5.10.2007 | 15:22
Bush og velferð fjármagnsins.
Enn hefur Bush forseti bjargað þjóð sinni frá yfirvofandi hörmungum, í þetta sinn með því að afstýra þeirri hræðilegu ógn að þurfa að innleiða sjúkratryggingar fyrir börn. Hvar væru BNA á vegi stödd ef ekki nyti við þessa dáðadrengs? Tryggingafélögin? Heimurinn?
Hagur auðugustu fyrirtækja mundi stórversna. Þegar Clintonstjórnin gerði fyrir margt löngu tilraun til að stunda þá ósvinnu að koma á almennu heilsutryggingakerfi, kom í ljós, að stjórnunarkostnaður við þær opinberu tryggingar, sem þó voru fyrir hendi, aðallega fyrir aldraða og uppgjafahermenn, var um 1-2% en við einkatryggingafélög um 12-20%. Slíkur mismunur milli velferðarþjónustustofnana annars vegar og gróðastofnana hins vegar er miklu oftar staðreynd en haldið er á lofti.
Flokksmenn Bush gátu á sinni tíð guðsélof skotið þessa villutrú í kaf og verndað tryggingarfélögin fyrir utanaðkomandi vá. Þau voru samt enn eitthvað súr og tóku ekki gleði sína fyrr en Bush hafði lækkað skattana þeirra til muna.
BNA er velferðarríki einsog allir vita. Velferð einkafjármagnsins, Því hefur einnig tekizt að halda mörgum tugmilljónum manns utanvið íþyngjandi sjúkratryggingar og byrðar ríkisins við slíkt. Sjá Michael Moore. Vert er þá að gleyma ekki hugsjónaheimi Bush í víðara skilningi. Hann kom m.a. fram í ræðu, sem Bush flutti í tilefni heimsóknar Elísabetar 2. til Bandaríkjanna sl. vor. Þar minntist hann hrærður þeirrar stanzlausu vegferðar, sem Bretar hafa gengið allt frá Magna Carter fram á þennan dag útum heim allan til að útbreiða frelsi. lýðræði og félagslegan jöfnuð. Hann hefði veitt þessu athygli alveg frá því Elísabet 2. hafði síðast komið í heimsókn árið 1779.
Frelsi, lýðræði og sjálfstæði af þessu tagi sýnist augljóslega vera hans baráttumál. Alltaf árvakur. Aldrei haldin ræða nema lýðræði, frelsi og sjálfstæði beri á góma. Það fór ekki framhjá honum fyrir nokkru, að Rússar væru að auka fjárframlög sín til hernaðaruppbyggingar og lýsti yfir miklum áhyggjum vegna þess. Botnaði ekkert í þessu. Til hvers? Hver væri óvinurinn?
Öðru máli gegndi auðvitað með Bandaríkin, sem kostaði meira til hergagnaframleiðslu en öll önnur ríki jarðarinnar samanlagt. Slíkt er auðvitað ekki hergagnaframleiðsla heldur framlög til landvarna. Einnig það að umkringja Rússland með hernaðarmannvirkjum rétt við landamæri þeirra. Þannig ræður maður betur, hver sé óvinurinn Hverjar séu hinar illu þjóðir. Og hverjir vinir, t.d. friðelskandi harðstjórnarríki einsog Saudi-Arabía, Pakistan, kannski Búrma, landræningjar einsog Ísrael, og svo eftir því sem vindarnir blása, jafnvel Afganistan, Írak og Íran. Auk þess að skapa fjölda manns atvinnu (og fyrirtækjum nokkrum sentum í vasann). Ríkisstyrktur stóriðnaður svo um munar.
Skilja menn þetta ekki? Skilja menn ekki, að frelsi, lýðræði og sjálfstæði verður hvorki ákomið né þau varin nema með miklu valdi, ógnunum og hugsjónaríkri kraftbeytingu? Hernaðarlegum yfirburðum. Hin ævagömlu, hefðbundnu sannindi. Höldum árþúsandagömlum hefðum. Það eru aðeins litlar sálir, sem vilja varpa vafa á þessar hugsjónir og frjálshyggjuna almennt, svokallað frjálslynt fólk, með samsæriskenningar, í raun auðvitað guðlausir kommúnistar, sem halda því t.d. fram, að BNA og Ísland hafi ráðist inní Írak af einhverjum hvötum öðrum en frelsisástinni, s.s. vegna olíunnar. Einhver Blix. Eða einhver Greenspan, sem var lengi grænn einsog dollarinn en nú greinilega orðinn vinstrigrænn, jafnvel grænfriðungur, en slíkir menn eru, einsog allir vita, bráð hætta amerískum hagsmunum.
Bush er semsagt okkar maður með gömul og góð gildi. Einsog gömlu nýlenduveldin. Bíða heimsins ekki válegir tímar, þegar hann hættir á næsta ári? Eða hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.