Eftirlaunahagfræði

Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt lög um, að Davíð Oddsson gæti komist á eftirlaun strax eða þegar vel hentaði og notið þeirra þótt hann jafnframt gerðist þokkalega launaður seðlabankastjóri.

Að vísu var það ekki orðað alveg svona, þótt þetta væri megininnihaldið. Það er öllum ljóst. Lögin voru látin ná til mun stærri hóps alþingismanna, ráðherra og annars fólks í embættum. Þetta er einmitt sönn pólitík: að lokka fram þægilegar niðurstöður með smábellibrögðum.

Þingheimur virtist allur sem einn telja það slæmt hlutskipti að þurfa að dúsa með ein eftirlaun uppúr miðjum aldri. Samþykkti einróma rétt einsog forðum daga, þegar þingmenn tóku sér með handauppréttingu launahækkun sem fóru hátt uppí mánaðarlaun ellilífeyrisþega hjá Tryggingastofnun. .

Er þetta sneggsta og átakaminnsta kjarabarátta, sem um getur. Nú er ég síst á móti því að umrætt fólk beri þokkalega úr býtum fyrir störf sín og finnst það ekki oflaunað. Mér finnst það hinsvegar aðfinnsluvert að búa til sér til handa afbrigði frá ríkjandi reglum og háttum í þjóðfélaginu, hreykja sér uppyfir okkur hin og huga ekki lengur að því að halda einn sið. Og umfram allt að standa svo í heilögu stríði gegn öðrum eftirlauna- og ellilífeyrisþegum, einsog ríkisstjórnin hefur gert, og finnast, að þeir geti bara étið það sem úti frís. Neita að láta þá halda sínum hlut með því að hækka ekki skattleysismörk, svo þeir verða að fara að greiða afgjöld til ríkisins af hlutfallslega óbreyttum launum.

Einn ákafasti talsmaður sjálfstæðisflokksins, sem virðist hugsa í tölum en ekki mannlegum örlögum, telur það m.a.s. bera vott um verulega bætt kjör hjá þeim, sem lægst hafa launin, að þeir skuli hafa fengið að greiða skatta. Í alvöru! (Sá sami fór einnig viðurkenningarorðum um efnahagsstjórn Pinocets, sem rændi og lét pína þúsundir landa sinna í Chile. Svona geta nú stjórnmála- og félagsleg gildi raðast upp hjá sumum).

Og enn þumbast Sjálfstæðisflokkurinn við að jafna skattleysismörkin. Sagt er að það kosti ríkissjóð svo mikið, að það sé ekki gjörlegt. En þýðir það þá ekki, að hinn sami sjóður okkar hefur dregið til sín stórauknar skattatekjur einmitt á því að láta skattleysismörkin ekki fylgja launaþróun í landinu og státar af góðri stöðu?  Þess er aðeins vænst, að þessu verði skilað.Ég hef oft hugsað um seiglu ríkisstjórnarinnar í stríði hennar við öryrkja og ellilífeyrisþega til varðveislu fátæktargildrunnar að því marki, að hún hafnaði mögulegri tekjuaukningu í ríkissjóð.

Þeim var gert ókleift að leggja til vinnu í samfélaginu þar sem þeir hefðu ekkert uppúr krafsinu vegna skerðingar trygginga sinna.. Í raun felur þessi stefna fyrst og fremst í sér, að eldri borgarar skuli búa við miklu lægri laun en aðrir  fyrir sömu vinnu. Því unnu þeir auðvitað ekki. Héldu sínum tryggingabótum. Ekki græddi ríkið á því. Það hefði hins vegar hreppt 36% vinnulauna þess í skatttekjur, ef það hefði fengið hvatningu til að vinna. Ekki getur það bara hafa verið aulaskapur að skilja ekki þessa augljósu staðreynd, fjandakornið. Nú er einmitt verið að benda á þetta sem einhverja stórmerkilega uppgötvun.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú af einstöku örlæti fallist á að leyfa öryrkjum að afla sér 25.000 kr. á mánuði án þess að skerða tryggingarbætur, en hirða síðan skatttekjurnar af sömu upphæð. Hvílík stórmennska! Hann sýnir enn meiri rausnarskap með því að heimila frekari atvinnuþátttöku fyrir eldri en sjötíu ára. Ekki fyrir þá, sem líklegastir eru heilsufarslega til að geta aukið lífsafkomu sína, þegar ellilífeyrir tekur við, strax eftir 67 ára aldur. Þeir verða bara að þreyja Þorrann og Góuna í nokkur ár, eða þangað til það verður þeim miklu erfiðara eftir 70 ára aldurinn.

Ég læt annað umfjöllunarefni, ofskattlagninguna á arð lífeyrissjóðstekna, liggja á milli hluta í bili.Ég leyfi mér að halda því fram, að obbinn af þeim hálaunuðu talnatrúarmönnum og  -konum, sem barist hafa um hæl og hnakka gegn kjaraleiðréttingu aldraðra og öryrkja,myndi aldrei geta dregið fram lífið af þeim tekjum, sem það telur nógu góðar fyrir þá. Umtal um bætur um nokkra þúsundkalla til eða frá er lítilmótlegt og yfirlætisfullt . Sérstaklega þegar til sömu tíðar er státað af sérstakri góssentíð fyrir ríki og þjóð og réttar upp hendur á Alþingi fyrir eigin kjarabótum um hundruðþúsunda.

Margt fólk virðist hreinlega ekki skilja um hvað málið snýst, þegar verið er að tala um félagslega velferð.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband