Bloggið: opnun sjálfsins?

Eftir að ég herti upp hugann og fór agnarpons að rýna aftur í bloggið eftur nokkurt hlé hef ég töluvert verið að bollaleggja um eðli þess og dýpstu rök.

Fyrri hluta ársins (þýðir: fyrir kosningar) svall manni sjálfum sem og mörgum öðrum mikill móður á tímum ofríkisstjórnarinnar, sem þá sat, svo að þörfin var mikil til að afhlaða. Skrifaði ég þá eitthvað um landsins gagn og nauðsynjar, og það af miklu viti einsog lög gera ráð fyrir.

Mörgum varð það mikill léttir, þegar ný ríkisstjórn komst á. Nýjar vonir vöknuðu um að ekki ætti lengur að vaða yfir þjóðina með rembu og offorsi heldur fara skár eftir reglum og alvöruhugarfari lýðræðis. Svo að það varð hálfvindlaust hjá mér. Um leið fór ég smám saman að gera mér ljóst, að blogg er í raun ekki f.o.f. vasasafn af e.k. blaðagreinum, heldur miklu heldur persónuleg dagbókarkorn og viðbrögð við dagsins skrafi og uppákomum, stundum palladómar og einkunnagjafir um atburði dagsins. Samskipti. Og oft býsna samviskusöm vöktun.

Þar ligg ég svolítið í því. Er ekki dagbókartýpa. Finnst hversdagur vesalings míns yfirleitt ekki svo merkilegur, að þaraf mætti segja einhverjar sögur í veröld óumræðilegs fjölbreytileika, upplýsinga og nýrrar þekkingar. En líklega er blogginu hvort sem er ekki ætlað að vera vettvangur alls þess. Allir eiga sinn hversdag. Upplifa ýmislegt og bregðast við með huga og hönd. En yfirleitt er það samkvæmt hlutarins eðli einmitt – hversdagslegt. Einhver hefur slegið garðblettinn, Dídí litla týndi skó í húsdýragarðinum, Birta eignaðist kettlinga, einhver fékk góða humarsúpu á Römblunni í Barcelona.

 Í starfi mínu sem heimilislæknir hef ég oft kynnst úrdráttum úr hversdagsleika fólks og þá yfirleitt þeim hluta, þar sem mest á reynir. Þar finnast alvörufrásagnarefni, sem kalla fram vitsmuni, fórnir, miklar tilfinningar og einatt hetjudáðir, sem ekki eru á torg bornar, en væru þó yfirleitt mun meira frásagnarefni en margt af því, sem allt morar af í margmiðlum samtímans.

Mig vantar greinilega sjálfhverfu til að taka mikið eftir mínum eigin hversdagsleika, hvað þá að segja frá honum ( slæ raunar verulegan varnagla við mottóum dagsins: “elskaðu sjálfan þig” og “lifðu í núinu”. Yfirborðslegt). Nokkrar tilraunir til dagbókarhalds hafa á ýmsum tímun runnið útí sandinn á örfáum dögum. Í upphafi hugðist ég skrá atburði ævi minnar í vasabók í skeytastíl. Uppskeran urðu nokkar athugasemdir um Kóreustríðið eða Antony Eden. Ég man ekki nema örfá ártöl í lífi mínu, sem allir aðrir atburðir taka óljóst mið af; stúdentspróf, embættispróf, upphaf starfsferils.

Mig rekur í rauninni alveg í rogastans, þegar vindur sér að mér þéttvaxinn hárlítill maður, sem er að hræra í berinu sínu í kokteilboði og fer að minnast þeirra góðu tíma, þegar við hittumst forðum á Shipholflugvelli árið þettaogþetta, báðir á leið á sinn áfangastað, og ég splæsti á hann bloddímarí sællar minningar. Bylmingshögg á bak. Sæll, gamli. Þá kemur minn litli vísir af leikara að nokkru haldi.

 Það hefur raunar einmitt verið verulegt átak fyrir mig að raupa svona mikið um sjálfan mig, einsog ég er einmitt að gera núna. Þessi sjálfhverfuskortur er áreiðanlega vondur skapgerðargalli. Að vísu hefur mikil sjálfhverfa ekki alltaf orðið til heilla. Má þar minnast Narzissusar og Adonis. En fyrr má nú rota en dauðrota í mínu tilfelli.

Mér var hugsað um allt þetta í búningsherbergi í NordicSpa (já, reyndar, átak kyrrsetumanns til sprikkls), þar sem fullkomlega vaxinn náungi var að hugsa til heimferðar. Tattúin í réttum hlutföllum á réttum stöðum, slöngufléttur. Hver einasti vöðvi kom vel og afmarkaður í ljós, án þess að vera ýktur, - einstakt tækifæri fyrir roskinn lækni, sem búinn er að gleyma anatómíunni. Ekki fitutætla. Hann var nýmættur við spegilinn sinn eftir sturtuna. Lítil skjóða á  spegilborðinu. Það sem sú skjóða gat innihaldið!

Fyrst aukahárnæring, sem var klöppuð í hárið, strokið og greitt.

Hársprei

Síðan rakfroða á kjálka. Rakað blíðlega, hakan teigð og fýld neðrivör.

Rakspíri

Rakbalsam

Svitakrem undir armkrika.

Andlitskrem.

Annað krem kringum augun.

Ilmvatn.

Tannkrem ásamt bursta.

Varasalvi.

Fótakrem.

Viðskilnaðurinn við spegilinn minnti á kveðjustund elskenda á járnbrautarpalli. Svo gekk hann útí lífið, ítarlega undirbúinn, sjálföryggið uppmálað (eða hvað?) og sæll einsog sá sem var að skrá og raða frímerkjasafninu sínu fyrir uppboð.

Ég sat eftir þrumulostinn. Slitgigtin hló við fót. Naflakviðslitið þandi sig. Hundraðogtíu prósent lúði. Kúkur í polli.

Ólafur, - nú verður þú að verða þér úti um ögn af sjálfhverfu. Fjandakornið.Fór því að hugsa um bloggið.Tjá sig. Taka þátt. Þótt það verði væntalega meira í stíl  sjálfskipaðs álitsgjafa,- það spyr mann jú enginn, fjandakornið, helduren skýrsla um dagsins hversdagsleika og einkunnagjafir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband