25.5.2007 | 23:00
Pyttir Moggans
Nú á Mogginn verulega bágt. Greinilega við djúpstæða tilfinningatogstreitu að stríða. Á hann að vera stjórnarsinni eða í stjórnarandstöðu? Það er svo erfitt að horfa uppá eftirlætisblóraböggulinn, Ingibjörgu Sólrúnu, vera farna að kyssa Geir. Komin í ráðastól. Það sem forðast skyldi.
Því er Mogginn, eftir að hann missti grímuna alfarið, líka búinn að glata uppstilltri yfirvegun og orðinn að hálfgerðum tuðara. Farinn að hafa áhyggjur af því, hvort Björgvin G. Sigurðsson hafi rétta menntun til að verða viðskiptamálaráðherra! Komdu með annan betri. Hingað til hefur einhver sérþekking, eða skortur þará, við veitingu ráðherraembætta ekki vafist fyrir Mogganum eða öðrum. Hvað með dýralækni sem fjármálaráðherra?
Þetta minnir á söguna um diplómataboðið í Sviss, þar sem íslenskum ráðamanni ku hafa svelgst á súpunni af hlátri við að heyra, að sessunautur hans var sjávarútvegsráðherra. Og sessunauturinn sagði: Hvað er svona fyndið við það? Eruð þið ekki með fjármálaráðherra? og fór að hlægja ekki minna.
Mogginn gat ekki heldur stillt sig um að nefna pyttina, sem Samfylkingin vær stödd í og fagnar því, að Geir lét ekki draga sig þangað oní.
Fyrstu viðbrögð mín við margumtöluðum stjórnarsáttmála voru jákvæð. Einhverskonar léttir. Það kveður við annan tón. Vilji til sátta og jafnvel samræðu( annar þyrnir í holdi Moggans). Samfylkingunni tókst að setja sinn svip á stjórnmálastefnuna og leggja áherslu á félagslega velferð og aukið jafnrétti á borði. Og tekst vonandi að standa við það.
En þegar betur er að gáð eru pyttir Moggans raunverulega þarna. Bara spurning hver er þar oní og hvern hefði þurft að draga uppúr. Mogginn nefnir einmitt suma þeirra. Íraksstríðið. Um það var aumlegur texti. Stjórninni þykir svo leiðinlegt, að þeir skuli vera að drepa hver annan þarna suðurfrá.
Hvað með Súdan? Er það þá ekki alveg eins leiðinlegt? Og kvótinn skal greinilega blífa, og þarmeð verður ekki blakað við lénsherrunum í LÍÚ úti í Florida, eða svefn þeirra og afkomenda þeirra truflaður. Það virðist ekki skaka við neinum, að afleiðingar kvótakerfisins og þenslustefnu í fjármálum koma svo greinilega saman í einum punkti á Flatyeri um þessar mundir.
Hvað með frekari einkavinavæðingu auðlindanna? Ekki er að sjá , að sporna eigi við ríkjandi stefnu að afhenda klúbbi vina-, flokks- og vandamanna verðmæti þjóðarinnar.
Landsvirkjun? Fallvötn og fljót.
Möguleg olíuverðmæti.
Fjarskiptarásir.
O.s.frv. Hvað um stjórnarskrárákvæði um sameiginlegt eignarhald allra landsmanna á auðlindunum? Hvað um þær virkjanir, sem þegar hafa verið á teikniborðum? Jafnvel er allt þetta mýrartal varðandi Þjórsárver uggvekjandi og bara,.........ja, köttur útí mýri, úti ævintýri. Þetta eru allt hin stóru pólitísku mál nútíðarinnar.
Sagt er, að við eigum ekki að hugsa um fortíðina heldur horfa til framtíðar. Framtíð, sem ekki tekur mið af nútíðinni,er einmitt köttur útí mýri..
Samfylkingin stendur að minni hyggju fyrir enn meiri vanda en Mogginn. Hún á að eiga tveggja kosta val. Annað hvort lætur hún sverfa til stáls útaf þessum meginmálum í stjórnarsamstarfinu, einsog hún var eflaust kosin til að gera af þorra stuðningsmanna, og tekst vonandi að sigla þar milli skers og báru. Ella kann hún að standa frammi fyrir þeim möguleika að slitni úr stjórnasamstarfinu og að jafnvel verði efnt til kosninga, þar sem þessi höfuðmál verði sett á oddinn.
Hinn kosturinn er að láta Sjálfstæðismenn fara sínu fram ofan í þessum pytti. Þá munu örlög Samfylkingarinnar verða þau sömu og Framsóknarflokksins. Og hann hafa notað tækifærið til að eflast á ný.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 23:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.