Göng og aftur göng

Var erlendis nokkra hríð. Þegar heim var komið ók ég á eigin kagga heimáleið. Þá var komin splunkuný akrein í bæinn. Ég fór í röðina hægra megin. Allt í rólegheitum einsog vera ber. Á 90. Allir. Hin brautin auð einsog gefur að skilja. Nema einn og einn bíll sem geystist framúr með stæl. Þá fór ég að velta því fyrir mér til hvers hin akreinin  væri eiginlega. Valkostirnir eru að aka einsog lög leyfa og komast eins fljótt heim eða að gefa í og brjóta umferðarlög. Mér fannst þetta að óbreyttum umferðarlögum hálfhjákátlegt. Sá aðeins þann eina ávinning af þessari tvöföldun, ef vera kynni einhver slysavernd með henni. En þá má velta því fyrir sér hvort ekki séu til aðrar leiðir en þær að tæta upp land og teppaleggja það. 2+1 aðferðin í stað 2x2. Öryggissjónarmið vega auðvitað þungt. Gott og vel. Þá fór ég að hugsa um Hvalfjarðargöng. Ég get ekki með nokkru móti séð þá brýnu nauðsyn á að grafa önnur slík göng einsog rætt hefur verið. Ekki komast menn fljótar gegnum þau en á hinum leyfðu 70. Menn aka yfirleitt á hámarkshraða, kurteislega sagt. Og gengur bara ágætlega. ..nú allir í röð, tralala. Mér finnst þetta bara vera glórulaus athafnasemi skv. þeirri þráhyggju sem nú ríkir um að byggja, grafa, bora, hvað sem það kostar og hefja um það samsöng án þess að útskýra hversvegna. Ef einhver vill forgangsraða er hann á móti framförum einsog þeir sem vilja ekki vera methafar í verðbólgu. Og umfram allt að lofa og lofa með jólasveinaskeggið  á andlitinu, sbr. síðustu færslu mína. Mér finnst enn aðalverkefni vegamála að tengja saman staði sem víðast og þá gjarnan með göngum, og  ekki síður að bæta öryggið þeirra vega, sem fyrir eru, td. að lappa uppá allar einbreiðu brýrnar, blindhæðirnar og skafrenningsgildrur.  Ekki að tvítengja strendur Hvalfjarðar í vinsældakeppni. Nú virðist þurfa stjórnmálalegan kjark til að sporna við óhófi af þessu tagi og við þeim klisjum, að aðgát í framkvæmdasemi sé púkaleg.  Við þurfum ekki tvöföld göng til að halda verðbólguverðlaununum. Þetta er svona til almennrar umhugsunar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband