Geir er enginn Hamlet

Talandi um skilaboð. Þegar þau eru fengin eftir kosningarnar er töluvert hrapalegt að sjá, hvernig sumir setja kíkinn á blinda augað til að sjá þau ekki.

Helstu skilaboð kosninganna nú voru augljóslega, að Framsóknarflokknum var hafnað. Vilji fólksins. Þá láta þeir hálfblindu það sem vind um eyru þjóta. Mogginn kastaði grímunni og fannst ekkert eðlilegra en að frammarnir yrðu áfram í ríkisstjórn, nánast allir þingmenn þeirra með tölu. Þjóðin sé væntanlega svo vitlaus, að ekki þurfi endilega að fara eftir óþægilegum vilja hennar. Og frammararnir sjálfir öskuvondir yfir því að vera sviptir þeim völdum, sem þeir virðast telja sín um aldur og ævi. Skilaboðin frá þessum aðilum: Fökkjú lýðræði.

Nú hafa mál hinsvegar þróast þannig, að ég fékk eftir allt saman leikritið, sem ég var farinn að örvænta um í síðasta pistli. Og þá er þetta bara hið flóknasta mál. Var Geir Haarde að spinna þennan vef allan tímann? Var hans realpólitík með öðrum hætti en Moggans eða var hann líka með lýðræðisleg skilaboð í myndinni? Að vera eða vera ekki. 

Geir er þó greinilega meira afgerandi en Hamlet. Mogginn er hinsvegar enn duglegur að narta í Ingibjörgu Sólrúnu og strá efasemdum. Og í forsetann, að sjálfsögðu. Einsog Björn Bjarnason. Þessi þráhyggja hefur verið sálfræðilegt umhugsunarefni.  Mogginn ekki lítið svekktur yfir því, að það gerðist, sem hann og margir aðrir íhaldsmenn vildu forðast í lengstu lög, að IS fengi pólitískan framgang.

Og reiði frammaranna er líka afhjúpandi. Ég á erfitt með að trúa, að þeir hafi talið sig betur í stakk búna að endurnýja hugmyndafræði sína og koma henni á framfæri í ævarandi fangi íhaldsins með nánast alla sína þingmenn í ríkisstjórn, helduren  að móta hana og tjá frjálslega í ærlegri stjórnarandsöðu.

Það hangir væntanlega meira á spýtunni: kjötkatlar. Og aðferðarfræðin nú, sem veldur svo gremju þeirra, ætti ekki að koma svona á þá bera og bláa, ef minnst er plottsins eftir síðustu borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Maður getur nú bara sagt: þeim ferst. Nú eiga þeir ný tækifæri, sem þá vantar nauðsynlega. Nýja hugsun með nýjum mönnum á borð við Bjarna Harðarson. Lúsahreinsun. Takið aftur gleði ykkar, frammarar. Og mark á lýðræðinu.

Mogginn telur sjálfstæðismenn í töluverðri hættu við að binda trúss sitt við Samfylkinguna. Það er líklega rétt. En ég tel hana ekki taka minni áhættu. Báðir flokkarnir eru að taka djarfar ákvarðanir og standa frammifyrir vandasömu starfi í væntanlegri sambúð. Þegar Fylkingin hefur rænt frammarana miðjunni gætu vinstrisinnar innan hennar hneigst til að  halla sér að VG (aftur).

Svipað má segja um sjálfstæðismenn í hina áttina.  Það er athyglivert hvað allir virðast vera samtaka um að bregða engum kíki á Frjálslynda. Í því virðist sannarlega góður jarðvegur fyrir samsæriskenningar. Á þeim hafa dunið dylgjurnar um rasisma með lýðskrumsklisjum, sem allir hafa tekið þátt í, án þess að hafa fyrir því að skilgreina á nokkurn hátt í hverju þessi rasismi á að felast.

 Dæmigerð voru ummæli fyrrverandi heilbrigðismálaráðherra um að hún vissi ekki til að berklatilfellum á Íslandi hefði fjölgað þrátt fyrir aukningu innflytjenda. Eru það rök gegn markvissari heilbrigðiseftirliti eða með því að óhætt sé að láta allt danka, þótt vitað sé að veruleg berklavá sé fyrir hendi í Austur Evrópu? Er staðföst andstaða þeirra gegn kvótakerfinu eitthvað óþægileg og ekki lengur einnar messu virði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband