13.5.2007 | 23:19
Lesblinda á skilaboð?
Nú er töluvert talað um boðskap. Lýðræðið. Þjóðin hefur talað. Í síðasta pistli pældi ég soldið í því að ef stjórnin myndi lafa myndum við eiga von á alvöruþrungnu leikriti með lýðræðislegum blæ þangað til stjórnarflokkarnir féllust aftur í faðma eftir skamman aðskilnað.
Nú er ég ákaflega sleginn og vonsvikinn. Svo virðist sem eigi að svíkja mig, einlægan áhugamann um leiklist og góðar uppfærslur, um þessa sýningu. Geir var ekkert að tvínóna við það kosninganóttina að gefa í skyn að ekkert væri að því að halda áfram í stjórn með flokksbrotinu, sem eitt sinn hét Framsókn. Hann talaði einmitt líka um umboð. Þjóðin hefði gefið eitt slíkt, þegar hún jók fylgi flokks hans um þrjú prósent og einn þingmann fyrir hvert þeirra. Lýðræðið, sko. Gott og vel. Það er skylda að bregðast við slíkum skilaboðum. En svo virtist allt í einu allt annað vera uppi á tengunum, þegar huga átti að þeim lýðræðislegu skilaboðum, sem fólust í því að klippa Framsókn í sundur. Halda mætti, að hann liti á þann flokk einsog ánamaðk, sem lifir í báða enda þótt klipptur sé í sundur.Og sjálfir eru þeir farnir að éta ofan í sig allar yfirlýsingarnar um að fara ekki í stjórn með fylgi af því tagi, sem fram kom.
Strax á kosninganóttina var kominn þessi Ragnars Reykássblær á liðið. Enda ekki líklegt að það færi allt í einu nú að fá skrúbblur yfir að sitja að völdum án tilsvarandi lýðræðislegs fylgis.
Samt skal spurt: Hvar er nú boðskapur lýðræðis? Hvaða boðskapur er það til stjórnar, að veita henni ekki meirihluta körfylgis? Hvaða boðskapur er það, að á annan tug prósenta strokar út ráðherra? Geir sagði strax, að það hefði ekki nokkur áhrif á stöðu viðkomandi. Verða menn þá bara ráðherrar aftur? DÓMSMÁLARÁÐHERRAR?
Annað: Mörgum er umhugað um að gera árangur Fylkingarinnar sem minnstan og horfa þá framhjá árangri, sem náðist á síðustu 6 vikum, frá því hún var með 20% fylgi skv. skoðanakönnunum og jöfn VG. Eftir það féllu VG verulega, illu heilli, en eru samt taldir sigurvegarar kosninganna. Fylkingin fór í hina áttina og náði þó þessum árangri þrátt fyrir eineltið sem Ingibjörg Sólrún hafði mátt þola. En vert er þá að huga að Íhaldinu. Um svipað leyti voru þeir vel yfir 40%. Það fylgi kom strax og greinilega fram þegar Davíð Oddsson dró sig í hlé . Kosningaúrslitin nú með miklu minna fylgi eru þannig ekkert sérstaklega til að hrópa húrra fyrir hjá Geir.
En svona er þetta nú. Stjórnin lafir á nöglunum einum. Geir á leik. Hafi hann einhvern alvöruáhuga á því að hlera boðskap lýðræðis er honum ekki stætt á því að halda áfram með gömlu stjórnina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2008 kl. 22:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.