. Um þennan doða morar af dæmum. Sorpgámar eru staðsettir á hæstu hæðum svo blasir við um allar sveitir. Menn vaða með gröfur í dýrmæta skógarlunda, tæta þar upp einsog eigi að reisa íþróttahöll. Það var gert með vitund bæjarstjóra, en mér verður einnig hugsað til gröfustjórans, sem sagður var hafa verið óþarflega stórtækur í starfinu. Hverslags hugarfar? Nú er svipað að gerast í útjaðri Reykjavíkur vegna útþenslustefnu borgarinnar uppum holt og hæðir, skapandi vaxandi umferð. Einhverjir kallar á Snæfellsnesi virkja einsog þeim sýnist í trássi við gefin skilyrði. Golfklúbbur býr til ljóskastaraárás sem beint er innað borgarmiðju Reykjavíkur, sker í augu og blindar ökumenn svo sverfur að kvöldhúminu. Aðeins um helmingur borgarbúa fer með sín hundruð kílóa af dagblöðum í gáma. Hvað ætli margir flokki sorpið sitt frekar?
Ég ók um daginn um eittleytið að nóttu Reykjanesbraut til Reykjavíkur og undraðist yfir hátíðahöldum svæðisins. Meirihluti allra skrifstofubygginga var upplýstur um allar hæðir, svo og verslanir og einhverjar íbúðarblokkir einsog væri gamlaárskvöld. Víða í Evrópu ( og líka í Kaliforníu! ) notar fólk innkaupapoka að heiman þegar verslað er. Víða, t.d. í Þyskalandi, eru ruslatunnur strætanna þrískiptar fyrir mismunandi tegundir sorps og gámar til reiðu fyrir slíkt svo ekki þurfi að aka borgirnar endanna á milli til að losa sig við það. Þar slekkur fólk í herbergjum, sem ekki eru notuð. Ekki er óalgengt, að samdar séu reglugerðir um notkun sparpera. Mórall sögunnar er, að það er í hinu litla, sem umhverfisvitundin vaknar. Þjóðverjar hafa kannski forskot í slíkum þankagangi nægjuseminnar eftir að hafa tapað tveimur heimsstyrjöldum. En nú er svo komið, að það sem okkur hefur jafnvel fundist púkó er að verða dyggð í umhverfislegum skilningi. Flestir eru sammála um að það munar um allt til að draga úr almennri orkunotkun. Margar þjóðir eru okkur miklu fremri varðandi þróun umhverfivænna eldsneytis. Byggingameistarar um allan heim eru að hanna hús á þann veg, að spara má alltað 60% af venjulegri orkunotkun og jafnvel meira. The Bank of America er að byggja skýjakljúf af slíku tagi í New York. Er sjáanlegt eitthvert frumkvæði að þessu leyti hjá borg eða ríki? Það fylgir sömu hugleiðingum, að neyta eigi innlendrar fæðu einsog kostur er til að draga úr flutningsmengun. Þónokkur ástæða til að hugsa fallega um íslenskan landbúnað! Í skipulagi borga eru flestir sammála um að þétting byggðar er mottó dagsins.Sú aðferð að þenja út byggðina með æ fleiri útborgum uppum holt og hæðir sé einn helsti mengunarvaldurinn. Draga þurfi úr fjarlægðum milli heimila annars vegar og vinnustaða, verslana og afþreyingar (ekki síst fyrir börn) hinsvegar. Síaukin götuvirki og risastórar verslanahallir auki aðeins á umferð og mengun. Auka og bæta þurfi almenningssamgöngur osfrv osfrv, ekki ætla ég að kyrja þann söng frekar nema að því leyti, að ég tel að unnt sé að skipa strætómálum miklu betur með auknum sveigjanleika sem tillit tæki til stórra vinnustaða og skólasóknar. Aðalniðurstaða þessara bollalenginga er , að nú sé ekki hægt að eiga bæði kökuna og éta, menn geti ekki lengur búist við því að búa bæði í borg og sveit. Borg er borg. Fólk, iðandi mannlíf. Enn frekari niðurstaða er sú, að allt þetta er meira en næg ástæða ein og sér til að flytja Reykjavíkurflugvöll úr dýrmætasta byggingarreit landsins. Meira um hann seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.