27.4.2007 | 00:07
Ráðhús við Lækjartorg
Mikið var fórnað höndum þegar bruninn við Lækjartorg átti sér stað. Gríðarmerkileg gömul hús fyrir bí. Þá datt mér í hug, að heldur væri seint í rassinn gripið, ef núna ætti allt í einu að tjá þessum gömlu húsum virðingu og fella tár eftir að þau hafa fengið að drabbast niður í sorgleg hrófatildur undanfarna áratugi. Í þessu "hjarta borgarinnar". Þetta var einhvern veginn heldur aumkunarvert. Þá datt mér í hug, hvort ekki megi standa við þessa virðingu með því að reisa þarna almennilegt ráðhús fyrir Reykjavík. Vissulega hef ég pata af því, að til er ráðhús. Því var skáskotið í tjarnarhorn, stærðar braggalaga hús með súlum, og voru þá ekki miklar áhyggjur af því, að leiðinlegt væri að "skemma gömlu borgarmyndina". Alvöru ráðhús eru venjulega í hjarta viðkomandi borgar. Það er leit að ráðhúsum í Evrópu, sem ekki standa með reisn við vítt torg með iðandi mannlífi. Ráðhústorg. Glæsihús sem eru hluti af bæjarlífinu. Lækjartorg ásamt með fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum þar, tónleika- og ráðstefnuhöll, getur nú orðið slíkur vettvangur. Með stæl. Lækjargata 2 mætti jafnvel vera með. Með því mætti bæta fyrir þau skelfilegu mistök að bora ráðhúsi í afskekkt tjarnarhorn, þar sem það stendur í gömlu byggðinni einsog hvalreki í fjarðarbotni, dautt og yfirgefið. Hér er komið nýtt tækifæri, ný "ögrun". Maður verður bara að vona að kaupandi fáist að því gamla. Banki, tryggingarfélag. Mér bara datt þetta svona í hug.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.