"Við höfum aldrei hafta það eins gott og núna"

Pistill þessi um höfuðmál kosninganna hefur beðið í nokkra daga hjá Mogganum en ekki ná birtingu. Ljóst er að hann breytir ekki heimsögunni úr þessu. Mig langaði bara til að þessar hugsanir lægju ekki í þagnargildi um alla framtíð  og læt þær því flakka nú á ellefuþrítugustu stundu:

Enn hefur í kosningabaráttunni tekist að leiða hug kjósenda frá því. sem mestu varðar  í næstu framtíð í þjóðmálum. Stjórnmálamenn, ekki síst stjórnarliðar, halda á lofti hefðbundunum málefnaflokkum, og því miður virðast blaðamenn ekki hafa hugmyndarflug til að fara út fyrir þann ramma. Og undir tekur almennt andvaraleysi mettrar þjóðar gangnvart þróun samfélagsins og  lýðræðislegum stjórnarháttum, gagnart þjóðfélagslegri samkennd  eða hvort heldur eigi að stefna að samkeppni eða samvinnu.  Það sem undanfarið hefur verið talið til “framfara”, er afturhvarf inní frumskóginn, þar sem óskert yfirráð falla þeim sterkasta í skaut, burt frá þeirri framþróun menningarinnar að draga úr þessari frumstæðu lífssýn og huga að samfélagi, sem byggist á réttlæti og samkennd. Sagt er: “Við höfum aldrei haft það eins gott og núna”. Kjósum bara íhaldið. Brauð og leikir. Íbúar flestra annarra vestrænna ríkja hafa líka “aldrei haft það eins gott og núna”.  Án þess að þurfa að vinna nema um 60% þeirra vinnustunda, sem við þurfum.  Efst á blaði reynast Norðurlönd með sitt rótgróna velferðarkerfi og áhrif jafnaðarstefnu. Þar kemur alþjóðavæðingin við sögu og ekki síst aðild okkar að EES. En alþjóðavæðingin felur í sér vissa tegund arðráns og nýrrar nýlendustefnu og myndar vaxandi ójöfnuð í heiminum. Tvö prósent mannkyns eiga yfir helming allra eigna heims. Hvað getur slíkt leitt af sér þegar til lengdar lætur? Hverjir fara að stjórna heiminum, stjórnmálamenn eða auðjöfrar? Mörgum finnst, að það séu þeir síðarnefndu, og óneitanlega virðist það eiga við hér á landi. Þeir ríku fá undanþágu frá almennum leikreglum samfélagsins, hvort sem er á heimaslóð, t.d. heilu bæjarskipulagi breytt skv. eigin þörfum, eða utanað, sjá álrisa, sem við erum að verða háð í vaxandi mæli. Það er yfirlýst stefna sjálfstæðismanna, að séreignarétturinn sé höfuðinntak stefnu þeirra. Sameign sé til óþurftar, þess sé betur gætt sem er í einkaeign. “Betur gætt” útfrá sjónarhóli hvers? Dæmi: Flutningafélög hafa reiknað út, að arðsemi af strandsiglingum sé minni en af vöruflutningum á landi. Það er hagur hluthafa að þeim sé hætt og flota tröllaukinna flutningabíla sé att útá veigalitla þjóðvegi og þeir eyðilagðir á skömmum tíma. Það krefst auðvitað endurbóta. Hverjir skyldu  svo borga nauðsynlegar endurbætur til að  hluthafarnir geti haldið arði sínum óskertum? Við, auðvitað. Hluthafavernd á kostnað þjóðarinnar.  Þessi trúarbrögð eignaréttarins, hvað sem á dynur, eru að færa þjóðfélag okkar aftur til lénsskipulags þar sem greifar fá hlunnindi úr höndum valdsmanna til að ráðskast með örlög undirdána að vild. Þegar völd eru þannig færð undir eignarétt gefur augaleið, að minna er hirt um lýðræði og jafnvel lög. Valdamenn veita embætti að eigin geðþótta, svipta fólki embættum, leggja niður stofnanir, sem eru ekki þeim að skapi. Yppta aðeins öxlum þótt ljóst sé, að þeir brjóti jafnvel lög með slíku. Þetta höfum við séð. Pupullinn fer gjarnan í taugarnar á þeim með tafsömu skvaldri um veigaminni málefni einsog það, að taka þátt í innrás í fjarlæg ríki. Opinber lýðræðisleg tjáning er barin niður í þessu réttarríki að ósk erlends þjóðhöfðingja (sjá Falun Gong). Það getur orðið fyrirtækjum býsna skeinuhætt að standa sig vel í markaðsleiknum, sem tekinn hefur verið upp hér, ef það skerðir hlut vinavæddra bakhjarlamanna stjórnvalda. Þrálátt stríð gegn öryrkjum og ellilífeyrisþegum hefur verið óskiljanlegt og sennilegast átt sálfræðilegar rætur langt frá allri þjóðfélagslegri pólitík, ekki síst þar sem það kostaði ríkissjóð beinlínis glataðarskatttekjur að viðhalda fátæktargildrunni.  Úrbætur um nokkra þúsundkalla til eða frá eru skammarleg skynhelgi af hálfu fólks, sem rétti upp hönd fyrir nokkru til að tryggja sér lífeyrisréttindi langt umfram okkur öll og enn fyrr til að hækka við sig laun svo um munaði. En mergurinn málsins er í mínum huga, að væntanlegar kosningar snúast ekki síst um innviði velferðasamfélags okkar og alvörulýðræði og hvort eigi frekar að meta, auðgildi eða manngildi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Afskaplega góður pistill hjá þér Ólafur. Get tekið undir allt sem þú segir.

Kristján H Theódórsson, 12.5.2007 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband