Eftirmálar kosninganna

Ekki er unnt að segja annað en að kosningarnar í dag, sem eru þær þýðingarmestu um langt árabil, séu spennandi. Lafir stjórnin eða ekki. Hvað er eiginlega "stjórnin" í dag. Frammararnir hafa gefið í skyn, að þeir muni ekki taka þátt í nýrri stjórn, ef þeir fá ekki nema 10nda hvert atkvæði.

Þetta er nú flokkurinn, sem hefur haft ómælanleg áhrif á íslenskt samfélag og valdakerfi langt umfram fylgi kjósenda og komið sér og sínum fyrir við kjötkatlana. Teygjudýrið, sem hefur verið dæmi um stóra vankanta flokkalýðræðisins okkar. Hvort sem stjórnin lafir eða ekki, er sjálfsagt að teknu tilliti til þessa lýðræðis, að Sjálfstæðisflokkurinn fái stjórnarmyndunarumboð skv. kosningaspám. Við eigum eftir að sjá langan tíma, sem tekinn verður við þessa iðju. Ef hann vill ná samstöðu við einhverja núverandi stjórnarandstöðuflokka er um mikið að semja og laga sig að.

Það sem vekur ugg minn mest er, hvaða alvara verði að baki þessara umræðna. Það lítur ekki illa út að fara að leika lýðræðisleikrit, sefjunarleikþætti í nokkrum þáttum fyrir þjóðina, en hyggjast ekki ná árangri til að geta síðan bent á frammaranna sem hina einu lausn. Og þeir láta þá svo lítið að verða við bón sjálfstæðismanna um að slást aftur í hópinn með sín 10% fyrir svona 4-6 ráðherraembætti. Þetta höfum við nú sannarlega séð með sjónarspilinu eftir borgarstjórnakosningarnar í fyrra, þegar sá borgarfulltrúi, sem rétt hosaðist inn í borgarstjórn á örfáum atkvæðum, var gerður einn valdamesti embættismaður borgarinnar og tók þegar til við að búa til vellaunuð embætti fyrir vini sína. Ekki voru þá áhyggjur af lýðræðislegu réttlæti og almennri hugsun að baki þess, hvorki hjá frammörum eða íhaldinu.

Er furða þótt manni sé um og ó. Vandinn verður litlu minni ef stjórnin fellur, þótt þeir hinir sömu geti þá ekki myndað meirihlutastjórn, ef svo skyldi kalla með einn mann yfir. Kaffibandalagið hefur þá vissulega fleiri þræði í hendi sér. En meirihluti þeirra yrði auðvitað jafnnaumur og því erfitt að halda saman slíku apparati, þegar skoðanamismunur dreifist á fleiri flokka. Sjallarnir verða töff. Þeir munu halda stíft við einkavinavæðingu og sölu ríkisfyrirtækja einsog Landsvirkjun, vantrú á opinberri almannaþjónustu (nema utanríkisþjónusunni), oftrú á frumstæðum stóriðjulausnum, malbiksvæðingu landsins ( þjóðveg yfir Kjöl?), einkaeignarréttum á gæðum landsins, sem við höfum hingað til talið sem sameiginlega auðlynd, lénsskipulagi kvótakerfis í sjávarútvegsmálum, verndun efnafólks gegn þátttöku í almannaheill osfrv. Við verðum að geta treyst kaffibandalagsflokkunum til að halda vissri samstöðu, jafnvel þótt aðeins einn eða tveir fari í stjórnina. Kringumstæður fyrir sáttfúsari og lýðræðislegri stjórnarháttum eru nú hagstæðari en fyrr.

Vöndum okkur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband