15.10.2007 | 23:54
Prinsíp (eða prinsipp) um opinberan rekstur
Absúrdleikhúsið, sem nú er á fjölunum í ráðhúsinu hefur, einsog absúrdleikrit eiga að gera, leitt margt í ljós um leikaraskap í pólitík, slagorðaspuna í allar áttir, óeinlægni, yfirklór. Óneitanlega mikið drama. Ekki skal farið mikið útí þá sálma hér, nóg er nú samt. Mig langar samt aðeins að skoða prinsíppið um áhættufjármagn og opinberan rekstur. Þennan ginnheilaga slógan, sem þeir fundu þarna, dvergarnir sjö í fyrrverandi borgarstjórn.
Í fyrsta lagi er svolítið óljóst hver áhættan er í þessu tilviki. Þegar 2 milljarðar, sem voru raunar afrakstur af fyrri áhættuhegðun, verða 10 M, hversu mikil er þá áhættan fyrir borgarbúa að tapa 8 M kr. forgjöf í fyrirtæki, sem einir bestu fjármálamenn okkar setja traust sitt á? Já, en bíddu við, það er prinsíppið sem gildir. Sem í raun er vel unnt að ræða. En það er bara nokkuð seint til komið og ber svip eftiráskýringa. Það var þó fjandakornið Guðlaugur Þór, sem stofnaði REI einsog oft hefur verið bent á. Eftiráskýringar dverganna eru fjarska máttlausar.
Hinu er ekki að neita að starfshættirnir allir í kringum þessar fléttur við sameiningu Gullfoss og Geysis, og þá ekki sízt hugmyndirnar um kaupréttarsamningana, voru svo sannarlega til þess fallnir að reiðast yfir. Vissulega var verið að valta yfir borgarstjórn einsog sexmenningarnir orðuðu það. Mér finnst furðulítið talað um það mikla óðagot, sem ríkti þegar sameiningunni var nánast troðið niðurum kokið á borgarstjórn í svo miklu hasti, að brotnar voru margar reglur. Hvaða prinsíp sem menn aðhyllast eru flestir sammála um að allt pukrið og allur skorturinn á nægum upplýsingum um rekstrarmál fyrirtækja, sem er í eigu borgaranna, er ekki þolandi. Fyrsta prinsíppið á að vera að þar sé allt í lagi til að tryggja hag borgaranna.
Víkjum þá sögunni til Landsvirkjunar. Þar hefur nú stóra prinsíppið ekki verið ofarlega á blaði. Og því síður upplýsingagjöfin til eigenda. Þar eru spunamenn önnum kafnir við að halda helstu upplýsingum leyndum. Hvað vitum við hvort við séum að niðurgreiða útsöluna á orkunni þeirra eða ekki? Allt svo mikið leyndó.
Við vitum bara að útlendingar eru í biðröðum til að koma hingað að kaupa raforku, rétt einsog þeir væru á biðlista yfir hnéaðgerð. Jafnvel Norðmenn vildu flytja verksmiðjur til Íslands til að kaupa íslenzka orku. Í upphafi Kárahnjúkavirkjunar var ekki annað að sjá, en að arðsemisútreikningar Landsvirkjunar hafi byggzt á því að allt land og nýting þess um víðáttur þessarar náttúruperlu kostaði ekki neitt. Þegar menn fóru að reikna útfrá líklegu orkuverði komust nokkrir góðir fræðimenn að þeirri niðurstöðu, að virkjunin stæði ekki undir kostnaði. Eg minnist enn, að þváverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, var innt eftir þessu í sjónvarpsviðtali og gaf fjarska lítið útá það. Hvernig eiga mennirnir að geta reiknað þetta, þar sem enginn vissi um orkuverðið? Það merkilega var, að örfáum vikum fyrr hafði hið háa Alþingi samþykkt allan þennan gjörning. Hvernig áttu Alþingismenn að hafa getað reiknað þetta? Hvað voru þeir að samþykkja?
Nú, löngu seinna, virðist Landsvirkjun vera að uppgötva, að landareignir allt kringum virkjunina séu einhvers virði. Og fer að prútta um landið af hörku og yfirgangi. Getur ekki greitt neinar alvöruupphæðir vegna þess, að aldrei hafi verið gert ráð fyrir þeim í upphafi. Allt gæti þetta því bitnað á arðseminni. Til viðbótar má nefna hina miklu töf, sem orðið hefur á afhendingu raforkunnar til álversins í Reyðarfirði. Er ætlast til að við trúum því, að það kosti ekkert? Landsvirkjun þegir þunnu hljóði og nýtur stöðu sinnar sem ríki í ríkinu, fer dólgslega og kemst upp með það.Hvaða prinsípp hafa verið á ferðinni þarna? Allavega ekki þau, að ríkið eigi ekki að standa í "áhættusömum rekstri". Segja má, að þetta dæmi styðji samt allrækilega einmitt það. Hvað ætli þetta hafi kostað okkur?
Bakhliðin af því er hinsvegar sú, að um er að ræða svo stóran þátt í tilvist okkar og náttúrugæðum, að aldrei skyldi selja þau oligörkum vinveittum ráðamönnum, fyrir slykk, einsog tíðkast hefur, sem geta síðan í krafti síns auðvalds ráðið okkar kjörum. Það verður að teljast nokkuð skynsamlegt að neyta liðsinnis um viðskiptin manna og kvenna, sem kunna til verka í viðskiptum meira en pólitíkusar, en halda engu að síður samfélagslegum ítökum og gæta hagsmuna borgaranna skv. fyrirfram ákveðnum skiptareglum. Og umfram allt er það nauðsynleg forsenda, að þess sé stranglega gætt, að ekki sé stundað baktjaldamakk einsog nú hefur verið raunin, og að fulltrúar okkar hafi bakgrunn í leikreglum, sem slíkt tryggja og haldi árvekni sinni. Annars þarf að skipta þeim út.
Þetta er í mínum augum höfuðprinsíppið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.